Einar Örn: „Ég sakna ekki geisladisksins“

Einar Örn Benediktsson tónlistarmaður, sem fenginn var upp á svið úr áhorfendasal um miðjan fund, sagðist hinsvegar vera mjög hrifinn af síðum á borð við Spotify og nýjum tækifærum sem netvæðing tónlistar bjóði upp á.

„Ég sakna ekki geisladisksins,“ sagði Einar Örn. „Ég elska Spotify. Ég er með það í rassvasanum og ég get spilað fyrir ykkur Ghostdigital hvenær sem er. Ég fæ kannski bara 0,006 sent fyrir en fjandakornið, ég fæ það. Og ég fæ það oft,“ sagði fyrrverandi Sykurmolinn og uppskar hlátur viðstaddra.

Þá taldi Einar upp nokkra þá möguleika netsins sem tónlistarmenn geta nú nýtt sér til að afla tekna á annan hátt.

via Vísir – Rætt um fjármál í íslenskri tónlist: „Ég sakna ekki geisladisksins“.

Lautarferð á Golgota hæð | REYKVÉLIN

Fyrir nokkrum mánuðum síðan neyddust skipuleggjendur leiklistarhátíðarinnar Malta Festival til að aflýsa sýningu á Golgota Picnic. Verkið er eftir argentínska leikskáldið Rodrigo García og byggir á ævi Jesú Krists. Ástæðan var hörð gagnrýni kaþólsku kirkjunnar, ofbeldishótanir öfgahópa og sinnuleysi lögreglunnar. Hefði um íslamska þjóð og öfgahópa verið að ræða hefði málið vafalaust ratað í fréttir hérlendis, þó ekki væri nema sem lítil grein inn á visi.is eða í eitthvað af nafnlausu ritstjórnarbloggum Davíðs Oddssonar á Mogganum, en þar sem um kristið öfgafólk var að ræða vakti það lítinn áhuga hérlendis og alþjóðlega.

Snæbjörn Brynjarsson skrifar via Lautarferð á Golgota hæð | REYKVÉLIN.

Hagræn áhrif ritlistar 8. nóvember

Dr. Ágúst Einarsson flytur erindi um niðurstöður rannsókna sinna á íslenskum bókamarkaði sem birtar eru í nýútkominni bók hans, Hagræn áhrif ritlistar. Í skrifum sínum leggur Ágúst fram 10 stefnumarkandi aðgerðir til að efla ritlist hérlendis. Þar nefnir hann meðal annars tillögu sína um niðurfellingu virðisaukaskatts á bækur, tímarit og blöð frá ársbyrjun 2016. Einnig aukin framlög til Bókasafnssjóðs og bókasafna, langtímaáætlun um eflingu lesskilnings og hvernig efla megi námsbókaútgáfu á íslensku.

via Hagræn áhrif ritlistar.

Feður og sonur : TMM

Þetta er alveg þvottekta farsi sem gerist í rauntíma, það sjáum við á veggklukkunni, og keyrir áfram lygaflækjurnar sem Jón Borgar spinnur upp eins og besti spennusagnahöfundur. Hraðinn varð ótrúlegur, bæði í máli og hreyfingum (út og inn um fernar dyr og tvo glugga!) og þar reynir auðvitað fyrst og fremst á leikarana. Og þeir voru hver öðrum betri.

via Feður og sonur : TMM.

Kristín Svava: Einar Ben og litlu málleysingjarnir

Semsagt: íslenskir unglingar eru í rauninni móðurmálslausir, en babbla eitthvað sín á milli á samskiptamiðlunum. Til þess að snúa við þeirri ógæfulegu þróun er best að láta unglingana lesa EINAR BEN. Í viðtalinu kom raunar einnig fram að með þessu verði unglingarnir ekki einungis kynntir fyrir alvöru íslensku heldur verði einnig stuðlað að varðveislu menningararfsins – Einar er greinilega til margra hluta nytsamlegur.

Ekki veit ég hver mun þjást mest í þessu samhengi, unglingarnir, Einar eða ljóðlistin.

via Druslubækur og doðrantar: Einar Ben og litlu málleysingjarnir.

Rýni: Fyrirlestur í uppnámi!

Ray Cooney (1932-) er breskur gamanleikjahöfundur. Hann var leikari sjálfur áður en hann hóf feril sinn sem leikritahöfundur árið 1946 og þykir hafa mjög gott auga fyrir hinu sjónræna og sviðsvinnunni. Hann hefur með réttu verið gagnrýndur fyrir að vera karlrembusvín, gamaldags, léttdónalegur, léttvægur en hann nýtur samt viðurkenningar fyrir að hafa auga fyrir fjölda hliðarsagna og hröðum skiptingum sem er aðalsmerki gamanleikjahöfunda.

via Rýni: Fyrirlestur í uppnámi!.

Ekkert uppgjör við stríðið, segir Murakami – DV

„Eftir stríðið var komist að þeirri niðurstöðu að enginn hefði gert neitt rangt,” segir japanski rithöfundurinn Haruki Murakami í viðtali við dagblaðið Mainichi Shimbun þar sem hann gagnrýnir Japani fyrir að víkjast undan ábyrgð á stríðsglæpum seinni heimsstyrjaldar. „Enginn hefur axlað ábyrgð á stríðinu sem lauk árið 1945 eða slysinu í Fúkúsjíma árið 2011.”

via Ekkert uppgjör við stríðið, segir Murakami – DV.

Opinberun unglingsstúlku

Hvað verður um ofurvenjulega íslenska fjölskyldu í smábæ þegar þrettán ára unglingsdóttir ekki einungis frelsast til trúar á Jesú Krist heldur segir blákalt frá því að hún hafi séð hann í eigin persónu og gengið með honum um erlenda borg dagspart á meðan fjölskyldan taldi hana týnda og leitaði hennar í ofboði? Þetta er spurningin sem blasir við í upphafi Englaryks, nýrrar skáldsögu Guðrúnar Evu Mínervudóttur. Þeirri spurningu verður ekki svarað á einfaldan hátt eða í einni svipan og málið vandast enn þegar barnið fer að útdeila gæsku sinni í þorpinu, meðal annars til fyllibyttu bæjarins og álappalegs unglingspilts sem henni virðist kynsveltur og útundan.

via Vísir – Opinberun unglingsstúlku.

Óuppfyllt fyrirheit: Um Englaryk eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur

Í Englaryki fjallar Guðrún Eva um fjölskyldusamskipti og það að stíga yfir þröskuldinn sem aðskilur bernsku og fullorðinsár. Fimm manna fjölskylda fer í meðferð hjá geðlækni en það er ekki týpískt vandamál sem er að hrjá þau.Unglingsdóttirin Alma fékk vitrun frá Kristi í sumarfríi fjölskyldunnar á Spáni og er orðin heittrúuð í framhaldinu. Eftir vitrunina […]

Ragnar Kjartansson: Skál fyrir myndlistinni

Ég hef einu sinni grátið fyrir framan listaverk. Það var „Merda d’artista“ eftir Piero Manzoni. Þetta eru litlar niðursuðudósir með mannaskít listamannsins frá 1961. Þegar ég sá verkið var dósin að verða 50 ára gömul. Listamaðurinn löngu dáinn. Eftir stóð þessi bjarti, prakkaralegi og magnaði hlutur. Það er ómögulegt að útskýra fyrir einhverjum ruddum af hverju ég grét, en ég gerði það.

via Vísir – Skál fyrir myndlistinni.

VÍB-fundur um gróða og tónlist

VÍB og Harmageddon á X977 halda fund um fjármál í íslenskri tónlist.

Rætt verðum um þá fjárfestingu sem felst í að koma íslensku tónlistarfólki á framfæri erlendis og hver greiði fyrir slíkt. Einnig verður farið yfir tekjur í tónlistarheiminum í dag og þá breytingu sem orðið hefur á undanförnum árum. Hvaðan koma tekjurnar og hverjir fá þær?

via Fundur | VÍB – Eignastýringarþjónusta Íslandsbanka.

Alan Badiou um ljóðlist og kommúnisma

Þeim skulum við færa ljóðið sem á ekkert. Þeim sem er mállaus, þeim sem stamar, hinum ókunnuga skulum við færa ljóðið, en ekki kjaftatítunni, málfræðingnum eða þjóðernissinnanum. Öreiganum – sem samkvæmt skilgreiningu Marx er sá sem hefur ekkert að selja nema vinnuafl sitt – verðum við að færa alla jörðina, og jafnframt allar bækurnar, alla tónlistina, öll málverkin og öll vísindin. Og það sem meira er, þeim, öllum tilbrigðum öreiga, verðum við að bjóða ljóð kommúnismans.

Úr væntanlegri bók Alans Badiou – um kommúnisma og ljóðlist (á ensku) via Poetry and Communism – Lana Turner Journal.

Væmni, klisjur og taktföst stýring | REYKVÉLIN

Dansverkið Meadows segir sköpunar- og lífsferilssögu sem mér finnst ég hafa oft séð áður. Það hefst með veru sem rís óburðugum fótum upp af jörðinni og stígur sín fyrstu, klaufalegu skref og svo framvegis allt þar til yfir lýkur og verurnar skríða að leiðarlokum. Ég gat ekki að því gert að hugsa til Fantasíu Disneys með sínum dansandi blómálfum og deyjandi risaeðlum, en Meadows virtist stundum eins og mislukkað bergmál af því liðlega 70 ára gamla meistaraverki. Það ríkti í verki Gerkes einhver andi úrkynjunar sem í bland við klisjukennd efnistökin varð hreinlega of yfirþyrmandi. Þrátt fyrir að eiga sterk augnablik, til dæmis áhrifaríka senu sem gerist á vatnsbotni, heillaði Meadows mig á heildina litið ekki.

via Væmni, klisjur og taktföst stýring | REYKVÉLIN.

Myndlistarsjóður skorinn niður um 67% | RÚV

Myndlistarmenn fjölmenntu í Iðnó í dag til að mótmæla skertu framlagi til Myndlistarsjóðs. Þeir afhentu Vigdísi Hauksdóttur, formanni fjárlaganefndar lista með yfir 1000 undirskriftum þar sem skorað er á alþingismenn að standa vörð um sjóðinn.

Samband íslenskra myndlistarmanna stóð fyrir opnu húsi í Iðnó í dag í tilefni af Degi myndlistar sem er á morgun en líka til að mótmæla niðurskurði til Myndlistarsjóðs.

via Myndlistarsjóður skorinn niður um 67% | RÚV.

Jón Yngvi Jóhannsson um Kötu

Í Konum er lýst skefjalausu, skipulögðu ofbeldi sem ung kona verður fyrir í nafni listarinnar og í boði íslenskra og erlendra auðjöfra. Þótt ótrúlegt megi virðast tókst sumum lesendum að túlka þá bók sem vegsömun eða samþykki þess viðbjóðslega ofbeldis sem þar var lýst. Það er engu líkara en Kata sé viðbragð við slíkum lestri, þar er engin fjöður dregin yfir boðskap sögunnar, hún er stríðsyfirlýsing, eða í það minnsta yfirlýsing um það að við séum stödd í miðju stríði; stríði gegn konum þar sem fórnarlömbin hrannast upp á hverjum degi, þeim er nauðgað, þær svívirtar og drepnar, án þess að samfélagið bregðist við í samræmi við umfang og alvarleika ofbeldisins.

via Vísir – Tilgangur og meðal?.

„Ég hafði slitið öll tengsl við sjálfan mig“

„Ég hafði alltaf mikinn áhuga á reggítónlist þar sem ég tengdi alltaf við stemninguna. Ég man eftir því að þegar ég var á leið í leikskólann með mömmu spilaði hún kasettur með UB40 eða Black Uhuru á leiðinni. Ég söng alltaf með. Á unglingsárunum fór ég að fara svolítið inn í pönkið og út frá því fór ég að skilja betur tenginguna á milli reggí og pönksenunnar í Bretlandi. Þá fór ég aðeins að leika mér við að búa til hrátt reggí.“

via „Ég hafði slitið öll tengsl við sjálfan mig“ – DV.

Æskuteit og hjartaheit, hökufeit og undir bláhimni

Um Vitstola konur í gylltum kerrum eftir Arngrím Vídalín

Þetta smágerða kver Arngríms Vídalín, er freistandi að afgreiða sem bókmenntabrandara, ef „afgreiða“ er rétta orðið. Sem það er ekki, því bæði er aldrei komið nóg af bröndurum og svo er þetta ágætis brandari. Byrjum aftur. Það er freistandi að njóta hins smágerða kvers Arngríms Vídalín, Vitstola konur í gylltum kerrum, sem bókmenntabrandara. Og fyllsta […]

Skiptar skoðanir um Dag ljóðsins | RÚV

Hugmynd ráðherra leggst ekki vel í alla. Fjörlegar umræður fara fram á Facebook síðu Kristjáns B. Jónassonar bókaútgefanda. Kristján segist telja undarlegt að gera fæðingardag skálds sem enginn lesi og skipti nánast engu máli í þróun íslenskra bókmennta að degi ljóðlistar. Enginn eftirspurn sé eftir kvæðum hans.

Rithöfundurinn Andri Snær Magnason svarar og segir að það væri hefnd fyrir Dag íslenskrar náttúru og „canónízeringu“ Ómars Ragnarssonar. Skáldið Þórarinn Eldjárn segir á sama vettvangi að Dagur íslenskrar tungu 16. nóvember hafi bjargað miklu. Hann vonist til að 31. október bætist við.

via Skiptar skoðanir um Dag ljóðsins | RÚV.

Snarl 4 – Skært lúðar hljóma

Erðanúmúsik, rassvasaútgáfufyrirtæki Dr. Gunna, gefur nú um helgina út safndiskinn SNARL 4 – SKÆRT LÚÐAR HLJÓMA. Síðasta SNARL – SNARL 3 – kom út árið 1991. Á SNARL 4 eru 25 lög með þeim hljómlistarmönnum og hjómsveitum sem hæst/lægst standa á Íslandi í dag. Þetta eru neðanjarðarlistamenn sem fá takmarkaða spilun í útvarp og eru […]

Ragnar Bragason: Sjónvarp í almannaþágu

Íslensk þjóð gladdist í vor þegar nýr útvarpsstjóri var ráðinn, maður sem hafði unnið kraftaverk í leikhúsum landsins. Tilfinningin var að nú ætluðu stjórnvöld að styrkja og efla menningarhlutverk RÚV, það yrði blásið í lúðra og fánar reistir. En í dag mæla misvitrir enn og aftur fyrir frekari niðurskurði og harmonera þannig við stefnu sem framfylgt er í löndum sem okkur langar ekki að bera okkur saman við.

via Vísir – Sjónvarp í almannaþágu.

Fjölmennum á stefnumót við alþingismenn í Iðnó

Þér er boðið á stefnumót við þingmenn í Iðnó, Vonarstræti 3, föstudaginn 31. október kl. 16–17, til þess að ræða framtíð Myndlistarsjóðs og myndlistarinnar í landinu.

Dagur Myndlistar verður formlega settur og 2. tbl STARA kemur út.

Fjölmennum á fundinn og vinnum saman að efla Myndlistarsjóð.

Fundarstjóri verður Markús Þór Andrésson, sýningarstjóri.

Dagskrá fundarins: via Fjölmennum á stefnumót við alþingismenn í Iðnó.

Benedikt Erlingsson móðgaði Illuga á verðlaunaafhendingu | Kjarninn

Í ræðu sinni sagði Benedikt: „Kæru norrænu félagar, hér í salnum sitja íslenskir stjórnmálamenn sem skáru niður fjárframlög til kvikmyndagerðar um 42 prósent á þessu ári, en í kjölfar efnahagshrunsins skáru þeir fjárframlögin niður um þrjátíu prósent. Þannig að við erum stödd í miðri katastrófu. Þannig að við myndum meta það mikils ef þið gætuð hjálpað okkur í eftirpartýinu með því að nálgast þá kurteisislega og fræða þá um kvikmyndir og menningu, tala við þá um Íslendingasögurnar og segja þeim að við sem erum að búa til sögur, séum líka að búa til Íslendingasögur, norskar sögur og danskar sögur, þó þær séu ekki skrifaðar á skinn.

via Benedikt Erlingsson móðgaði Illuga á verðlaunaafhendingu | Kjarninn.

með öðrum orðum: Kjell Westö hlýtur Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs

Finnlandssænski rithöfundurinn Kjell Westö hlaut í kvöld Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir skáldsöguna Hagring 38 (ísl. Hilling 38). Sagan gerist í Helsinki árið 1938 og fjallar um eftirköst finnsku borgarastyrjaldarinnar, sem átti sér stað tveimur áratugum fyrr. Hægt er að hlusta á ítarlega umfjöllun Jórunnar Sigurðardóttur um bókina á vef Ríkisútvarpsins.

via með öðrum orðum: Kjell Westö hlýtur Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs.

Áfengislegin ástarsaga og helvítis fokking fokk

Um Stundarfró eftir Orra Harðarson

Eigi þarf almenn söguvitund að vera rík til að vita að íslenskt samfélag tekur stakkaskiptum á 20. öld. Máski má ganga svo langt að segja: „Það veit hver hálfvita mannskepna, eða ætti að vita.“ Eins ætti lýðnum ljóst að vera að margur sá er státar af íslensku vegabréfi glímir, eða hefir glímt, við áfengissýki. Hefir og Bakkus drukkið mýmargan mörlandann undir borðið eða þá í kistuna. Oft og tíðum fyrir aldur fram.

Forlagið vill hljóðbók af netinu – DV

„Við höfum ekki tekið ákvörðun um hver verða okkar næstu skref í þessu. Það verður að koma í ljós,“ segir Egill Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Forlagsins, spurður um það hvernig útgáfan muni bregðast við upplestri Kristjáns Hrannars Pálssonar tónlistarmanns á Veröld sem var eftir Stefan Zweig, í heild sinni á íslensku á Youtube. „Þeir saka mig um þjófnað sem mér finnst mjög skemmtilegt,“ segir Kristján Hrannar í samtali við DV.

via Forlagið vill hljóðbók af netinu – DV.

Höfundakvöld í Gunnarshúsi – Pétur og Orri

Húsráð Gunnarshúss mun standa fyrir vikulegum Höfundakvöldum í Gunnarshúsi fram að jólum. Á hverju fimmtudagskvöldi mæta tveir höfundar og spjalla um bækur sínar, lesa aðeins úr þeim, og síðan gefst áhorfendum kostur á að spyrja líka. Meiningin er að lyfta jólabókavertíðinni aðeins upp úr fari hinna hefðbundnu upplestrarkvölda, og gefa hverri bók og hverjum höfundi meiri tíma.

Á fimmtudaginn 30. október mæta þeir Pétur Gunnarsson og Orri Harðarson og svara spurningum Hallgríms Helgasonar um bækur sínar, Veraldarsaga mín (PG) og Stundarfró (OH). Allir velkomnir á meðan stólar leyfa, aðgangur 500 kr.

via Höfundakvöld í Gunnarshúsi – Pétur og Orri.

Þjóðleikhús fyrir alla…nema fatlaða | Kjarninn

Stjórnvöld og forsvarsmenn Þjóðleikhússins eru auðvitað ábyrg fyrir því að aðgengi að húsinu sé viðunandi.  Í sjálfu sér hefðu þau dæmi, sem ég hef nú rakið, átt að nægja til að eitthvað yrði gert í málunum, en það hefur orðið bið á því. Spurningin er hvort það þurfi virkilega að verða alvarlegt slys til að eitthvað verði gert.  Því að óbreyttu þá eru lyftur hússins dauðagildrur.  Það hefur enginn heilsu til að sitja fastur í lyftu utandyra í klukkustund og kafaldsbyl, hvorki fatlaður né ófatlaður. Ég hvet forsvarsmenn Þjóðleikhússins og Fasteigna ríkissjóðs til að bregðast tafarlaust við ákalli um úrbætur svo Þjóðleikhúsið geti staðið undir því að vera leikhús þjóðarinnar.

via Þjóðleikhús fyrir alla…nema fatlaða | Kjarninn.

Framlag ritlistar 27 milljarðar á ári | RÚV

Í bókinni eru nokkrar tillögur um hvernig stjórnvöld geti eflt ritlist á Íslandi. Ágúst leggur til dæmis til að farin verði sama leið og í kvikmyndaframleiðslu, það er að að hluti kostnaðar við bókaútgáfu verði endurgreiddur. Í fyrstu yrði endurgreiðslan bundin við kennslubækur sem þarfnist sárlega uppfærslu. Þá leggur hann til að virðisaukaskattur á bækur verði lagður niður frá og með 2016, að framlög í bókasafnssjóði verði aukin og að lög um hugverkarétt verði uppfærð í takt við tímann.

via Framlag ritlistar 27 milljarðar á ári | RÚV.

Skáldskapur vikunnar: Hver er það sem elskar Saraudon?

Á twitter getur þú fundið ýmsa einstaklinga tjá sig um hin ýmsu málefni á opinberum vettvangi.  Þar eru rithöfundar að röfla um þjóðfélagsmál, Gísli Marteinn að tala um borgarmál, unglingar að tala um sín vandamál, ljóðskáld að birta af sér fyllerísmyndir á instagram, fótboltaáhugamenn að tala um messi eða eitthvað og fleira…  ég er ekki að followa helminginn af þessu fólki en í þessu mannhafi þá er einn japanskur maður sem sker sig úr fjöldanum.

Reykhólahreppur / – Fréttir / Viltu koma listiðkun þinni á framfæri?

Meðal félagsmanna í Félagi vestfirskra listamanna er fólk í Reykhólahreppi en fleiri liðsmenn eru vel þegnir. Félagið gefur út ársrit með heitinu List á Vestfjörðum og núna hefur ritstjórinn sent frá sér pistilkorn varðandi næsta hefti, sem hér er birt. Sérstök athygli skal vakin á eftirfarandi klausu: Umfjöllun í List á Vestfjörðum er góð leið til að kynna sjálfan sig og verkin sín, blaðið er með góða dreifingu og lifir lengi. Við höfum alltaf lagt áherslu á að allt svæðið fái að njóta sín og leggjum kapp á að svo verði áfram. Til þess að fá umfjöllun í blaðið þarft þú að vera í Félagi vestfirskra listamanna.

via Reykhólahreppur / – Fréttir / Viltu koma listiðkun þinni á framfæri?.

Málþing um Einar Benediktsson í tilefni af 150 afmæli skáldsins | Háskóli Íslands

Háskóli Íslands efnir til málþings um Einar Benediktsson laugardaginn 1. nóvember í tilefni af 150 afmæli skáldsins þann 31. október næstkomandi. Þingið verður haldið í Hátíðarsal Háskóla Íslands kl. 13 til 16. Kvennakór Háskóla Íslands flytur tvö lög við ljóð Einars Benediktssonar.

Málþingsstjóri verður Inga B. Árnadóttir, prófessor á Heilbrigðisvísindasviði, en fyrirlesarar koma af fjórum fræðasviðum:

via Málþing um Einar Benediktsson í tilefni af 150 afmæli skáldsins | Háskóli Íslands.

Hvernig lifir maður tjónið? | RÚV

Trúarbrögð eru þar kostur og kemur þá að síðari vangaveltunni sem nefnd var í upphafi. Hvernig skyldi það vera að sofa hjá guði? Sjálfur sá ég alltaf heilagan anda fyrir mér sem heldur óáþreifanlega persónu, ekki beinlínis fola ástarlífsins heldur meira eins og sönnun í stærðfræði, formúlu sem einhvern veginn kveður á um að þegar parabóla í öðru veldi mætir ófyrirséðu hnitakerfi þar sem sem talnaþrenndir, skurðpunktar, láréttir fletir, hornréttur og tvinntölur leiða ávallt að tveimur kostum eða útkomum: annað hvort teiknast í hnitakerfinu þekkjanlegt andlit Elvis Presleys, eða pin númerið er afhjúpað sem opnar genitískt aðgengi að framleiðslu messíasarbarns.

Björn Þór Vilhjálmsson um Segulskekkju Soffíu Bjarnadóttur via Hvernig lifir maður tjónið? | RÚV.

Arngrímur Vídalín um Karítas

Andlegt ofbeldi er ríkjandi þáttur í samskiptum þeirra systra og alltaf er Karitas undirokuð, niðurlægð og höfð að engu. Raunar er persóna Bjarghildar svo einvíð í illmennsku sinni að það jaðrar við fáránleika. Hún er hreint út sagt ekki sérlega trúverðug persóna, þótt Vigdís Hrefna Pálsdóttir túlki hana eins ágætlega og efni standa til. Ofbeldið sem Karitas er beitt og þau sálrænu áhrif sem það hefur á hana er óhugnanlegt á að horfa.

via Óreiða á sviði – DV.

Ljóðræn sýn inn í hugarheim araba – DV

Um fimmtíu skáld frá arabaheiminum eiga ljóð í bókinni, um þriðjungur konur. Flest koma skáldin frá fyrrverandi nýlendum Frakka í Norður-Afríku: Marokkó, Alsír og Túnis. En nokkur skáldanna koma frá Líbíu, Egyptalandi, Írak, Sýrlandi og Líbanon.

Það er ljóst að innsýn í fjölbreyttan hugarheim arabískra skálda getur haft áhrif á hina einvíðu mynd sem Íslendingum birtist oft af þessum heimshluta. „Eins og við verðum vör við í fréttunum á hverjum degi þá er víða skelfilegt ástand í þessum heimshluta, þar sem menn drepa hverjir aðra undir yfirskini trúar. Það eru hins vegar ekki nein merki um svoleiðis ofstopa í bókinni.“

via Ljóðræn sýn inn í hugarheim araba – DV.

Útgáfufagnaður – Hálfsnert stúlka – Bjarni Bjarnason

Hálfsnert stúlka er ný skáldsaga eftir rithöfundinn Bjarna Bjarnason og er gefin út af Veröld. Í tilefni af útgáfu hennar verður létt og skemmtileg samkoma í Eymundsson í Austurstræti,efri hæð, þriðjudaginn 28.október kl. 17.00.

Bjarni mun segja stuttlega frá tilurð bókarinnar og vinkona okkar hún Ingibjörg Þórisdóttir, leikkona og kennslustjóri Listaháskóla Íslands, les valda kafla.

Léttar veitingar í boði.

via Útgáfufagnaður – Hálfsnert stúlka – Bjarni Bjarnason.

Yfirgengilega gáfulegt um Kötu | DR. GUNNI

Hlustaði á gríðarlega gáfulegar umræður um bókina KATA eftir Steinar Braga í Gufunni í gær. Mig langar að lesa þessa bók enda eru fyrri bækur Steinars „skemmtilegar“. Eftir því sem fólkið röflaði meira um bókina langaði mig þó alltaf minna til að lesa hana því þetta var svo yfirgengilega gáfulegt – eins og keppni í speki, mjög fyndið. Steinar Bragi nær alltaf að búa til sterka og þrúgandi söguramma, en svo er ekkert endilega víst að hann nái að plotta sig í mark. Góður David Lynch-ari engu að síður. Kaupi Kötu pronto.

via Gamall og gáfaður | DR. GUNNI.

KOK : OPNUN / ÚTGÁFUHÓF -Kristín Eiríksdóttir sýnir í Rennunni

Laugardaginn 25. októbber kl. 16.00 kl fagnar Kristín Eiríksdóttir útgáfu bókarinnar KOK sem kemur út undir merkjum JPV. Jafnframt opnar hún sýningu á teikningum í Rennunni og býður ykkur að koma við, þiggja léttar veitingar og hlýða á lestur úr bókinni.

Kristín Eiríksdóttir er myndlistarmenntaður rithöfundur. Fyrsta bókin hennar Kjötbærinn, kom út árið 2004. Á eftir fylgdu svo ljóðabækurnar Húðlit Auðnin árið 2006 og Annarskonar sæla árið 2008. Árið 2010 kom út smásagnasafnið Doris deyr og haustið 2012 sendi hún frá sér sína fyrstu skáldsögu, Hvítfeld – fjölskyldusaga. Hún hefur einnig skrifað tvö leikrit: Karma fyrir fugla ásamt Karí Ósk Grétudóttur, sem frumsýnt var í Þjóðleikhúsinu í febrúar 2013 og Skríddu sem sett var upp í Borgarleikhúsinu í apríl 2013.

Auk þess að sinna ritstörfum hefur Kristín tekið þátt í samsýningum og sett upp gjörninga í samstarfi við Ingibjörgu Magnadóttur, bæði hér heima og erlendis. Sögur hennar og ljóð hafa verið þýdd yfir á dönsku, þýsku og ensku. Kristín býr í Reykjavík.

via KOK : OPNUN / ÚTGÁFUHÓF -Kristín Eiríksdóttir sýnir í Rennunni.

Hallgrímur Helgason og Eggert Stefánsson : Herðubreið

Eins er það nú, þegar hann ofl. hafa unnið leikgerð útfrá verkinu hans, Konan við 1000 gráður, þá fer þessi ógnarlegi markaðssetningarskriðdreki á stað með drunum og dynkjum, yfirgnæfir allt annað og nær til sín athyglinni svo að með ódæmum er.

Ekki efa eg að þetta nýja verk hans þarsem Guðrún S. Gísladóttir fer áreiðanlega frábærlega með sitt erfiða hlutverk, sé vel heppnað leikhúsverk. Það er hin hliðin á þessum peningi, að þetta efni er svo „heavy“, að eg efa að aðsókn að því verði veruleg. En það skiptir hann litlu máli. Hann hefur náð sínu fram – og það er Schram-fólkinu alveg nægjanlegt.

via Hallgrímur Helgason og Eggert Stefánsson : Herðubreið.

Aþena, Ohio – Karolina Fund

Fyrir 20 árum bjó ég í amerískum smábæ sem hét þessu skemmtilega nafni. Um tveggja ára skeið sendi ég Rás 2 útvarpspistla um daglegt líf Íslendings í þessu samfélagi, sem oft kom spánskt fyrir sjónir og stangaðist í veigamiklum atriðum á við það sem hann átti að venjast úr heimahögunum. Pistlarnir urðu 77 talsins og fjalla um allt milli himins og jarðar, en ævinlega frá sjónarhóli hins þjóðrækna Íslendings sem veit eins og er að „Ísland er land þitt”.

Nú hef ég hug á að gefa þessa pistla út á bók, því ég hef grun um að margir hefðu gaman af að rifja upp þau viðhorf og þá atburði sem þeir lýsa. Þetta er bókin Aþena, Ohio.

via Aþena, Ohio – Karolina Fund.

Listaverk úr bókum

Þegar skapandi fólk kemur saman eða fær innblástur hvort frá öðru er aldrei að vita hvað getur gerst. Nemendur í myndmennt heimsóttu bókasafnið nýverið og fengu að velja sér ónothæfar bækur fyrir listaverk. Bækurnar eru orðnar gamlar og úreltar en krakkarnir gáfu þeim fallegt framhaldslíf með því að búa til skemmtileg bókverk.

via BB.is – Frétt.

Ekki er allt sem sýnist: Maðurinn sem hataði börn eftir Þórarin Leifsson

Þórarinn Leifsson hefur svo sannarlega tekið fyrir skelfileg og ævintýraleg viðfangsefni í bókum sínum. Nýjasta verk Þórarins nefnist Maðurinn sem hataði börn og þar eru það drengjamorð sem koma af stað framvindu verksins. Líkamspartar drengs finnast í nýopnaðri matvöruverslun og þessir atburðir skelfa aðalpersónuna, 12 ára strákinn Sylvek. Hann tekur í framhaldinu að sér rannsókn […]

Viðvarandi ósönnuð sekt

SP: Í stað þess að allir séu saklausir uns sekt er sönnuð – frasi sem reyndar getur gefið til kynna viðvarandi ósannaða sekt – eru allir þarna á milli: ef til vill sekir. Hins vegar má sjá nafnið sem spurningarmerki eða beinlínis andstöðu við það hvernig kerfið og hin félagslegu norm skilgreina sektina. Er glæpamaðurinn í raun sekur? Um hvað? Og hvers er skilgreiningarvaldið?

S: Seinasta árið höfum við verið að vinna að tengdum hugmyndum en þó í sitthvoru lagi. Þegar við ákváðum að sýna verkin okkar saman sáum við að þó þau tengist ekki öll undir einni þematískri regnhlíf fléttast þau saman á fínlegan hátt. Við höfðum bæði verið að pæla mikið í glæpum og refsingu – og einnig vinnu. Þessi þrjú stef voru sérstaklega áberandi og nafnið nær að halda utan um verkin sem heild þó að það feli ekki í sér beina tilvísun í hvert og eitt þeirra.

Snorri Páll Úlfhildarson Jónsson og Steinunn Gunnlaugsdóttir í viðtali via Gagnsleysi, sekt og guðleg refsing – DV.

Ingvi Þór Kormáksson skrifar um Stundarfró

Arinbjörn lifir á frægð sem hann hlaut fyrir sína fyrstu, og hingað til einu, ljóðabók en hefur ekki getað komið stafkrók á blað síðan. Hann lifir á snöpum frá útgefanda sínum og íhlaupakennslu. Örlög hans ráðast í Borginni við sundin eins og örlög fleiri ungra íslenskra skálda á fyrri tíð.

Þetta er afskaplega lipurlega rituð bók, sannkallaður skemmtilestur. Það er gott flæði í textanum. Ein hugmynd tengist annarri á átakalausan hátt og ný sjónarhorn verða til.

via Bókmenntir.is – 1989 – Stundarfró eftir Orra Harðarson í umfjöllun Ingva Þórs Kormákssonar.

Höfundakvöld “Konurnar á kantinum” í BMM!

Í tengslum við hátíðina “Konurnar á kantinum” (Women on the edge) sem fram fer hér á landi á nokkrum stöðum í vikunni, er blásið til höfundakvölds á kaffihúsinu Súfistanum í Bókabúð Máls og menningar.

Dagskráin hefst kl. 20 og þær sem koma fram eru Mette Karlsvik (NO), Kristín Ómarsdóttir (IS) og Maja Lee Langvad (DK) sem einblína á prósa.

Seinni hluti dagskrárinnar er tileinkuð ljóðlistinni og koma þá þar fram Inger Elisabeth Hansen NO), Sigurbjörg Þrastardóttir (IS), Olga Ravn (DK) og Kristín Eiríksdóttir (IS).

Dagskráin er opin öllum og aðgangur er ókeypis.

Verið hjartanlega velkomin

via (1) Höfundakvöld “Konurnar á kantinum” í BMM!.