Mig svimar og ég finn til megnrar ógleði. Ég neyðist til að setjast niður og leggja eintakið af Kötu frá mér. Ég hef verið að lesa þann hluta bókarinnar sem heitir 3/4, þann sem fjallar um statistík, magn nauðgana og prósentutölur sem segja til um hversu margar kærur um nauðgun leiða til dóma, frá því að ég vaknaði. Steinar Bragi hefur sett upplýsingarnar fram sem dagbókarskrif, fipast þar ljóðræni stíllinn sem annars gerir persónu hans aðlaðandi og fellur inn í einhverskonar réttlætingu á eigin skrifum. Manifestó. Vandamálið er gríðarlegt, sjáðu bara allar tölurnar. Mér er óglatt, en ekki afþví að þetta með nauðganirnar séu einhverjar fréttir. Mér er óglatt af því að hver einasta kona þekkir þetta ofbeldi, beint eða óbeint, í verknaði eða hótun. Það þarf engan rithöfund úti í bæ að segja okkur hvað heimurinn sé ljótur. Allavega ekki með statistík.
Ekki að skrif Steinars Braga séu gagnslaus eða vanhugsuð. Þau eru gerð af natni, ástríðu, list og segja sögu Kötu vel, móður sem missir dóttur sína, verður heltekin sorg og opnar loks augun fyrir þeim viðbjóði sem lífið á Nesinu hefur haldið henni frá. Eins og í fyrri verkum hans tekst honum að gera minnstu smáatriði óhugnanleg, kallar til súrréalisma (sem er betur nefnt yfir-raunsæi) til að skerpa á viðbjóðnum og gera hann raunverulegri í óraunveruleika sínum. Hann teymir lesandann gegnum sorgarferlið með slíkri natni að stig þess eru honum ekki endilega ljós fyrr en allur skalinn liggur fyrir. Þannig sleppur hann við að fyrirsjáanleiki sögunnar böggi mann þó að flestir viti eflaust hvert leiðin liggur í það minnsta við miðbik bókar. Skilningur hans á sorginni er, með öðrum orðum, mun meira heillandi en fléttan, þó hún sé ekki slæm sem slík.
Persóna Kötu birtist lesandanum tiltölulega áreynslulaust og er hún teiknuð svo daufum litum að fátt við hana stingur í stúf, nema kannski lítt dulinn húmor höfundar hvað varðar ást hennar á Jóni Kalman og klisja um Barböru Streisand. Það er ekki þar með sagt að Kata sé óáhugaverð heldur er hún gerð næstum óþolandi „venjuleg“ og í því liggur styrkur bókarinnar. Fyrirframgefnar hugmyndir sem hefðin hefur þröngvað upp á konur sem uppnefndar eru „venjulegar“ hafa hér rými til að breytast án of mikillar viðstöðu frá klisjunni. Aðrar persónur eru meiri „karakterar,“ týpur sem auðvelt er að þekkja af stuttum lýsingum, minni úr menningarsögu þjóðarinnar og haldast sem slíkar, eru sveltar söguboga eða ferli, breytast ekkert fyrir tilstilli þess sem hendir þær og skipta, á endanum, engu. Er ákveðinn missir í því, fleiri klisjum hefði mátt kasta á eldinn.
Það sem eftir stendur er stíll sem er svo yfirgengilegur í ljóðmáli sínu, svo uppáþröngvandi í hrottafengnu myndmálinu að erfitt er að standast lömunarvald hans. Eins og smjörsýra smýgur textinn inn í blóðrás lesandans og lamar hann af óhugnaði, gerir hann að sljóvguðu vitni að því ofbeldi sem á sér stað og ýtir loks við honum eins og til að spyrja „hvað ætlaru að gera í þessu?“. Eftir situr maður/kona með rauða bók í fanginu eins og blóðugar nærbuxur, einhverskonar sönnunargagn um glæpinn sem hefur verið framinn. Ekkert er eftir nema lömun, þrátt fyrir allt það sem aðrir myndu eflaust túlka sem heróp, um kall til þess sem höfundur kallar stríð við lok bókarinnar. Nei, það er bara lömun sem situr eftir. Ekki af því að það sem stendur á síðum bókarinnar er svo sjokkerandi, heldur af því að það gengur yfir strikið. Gerir það sem er svo mörgum svo hrikalega raunverulegt að einhverju skálduðu. Að kommenti um íslenskt samfélag. Skoti á líkamsræktartröll og djóki um Kalman.
Það sem er fjærst íslensku samfélagi, það sem gerist á „öðru plani“ samhliða atburðarrásinni í bókinni, er það sem hittir þar af leiðandi helst í mark. Skítt með skot á DV og nafngreinda fréttamenn á öðrum miðlum. Skítt með tilvísanir í Gillz og nöfn á skemmtistöðum sem við vitum vel að standa við Laugaveginn nákvæmlega núna og ekki fyrir ári. Það mun eldast, hætta að tala við núið og birtast sem draugur fortíðar seinna meir. Það sem mun eftir lifa af Kötu verður andstyggileg fígúra sem kennd er við nashyrning og heldur stúlku fanginni í dúkkuhúsi, frekar en bein lýsing á miðborg Reykjavíkur. Hvernig er Reykjavíkurborg betur lýst en nákvæmlega þannig? Mörkin á milli veruleika, þar sem skrímslin fá á sig rétta mynd, verða það sem Kata skilar af sér í undirmeðvitund þjóðarinnar. Allt hitt veit hún og þekkir of vel. Að hitta skrímslin undir rúmi er miklu erfiðara en að horfa á nýjan þátt með Gillz.
Ekki að skotinu á samfélagið sé ekki vel miðað. Að það sé ekki þörf á að hleypa af. Nákvæmni höfundar í lýsingum sínum á samfélagi sem er rotið er aðdáunarverð, Ísland er þarna, ljóslifandi en samt svo glans. Röð óaðfinnanlegra ljósmynda. Eftirlíking af eftirlíkingunni sem við köllum samfélag. Margir myndu segja að bók gæti ekki beðið um að vera meira. En rétt eins og í myndlist hefur raunsæið ekki endilega neitt til málanna að leggja. Í heimi eftirlíkinga segir vel mótuð eftirlíkingin ekkert sem fær hárin til að rísa. Rétt eins og margtuggnar tölur um hvað margir nauðgarar komast upp með glæpinn eru ekkert annað en tölur. Það sem veldur ógleði er vissan um að martröðin sé raunverulegri en allt sem um hana má festa á blað.