Áfengislegin ástarsaga og helvítis fokking fokk

Um Stundarfró eftir Orra Harðarson

Skal nú fjalla um skáldsögu Orra Harðarsonar, Stundarfró:
Fyrst, smá útúrdúr sem kemur þó efninu við

[Innskot: Verður notast við sögulega nútíð þar sem ég er á því að hún eigi vel við verkið]

Eigi þarf almenn söguvitund að vera rík til að vita að íslenskt samfélag tekur stakkaskiptum á 20. öld. Máski má ganga svo langt að segja: „Það veit hver hálfvita mannskepna, eða ætti að vita.“ Eins ætti lýðnum ljóst að vera að margur sá er státar af íslensku vegabréfi glímir, eða hefir glímt, við áfengissýki. Hefir og Bakkus drukkið mýmargan mörlandann undir borðið eða þá í kistuna. Oft og tíðum fyrir aldur fram.

Og víst eru íslenskar bókmenntir um margt mígandifullar af brennivínslegnum persónum bæði hugarfóstrum sem og persónum sem á einhverjum tíma voru af holdi og blóði. Mögulega væri hægt að hafa mörg orð um áfengi, vínhneigðar og áfengissjúkar sálir íslenskra bókmennta eða þá ófáu óreglupésa sem kjaftagleiðar Gróur hafa haft á milli tannanna. Gefur og viðfangsefnið ærið tilefni til að slá um sig með tilvitnunum út og suður eða til að fylla upp í tilskilinn orðafjölda greinar. Hvorugt á við hér. Einkum og sér í lagi sakir þess að óþarfi er að „stating the obvious“ meira en orðið er.

Að þessu sögðu ætti að liggja í augum „úti“ að verkið sem hér er til efnislegrar meðferðar taki á ofan skrifuðu. Samfélagsbreytingum og alkóhólisma. Áfengissýkin spilar þó stærri rullu. Enn fremur kemur bókmenntahneigður maður við sögu sem er – viti menn – ölkærari en góðu hófi gegnir. Raunar sjálfum sér hættulega vínelskur.

[Innskot: Tekið skal hér fram að orðnotkunin, ölkær og vínelskur, er meðvituð hjá undirrituðum]

Áður en farið verður út í nánari útlistun á Stundarfró er tilhlýðilegt að viðhafa nokkur orð um höfundinn Orra Harðarson (1972). Orri Harðarson er til þessa hvað þekktastur fyrir tónlistarsköpun sína. Hóf hann leik á þeim útgáfuvelli með breiðskífunni Drög að heimkomu árið 1993. Gat hann sér góðs orðs fyrir skífuna. Á það bæði við um tónlistina sem og textagerðina. Eftir hann liggja í það heila fimm breiðskífur. Sú nýjasta, Albúm, kom út 2010.

Orri er enginn nýgræðingur á ritvellinum þótt Stundarfró sé hans fyrsta skáldaða saga. Er hann til að mynda höfundur nokkurra útgefina þýðinga. Þar á meðal eru Eric Clapton: sjálfævisaga (2008) og Lánsamur: sjálfsævisaga George Best og Roy Collins (2002). Árið 2008 kemur einnig út bók hans Alkasamfélagið þar sem hann tekur AA-samtökin á beinið og gagnrýnir þau. Verður ekki farið nánar út í þá sálma hér. Er og líkast til ýmsum kunnugt um þann vímuefnavanda er Eric Clapton og George Best glímdu við á sínum tíma. Áfengi er einnig vímuefni. Rauði þráður Orra Harðarssonar er sumsé nokkuð hífaður.

Skal nú vikið að Stundarfró og leitast við að greina frá innihaldi verksins

Greinir sagan einkum og sér í lagi frá þremur ólíkum persónum, þótt vínhneigða skáldið fái mest pláss, sem standa fyrir ákveðin gildi eða endurspegla vissan tíðaranda. Koma þó fleiri aðilar, í misvegamiklum hlutverkum, við sögu. Ef byrjað er á að taka út aðalpersónurnar liggur beinast við að hefja leikinn á Aðalsteinu Illugadóttur (1922-2012). Sagan hefst bókstaflega á henni:

Aðalsteina Illugadóttir hefði sjálfsagt snúið sér við í gröfinni ef spekúlasjónir mannfólksins um framhaldslíf væru á einhverjum rökum reistar. Ærin voru tilefnin. En hverslags líf eftir dauðann væri það eiginlega: að hírast áfram í kistu og snúa sér, hring eftir hring. (Bls. 7)

Aðalsteina lifir umbrotatíma 20. aldarinnar. Þegar hún fæðist í Dalasýslu á Vesturlandi er Ísland aftarlega á merinni og telst til fátækari landa. Kannski eins konar þriðja heims ríki og jafnframt hluti danska konungsveldisins. Tveir þriðju landsmanna fæðast til sveita. Er Aðalsteina þar engin undantekning. Hagur landsins er þó eitthvað tekin vænkast frá því sem áður var og mölin að ryðja sér rúms. Aðalsteina er nokkuð forn í fari sem sést á orðfæri hennar og viðhorfum sem þættu oft og tíðum vart veisluhæf í hófum pólitískt rétthugsandi fólks. Eins og algengt er með fólk af hennar kynslóð er hún margkunnug um ættir og gjörðir náungans sem er eitthvað sem dótturdóttir hennar getur illa tengt við. Aðalsteina er ennfremur ekki manneskja sem ber harm sinn á markaðstorg.

Dótturdóttir Aðalsteinu, Þórdís Þrastardóttir (1971-), „óörugg og tilvistarkreppt alþýðustúlka“ (Bls. 12), er önnur aðalpersóna sögunnar. Hún er af öðru sauðahúsi. Ólíkt ömmu sinni sem marga fjöruna sýpur í ólgusjó tímans og upplifir „raunveruleg harðindi“ (Bls. 9) þá telur hún það til mannréttinda „að fara árlega utan, mánaðarlega út að borða, aðra hverja helgi út á lífið og vikulega á bíó.“ (Bls. 9) Aukinheldur á Þórdís tvö börn með þremur mönnum að sögn ömmu hennar. Frumburðurinn er rangfeðraður. Kom hann undir í áfengisvímu.

Saman búa þessar tvær konur á Akureyri og kemur ágætlega saman, einkum og sér í lagi þegar þær sitja í eldhúsinu yfir kaffibolla og sígarettu.

Á síðu ellefu birtist þriðja aðalpersónan, Arinbjörn Maríuson eða Arinbjörn Hvalfjörð. Seinni útgáfan er skáldanafn. „Það var Stuðmannaball í Sjallanum. Sumarið 1989. Yfirskriftin: Hjarðmenn hins holdlega krafts.“ (Bls. 11) Arinbjörn er gestkomandi á Akureyri. Á balli þessu kynnast Þórdís og Arinbjörn. Gefur yfirskriftin máski til kynna hvað þeim fer í millum eftir að dansleik lýkur. Ef það vefst fyrir lesanda er um holdlegt samræði að ræða. Atlotin fara fram á heimili Aðalsteinu. Hvorugt þeirra er ókunnugt slíkum skyndikynnum en einhverra hluta vegna fljúga ástarneistar á milli þeirra. Í kjölfarið kemst Arinbjörn í kynni við Aðalsteinu sem sér í honum áfengispúkann.

Arinbjörn er fimm árum eldri en Þórdís, borinn og barnfæddur Breiðhyltingur. Telst hann vera ein helsta vonarstjarna íslenskra bókmennta eftir að hafa, ungur að árum, gefið út hina rómuðu ljóðabók, Tunglið er timbrað. Arinbjörn er vel gáfum gæddur og málhagur. Hefir hann meira að segja á valdi sínu að þéra og á til að beita þéringum er Aðalsteina og hann taka tal saman þótt henni sé það þvert á móti skapi. Raunar er hann fær um að haga máli sínu á þann veg sem best hentar hverju sinni. Arinbjörn sver sig í flokk drykkfelldra skálda, eins og áður segir, og er um margt venjubundinn bóhem af lýsingu að dæma.

Leiðir skilja. Arinbjörn heldur aftur til Reykjavíkur eftir að hafa sáð sæði í frjóan svörð. Mynd hennar er stöðugt í huga hans og mynd hans í hennar. Hans mynd er þó öllu oftar í huga hennar sakir þess að hann er oftar en ekki annaðhvort timbraður ellegar við skál. Slíkt á til að slæva toppstykkið.

Aðalsögutími eða þungamiðja verksins er 1989 til 1990. Systurpartur sögunnar á sér stað þá og tekur um margt á eftirmálum hinna nánu kynna Þórdísar og Arinbjarnar. „Aukasögutímann“ mætti spyrða saman við líftíma Aðalsteinu eða frá 1922 til 2012 og kennir þar ýmissa grasa sem setja má í sögulegt samhengi.

Þótt svo dótturdóttir og amma séu um margt ólíkar og lifi ólíka tíma má ljóst þykja að sumt, hvað kvenmenn áhrærir, breytist ekki. Verður hér að gæta að því að láta ekki of mikið uppi.

Skal nú litið eitthvað nánar á umrætt verk

Stundarfró. Titillinn sem slíkur vísar til einhvers sem gefur af sér skammvinna ánægju, létti eða hugsvölun. Segir hann þó ekki mikið hér sem slíkur nema í samhengi við söguna. Í því samhengi er nærtækast að horfa til Arinbjarnar og áfengissýki hans. Vissulega bregður þó orðinu fyrir víðar.

Um leið, eða því að gera, og Arinbjörn er kynntur til sögunnar er ljóst að hann glímir við alvarlegt áfengisvandamál: „Hann [Arinbjörn] var ævintýralega timbraður en listilega þjálfaður í að leyna því. Hann vissi samt að skjálftinn ætti aðeins eftir að aukast; að tæpast myndi hann hverfa nema með afréttara.“ (Bls. 17)

Augljóst er af öllu að vandamálið er ekki nýtt af nálinni og að afréttari er einvörðungu skammgóður vermir, stundarfró. Minna og aðfarir Arinbjarnar og lýsingar oft á reynslusögur úr AA-bókinni nema hvað frásögnin er ekki í 1. persónu. Segir það nokkuð um stíl verksins sem er, að segja má, einkar jarð- og hefðbundinn. Fátt er um stílleikfimi eða þá framandgervingar. Hlutirnir eru kallaðir sínum réttu nöfnum og fer lítið fyrir rómantíseringu lífsnautnamannsins. Það er frekar að ímynd bóhemsins sé afbyggð enda eru örlög skáldsins öðru fremur sorgleg. Þó kemur fyrir að textinn kitli hláturtaugarnar. Má jafnvel greina áhrif frá Þórbergi Þórðarsyni sem var flestum fremri í að draga upp fallegar myndir og brjóta þær niður á gamansaman máta. Oft með grótesku.

Þau elskuðust eins og enginn væri morgundagurinn. Nýrómantíst sálarpopp Sade í fermingargræjunum. Smooth Operator. Það voru orð að sönnu. Arinbjörn veitti henni unað sem hún þekkti til þessa aðeins úr dönskum blöðum. Svo lognaðist hann út af og pissaði á sig. (Bls. 14)

Oftast nær er textinn haganlega samansettur þótt hvimleitt sé hve oft setningar hefjast á samtengingu. Einkum og sér í lagi á aðaltengingunni „og.“ Aukinheldur hefir hann yfir sér „ævisögulegt“ eða „sagnfræðilegt“ yfirbragð. Er enda auðvelt að setja söguna í samband við þær breytingar sem verða á 20. öldinni eða jafn vel fram að helvítis fokking fokk 2008. Á það við í efnislegum, trúarlegum og fordómalegum skilningi. Síðast nefnda atriðið lýtur einkum að samkynhneigð enda gælir Arinbjörn við hómósexúalisma og gott betur.

Rödd söguhöfundar er á tíðum sterk og fer afstaða hans til manna (sögupersóna) og málefna lítt á milli mála. Tekst engu að síður vel til með hvernig sögupersónur endurspegla ólík gildi og kynslóðamun. Felst munur sá að miklu leyti til í orðfæri persóna. Er til að mynda gaman að sjá norðlensku orðfæri bregða fyrir. Kristallast téð atriði þó hvað best í muninum á Arinbirni og Agnari Má sem standa fyrir gjörólík gildi. Sá síðarnefndi er eins jarðbundinn og hugsast getur og fyrirfinnst ekki skáldleg taug í honum. Þráir hann ekkert heitar en að fjölskyldupakkann: bíl, hús, konu, barn, mubblur os.frv. Agnar Már er „seinni“ maður Þórdísar og sá sem talið er trú um að hafi barnað hana. Áttu þau nefnilega ástarfund helgina áður en Þórdís og Arinbjörn nutust.

[Viðbót sem auðnaðist ekki að koma í meginmál: Áðan var haft á því orð að Orri væri tónlistarmaður. Skín það í gegn í textanum þar sem notast er við „tónlist“ eða textabrot úr dægurlögum. Er það haganlega gert og nær að undirstrika senur og líðan persóna verksins.]

Kennir hér ýmissa grasa þegar kemur að persónusköpun og er næsta víst að margur geti fundið sig, hluta af sér eða persónur sem standa viðkomandi nærri í sögupersónum verksins kæri viðkomandi sig um það.

Skal þessari helst til of löngu ritrýni nú slúttað

Af ofansögðu má ljóst þykja að Stundarfró er skoðunarvert verk. Væri hægt að hugsa sér margt verra við tímann að gera en að taka sér eintak af téðri bók í hönd. Gæti þó vel hugsast að löngun í áfengi rýrni í kjölfarið.