71: After the Gold Rush með Neil Young

Harvest var númer 78. Það er plata sem ég þekki miklu betur. Plata sem mér finnst frábær. Ég fór út að hlaupa með þessa í eyrunum áðan og hún fór að mestu framhjá mér – það er eitthvað hversdagslegt og þægilegt við hana, en ég get ekki sagt að hún hafi hreyft neitt við mér. Hún bara var þarna á meðan ég hugsaði um aðra hluti. Hvorki hrærður né hristur. Ég veit ekki hvort maður þarf að vera einhver sérstakur Neil-Young-maður til að skilja þetta – finnst skrítið að hún sé ofar en Harvest og raunar þessi listi skrítnari og skrítnari – áttaði mig á því í fyrradag að á honum er hvorki Billie Holiday né Nina Simone. Ekki Ella og engin Sarah. Og ekki bara ekki á topp 100 heldur ekki á topp 500. Sem er bara rugl.

Þetta er titillagið.

En allavega. Ég hef ekkert að segja um After the Gold Rush. Maður getur ekki verið uppnuminn af öllu.

Þegar ég kom heim sá ég þær fréttir á netinu að Jack Bruce væri dáinn. Það munaði minnstu að ég myndi skrifa um Cream – Fresh Cream er í 101. sæti á listanum. Sem er miklu betri plata. Cream er líka uppáhalds hljómsveitin hennar mömmu. Við horfum bara á það og gleymum After the Gold Rush, það var hvort eð er ekkert í hana varið. Sunshine of Your Love er að vísu ekki af Fresh Cream heldur Disraeli Gears – sem er í 112. sæti.

Eiríkur Örn Norðdahl, ritstjóri Starafugls, ætlar næsta árið að hlusta á 100 efstu plöturnar af lista Rolling Stone frá 2003 yfir 500 merkustu plötur allra tíma – á meðan hann hleypur, hjólar eða keyrir – og reyna að hafa á þeim einhverja skoðun. After the Gold Rush með Neil Young hlustaði hann á hlaupandi í hringi í Råby, Västerås.