Þórarinn Leifsson hefur svo sannarlega tekið fyrir skelfileg og ævintýraleg viðfangsefni í bókum sínum. Nýjasta verk Þórarins nefnist Maðurinn sem hataði börn og þar eru það drengjamorð sem koma af stað framvindu verksins. Líkamspartar drengs finnast í nýopnaðri matvöruverslun og þessir atburðir skelfa aðalpersónuna, 12 ára strákinn Sylvek. Hann tekur í framhaldinu að sér rannsókn á málinu og fær til þess liðsauka úr óvæntri átt. Rannsókn Sylveks vindur upp á sig og það reynist vera önnur ráðgáta sem liggur jafnvel enn meira á að leysa heldur en drengjamorðin, hvarf Æsu, eldri systur Sylveks. En ekki er allt sem sýnist í söguheiminum einsog Sylvek og lesandinn komast brátt að.
Sjónarhorn hins utanaðkomandi nýtist vel í verkinu en amma Sylveks flutti með systkinin frá Barcelona til Reykjavíkur. Íslenska samfélaginu er miðlað í gegnum stöðu Sylveks og fjölskyldu sem nýbúa sem gefur tækifæri til að benda á brotalamir. Í verkinu er tekist á við ýmsar hliðar mannlegrar tilveru, svo sem ótta, einelti og þær hættur sem kunna að steðja að okkur, sérstaklega á barns- og unglingsaldri. Þórarinn hefur gott lag á að nota grótesku, húmor og fantasíu til þess að fjalla um alvarleg og skelfileg málefni og þó það beri meira á því fyrrnefnda slæðist fantasían einnig inn í verkið. Gott dæmi um það eru illvirkjarnir í verkinu, þeir eru steratröllin sem hafa rænt Æsu. Þrátt fyrir að hafa eitt sinn verið venjulegir drengir hafa þeir umbreyst af steranotkun. Í umfjöllun sinni um þessar persónur beitir Þórarinn einnig neðanbeltishúmor: „Steratröllin halda engu niðri. Maturinn fer bara beint í gegn. Þess vegna eru þau yfirleitt á frekar stórum bílum með innbyggðum klósettum.“ (bls. 137) Lesendur þekkja vesturbæ og miðbæ Reykjavíkur af lýsingum Þórarins á borginni sem Sylvek býr í en borgin er í senn kunnugleg og ögn á skjön enda gerast þar atburðir sem eru ótrúlegir þó svo að þeir kallist á við okkar eigin veruleika.
Í Manninum sem hataði börn er deilt á nútíma okkar og menningu en Þórarni tekst að fjalla um viðfangsefni sín með slíkum húmor að lesandinn upplifir aldrei að verið sé að lesa yfir sér. Ádeilan er stundum mjög beinskeytt sem væri ef til vill þreytandi ef textinn héldi ekki einnig léttum tóni með glettni í nálguninni á efniviðinn. Myndskreytingar höfundarins auðga söguna og glæða skrautlegar persónurnar enn meira lífi.