Æskuteit og hjartaheit, hökufeit og undir bláhimni

Um Vitstola konur í gylltum kerrum eftir Arngrím Vídalín

Þetta smágerða kver Arngríms Vídalín, er freistandi að afgreiða sem bókmenntabrandara, ef „afgreiða“ er rétta orðið. Sem það er ekki, því bæði er aldrei komið nóg af bröndurum og svo er þetta ágætis brandari.

Byrjum aftur.

Það er freistandi að njóta hins smágerða kvers Arngríms Vídalín, Vitstola konur í gylltum kerrum, sem bókmenntabrandara. Og fyllsta ástæða til. Hvort maður lætur þar staðar numið er síðan bæði komið undir þankagangi manns og húmor, sem eru að auki mikið til einn og sami hluturinn. Vonandi.

Arngrímur fer semsagt ránshendi um íslensk ljóð frá upphafi vega til miðrar síðustu aldar, dregur þaðan línur með konur sem viðfang (myndir, lýsingar, ávörp, lofgjarðir, bölbænir) og raðar fengnum saman í stutta texta – ný ljóð. Lætur þá kallast á yfir aldirnar, þvers og kruss, frá Edduskáldum til Davíðs Stefánssonar.

Þetta er auðvitað stórskemmtilegt, og ekki bara sem bókmenntaþraut, þó gaman sé að reyna að bera kennsl á viðina. Útkoman sjálf er líka stundum sérkennilega snjöll.

Hér er nr. 6:

Súldanorn um sveitir ekur;
það er andans eigin dóttir,
það er stúlkan mín,
það er konan sem kyndir ofninn minn.

Og nr. 9:

Græturat ekkja ókvæntan ver
þó sé hún dauða þreytt.

Þetta kætir.

Er eitthvað á þessu að læra? Veit það ekki. Það er eiginlega ekki hægt að slíta orð meira úr samhengi en að slíta þau úr samhengi ljóðs. Og ljóð, sérstaklega á þeim tíma sem við eigum gullöld á því sviði og er einna helst undir hjá Arngrími, hafa tilhneigingu til að stækka, skerpa, ýkja. Yrkisefnin eru sett undir stækkunargler. Oftar en ekki litað. Ætli sami tryllingurinn fengist ekki út úr samskonar bók um náttúruna, um þjóðina?

Kannski samt ekki ef Arngrímur færi á stúfana með hnífinn sinn og leitaði að karllýsingum (takið eftir hvað orðið er framandlegt. Ætli þær yrðu ekki daufari? Eða kannski aðallega afdráttarríkari (andheitið við „afdráttarlausari“).

Og þar stendur hnífurinn í kúnni.

Því tilhneigingin til að tala í alhæfingum og einföldunum um konur er svo sannarlega enn rík. Og sannarlega uppspretta böls. Bæði meðal karla og kvenna, þó hvötin, veiðileyfið, sé augljóslega frá okkur.

Við skiljum þær ekki. Við vitum nákvæmlega hvernig þær eru. Betur en þær, augljóslega.

Nr. 8

Fjallkonan fríð!
Mærin mín hin skæra!
Farðu þá, mín fagra!
Því þú ert sjúk

Er þetta ekki svolítið svona, herra minn trúr? Ef „herra“ er orðið sem ég er að leita að.

Þetta er afbragðs bók.