Lestrarhátíð í Bókmenntaborg

Lestrarhátíð í Bókmenntaborg er haldin í þriðja sinn í október 2014 og að þessu sinni er hún helguð smásögum, örsögum og ritlist undir heitinu Tími fyrir sögu. Hátíðin stendur  allan októbermánuð og er dagskráin fjölbreytt. Hún er birt hér með fyrirvara um breytingar.

Þeir sem standa fyrir viðburðum í október sem tengjast lestri og orðlist og vilja koma sínum viðburðum á dagskrá eru hvattir til að hafa samband með því að senda póst á bokmenntaborgin@reykjavik.is.

via Dagskrá 2014 – Bókmenntaborgin.

Bókmenntanámskeið – Jón Kalman – Í fótspor stráksins

Ritþing Jóns Kalmans Stefánssonar verður haldið í Gerðubergi laugardaginn 25. október kl. 14 (sjá nánar hér). Í tengslum við þingið er boðið upp á námskeið þar sem fjallað verður um þríleik Jóns Kalmans sem samanstendur af bókunum Himnaríki og helvíti, Harmi englanna og Hjarta mannsins.

Sögusvið þríleiksins er íslensk sjávarbyggð undir lok 19. aldar, á þeim árum þegar stórtækar breytingar voru að eiga sér stað bæði í atvinnuháttum og hugarheimi fólks. Meðal annars verður sjónum beint að sögusviði og samfélagsmynd verkanna, ólíkum aðstæðum alþýðu og borgarastéttar og stöðu kynjanna. Þá verður einnig hugað að öðrum verkum Jóns Kalmans m.a. í tengslum við aðalpersónu þríleiksins, strákinn, og tengslum hans við aðra stráka sem birtast í verkum höfundarins. Fleira kann að bera á góma svo sem frásagnarháttur þríleiksins, hlutverk sendibréfa og mátt orðanna.

via Gerðuberg – Bókmenntanámskeið – Jón Kalman – Í fótspor stráksins.

Ása Helga: Breytum leiknum | Klapptré

Ása Helga Hjörleifsdóttir kvikmyndagerðarkona hélt hátíðargusuna svokölluðu á opnunarkvöldi Alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Reykjavík síðastliðinn fimmtudag. Ræðuna flutti hún á ensku en þar fór hún yfir hlutskipti kvenna í kvikmyndaiðnaðinum.

Ása Helga hefur gert tvær stuttmyndir síðan hún útskrifaðist úr námi og hyggst gera sína fyrstu kvikmynd í fullri lengd á næsta ári sem hún byggir á bók Guðbergs Bergssonar, Svaninum.

Í gusu sinni kom Ása Helga inn á hlutskipti kvenna í hinum erfiða heimi kvikmyndalistarinnar. Meðal annars sagði hún frá því að það eru fjögur ár síðan kona leikstýrði kvikmyndin fyrir ríkisstyrk hér á landi.

via Ása Helga: Breytum leiknum | Klapptré.

Að lifa stríð : TMM

Ég hef verið stór aðdáandi Konunnar við 1000° síðan ég las hana nýútkomna en ekki bjóst ég við að hún myndi þola að fara á svið. Tíu tíma sjónvarpssería kannski eða að minnsta kosti ílöng tveggja kvölda leiksýning eins og Heimsljós og Sjálfstætt fólk en ekki eitt tveggja tíma leikrit. Þetta hefur þó verið gert. Höfundurinn sjálfur, Hallgrímur Helgason, semur leikgerðina með Símoni Birgissyni dramatúrg og Unu Þorleifsdóttur leikstjóra, og hún er sýnd í Kassanum.

Leikgerðin hoppar nokkuð á tindunum í bókinni og sumir verða svo í skötulíki að þeir sem ekki hafa lesið bókina vita ekkert hvað var að gerast þegar það er búið. En að því sögðu er full ástæða til að fagna þessu framtaki; leikgerðin skilar kjarna verksins, bæði í texta og túlkun.

Silja Aðalsteinsdóttir skrifar um Konuna við 1000° via Að lifa stríð : TMM.

Drengur með náragáfu : TMM

Ævintýri lífs hans sem hann er kominn upp á svið til að segja okkur er einmitt tengt þessum stígvélum. Öðru atviki tæpir hann á úr æsku sinni sem hefur ekki verið eins fallegt eða skemmtilegt en það hefur hann bælt svo rækilega að það hefur tekið ævintýralegum umbreytingum í minninu.

Annars hefur Kenneth Máni ekki margt að segja en hann er mjög upptekinn af mannlífinu yfirleitt og tungumálinu sem er honum uppspretta fjörugra barnslegra athugana. Hann er hugfanginn af því þegar sama orðið hefur margar merkingar, eins og til dæmis „á“ – af því það er auðvitað á, og á, og á – og á!

Silja Aðalsteinsdóttir skrifar um Kenneth Mána via Drengur með náragáfu : TMM.

Atli Sigurjónsson um Altman (RIFF 2014) | Klapptré

Altman er eiginlega meira eins og langur sjónvarpsþáttur sem er einfaldlega stórfelld upphafning heldur en almennileg heimildamynd. Það er skimmað yfir mikið af efni, mörgu sleppt og maðurinn einfaldlega sýndur sem hálfgerður dýrlingur sem hann var ekki alveg. Hann var, að því er virðist, alkóhólósti og eiturlyfjafíkill sem auk þess hélt oft framhjá konunni sinni. Einnig var hann talinn hafa verið með nokkuð mikilmennskubrjálæði (líkt og margir aðrir leikstjórar á hans stalli). Það vita allir að Altman var merkismaður og frábær leikstjóri og Altman er ekki að segja aðdáendum hans mjög mikið sem þeir ekki vita nú þegar. Það er aðeins minnst á drykkju hans og að hann hafi vanrækt börnin en jafnvel það fær léttvæga umfjöllun.

via Gagnrýni | Altman (RIFF 2014) | Klapptré.

„Þær hafa alveg komið beinar og óbeinar“ – DV

Hann viðurkennir einnig að fólk í valdastöðum hafi oft verið ósátt og jafnvel haft í hótunum við þá. „Þær hafa alveg komið beinar og óbeinar. Við höfum svo sem aldrei fengið það beint í andlitið. En við eigum eftir að segja þessa sögu frá orði til orðs innan tíðar. Með hvaða hætti, get ég ekki alveg upplýst hér og nú, en þetta er merkileg saga. Grínið er kannski skörpustu gleraugun – beittasti hnífurinn er háðið. Eins og mannkynssagan segir okkur. Við höfum fengið útrás í gegnum Spaugstofuna og reynt að koma víða við.“

via „Þær hafa alveg komið beinar og óbeinar“ – DV.

Plöturýni: Aphex Twin – Syro | straum.is

Aphex hristir fram úr erminni ofgnótt af melódíum á plötunni; laglínur og stef sem ómerkilegri listamenn hefðu byggt heilu lögin á, treður hann fimm eða sex fyrir í einu og sama laginu. Oft eru undir-, mið- og yfirmelódíur í gangi á sama tíma. Bassa-, milli- og hátíðnirnar dansa hringi í kringum hvor aðra og nótur og taktslög skoppa hvert af öðru. Tempóin á plötunni ná alveg frá hægu hip hop-i yfir í æsilegt drum ‘n’ bass og það eru alltaf flöktandi varíasjónir í taktinum og óvænt slög, nokkurs konar spunakennd djazz-nálgun á trommuforritun.

Davíð Roach Gunnarsson skrifar um Aphex Twin via Plöturýni: Aphex Twin – Syro | straum.is.

Listamannaþing Félags vestfirskra listamanna

Árlegt listamannaþing og aðalfundur Félags vestfirskra listamanna fer fram á veitingastaðnum Talisman á Suðureyri laugardaginn 11. október. Þema þingsins í ár er kynning og markaðssetning. „Þemað er sannarlega eitthvað sem listamenn þurfa flestir að huga mikið að í starfi sínu. Sérstakir gestir þingsins og fyrirlesarar eru Einar Bárðarson, forstöðumaður Höfuðborgarstofu, Friðrika Benónýsdóttir, blaðamaður á Fréttablaðinu, og Jón Páll Hreinsson, verkefnastjóri hjá Atvest. Öll hafa þau mikla þekkingu á efninu og verður fróðlegt að heyra hugmyndir þeirra og vangaveltur um þennan mikilvæga þátt sem kynning og markaðssetning er sannarlega orðin í listinni í dag,“ segir í tilkynningu.

via BB.is – Frétt.

Ókeypis ritsmiðja á Iceland Noir

Írski glæpasagnahöfundurinn William Ryan mun halda ókeypis ritsmiðju á Bókasafni Kópavogs fimmtudaginn 20. nóvember kl. 17:00 þar sem hann leiðir þátttakendur í gegnum ferlið við smíð glæpasögu. Ritsmiðjan er hluti af Iceland Noir glæpasagnahátíðinni.

Nauðsynlegt er að skrá sig með því að senda tölvupóst á bokasafn@kopavogur.is, því fjöldi þátttakenda er takmarkaður. Ritsmiðjan verður á ensku.

via Bókasafn Kópavogs – Ritsmiðja: William Ryan.

Aukning á kvenkyns leikstjórum á Íslandi – Kvikmyndir.is

Á þriðjudaginn næstkomandi verða sýndar sjö stuttmyndir á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Reykjavík, RIFF. Athygli vekur hversu mikil aukning er á kvenkyns leikstjórum, en konur eru með helminginn af þeim myndum sem sýndar eru í íslenska stuttmyndapakkanum á hátíðinni.

,,Kvenfyrirmyndir í kvikmyndagerð eru mikilvægar og þeim er að fjölga með velgengni kvenleikstjóranna okkar. WIFT á Íslandi hefur líka verið áberandi í að vekja athygli á konum í kvikmyndagerð og unnið að því að leiðrétta það misvægi sem er á milli kynjanna í kvikmyndabransanum.” segir Marzibil Sæmundardóttir sem sýnir stuttmyndina Einhyrningurinn á hátíðinni.

via Aukning á kvenkyns leikstjórum á Íslandi – Kvikmyndir.is.

Ólöf, Palme og skandinavískur kynusli – DV

Slíkar væntingar til Ólafar um að syngja á þessu undarlega örtungumáli byggja eflaust að hluta til á þeirri ímynd sem Íslendingar hafa mótað sér erlendis á undanförnum árum. Skrýtna og skapandi krúttálfaþjóðin á heitum hipsterískum reit í Norður-Atlantshafi. Ólöf segist finna sterkt fyrir slíkum væntingum.

„Ég hef farið í viðtöl þar sem fólk er með mjög ákveðnar hugmyndir um hvað Ísland sé og hvað það þýði að vera frá Íslandi. Þegar ég tala í einhverja aðra veru þá líður mér svolítið eins og ég sé að segja því að jólasveinninn sé ekki til, sem getur verið svolítið fyndið.

via Ólöf, Palme og skandinavískur kynusli – DV.

Myndlist: Ladies, Beautiful Ladies – Hvað er þetta með ljóskurnar? | Pjatt.is

Á sýningunum fjallar hann um það hvernig ímyndir eru gerðar og mótaðar, dreifðar og endursagðar með því að nota málverk á striga, innsetningar og verk á pappír.

Á sýningunni má sjá málverk og vatnslitamyndir eða texta.

Í gryfjunni svokallaðri finnum við innsetningu þar sem sjá má skrásetningu Birgis á rannsókn sinni í Parísarborg.

Birgir hefur unnið með gamla bók sem inniheldur mannlýsingar á gleðikonum borgarinnar á síðustu öld.

via Myndlist: Ladies, Beautiful Ladies – Hvað er þetta með ljóskurnar? | Pjatt.is.

Stefán Máni: Ríkið fær meira en höfundurinn – Nútíminn

Tökum kiljur til dæmis. Af útsöluverði einnar kilju mun Ríkið taka 12% í virðisaukaskatt, það eru 360 krónur af 3.000. Höfundurinn fær 15% af heildsöluverði, 300 krónur af 2.000 – og greiðir síðan að sjálfsögðu tekjuskatt af þeim 300 krónum til ríkisins. En þó að við látum vera að taka tekjuskattinn inn í myndina þá blasir það við að af hverri seldri kilju fær ríkið mun meira en höfundurinn, sem fær langminnst af öllum — forleggjari og verslun fá mun meira.

via Stefán Máni: Ríkið fær meira en höfundurinn – Nútíminn.

Jónas Sen – Óþekkir sellóleikarar og mamma þeirra

Ég heyrði strengjakvartett skilgreindan á eftirfarandi hátt á sunnudagskvöldið: Fyrsta fiðlan er góði fiðluleikarinn, önnur fiðlan er lélegi fiðluleikarinn og víólan er fyrrverandi fiðluleikarinn. Sellóleikarinn er hins vegar maðurinn sem hatar fiðluleikarana.

Það var listrænn stjórnandi Rastrelli sellókvartettsins sem komst svo að orði á tónleikum í Listasafni Íslands á sunnudagskvöldið. Samkvæmt skilgreiningunni samanstóð kvartettinn þar af fjórum mönnum sem þola ekki fiðluleikara. Ástæðan fyrir hatrinu er sú að fiðluleikarar fá alltaf að spila safaríku melódíurnar á sinfóníutónleikum. Sellóin eru oftast í leiðinlega undirleikshlutverkinu. Það er óþolandi.

via Vísir – Óþekkir sellóleikarar og mamma þeirra.

Það hætti að næða um sálarholuna | viðtal við Orra Harðarson

Ertu introvert?

„Já. Það stóð mér stundum fyrir þrifum. Árið 2005 gerði ég t.d. sólóplötu sem tilnefnd var sem plata ársins á Íslensku tónlistarverðlaunum. Og þá hélt ég ekki einu sinni útgáfutónleika. Menn sem kjósa að sitja hjá með slíkum hætti, þrífast einfaldlega ekki á svo litlum markaði. Þá gildir einu hversu góða dóma maður fær. Kannski fór ég öðrum þræði að skrifa til að losna við þessa framkomupressu sem ævinlega fylgdi á tónlistarferlinum. Ég ímynda mér allavega að bókabransinn hafi svolítið meira umburðalyndi gagnvart intróvertum. Gyrðir Elíasson er allavega ekki mikið að þvælast á milli mötuneyta til að lesa upp úr verkum sínum, held ég.“

via Það hætti að næða um sálarholuna | Akureyri.net.

Okkar eigin: Tapio Koivukari

„Það má taka eina litla smásögu úr stærra verki eins og skáldsögu og gera heilt leikrit um þá persónu eða atburði. Og það verður einnig að fylgja öðrum reglum í leikhúsinu, hvort sem það er frásagnarlistin sem nýtur sín í gegnum sögumann eða að samtöl á milli persóna sem drífa framvinduna áfram,” segir Tapio Koivukari rithöfundur og skáld sem Ísfirðingum er góðu kunnur. Hann flytur opnunarerindi höfundasmiðjunnar Okkar eigin, í sal Listaskóla Rögnvaldar Ólafssonar í Edinborgarhúsinu kl. 21 á föstudagskvöld. Einnig verða smiðjurnar kynntar, en þær fara fram í Samkomuhúsinu á Flateyri um helgina og næstu helgar.

via BB.is – Frétt.

NÝ FRÉTT: “Salóme” besta heimildamyndin á Nordisk Panorama | Klapptré

Heimildamyndin Salóme eftir Yrsu Rocu Fannberg hlaut aðalverðlaun Nordisk Panorama hátíðarinnar nú rétt í þessu. Myndin hlaut einnig áhorfendaverðlaun Skjaldborgarhátíðarinnar sem fram fór í vor og verður sýnd í Bíó Paradís í nóvember.

Þetta er í fyrsta sinn sem íslensk kvikmynd sigrar í flokki heimildamynda á Nordisk Panorama.

via NÝ FRÉTT: “Salóme” besta heimildamyndin á Nordisk Panorama | Klapptré.

Verk eftir Svavar sögð fölsuð – mbl.is

Lög­regl­an í Kaup­manna­höfn lagði í morg­un hald á tvö mál­verk sem til stóð að selja á upp­boði hjá upp­boðshúsi Bru­un Rasmus­sen í dag. Grun­ur leik­ur á að verk­in séu fölsuð, en þau er sögð vera eft­ir lista­mann­inn Svavar Guðna­son (1909-1990)

Ólaf­ur Ingi Jóns­son mál­verka­for­vörður lagði fyrr í þess­um mánuði kæru til embætt­is sér­staks sak­sókn­ara vegna fyr­ir­hugaðs upp­boðs.

via Verk eftir Svavar sögð fölsuð – mbl.is.

Viðskiptablaðið – Bókaflækjur Illuga

Það kom lítið á óvart að Félag bókagerðarmanna skyldi mótmæla hækkun á virðisaukaskatti á bókum á dögunum. Þetta er hluti af einföldun ríkisstjórnarinnar á skattkerfinu og virðisaukaskattur fer úr 7 prósentum í 12. Bók sem kostar í dag 4.000 krónur með 7 prósenta virðisaukaskatti mun hækka í 4.187. Þetta er því hækkun upp á 187 krónur. Bókaútgáfan er vissulega mikilvæg og íslenskar bækur eru dýrar. Það skýrist þó að litlum hluta af virðisaukaskatti og verðhækkunin er í raun ekki veruleg. Það eru hlutir eins og lítill markaður og fjöldi útgefinna bóka sem skýra þetta háa verð á bókum. Því er hins vegar erfitt að breyta nema við náum að ættleiða alla þessa krúttlegu ferðamenn sem hingað koma.

via Viðskiptablaðið – Bókaflækjur Illuga.

Pétur Gunnarsson – Hláleg saga

Nú þegar enn einn ganginn upphefst orðræða um bókaskattinn er vert að rifja upp sögu sem helst má ekki gleymast. Það var árið 1990. Íslensk bókaútgáfa var að sligast undan 25% skatti á bækur, þeim hæsta á byggðu bóli. Þeir sem létu sig bókaútgáfu varða með rithöfunda í broddi fylkingar voru óþreytandi að vekja athygli á þeirri mótsögn að minnsti bókamarkaður veraldar skyldi búa við hæstu skattlagningu í heimi. Í miðri þeirri orrahríð barst liðstyrkur sem um munaði: Landsfundur Sjálfstæðisflokksins sendi frá sér ályktun þar sem skattinum var mótmælt og lagt til afnám hans (en fjármálaráðherra þá var Ólafur Ragnar Grímsson).

via Vísir – Hláleg saga.

“Vonarstræti” framlag Íslands til Óskarsverðlauna | Klapptré

Meðlimir Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar hafa valið kvikmyndina Vonarstræti sem framlag Íslands til Óskarsverðlauna á næsta ári.

Vonarstræti hlaut meirihluta atkvæða akademíumeðlima en kosningu lauk á miðnætti í gær. Kosningin fór fram rafrænt og kosið var á milli þeirra fjögurra íslensku kvikmynda sem uppfylltu það skilyrði Bandarísku kvikmyndaakademíunnar að hafa verið frumsýndar á tímabilinu 1. október 2013 til 30. september 2014.

via “Vonarstræti” framlag Íslands til Óskarsverðlauna | Klapptré.

Haukur Viðar Alfreðsson – Ástarjátning

Ég elska nefnilega líka uppfyllingarefnið. Lögin sem lyfta bestu lögunum upp á enn hærra plan. Prófaðu að hlusta á safnplötu með hljómsveit sem á ógrynni af frábærum lögum. Stundum verður það hreinlega of mikið. Svona eins og að smyrja Nutella ofan á Lindubuff (ég hef ekki gert það, ég lofa). Ég þarf tíma til að ná áttum eftir lag eins og Blackened með Metallica. Þá er fínt að dotta yfir einhverju miðjumoði í smástund.

via Vísir – Ástarjátning.

Ágúst Guðmundsson | Frelsi til að taka eigur annarra

Í onálag hefur myndin verið sett á ólöglegar vefsíður þar sem henni hefur verið dreift af mikilli rausn ókeypis. Það byrjaði strax vikuna eftir að hún kom út á geisladiskum (DVD). Á sama tíma var hægt að leigja myndina hjá bæði Skjánum og Vodafone fyrir nokkra hundraðkalla, en samt sáu nokkur þúsund manns sér hag í að hlaða henni niður ólöglega.

Nú eru við völd stjórnmálaöfl sem almennt gera eignarréttinum hátt undir höfði. Á því er þessi eina undantekning: það má stela kvikmyndum og tónlist. Er nú ekki kominn tími til að gera eitthvað í þessu? Öll viljum við frelsi til sem flestra hluta, en hingað til höfum við ekki samþykkt frelsi til lögbrota.

via Vísir – Frelsi til að taka eigur annarra.

Útblásin egó – Helgi Ingólfsson um Harry Quebert

Minnir þetta á eitthvað? Það er nánast eins og Dicker hafi tekið tvö verk og slengt þeim saman: Annars vegar sjónvarpsþættina Twin Peaks (1990-91) þar sem morð á unglingsstúlku skók bandarískan smábæ og hjá öllum bæjarbúum lá fiskur undir steini, og hins vegar Uns sekt er sönnuð eða Presumed Innocent (1987), ágæta bók Scott Turow, sem einnig var gerð kvikmynd úr árið 1990. Dicker er fæddur 1985 og tilheyrir því kynslóð, sem vart þekkti þessi verk á sínum tíma; kannski hefur hann fundið þau í gamla vídeóspólusafninu sem foreldrar hans ætluðu að henda. Reyndar hefur hann víst sagt í viðtölum að hann hafi ekki séð Twin Peaks – þættina fyrr en farið var að benda á líkindi þeirra við bók hans, en alltént fékk ég sem lesandi á tilfinninguna að Sannleikurinn um mál Harrys Quebert sé byggður á efni sem ég hef séð í skrilljón amerískum bíómyndum og who-dun-it þáttum í anda ofangreindra verka.

via Útblásin egó – helgi-ingolfsson.blog.is.

Landsbyggðin með augum borgarbúa

Okkur finnst það ákveðið vandamál að leikrit og bíómyndir um landsbyggðina skuli alltaf vera eftir einhverja borgarbúa,“ segir Arnaldur Máni Finnsson, umsjónarmaður verkefnisins.

„Svo eru leikfélögin á landsbyggðinni alltaf að setja upp einhverja farsa til þess að hafa gaman af því að vera í leikfélagi. Fæst áhugamannafélögin ráðast í það að skrifa leikritin sjálf, eða fá einhvern til þess. Þannig að hugmyndin að baki þessu námskeiði er að fólkið sem hér býr fái hvatningu af því að vinna með fagfólki og verði opið fyrir því að vinna verkin frá grunni sjálft.“

via Vísir – Höfundasmiðja í kvikmyndabæ.

Gulli Briem leggur kjuðunum um sinn

„Það er mjög ólíkt að tjá sig með röddinni og píanói eða trommusetti. Það væri ekki möguleiki í Mezzoforte því það eru aðrar leikreglur sem gilda þar. Mér finnst hins vegar nauðsynlegt á þessum tímapunkti að fara út fyrir þægindahringinn og sjá hvað ég kemst langt án þess að brotna. Þessa dagana reyni ég að ögra sjálfum mér alveg stöðugt, hvort sem það er að spila á trommur, semja nýja tónlist eða gefa út disk,“ útskýrir Gulli.

via Vísir – Gulli Briem leggur kjuðunum um sinn.

Gagnrýnendur ekki lengur sömu sannleiksvélarnar – Huldar Breiðfjörð

„Það hafa orðið miklar breytingar á þessu gagnrýnendalandslagi. Einu sinni var þetta þannig að það var einn krítíker á Mogganum og einn á DV og þeir voru einhvers konar sannleiksvélar. En núna er umræðan allt í kringum mann og úti um allt. Alveg jafn sterk á Facebook og í fjölmiðlum. Ég er eiginlega að upplifa í fyrsta skipti hversu breið og lýðræðisleg hún er orðin. En það er kannski munur á þegar kemur að bíói og bókum. Gagnrýnandinn er lengi vel sá eini sem hefur lesið bókina þegar krítíkin hans birtist og því er rödd hans mjög sterk. En þegar kemur að bíómynd er gagnrýnandinn bara einn af mörg þúsund manns sem hafa líka séð myndina þegar dómur hans birtist.“

Spjallað við Huldar Breiðfjörð via Gagnrýnendur ekki lengur sömu sannleiksvélarnar – DV.

Sindri Freysson: Leikur að eldvörpu í bókaherberginu « Eyjan

Virðisaukaskattur á bækur í ESB löndunum 27 er er að meðaltali 7,83% en í Suður-Ameríku er hann enn lægri, eða 1,94% að meðaltali. Í Norður-Ameríku er enginn vaskur á bókum í Kanada. Flækjustigið í skattheimtu er hærra í Bandaríkjunum þar sem hún er mismunandi á milli ríkja, en söluskattar á vörur þar er 6,9% að meðaltali. Bretar, Írar, Norðmenn og Úkraínumenn leggja engan virðisaukaskatt á bækur.

4.

Lýst er eftir íslenskri menningarpólitík til langs tíma. Að frátöldum rekstri nokkurra veigamikilla menningarstofnana eru helstu afskipti ríkisins af íslenskri menningu þau „að búa í haginn fyrir starf sem aðrir eiga frumkvæði að og stuðla að því eftir föngum að slíkt frumkvæði fái notið sín,“ einsog segir í skýrslu menntamálaráðuneytis um menningarmál frá árinu 2006.  En á sama hátt og ríkisvaldið getur búið í haginn fyrir slíkt frumkvæði getur það ráðist á það og unnið á því spellvirki.

Boðuð áform um hækkun skatta á bókum er dæmi um slík skemmdarverk.

via Sindri Freysson: Leikur að eldvörpu í bókaherberginu « Eyjan.

U2: Bitið í súrt epli? | arnareggert.is

Ég var óvenjuléttur í (hljóð)spori þegar ég gekk til móts við hana, bjóst þægilega ekki við neinu (sem ég hef líklega lært af biturri reynslu) og var í alvörunni forvitinn og spenntur fyrir innihaldinu en U2 var fyrsta sveitin sem ég tók algjört æði fyrir og þessi barnslega eftirvænting rígsitur í manni . Eitt af því fyrsta sem ég tók eftir voru textarnir. Tal um að platan sé persónuleg er ekkert gaspur út í loftið, lögin fjalla m.a. um móður Bono, stríðið í Írlandi, æskuárin í Dyflinni og fleira. Bono nær góðu heilli að snara upp sæmilegustu línum í þessum lögum og hann syngur af ákefð og einlægni. Hann stendur sig vel þar.

Arnar Eggert skrifar um umdeildustu plötu ársins via U2: Bitið í súrt epli? | arnareggert.is.

Eiríkur Bergmann um Síðasta elskhugann

Þetta eru miklar bar- og kvennafarssögur. Á að því leyti heima í mikilli flóru íslenskra samtímasagna sem fjalla um einhleypa reykvíska karla í tilvistarkreppu upp úr þrítugu. Hvað eru þær eiginlega orðnar margar, þess efnis bækur og bíó? Þurfa virkilega allir höfundarnir okkar að endurskrifa Hlyn Björn? Hallgrímur gerði það ágætlega á sínum tíma og kannski óþarfi að endurtaka hann stöðugt.

En þetta ekki bara svoleiðis saga. Síðasti elskhuginn er líka alvöru ástarsaga og töktug glíma við lífið.

via Umræða – Blogg – DV.

Mótmæla hækkun virðisaukaskatts á bækur

„Bókaútgáfa er undirstaða þess að íslensk tunga þróist og dafni og því þarf að standa vörð um útgáfu og dreifingu bóka á íslensku. Hækkun útsöluverðs bóka eykur námskostnað framhaldsskólanema og slælegar niðurstöður grunnskólabarna í alþjóðlegum lestrarkönnunum hræða. Hækkun útsöluverðs bóka verður auk þess trauðla til þess að fjölga þeim sem lesa sér til gagns eða auka málkennd,“ segir í ályktun félagsins vegna hækkun virðisaukaskatts á bækur. Segja þeir hækkunina veikja markaðsstöðu bókarinnar og draga væntanlega úr sölu hennar. Í kjölfarið kunni bókatitlum sem gefnir verða út á Íslandi að fækka.

via Vísir – Mótmæla hækkun virðisaukaskatts á bækur.

Bryndís Loftsdóttir um Línu Langsokk

Leikgerðin er unnin upp úr sögum úr fyrstu Línu bókinni, sem jafnframt er sú besta. Þýðing handritsins er í höndum Þórarins Eldjárns, en til marks um hve íhaldssamir okkar yngstu áhorfendur geta verið þá snéri 6 ára dóttir mín sér að mér í miðju leikritsins til að tilkynna mér að leikurinn sem Lína bjó til héti „gripasöfnun“ en ekki „hlutaleit“. Hún áleit einfaldlega að leikararnir hefðu ruglast eitthvað enda vön textanum úr bókunum..  Nútíma viðhorf hefur svo líklega ráðið því að Langsokkur skipstjóri er nú orðinn sjóræningi í stað svertingjakóngs og prinsessutign Línu því væntanlega fokin út í veður og vind. Allt situr þetta svolítið í manni og sýnir kannski hvernig upprunaleg þýðing bókanna hefur áunnið sér gildi frumtexta meðal unnenda verksins hér á landi. En þýðing Þórarins rann einkar vel eins og við var að búast. Ég er þó ekki frá því að hægt væri að vinna betri leikgerð upp úr bernskuminningum Línu, en ef til vill fæst ekki leyfi til slíkrar sköpunar frá sænskum rétthöfum.

via Pressan.is.

Skrifar bíómynd um æsilega ævi heimspekings – DV

„Ég heyrði fyrst um hann sem unglingur þegar ég las grein um hann í Lesbókinni. Þegar ég fór síðan í heimspeki við Háskóla Íslands óx áhugi minn á honum. Þótt ég hafi vitað af Wittgenstein og stórkostlegri ævi hans í næstum 20 ár var það ekki fyrr en fyrir svona 2 til 3 árum sem ég fékk fyrst þá hugmynd að líf hans væri alveg svakalega flott efni sem bíómynd,“ segir Óttar.

via Skrifar bíómynd um æsilega ævi heimspekings – DV.

Guðmundur Andri: Lexusar og lesuxar

Fjárlagafrumvarpið sýnir afdráttarlausar hugmyndir um verðugar tekjulindir: Gjöld verða lækkuð á Lexusum en hækkuð á lestri. Stefnt er að því að Íslendingar hætti að vera lestrarhestar og verði að lesuxum. Ekki verður hætt að þjarma að bókaútgáfu á Íslandi fyrr en hvítbókin hans Illuga Gunnarsson er eina bókin sem verður eftir í landinu – með hvítum og alauðum blaðsíðum.

via Vísir – Lexusar og lesuxar.

Fjárlagafrumvarpið vonbrigði fyrir kvikmyndagerðamenn – DV

En hefur þjóðin efni á því að vera að nota skattana sína í slíka lúxusvöru? Af hverju mega lögmál markaðarins ekki ráða í kvikmyndaiðnaðinum?

,,Við erum á málsvæði sem er 320 þúsund manna og þar af leiðandi er mjög lítill fjöldi mögulegra neytenda. Það er mjög dýrt að gera kvikmynd, það er risaverkefni sem tugir ef ekki hundruð manna koma að. Þetta er dýrt listform og ef að stóru Evrópulöndin, eins og Frakkland og Þýskaland, sem telja 60 til 90 milljónir manna, hafa komist að þeirri niðurstöðu að þau geta ekki gert kvikmyndir á eigin tungumáli án opinberrar þátttöku, þá hlýtur það að segja sig sjálft að við getum ekki gert það hérna heima. Jú, jú, það er auðvelt að segja að við eigum að láta markaðinn ráða en ef við viljum gera kvikmyndir á íslensku þá þarf að koma til opinbert framlag. Þá ertu komin í menninguna, tungumálið, hvað kostar okkur að halda þessu tungumáli? Þá getur þú farið að ræða um það: viljum við halda þessu tungumáli, hvers virði er tungumálið? Þá erum við komin út í þessa umræðu.“

via Fjárlagafrumvarpið vonbrigði fyrir kvikmyndagerðamenn – DV.

„Ég hef ekki fengið ritlaun í 30 ár. Það á sér e.t.v. skýringu: Ég er maður með fortíð“ – DV

„Ég hef ekki fengið ritlaun í 30 ár. Það á sér e.tv. skýringu: Ég er maður með fortíð. Það þykir e.tv. ekki verjandi að upphefja á nokkurn hátt mann sem hefur orðið öðrum manni að bana, þykir auk þess tillitslaust gagnvart aðstandendum hins myrta.“ Þetta segir ljóðskáldið og myndlistarmaðurinn Bjarni Bernharður Bjarnason á Facebook-síðu sinni í gær en Bjarni segist hafa gert skyldu sína um daginn og sótt um ritlaun til launasjóðs rithöfunda.

via „Ég hef ekki fengið ritlaun í 30 ár. Það á sér e.t.v. skýringu: Ég er maður með fortíð“ – DV.

Listasafn fátæka mannsins – DV

Aðgangur að Listasafni Reykjavíkur er 1.200 krónur, aðgangur að Listasafni Íslands er 1.000 krónur, en aðgangur að Listasafni fátæka mannsins er ókeypis. Í ­galleríum og opinberum söfnum getur maður litið tugi listmuna augum, en á götum Reykjavíkurborgar eru þúsundir verka eftir hundruð íslenskra og erlendra listamanna til sýnis dag hvern. Það væri lífsverkefni að gera tæmandi lista yfir öll þau stóru og smáu verk sem er að finna í bænum þessa stundina, en DV býður upp á kort sem ­sýnir nokkur áhugaverð og áberandi götulistaverk í og í kringum miðborg Reykjavíkur.

via Listasafn fátæka mannsins – DV.

Tímasprengja Bjarna Bernharðs – Karolina Fund

Bjarni Bernharður skrifar:

„Góðir hálsar. Ég stend frammi fyrir því mikla verkefni að hleypa af stokkunum 232 blaðsíðna ljóðaúrvali, myndskreytt með málverkum mínum. Ég hef lagt mig í líma við standa vel að verkinu, velja ljóð og myndir af kostgæfni. Ljóðið er fagurt bókmenntaform og á erindi til allra. Það er löng hefð fyrir ljóðlistinni á Íslandi – allt frá söguöld. Í dag, sem fyrr, er mikil vakning meðal ungs fólks fyrir ljóðinu – og því ber að fagna. Víst hefur ljóðið tekið breytingum að forminu til í tímans rás, en uppsprettan er sú hin sama – hinn ljóðræni strengur í þjóðarsálinni. Skáldin sem auðga og efla menninguna með ljóðagerð eru sáðmenn morgundagsins. Lifið heil!“

Hægt er að styrkja útgáfu bókarinnar og lesa sýnishorn á heimasíðu Karolina Fund.

Vísir – Meðal fallegra, ljóshærðra kvenna

Birgir kveðst maska út allt á umslögunum nema myndirnar af ljóshærðu konunum. Það er gert með ljósum litum sem hann vinnur mikið með.

„Ég segi stundum að málverk mín séu meira hvísl en hróp,“ segir hann en bendir á að plötuumslögin séu undantekning því ljósmyndirnar eru flestar í sterkum litum.

Birgir viðurkennir að hvaða barn sem er geti málað svona meðfram ljósmynd. „Ég skal bara taka í höndina á því barni og óska því til hamingju,“ segir hann brosandi.

„Þrautin þunga er oft ekki að gera hlutinn heldur að koma honum í eitthvert samhengi og fá hann sýndan sem myndlist og viðurkenndan sem slíkan. Það getur verið grýtt leið.“

via Vísir – Meðal fallegra, ljóshærðra kvenna.

Skúli mennski listamaður í áskrift – Karolina Fund

Skúli mennski er uppalinn á Ísafirði og hóf að semja eigin lög og texta á unglingsaldri. Árið 2010 ákvað hann að gera alvöru úr sinni tónlistariðkun og beit það í sig að gefa út fimm plötur á fimm árum. Nú vantar aðeins eina uppá. Stefnan er að taka hana upp í haust, fjármagna verkefnið og koma henni út í nóvember.

Á þessum stutta tíma hefur Skúli komið fram á mörgum helstu tónlistarhátíðum á Íslandi og haldið tónleika víða um land, gefið út fjórar plötur með hljómsveit og reynt fyrir sér erlendis.

Samhliða gerð fimmtu plötunnar býður Skúli neytendum upp á þá nýjung að gerast ársáskrifendur af störfum hans. Áskriftinni fylgja auk eins lags á mánuði, dagbók með því sem helst er á döfinni, almennum vangaveltum og bransasögum og kostakjör á tónleika og af útgefnu efni.

via Skúli mennski listamaður í áskrift – Karolina Fund.

Vísir – Bækur dýrari en flatskjáir ódýrari

„Fjármálaráðherra leggur til næstum 100% hækkun á virðisaukaskatti á bækur, úr 7% í 12%. Á sama tíma á að leggja niður vörugjöld til að lækka verð á flatskjám. Þetta kallar hann að “einfalda” kerfið. Maður er bara strax orðinn einfaldari. Þetta er gert á sama tíma og uggvænlegar tölur um ólæsi unglinga blasa alls staðar við, tölur um læsi hrapa og íslensk tunga með sínum orðaforða á í vök að verjast gegn ókeypis flóði af afþreyingu, stolinni sem óstolinni. Táknrænt að nú haustar og drullupollurinn sem átti að verða Stofnun Árna Magnússonar stækkar og dýpkar.“

via Vísir – Gagnrýnir skattabreytingar: Bækur dýrari en flatskjáir ódýrari.