Skapandi skrif – fyrir kvikmyndir, sjónvarp og myndmiðla á netinu | Símenntun Háskólans á Akureyri

Á námskeiðinu er sérstaklega farið í hugmyndamat á “góðri hugmynd”, líkt og með raunhæfnismat í viðskiptum og grenndarkynningu í náttúruvernd. Að meta hugmynd vandlega leggur grunninn að góðum árangri. Þá er farið yfir muninn á að skrifa um eigin reynslu, um hugmyndir annarra eða um starfsemi sína og áhugamál, og loks undirstöðuatriði skrifa fyrir alla miðla og tæknilegan frágang á myndmiðlahandriti. Nálguninni er ætlað að skila hagnýtum lausnum fyrir alla sem vilja skrifa fyrir myndmiðla. Notast er við vídeóblogg, heimildarmyndir og leikið efni í fyrirlestri og umræðum.

via Skapandi skrif – fyrir kvikmyndir, sjónvarp og myndmiðla á netinu | Símenntun Háskólans á Akureyri.

Sviðslistakonur 50 plús með ljóðadagskrá í Iðnó | Kvennablaðið

Sviðslistakonur 50 plús hafa lagt undir sig gamla Iðnó og verða með einn mánudagsviðburð í hverjum mánuði í allan vetur. Nú er komið að október-ævintýrinu sem verður ljóðaflutningur mánudagskvöldið 13. október kl 20.00.

Þær sviðslistakonur sem ríða á vaðið eru þær Vilborg Halldórsdóttir, Þórunn Magnea Magnúsdóttir og Guðlaug María Bjarnadóttir. Ljóðin sem þær flytja verða flutt með dramatískri snerpu við fiðluundirleik.

via Sviðslistakonur 50 plús með ljóðadagskrá í Iðnó | Kvennablaðið.

Jónas Sen: Óskapnaður, en líka flottheit

Þremenningarnir horfðu einbeittir á skjáinn og spiluðu eftir fyrirmælum sem þar greinilega birtust. Nú sáu tónleikagestir ekki það sem var í tölvunni, ólíkt því sem gjarnan hefur tíðkast á fyrri tónleikum, þegar tölvuskjánum hefur verið brugðið upp á vegg. En það sem hér heyrðist var ósköp svipað og maður hefur áður upplifað. Engin spennandi framvinda var merkjanleg, engin áhugaverð áferð, engar andstæður, engir litir. Tónlistin var fyrst og fremst óskapnaður sem risti ekki djúpt.

Mun betri voru tvær tónsmíðar eftir Hafdísi Bjarnadóttur, Sólheimajökull og Dettifoss.

via Vísir – Óskapnaður, en líka flottheit.

Steinar Bragi: Eðlilegt að vilja drepa gerandann

Félagslegu skilaboðin í Kötu eru kristaltær. „Þegar kerfið bregst verður einstaklingurinn að grípa til sinna ráða. Það hefur ríkt gríðarleg óánægja með framgang mála sem varða kynferðisofbeldi. Ekki bara að dómarnir séu vægir heldur hvað sönnunarbyrðin er ofboðslega ströng. Eða eins og Kata segir í bókinni: Sönnunarbyrðin í kynferðisofbeldismálum hlýtur að vera strangari en í eðlisfræðirannsóknum. Sumum dómurum virðist bara aldrei vera hægt að sýna fram á nauðgun.

via Vísir – Eðlilegt að vilja drepa gerandann.

Faðir Modiano svo óánægður með bók sonarins að hann reyndi að kaupa öll eintökin

Í gegnum tengsl sín við rithöfundinn Raymond Queneau fékk hann tækifæri á samning við Gallimard-bókaútgáfuna snemma á tvítugsaldri. Fyrsta skáldsagan, La Place de l’Etoile, kom út árið 1968, þegar Patrick Modiano var 23 ára. Bókin fjallar um gyðing sem starfaði með nasistum í stríðinu. Sagan segir að faðir Modiano hafi verið svo óánægður með bókina að hann hafi reynt að kaupa öll eintökin.

Síðan þá hefur rithöfundurinn gefið út tæplega 30 skáldsögur. Þema bókanna er yfirleitt svipað: hernám nasista, gyðingdómur, sjálfsmynd og ranghalar minnisins, fólk sem þarf að blekkja og fela sitt raunverulega andlit til að lifa af.

[…]

Engin bók eftir Modiano hefur komið út á íslensku, en Hulda Konráðsdóttir vann þýðingu að bókinni Rue des Boutiques Obscure, eða Gata hinna dimmu búða, sem lokaverkefni úr BA-námi í frönsku frá Háskóla Íslands árið 1988. Sú þýðing hefur aldrei komið út á bók. Hulda segist hafa gert einhverjar tilraunir til að fá hana útgefna á sínum tíma. Hún segir ekkert bókaforlag hafa komið að máli við sig í kjölfar fréttanna.

via Frakkinn sem kom öllum á óvart – DV.

Vísir – Gagnrýnir bók bróður síns harðlega

Systir Sævars Poetrix gagnrýnir frásögn bróður síns í væntanlegri bók harðlega. „Ég myndi fúslega viðurkenna þetta allt saman ef þetta væri satt, en samviskan mín tekur hér við og segir stopp,“ skrifar Supriya Sunneva Kolandavelu á Facebook-síðu sína. Sævar birti brot úr bókinni á Facebook í vikunni en í henni fjallar hann um stormasama æsku.

Fjallað var um bókarbrotið á Vísi í gær þar sem rætt var við Sævar sem sagðist hafa fengið góðar viðtökur við kaflanum. „Fólk hefur aðallega verið mjög jákvætt og mjög snortið yfir þessu,“ sagði hann. „Sannleikurinn er auðveldasta leiðin til að lifa. Ætli þetta hafi ekki bara verið spurning um að deyja eða frelsa sjálfan sig.“

via Vísir – Gagnrýnir bók bróður síns harðlega.

Myndlistarsjóður í hættu | RÚV

Árið 2012 var stofnaður með lögum sérstakur myndlistarsjóður með það að markmiði að auðvelda þeim sem vinna við myndlist að koma metnaðarfullum verkefnum í framkvæmd. Á síðasta ári drógust fjárveitingar saman úr 45 milljónum í 25 milljónir og nú stendur til að skerða sjóðinn enn frekar.

Ef fer sem horfir í fjárlögum verður framlag til 15 milljónir, það er að segja, einungis þriðjungur af því sem sjóðurinn hafði úr að moða í upphafi og nú velta menn fyrir sér hvort sjóðurinn geti staðið undir lögbundnum skyldum sínum undir þessum kringumstæðum.

Rætt við Hlyn Helgason í Víðsjá via Myndlistarsjóður í hættu | RÚV.

Gagnrýni | Afinn | Klapptré

Kvikmyndagerðinni í Afanum er best lýst sem viðunandi. Það er ekkert sem sker sig úr við hana, hvorki á slæman né góðan hátt. Þessi mynd er gerð af mönnum sem vita hvað þeir eru að gera en um leið vantar allan karakter og stíl og fyrir vikið er myndin óttalega þurr og bragðlítil. Það á eiginlega við um myndina í heild sinni líka. Það eru ágætis pælingar í henni og áhugavert hvað hún er að reyna að gera en framkvæmdin er máttlaus og óspennandi.

via Gagnrýni | Afinn | Klapptré.

Gagnrýni um gagnrýni – bergthoraga.blog.is

Umfjöllunin í upphafi þáttarins um nýjar bækur var ekki boðleg. Gagnrýnendurnir og þáttastjórnandi töluðu niður til höfundanna og ég sat eftir með tilfinninguna að þeim hefði leiðst lesturinn. Það hvarflaði jafnvel að mér að þeim leiddist oft að lesa bækur, því nú er orðinn til frasinn, að frásögnin þurfi að vera á þann hátt að lesandinn nenni að fletta. Þáttastjórnandi greip allt of oft inn í tal viðmælenda sinna, það var eins og allir væru í tímaþröng.

Þátturinn lyftist þó  allur þegar fjallað var um Þórarin Eldjárn.

via Gagnrýni um gagnrýni – bergthoraga.blog.is.

Furður í Reykjavík: Goðsögur, oríentalismi, kynhlutverk

Hvernig birtast kynhlutverk í hinum ýmsu furðusagnagreinum, t.a.m. fantasíum og vísindaskáldskap? Hvernig birtast menningarheimar í vestrænum furðusögum? Hvernig nýtast goðsögur, þjóðsögur og mannkynssagan í furðusköpun?

Í öðrum fyrirlestri sínum um furðusögur ræðir Emil Hjörvar Petersen um virkni furðunnar sem skáldskapartæki, hvernig þemu og hlutverk mótast út frá frásagnarhættinum og öfugt. Auk þess fjallar hann um það hvernig staðreyndum er breytt í skáldskap og hvernig hliðarheimar kallast á við veruleikann.

via Furður í Reykjavík – fyrirlestur II.

Ósáttur hljóðbókaunnandi tekur málin í eigin hendur – DV

„Á Íslandi hefur alltaf verið litið á þetta sem einhverja aumingjaþjónustu fyrir blinda, ekki eitthvað sem ætti að gefa, það sé jafnvel móðgun eins og þiggjandinn geti ekki lesið. Erlendis er bara litið á þetta sem eitt form afþreyingar.“ Sjálfur segist Kristján hlusta mikið á hljóðbækur; í símanum, bílnum og í gegnum Spotify.

„Mig langar að sýna að það er hægt að gera þetta á hátt sem kostar bara núll krónur,“ útskýrir Kristján, en erlendis er mikið um að fólk taki sig til og lesi bækur inn á netið.

via Ósáttur hljóðbókaunnandi tekur málin í eigin hendur – DV.

Frí saga | Nestisboxið | Bókmenntaborgin

Á Lestrarhátíð í Bókmenntaborg núna í október 2014 höfum við tekið saman pakka með gómsætum sögum sem eru nógu stuttar til að það sé hægt lesa þær í matar- eða kaffipásunni. Þetta eru alls konar sögur eftir ólíka íslenska höfunda og við munum setja inn nýja sögu á hverjum degi út októbermánuð.

Fyrsta sagan birtist þann 1. október á upphafsdegi Lestrarhátíðar, en það var sagan Dýrið eftir Þórarinn Eldjárn.

via Nestisboxið – Bókmenntaborgin.

Proppé og Lommi – Rétturinn til að vera leiðinlegur er rétturinn til lífs

Svona orti Einar Benediktsson aldrei, enda var hann leiðinlegt skáld. Hann hefði aldrei ort um rifinn smokk, hvað þá draugrifinn, enda varð það orð aðeins til vegna stuðlasetningar. En einmitt leiðindi Einars sem skálds, tilgerðarleikinn, orðagjálfrið, gerði það að verkum að hann var á endanum huslaður í þjóðargrafreitnum. Innst inni tignum við nefnilega leiðindin, sérstaklega uppskafningsleg leiðindi. Og hvað er uppskafningslegra og leiðinlegra en óáhugaverðar upplýsingar um fótbolta? Jú, algjörlega óáhugaverðar fótboltaupplýsingar.

via Vísir – Rétturinn til að vera leiðinlegur er rétturinn til lífs.

Hvassast úti við sjóinn: Hallgerður Hallgrímsdóttir

Hvassast úti við sjóinn er rannsókn á íslenskum hversdegi. Samansafn eilífra augnablika, fjalla sem ekki gjósa, endurtekinna daga og óræðra andlita. Hinn skáldaði raunveruleiki er leikfang ljósmyndarans. Ljósmyndin er ekki svar, hún er tillaga. Þetta er samansafn tillaga. Tillaga sem sýna fast land og breytilegt, áferðir, skýjafar og svefnóra. Sýna fábrotnu kyrrðina og fólkið sem í henni býr. Við erum viðkvæm í návígi við alla þessa náttúru og ónáttúru, sem við sveipum okkur í. Eins og ekkert sé sjálfsagðara.

via Sýning Listasafn ASÍ.

Tabú og tíðarandi – Hvað má? – Bókmenntaborgin

Prófessor Dagný Kristjánsdóttir og rithöfundarnir Ole Dalgaard (Danmörk) og Mårten Melin (Svíþjóð) setja tabú í barnabókmenntum í samhengi við tíðaranda. Um hvað má fjalla í barnabókum nú til dags sem áður var tabú? Hvaða bannorð eru enn í gildi? Má merkja breytingar þar á?

Málstofa um línudans sem margir barnabókahöfundar þurfa að stíga þegar þeir fjalla um viðkvæm málefni. Málstofan fer fram á ensku.

Ráðstefnan fer fram í Norræna húsinu á laugardaginn klukkan 15.

via Tabú og tíðarandi – Hvað má? – Bókmenntaborgin.

Davíð Stefánsson: Óskar sér glöggra og nærgöngulla lesenda

Spurður hvað það sé sem hann vilji koma á framfæri í þessum sögum svarar Davíð að bragði: „Nú á ég auðvitað að segja að mitt sé að skrifa og þitt að skilja og satt best að segja held ég ekki að ég sé neitt færari um það en aðrir lesendur að segja þér hver meining sagnanna sé. Þetta eru marglaga sögur sem krefjast nokkuð gaumgæfilegs lesturs, meiningin liggur yfirleitt ekki á yfirborði þeirra. Þarna er fjallað um tilfinningar og samskipti fólks, einkum ástvina, og ef það ætti að súmmera upp eitthvert þema yrði það sennilega eitthvað á þann veg að sögurnar fjölluðu um hvað það er að vera manneskja og þurfa að hafa samskipti við aðrar manneskjur.“

via Vísir – Óskar sér glöggra og nærgöngulla lesenda.

Allóvenjuleg bók um nokkuð venjulega hluti | RÚV

Frásagnarhátturinn er vissulega óvenjulegur, sögumenn eru ýmsir, frásögnin er stundum í þriðju persónu, fyrstu persónu fleirtölu og jafnvel í annarri persónu eintölu og er þá lesandi ávarpaður sem tiltekinn karakter í sögunni, sem er sérstakt, en gengur skemmtilega upp í því samhengi sem höfundur hefur skapað. Hann, Sverrir Norland, skýtur líka upp kolli undir eigin nafni. Lesandinn verður reyndar að semja snemma við höfundinn um að taka þátt í frásagnarleikjum hans, því þeir útiloka „gjörsamlega“ raunsæjan lestur á verkinu og það er ágætur díll, verð ég að segja, því hann lofar að fjalla á ófyrirsjáanlegan hátt um býsna fyrirsjáanlega hluti, því það er nú eins og maður veit á miðjum aldri, fátt fyrirsjáanlegra en gerðir og þarfir ungs fólks sem alltaf hefur haldið að heimurinn sé nýr af því það er sjálft nýtt.

via Allóvenjuleg bók um nokkuð venjulega hluti | RÚV.

Jón Kalman orðaður við Nóbelsverðlaun | RÚV

Samkvæmt frétt í ítalska blaðinu Cronache del Garantista eftir ítalska blaðamanninn Paolo di Paolo hefur nafn Jóns Kalmans Stefánssonar verið nefnt í tengslum við Nóbelsverðlaunin í bókmenntum.

Þríleikur Jóns Himnaríki og helvíti, Harmur englanna og Hjarta mannsins hefur verið þýddur á ítölsku og vakið athygli fyrir skarpa afhjúpun á mannlegu eðli.

via Jón Kalman orðaður við Nóbelsverðlaun | RÚV.

Hin nýja einlægni – DV

Hún segir það vera spennandi hóp skálda sem muni stíga á svið í Mengi. „Það verður gaman að heyra þau öll saman, þá getur maður skoðað hvort það sé einhver stefna í gangi sem tengir okkur. Því þetta eru samtíðarverk algjörlega.“ Hún segir að þegar maður lifi í hringiðu senunnar sé erfitt greina hvaða hugmynda- eða tískustraumar eru ríkjandi meðal þessarar kynslóðar skálda. „Mér fannst kaldhæðnin svolítið einkennandi fyrir Nýhil-kynslóðina en ég held að við séum klárlega komin frá því og það er einhver einlægni í gangi. Það er það eina sem ég hef skynjað sem tengir okkur, en það er ekki bara í ljóðlist heldur líka í bókmenntum og allri list þessa dagana.“

via Hin nýja einlægni – DV.

Cli-fi! – bókaumfjöllun | Grugg

Það má deila um hvort það er til marks um firringu mannkyns eða seiglu, en hvar sem mannskepnur fyrirfinnast hafa þær frá örófi alda gert sér mat úr hörmungum. Frá Sturlungavígum til heimsstyrjalda hefur listafólk fundið sköpunargáfu sinni farveg í frásögnum, tónlist og lýsingum sem er ýmist ætlað að skemmta, hrífa eða hvetja fólk til dáða. Skáldin hafa ekki farið varhuga af aðdráttarafli hörmunganna og í heimi bókmenntanna spila loftslagsbreytingar og umhverfisvandamál nú um stundir stóra rullu. Þetta sést kannski best á því að sá angi hans sem gefur sig að umhverfishörmungum er nú álitinn sérgrein og hefur fengið titilinn climate fiction, eða cli-fi. Innan cli-fi leynast bæði gullmolar og afleit verk og við báðum jaðrakaninn, sem er bæði víðlesinn og margfróður, að leggja mat á nokkur áhugaverð verk.

via Cli-fi! – bókaumfjöllun | Grugg.

Friðrika Benónýs: Amma dreki og vaskurinn

Barnabókahöfundar hafa lengi kvartað undan því að þeir, eða reyndar í flestum tilfellum þær, njóti ekki sömu virðingar og sitji ekki við sama borð í launum og höfundar fullorðinsbóka. Sé bókmenntaforkólfum alvara með því að berjast gegn ólæsi og áhugaleysi barna á bókmenntum hlýtur að vera forgangsatriði að leiðrétta það. Annars er verið að byrja á öfugum enda.

via Vísir – Amma dreki og vaskurinn.

Konur í tónlist búa við kerfisvillu sem hægt er að lagfæra | arnareggert.is

Þannig gekk fyrir stuttu áskorun manna á milli á Fésbókinni um að nefna tíu plötur sem hefðu haft áhrif á líf þeirra. Ísland er það lítið samfélag að á nokkrum dögum var eins og allir og amma þín líka væru búnir að gera slíkan lista. Í miðjum látunum bar á kvörtunum um að þetta væru eingöngu strákar að tala um strákahljómsveitir og var það hárrétt ábending. Fyrir rælni sá ég svo á „vegg“ vinar míns að vinur hans hafði skorað á hann að gera kvenlægan lista. Ég reigðist aftur við þetta, fannst þetta spennandi og um leið þarft samfélagslegt útspil. Ég henti óðar í slíkan lista, skoraði svo á fleiri kynbræður að gera slíkt hið sama og keðjan er orðin sæmilega löng þegar þetta er ritað.

Það sem er afhjúpandi við þetta tiltæki er að enginn þeirra, sem settu saman lista, átti í neinum vandræðum með það. Ef eitthvað er báðust menn fyrirgefningar á því að þurfa að sleppa út fjöldanum öllum af snillingum. Þetta rennir stoðum undir þá staðreynd að það er ekki vöntun á kvenfólki í tónlist sem er vandamálið heldur ákveðin „kerfisvilla“ sem við búum við.

Arnar Eggert Thoroddsen skrifar via Konur í tónlist búa við kerfisvillu sem hægt er að lagfæra | arnareggert.is.

Emil Hjörvar: Skrifa bara eins og ég vil

Ég hugsaði: „Þetta virkar ekki nema ég skrifi söguna sem furðusögu. Ég skrifa bara nákvæmlega eins og ég vil, ekki neinum til geðs, ég leyfi öllu því sem ég hef áhuga á að flæða í gegn. Útgefendur eiga eflaust ekki eftir að vilja að taka neinn séns með þetta, ég veit það, engin hefð er hérna fyrir svona bókum, en ég verð að segja þessa sögu og ég verð að segja hana algjörlega á mínum forsendum. Sjáum hvernig það gengur.“

via „Ævintýri og furðuheimar voru mér alltaf ofarlega í huga“ – Viðtal við Emil Hjörvar Petersen | Nörd Norðursins.

Karlafræðarinn : TMM

Auðvitað skiptir leikur öllu máli í svona verki og þeir Jóhann og Hilmar kunna list samleiksins vel. Þeir fengu fína æfingu í samhæfingu í Rauðu eftir John Logan í Borgarleikhúsinu í hittifyrra og virkilega smekklegt af leikhússtjóra að leyfa þeim að láta reyna á samvinnuna aftur. Hilmar dregur upp skýra mynd af Tómasi, góðum dreng en dálítið ráðvilltum, en gefur líka í skyn að ekki fáum við að vita allt um manninn á einu kvöldi. Í honum búi meira en við fáum að sjá enda hefur hann framtíðina fyrir sér. Jóhann er gegnheill í hlutverki Gunnlaugs; við þekkjum þennan mann inn úr, með öllum kostum hans og göllum. Jóhann nýtur þess í hlutverkinu hvað hann getur óendanlega mikið sem leikari og það er nautn að horfa á hann túlka þennan mann.

Silja Aðalsteinsdóttir skrifar via Karlafræðarinn : TMM.

Hlynur Helgason: Myndlist – vannýtt auðlind

Við stöndum okkur bærilega í því að styrkja kjarna myndlistarlífsins með listamannalaunum. Hins vegar skortir verulega leiðir til að koma starfi myndlistarmanna á framfæri. Sýnileiki listarinnar hér á landi gæti verið mun meiri og þar með menningarleg áhrif hennar. Þess vegna er myndlist hér á landi vannýtt auðlind; við nýtum ekki efnahagslega möguleika hennar nema að litlu leyti.

Stofnun myndlistarsjóðs fyrir þremur árum var þess vegna skynsamleg og hagkvæm aðgerð. Stefnt var að því að efla hann smátt og smátt með auknum fjárveitingum og auka þannig þjóðhagslegt gildi myndlistarstarfs til muna.

via Vísir – Myndlist – vannýtt auðlind.

RIFF á Ísafirði

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin RIFF sem haldin er ár hvert í Reykjavík mun teygja anga sína í Ísafjarðarbíó á næstu dögum. RIFF býður upp á það ferskasta í alþjóðlegri kvikmyndagerð og í ellefu daga á ári geta gestir hátíðarinnar horft á framsæknar kvikmyndir. Aðstandendur RIFF trúa því að bíó geti breytt heiminum og heimildamyndir skipa sífellt stærri sess á hátíðinni sem og leiknar myndir sem láta sig sérstaklega varða mannréttindi, lífsgæði og umhverfismál. RIFF er óháð kvikmyndahátíð sem reynir að sýna framleiðslu liðins árs, frumsýna nýjustur myndirnar og gera íslenskri stuttmyndagerð hátt undir höfði.

via BB.is – Frétt.

Furður í Reykjavík – Hvað eru furðusögur? – Bókmenntaborgin

Hver er munurinn á háfantasíu, lágfantasíu og borgarfantasíu? Hvað er gufupönk? En hamfarasaga? Emil Hjörvar Petersen, rithöfundur og bókmenntafræðingur, fjallar um furðusögur frá ýmsum sjónarhornum, fræðir okkur um greinar og undirgreinar þeirra, erlendar jafnt sem íslenskar. Hann ræðir tungutak íslenskunnar í furðusögum og möguleikana sem furðan hefur hér á landi.

Fyrirlesturinn er sá fyrsti af þremur í verkefninu Furður í Reykjavík.

Borgarbókasafn, Tryggvagötu 15 kl. 20

via Furður í Reykjavík – Hvað eru furðusögur? – Bókmenntaborgin.

Twin Peaks snýr aftur – DV

Fregnir herma að sjónvarpsþáttaröðin sígilda, Twin Peaks, snúi aftur árið 2016 og sé nú þegar í vinnslu hjá bandaríska sjónvarpsrisanum Showtime. Talsmenn Showtime vildu ekki tjá sig um málið en David Lynch og Mark Frost, heilarnir á bak við upprunalegu þættina, staðfestu þetta á Twitter fyrr í dag.

David Lynch mun leikstýra. Ekkert hefur þó heyrst um hverjir fari með aðalhlutverk.

via Twin Peaks snýr aftur – DV.

Illugi Gunnarsson: Betra læsi árið 2000, en hærri VSK

„Ég hef heyrt þessa umræðu og hún er skiljanleg. Ég vil þó benda á að það er varhugavert að draga of miklar ályktanir um samband á milli læsis og virðisaukaskattskerfisins. Ef við skoðum t.d. niðurstöðuna árið 2000 þá er hún mun betri en hún var núna síðast. En þó var það svo að þá hafði verið 14 prósenta virðisaukaskattur síðustu sjö átta ár þar á undan. Megnið af þeirri skólagöngu sem þá var hjá börnunum,“ segir Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra.

via Vísir – Varhugavert að tengja VSK á bækur við lestrarkunnáttu.

Traustur vinur kvikmyndagerðar | Jóhannes Þór Skúlason

Fjárfestingaáætlunin, og þar með þessi mörg hundruð milljóna hækkun, var ófjármagnað risakosningaloforð Samfylkingar og Vg. Það fyrsta sem ný ríkisstjórn þurfti að glíma við var að þetta kosningaloforð var ekki í neinu sambandi við raunveruleikann í ríkisfjármálunum, eins og skýrt hefur komið fram síðan. Það var því aldrei innistæða fyrir sjálfkrafa framlengingu á þessu og alls ekki hægt að nota slíka augljósa einsskiptisaðgerð sem eðlilegan samanburð um framlög á fjárlögum til kvikmyndasjóða til framtíðar.

Þrátt fyrir það var ákveðið að hækka framlög í kvikmyndasjóði í frumvarpi til fjárlaga 2014 miðað við það sem verið hafði í fjárlagafrumvörpum 2012 og 2013. Staðreyndin er því sú að framlög til kvikmyndasjóða í frumvarpi til fjárlaga hafa aldrei verið hærri í sögunni en á árunum 2014 og 2015.

(Framsóknarmaðurinn) Jóhannes Þór Skúlason skrifar via Traustur vinur kvikmyndagerðar | Jóhannes Þór Skúlason.

Unnsteinn Manuel: Finnst allt of mikið drasl í heiminum

Eins og er er aðeins hægt að streyma EP-plötunni í gegnum Soundcloud-síðu Unnsteins, en hægt verður að kaupa hana á geisladiski í nóvember. Hann segir það þó ekki skipta sig miklu máli hvort platan komi út annars staðar en í netheimum. „Númer eitt, finnst mér allt of mikið til af drasli í heiminum og númer tvö, þegar þú metur eitthvert lag eftir Elvis Presley eða Lord Pusswhip að sömu verðleikum af því að þú ert með bæði í gangi á Youtube á meðan þú ert að skoða eitthvað annað, þá er það miklu sanngjarnari samanburður.“ Sjálfur segist Unnsteinn ekki vera þjakaður af miklu plötublæti. „Mér finnst það í rauninni náttúrulegra að hlusta á tónlist svona, þar sem þú ert bara með tónlistina sjálfa. Ég hef alveg gaman af vínylplötum þegar ég er að DJ-a en vínylplötusafnið mitt er bara úti um allt. Ég er ekki með það á einum stað. Það segir kannski sitt.“

via Kynferðislegir taktar og sálartregi – DV.

Ég get hætt þegar ég vil hlaut Gullna lundann á RIFF

Verðlaunaafhending Alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Reykjavík, RIFF, fór fram í Iðnó þann 4. október 2014. Sigurvegarar eru eftirfarandi:

Gullni lundinn / uppgötvun ársins 

Ég get hætt þegar ég vil / Smetto quando voglio/I Can Quit Whenever I Want

Leikstjóri: Sydney Sibilia

Ítalska kvikmyndin, Ég get hætt þegar ég vil hlýtur Gullna lundann í ár. Í umsögn dómnefndar segir að myndin sé einstaklega skemmtileg ítölsk kómedía sem undirstriki fjölbreytileika Alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Reykjavík, sem rúmar bæði tilraunakenndar kvikmyndir sem og svo farsælar kvikmyndir sem eru til þess fallnar að falla í kramið hjá stórum hópi fólks. Myndin ber ekki þess merki að hún sé sú fyrsta sem Sydney Sibilia leikstýrir. Í henni er varpað athyglisverðu ljósi á stöðu menntamanna í Ítalíu en myndin segir sögu ólíklegra einstaklinga sem enda í heimi glæpa og gjálífs.

via RIFF verðlaun 2014 | Reykjavík International Film Festival.

Heiðrún Ólafsdóttir: Afskiptaleysi getur verið banvænt

Söguhetja Leiðar, Signý, segir sögu sína í fyrstu persónu og strax á fyrstu síðunum verður ljóst að hún hefur ákveðið að stytta sér aldur. Ástæðurnar fyrir þeirri ákvörðun koma smátt og smátt í ljós í endurlitum hennar, en lesandinn fær samt ekki tilfinningu fyrir því að hún sé þunglynd. „Það er líka eitt af því sem ég vildi koma á framfæri,“ segir Heiðrún. „Maður heldur alltaf að fólk sem sviptir sig lífi geri það af einhverri einni rosalegri ástæðu. Signý er hins vegar raunsæismanneskja og hefur bara komist að þeirri niðurstöðu að þetta sé ekki þess virði.“

via Vísir – Afskiptaleysi getur verið banvænt.

Umdeild Íbsenverðlaun | REYKVÉLIN

Í ár fékk Peter Handke verðlaunin og út brutust mikil mótmæli. Það á sér vissar skýringar. Ekki þannig að fólk væri að andmæla því út af lélegum gæðum verka hans, þetta voru ekki dramatúrgísk eða fagurfræðileg andmæli heldur pólitísk. Leikskáldið hafði nefnilega á tíunda áratugnum varið aðgerðir Serba og sér í lagi Milosevic forseta þeirra. (Handke hélt ræðu í jarðarför hans þar sem hann varði aðgerðir forsetans). Hann afneitaði þjóðarmorðum í Kosovo og hefur síðan þá ekki verið í náðinni innan þýska málsvæðisins ef svo má að orði komast.

Snæbjörn Brynjarsson skrifar via Umdeild Íbsenverðlaun | REYKVÉLIN.

Vísir – Ljóð kvenna lesin og sungin á Bakkanum

„Ég er búin að fá flott ljóðskáld,“ segir Rannveig Anna Jónsdóttir, forstöðumaður Konubókastofu, um dagskrá ljóðahátíðar í Rauða húsinu á Eyrarbakka á morgun, sunnudag, klukkan 14.

Hún kynnir til sögunnar Elísabetu Kristínu Jökulsdóttur, Kristrúnu Guðmundsdóttur, Heiðrúnu Ólafsdóttur og Sigrúnu Haraldsdóttur sem allar lesa upp úr bókum sínum.

via Vísir – Ljóð kvenna lesin og sungin á Bakkanum.

Auglýst eftir efndum og endurnýjun á stefnumörkun í íslenskri kvikmyndamenningu | Klapptré

Af þessum tölum er fátt annað hægt að álykta annað en að vilji stjórnvalda standi ekki til þess að hér sé framleitt íslenskt kvikmyndaefni af því magni og gæðum sem þó var víðtæk sátt um árið 2006. Þrátt fyrir betri stöðu ríkissjóðs í dag og hærri framlög til mennta- og menningarmála en árið 2006, virðast stjórnvöld ekki hafa áhuga á að efna samninga frá 2006 og 2010. Íslensk kvikmyndagerð er sú eina í heiminum sem talar íslensku. Innlend kvikmyndagerð endurspeglar þá menningu og samfélag sem við lifum í og sú eina í heiminum sem endurspeglar íslenskt þjóðfélag. Og þetta er staðan, þrátt fyrir að fyrir löngu sé sýnt fram á að öll opinber fjárfesting í innlendri kvikmyndamenningu skili sér margfalt til baka í ríkiskassann í krónum talið.

via Auglýst eftir efndum og endurnýjun á stefnumörkun í íslenskri kvikmyndamenningu | Klapptré.

1005 – Réttir höfundar afhjúpaðir

Annað kvöld verður afhjúpað hverjir sömdu og þýddu sögurnar í þáttasafninu Styttri ferðum, sem út kom í vor í tímaritröðinni 1005. Listi yfir höfunda og þýðendur var raunar birtur í heftinu, en vísvitandi í rangri röð, og efnt til samkeppni um það hvaða texti tilheyrði hvaða höfundi. Uppátækið var tilraun í viðtökufræðum og hefur meðal annars leitt til þess að lítt kunnum höfundum hefur verið hampað en heimsþekktir höfundar hirtir af ritdómurum – algjörlega út frá textunum.

via Vísir – Réttir höfundar afhjúpaðir.

Óttalaus nálgun á eldfima fjölskyldusögu – DV

Guðrún er mögnuð í krefjandi hlutverki sínu sem Herra. Sterkur texti bókarinnar hjálpar til hvað það varðar, enda mögnuðustu tilþrif verksins að finna í orðum Hallgríms úr bókinni sjálfri, sem er á stundum eins og hárbeittir rýtingar. Hápunkti frábærs leiks Guðrúnar er náð þegar hún fer með einhverja áhrifaríkustu einræðu sem hefur verið flutt hér á landi síðustu ár. Þar nýtur texti Hallgríms sín einnig vel og verður að ljóslifandi myndum í huga áhorfenda.

via Óttalaus nálgun á eldfima fjölskyldusögu – DV.

Brotalamir í menningargeiranum ? – Rúnar Kristjánsson

Flest sem maðurinn gerir og framkvæmir, er og hefur verið flokkað á ýmsa vegu. En sú flokkun sem virðist gilda í þeim efnum í dag hefði líklega ekki verið mikils metin fyrir 50 árum, hvað þá einni öld !

Til dæmis er mat manna á listum í dag komið svo óralangt frá því sem áður gilti, að fjölmargt er talið til listaverka nú á tímum sem hefði verið álitið einskisvirði hér áður og tilheyra rusli frekar en list. Og listfræðingarnir, sem eiga náttúrulega að vera fróðustu menn samtímans um það hvað sé list, eiga stóran þátt í því hvernig málum er komið. Þeir einir vilja fá að túlka og tjá listaverkin og eftir þeirra umfjöllun er oft svo, að enginn er meira klumsa en „listamaðurinn” sjálfur !

En fólk með allar hugsanlegar listagráður endasendist í dag um heiminn á styrkjum frá háskólum og menningarstofnunum, og er að eigin sögn og annarra að vinna að list sinni, þó árangurinn sé oft og tíðum mjög svo undarlegur að margra dómi.

Rithöfundurinn Rúnar Kristjánsson skrifar um opinbera styrki til lista via Brotalamir í menningargeiranum ? – undirborginni.blog.is.

Bókaútgáfa á Íslandi er sjómennska | Auður Jónsdóttir

Bókaútgáfa á Íslandi er slík ævintýramennska að hún hefur verið knúin áfram af adrenalínfíklum með rassvasabókhald. Hún er hálfgerð sjómennska. Tarnavinna og endalaus áhætta. Stundum eru átök á milli rithöfunda og forleggjara, svipað og útgerðarmanna og sjómanna, en samstaða þegar á þarf að halda. Sem er oft. Því ef það hefði ekki verið samstaða og þögult samkomulag um að láta ævintýrin gerast upp á von og óvon, þá væri íslensk menning ólíkt fátækari.

via Bókaútgáfa á Íslandi er sjómennska | Kjarninn.

All Change Festival – Hvað er leikrit?

„Hátíðin fer fram á laugardag og sunnudag í Tjarnarbíói í Reykjavík og samtímis í fjórum öðrum borgum. Þetta er samstarf leikhúslistamanna sem stýrt er frá London og er vonandi upphafið að einhverju skemmtilegu,“ segir Hallfríður Þóra Tryggvadóttir, stjórnandi All Change Festival í Reykjavík. Hinar borgirnar þar sem hátíðin fer fram eru London, Augsburg, New York og New Orleans.

via Vísir – Hvað er leikrit?.

Hvað gekk Hallgrími Helgasyni til? – mbl.is

Þeir sem taka þess­ari gagn­rýni á slík­um ærumeiðandi rugl­ingi milli raun­veru­leika og skáld­skap­ar sem ein­hverju snobbi hjá fjöl­skyldu sem heit­ir eft­ir­nafni fyrsta for­seta Íslands þá lang­ar mig að spyrja, hvernig myndi ykk­ur líða ef minn­ing móður ykk­ar, og fjöl­skyldu væri af­skræmd með þess­um hætti? Það kem­ur því ekk­ert við hvaða eft­ir­nafn fjöl­skyld­an ber eða hvaðan hún kem­ur. Jú, vissu­lega heiti ég Björns­son en það hef­ur lít­il áhrif haft á mitt líf nema að fólki finnst stund­um rugl­ings­legt að ég beri karl­manns­eft­ir­nafn. Ég gef skít í snobb og get með sanni sagt að fjöl­skylda okk­ar á ekki slíkt til, held­ur ein­kenn­ist hún af hóg­værð og húm­or. Er það nokkuð annað en meiðyrði sem á sér stað þegar maður er vænd­ur um að nauðga barn­ungri dótt­ur?

via Hvað gekk Hallgrími Helgasyni til? – mbl.is.

Hjörtur Marteinsson hlýtur bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 2014 | Reykjavíkurborg

Í umsögn dómnefndar segir: „Ljóðabókin Alzheimer-tilbrigðin eftir Hjört Marteinsson hefur sérkennilegt og seiðandi aðdráttarafl […] Tónn bókarinnar er gráglettinn, hlýr, mjúkur og allt að því angurvær og höfundur miðlar vel þeirri þokukenndu tilfinningu sem hlýtur að fylgja því að horfa upp á ástvin sinn hverfa inn í völundarhús hugans, án mikillar vonar um endurkomu. Þessi tilfinning kemur ekki síst fram í beinskeyttum upphafslínum bókarinnar þegar ljóðmælandi hefst handa við að lýsa sjúkdómnum og áhrifum hans, en þar er sleginn sá mjúki sorgartónn sem einkennir verðlaunabókina Alzheimer-tilbrigðin: „Það gerðist bara.“

via Hjörtur Marteinsson hlýtur bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 2014 | Reykjavíkurborg.

Sýning og bókamarkaður í Safnahús á laugardaginn – Skessuhorn – fréttir af Vesturlandi

Eins og fram hefur komið verður Sauðamessa haldin í Borgarnesi á laugardaginn.  Tveir dagskrárliðir verða í Safnahúsinu við Bjarnarbraut í tilefni dagsins: Kl. 13.00 verður opnuð ný sýning í anddyri bókasafns; minningarsýning um Bjarna Helgason á Laugalandi. Áhersla er lögð á feril hans sem áhugaljósmyndara. Sýningin er sett upp í samvinnu við fjölskyldu Bjarna sem verður viðstödd opnunina. Bókamarkaður verður kl. 13.00 – 17.00 í samvinnu við Sögufélag Borgarfjarðar. Almennar bækur sem og bækur Sögufélagsins verða á kindarlegu verði í tilefni dagsins. Veitingar og konfekt og allir velkomnir segir í tilkynningu frá starfsfólki Safnahússin.

via Sýning og bókamarkaður í Safnahús á laugardaginn – Skessuhorn – fréttir af Vesturlandi.

Myndlistarsjóður skreppur saman | Viðskiptablaðið

Hæstu styrkupphæðina hlaut myndlistarhátíðin Sequences eða 1,8 milljónir króna, til að halda sjöundu útgáfu hátíðarinnar á næsta ári. Samkvæmt fjárlögum ársins 2015 er gert ráð fyrir því að framlag til Myndlistarsjóðs verði 15 milljónir króna á næsta ári en það er 1/3 af framlagi ríkisins til sjóðsins árið 2013 þegar fyrst var úthlutað úr honum.

via Viðskiptablaðið – 21 milljón úr Myndlistarsjóði.

Soffía Bjarnadóttir – Lífið er dálítið yfirþyrmandi gjöf

Sögukonan Hildur er með annan fótinn í eigin ímyndunum þannig að það er kannski ekki skrítið að skynjun hennar á öðru fólki sé dálítið ævintýraleg. „Hún er svolítið flækt í tíma og rúmi og losnar ekki við fortíð sína, eða kannski má frekar segja að hún sé sífellt að endurskapa fortíðina,“ segir Soffía. „Það sækja á hana þessar tilvistarlegu spurningar um ábyrgð, val og tilgang. Hvað það er sem dregur líf okkar áfram og hvað við erum að gera hérna. Mér finnst þessi bók vera um lífsviljann og þessa gjöf sem lífið er. Stundum verður sú gjöf dálítið yfirþyrmandi og við mannfólkið eigum oft erfitt með að glíma við hana, jafnvel þótt vel gangi. Ég lít ekki á sorg og gleði sem andstæður, þær eru alltaf samferða.“

via Vísir – Lífið er dálítið yfirþyrmandi gjöf.

Gagnrýni | Art and Craft (RIFF 2014) | Klapptré

Art and Craft er ekkert gríðarlega stílhrein mynd, hún er skotin á frekar einfaldan og dæmigerðan hátt á lággæða stafrænar myndavélar. En um leið er hún samt ekki þessi hefðbundna “talandi hausa” heimildarmynd. Það er gott flæði í henni og hún inniheldur nokkur flott “montage” með symmetískrum skotum af hverfinu sem Landis býr í, þannig að sjónræna hliðin er ekki alveg hunsuð. Í viðtalsatriðunum eru viðföngin einnig yfirleitt látin vera að gera eitthvað á meðan það talar frekar en bara sitja kjurrt og tala sem gefur myndinni smá líf.

via Gagnrýni | Art and Craft (RIFF 2014) | Klapptré.