Útgáfureif Hafnfirðingabrandarans fer fram á Kexinu (salnum inn af veitingastaðnum) á miðvikudaginn 22. október frá 17-19. Það er búið að panta Nirvana köku og 90’s skreytingar erlendis frá. Þá má geta þess að playlisti hefur verið í smíðum í marga daga inni á Spotify.
Hafnfirðingabrandarinn er líklegast gamansaga með dramatísku ívafi. Hún gerist árið 1999. Hún ætti að henta vel lesendum á aldrinum 14-50 ára (og öllum þessu þroskuðu börnum sem eru yngri – og frábæra fólki sem er eldra). Hugmyndin er sem sagt sú að sagan geti tilheyrt hinum svokallaða Young Adult-flokki, sem þykir vera mjög töff erlendis … held ég.
Sagan er skrifuð af einskærum áhuga á félagslegu raunsæi en líka á dramatískri söguframvindu (en áhuginn á drama ýkist enn frekar undir áhrifum koffíns). Kannski er sagan fyrst og fremst skrifuð af áhuga á kaffi og súkkulaði. Og svo líka baráttu hvers og eins fyrir gæfuríku lífi – sem ógæfan vill þó svo gjarnan vera partur af.
Þá má nefna að sagan kemur inn á ýmis ómissandi menningarfyrirbæri, mörg frá tíunda áratugnum, á borð við þættina „Að hætti Sigga Hall“, Austin Powers, Vaxtalínuna, Bee Gees, Maltesers, uppblásin húsgögn, Nirvana, formúluna fyrir flatarmál hrings sem er radíus hringsins sinnum radíus aftur sinnum pí, Gísla sögu Súrssonar, Titanic, Kleppara, Stöngina inn, Lúxusís með lakkrísbragði, Fjarðarkaup, Lindu-buff, Súfistann, Hafnarborg, All-Bran og Bráðavaktina – allt mjög áhugavert.
Í reifinu verður boðið upp á gúmmelaði og áfengi, glow-sticks og glæsileg plaggöt af Hanson, Ace of Base og Jet Black Joe, úr Æskunni og ABC, svo eitthvað sé nefnt.
via (2) Útgáfureif: HAFNFIRÐINGABRANDARINN.