Guðni Líndal Benediktsson hlýtur Íslensku barnabókaverðlaunin 2014 fyrir sögu sína Leitin að Blóðey. Hún geymir spennandi sögu sem afi segir barnabarni sínu á rúmstokknum og fjallar um það þegar ógurlegur galdrakarl rændi ömmu og afi lagði upp í ævintýralegan björgunarleiðangur þar sem við sögu koma galdramenn og ninjur, ljónhestar og drekar, ófreskjur og tröll – […]
Bókmenntir
Skáldskapur vikunnar: Allir fara
Smásaga eftir Michael Marshall Smith í þýðingu Hjörvars Péturssonar
Ég sá mann í gær. Ég var á leið heim í gegnum óræktina með Matta og Jóa og við sögðum Jóa að hann væri vitlaus af því að hann hafði séð þessa risastóru kónguló og hann hélt að þetta væri svarta ekkjan eða eitthvað þegar þetta var bara, kónguló sko, og ég sá manninn.
Við gengum niður eftir í áttina að blokkinni og hlógum og ég leit óvart upp og þessi karl var þarna við endann á götunni, hann var stór og kom gangandi í átt til okkar. Við fórum út af götunni áður en hann mætti okkur og svo gleymdi ég honum.
Lyktin af blóði þess sem skrifar
– Viðtal við Soffíu Bjarnadóttur
Á heimasíðu Forlagsins segir um skáldsögu Soffíu Bjarnadóttur, Segulskekkju, að hún sé „saga um lífsviljann og þá krákustíga sem manneskjan fetar í leit að sátt við eigin tilvist.“ Hildur von Bingen er við uppgröft í Karijoki í Finnlandi þegar móðir hennar fellur frá og hún ferðast til Flateyjar um miðjan vetur til að mæta í […]
Patrick Modiano hlýtur Bókmenntaverðlaun Nóbels 2014
Rétt í þessu var tilkynnt í Stokkhólmi að bókmenntaverðlaun Nóbels árið 2014 fengi franski rithöfundurinn Patrick Modiano. Engin þjóð á jafn marga Nóbelsverðlaunahafa og Frakkar eða sautján talsins (ef Xao Xingjian, sem hefur búið í Frakklandi lengi en skrifar á kínversku, og Jean Paul Sartre, sem neitaði að taka við verðlaununum, eru taldir með). Ein bók […]
Nóbelsverðlaunaniðurtalning: Alice Munro
Síðar í dag (klukkan 11 að íslenskum tíma, 13 að sænskum) verður tilkynnt um nýjan nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum. Starafugl hefur undanfarnar vikur talið niður með myndböndum af verðlaunahöfum fyrri ára.
Í fyrra vann kanadíska skáldkonan Alice Munro – við mikinn fögnuð – og höfðu þá einhverjir á orði að það eina neikvæða við að hún skyldi valin væri að þá fengi Margaret Atwood þau líklega aldrei, því samlandar fái þau að jafnaði ekki með svo stuttu millibili að Atwood entist ævin í að bíða (og maður er víst ekki gjaldgengur lengur þegar maður er dauður). Hér að ofan má sjá Atwood og Munro ræða saman á Skype – um bókmenntir.
Við látum svo vita um sigurvegara ársins strax og tilkynningin berst frá Stokkhólmi.
Oddný Eir meðal þeirra sem hljóta bókmenntaverðlaun ESB 2014
Í dag var tilkynnt um vinningshafana í keppninni um bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins 2014 á bókamessunni í Frankfurt. Verðlaununum er ætlað að veita nýjustu og bestu upprennandi rithöfundunum í Evrópu viðurkenningu. Vinningshafar þessa árs eru: Ben Blushi (Albaníu), Milen Ruskov (Búlgaríu), Jan Němec (Tékklandi), Makis Tsitas (Grikklandi), Oddný Eir (Íslandi), Janis Jonevs (Lettlandi), Armin Öhri, (Liechtenstein), Pierre […]
Nóbelsverðlaunaniðurtalning: Pearl S. Buck
Á morgun, fimmtudag, verður tilkynnt um nýjan nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum. Starafugl telur niður með myndböndum af verðlaunahöfum fyrri ára.
Bandaríski rithöfundurinn Pearl S. Buck hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1938. Hér má sjá hana ásamt leikaranum Theodore Harris ræða við Merv Griffin um nýja bók sem þau skrifuðu saman – For Spacious Skies – kommúnisma (sem hún er lítið hrifin af) og góðgerðastarf þeirra Theodores í Kína og Japan, sem og eðli kínverja og asíubúa almennt. Líklega er óhætt að segja að viðtalið sé „barn síns tíma“, en það er skemmtilegt fyrir það.
Nóbelsverðlaunaniðurtalning: Nadine Gordimer
Næsta fimmtudag verður tilkynnt um nýjan nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum. Starafugl telur niður með myndböndum af verðlaunahöfum fyrri ára.
Suður-afríski rithöfundurinn og aktífistinn Nadine Gordimer hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1991. Í viðtalsbútinum hér að ofan ræðir hún um þýðingu þess að alast upp hvít í svörtu samfélagi. Nadine Gordimer lést fyrr í ár, þann 13. júlí.
Nóbelsverðlaunaniðurtalning: Kenzaburo Oe
Næsta fimmtudag verður tilkynnt um nýjan nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum. Starafugl telur niður með myndböndum af verðlaunahöfum fyrri ára.
Japanski rithöfundurinn Kenzaburo Oe hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1994. Í viðtalinu hér að ofan ræðir hann meðal annars áhrifavalda sína – þar á meðal barnabækurnar um Nils eftir Selmu Lagerlöf (sem hlaut sjálf Nóbelsverðlaun árið 1909) og það hlutverk sem sonurinn, Hikari, spilar í bókmenntum hans, en hann fæddist með alvarlegan heilagalla og var ekki hugað líf – á þeirri reynslu byggði Kenzaburo meðal annars skáldsöguna sem á ensku nefnist A Personal Matter.
Nóbelsverðlaunaniðurtalning: William Faulkner
Í byrjun október má reikna með því að akademían í Stokkhólmi velji sér nýjan nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum (það er enn ekki búið að gefa út hvaða dag það verður). Starafugl telur niður með myndböndum af verðlaunahöfum fyrri ára.
William Faulkner hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1949. Þetta myndband er ekki af Faulkner sjálfum en segir frá skrítnum höfundarréttardeilum þar sem dánarbú Faulkners kærði Woody Allen vegna þess að ein sögupersónan í Midnight in Paris vitnar í bók Faulkners, A Requiem for a Nun. Sögupersóna Allens, sem leikin er af Owen Wilson, segir: „The past is not dead! Actually, it’s not even past. You know who said that? Faulkner. And he was right. And I met him, too. I ran into him at a dinner party.“ – Í bók Faulkners er textinn örlítið öðruvísi: „The past is never dead. It’s not even past.“ Lögfræðingum dánarbúsins þótti mikil óhæfa að ekki skyldi koma til greiðsla vegna þessarar notkunar – en dómstólar dæmdu á endanum þeim í óvil (og sjálfsagt má reikna með að þeir hafi aldrei ætlast til að vinna málið fyrir rétti, heldur vonað að Woody Allen myndi heldur greiða þeim einhverja peninga en að fara með málið fyrir dómstóla með öllum þeim tilkostnaði sem slíku fylgir).
Nóbelsverðlaunaniðurtalning: José Saramago
Í byrjun október má reikna með því að akademían í Stokkhólmi velji sér nýjan nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum (það er enn ekki búið að gefa út hvaða dag það verður). Starafugl telur niður með myndböndum af verðlaunahöfum fyrri ára.
Frjálslyndi kommúnistinn José Saramago, frá Portúgal, hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1998 – og er flestum líklega að góðu kunnugur, sérílagi fyrir skáldsöguna Blindu. Hér má sjá hann ræða – af ítrustu alvöru – um hið innihaldslausa lýðræði og það hvernig hugtakið er notað til að halda fólki ánægðu. Hann talar á portúgölsku en það er hægt að kveikja á texta á nokkrum ólíkum tungumálum með því að smella á eitt táknanna hægra megin niðri á skjánum.
Nóbelsverðlaunaniðurtalning: Ernest Hemingway
Í byrjun október má reikna með því að akademían í Stokkhólmi velji sér nýjan nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum (það er enn ekki búið að gefa út hvaða dag það verður). Starafugl telur niður með myndböndum af verðlaunahöfum fyrri ára.
Ernest Hemingway hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1954. Hér má sjá hann ræða verðlaunin við mjög sólgleraugnaðan herramann á Kúbu og mikilvægi landsins og þjóðarinnar (sérlega norðurstrandakúbana) fyrir bókmenntir hans, og þess að vera fyrsti „Cubano sato“ (sem mun þýða eitthvað á borð við „hver annar Kúbani“, með fyrirvara um spænskukunnáttu ritstjórnar) til að hljóta verðlaunin.
Nóbelsverðlaunaniðurtalning: Elfriede Jelinek
Í byrjun október má reikna með því að akademían í Stokkhólmi velji sér nýjan nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum (það er enn ekki búið að gefa út hvaða dag það verður). Starafugl telur niður með myndböndum af verðlaunahöfum fyrri ára.
Leikskáldið Elfriede Jelinek hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 2004. Hér að ofan má sjá kitlu fyrir leikrit hennar Die Kontrakte des Kaufmanns, í leikstjórn Þorleifs Arnar Arnarssonar – en sviðsmyndin er eftir Símon Birgisson.
Nóbelsverðlaunaniðurtalning: Nelly Sachs
Í byrjun október má reikna með því að akademían í Stokkhólmi velji sér nýjan nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum (það er enn ekki búið að gefa út hvaða dag það verður). Starafugl telur niður með myndböndum af verðlaunahöfum fyrri ára.
Þýska skáldkonan (og gyðingurinn) Nelly Sachs hlaut verðlaunin (ásamt hinum austurrísk-ísraelska Shmuel Yosef Agnon) árið 1966. Hún rétt náði að komast úr klóm nasista fyrir tilstuðlan vinkonu sinnar, Selmu Lagerlöf (sem hlaut verðlaunin 1909), og flúði þá til Svíþjóðar, þar sem hún eyddi því sem eftir var ævinnar. Ljóðið Landslag úr öskrum er flutt hér á þýsku, Landschaft aus Schreien, en hér má lesa ljóðið á ensku.
Nóbelsverðlaunaniðurtalning: Wislawa Szymborska
Í byrjun október má reikna með því að akademían í Stokkhólmi velji sér nýjan nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum (það er enn ekki búið að gefa út hvaða dag það verður). Starafugl telur niður með myndböndum af verðlaunahöfum fyrri ára.
Pólska skáldkonan Wislawa Szymborska hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1996. Hér má sjá hana spjalla við kollegu sína Ewu Lipska um dularfullan hlut sem sú síðarnefnda færir henni og biður hana að giska hvað sé. Myndbandið er á pólsku en textað á ensku.
Skáldskapur vikunnar: Stundarfró eftir Orra Harðarson
Arinbjörn Hvalfjörð er efnilegasta skáld Íslands. En hversu lengi getur hann skákað í því skjólinu? Fimm árum eftir sína fyrstu bók er hann engu nær um næstu skref í tilverunni. Sérhver dagur er leikinn af fingrum fram og þverrandi fimi. En í unglingsstúlku norður á Akureyri sér hann mögulega eitthvað til að byggja á. Framtíð, ef til vill.
Stundarfró er fyrsta skáldsaga Orra Harðarsonar. Hún kemur út hjá Sögum og er væntanleg í búðir í næstu viku. Starafugl býður upp á brot úr bókinni.
Nóbelsverðlaunaniðurtalning: Naguib Mahfouz
Í byrjun október má reikna með því að akademían í Stokkhólmi velji sér nýjan nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum (það er enn ekki búið að gefa út hvaða dag það verður). Starafugl telur niður með myndböndum af verðlaunahöfum fyrri ára.
Naguib Mahfouz frá Egyptalandi hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1988. Í viðtalinu hér að ofan ræðir hann (á ensku) meðal annars um tjáningarfrelsi, fötwuna á hendur Salman Rushdie og fleira. Mahfouz varði Rushdie af miklum móð í arabaheiminum og í kjölfar fötwunnar lenti skáldsaga hans Börnin frá Gebelawi líka undir smásjá öfgamanna sem reyndu að myrða hann árið 1994 – hann var stunginn í hálsinn en lifði af.
Við biðjumst velvirðingar á að hljóðið dettur út í nokkrar sekúndur – en þar átti líklega bara að vera tónlist – og örstuttan kvikmyndabút vantar vegna höfundarréttarvandræða.
Nóbelsverðlaunaniðurtalning: Doris Lessing
Í byrjun október má reikna með því að akademían í Stokkhólmi velji sér nýjan nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum (það er enn ekki búið að gefa út hvaða dag það verður). Starafugl telur niður með myndböndum af verðlaunahöfum fyrri ára.
Breska skáldkonan Doris Lessing hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 2007. Í (dásamlegu) myndbandinu hér að ofan má sjá hana bregðast við þegar fréttamenn tilkynna henni að hún hafi unnið – hún missti af tilkynningunni því hún var úti í búð (og finnst greinilega ekkert voðalega mikið til þessa koma).
Nóbelsverðlaunaniðurtalning: Odysseus Elytis
Í byrjun október má reikna með því að akademían í Stokkhólmi velji sér nýjan nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum (það er enn ekki búið að gefa út hvaða dag það verður). Starafugl telur niður með myndböndum af verðlaunahöfum fyrri ára.
Nóbelsverðlaunahöfundar falla iðulega í gleymsku – Odysseus Elytis er einn þeirra sem sjaldan er nefndur, en hann vann verðlaunin árið 1979. Það er erfitt að finna gott myndband af slíkum höfundum, en hér má sjá tvö óþolandi tölvugerð andlit flytja eitt ljóða hans. Við biðjumst fyrirfram velvirðingar.
Nóbelsverðlaunaniðurtalning: JM Coetzee
Í byrjun október má reikna með því að akademían í Stokkhólmi velji sér nýjan nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum (það er enn ekki búið að gefa út hvaða dag það verður). Starafugl telur niður með myndböndum af verðlaunahöfum fyrri ára.
Suður-afríski höfundurinn JM Coetzee hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 2003. Hér ræðir hann um vinnuna og iðnaðinn að baki bókmenntum, fegurðina og það hvernig fanga megi heiminn. Síðan les hann örlítið á hollensku úr bókinni Age of Iron (með enskumt texta).
Nóbelsverðlaunaniðurtalning: Selma Lagerlöf
Í byrjun október má reikna með því að akademían í Stokkhólmi velji sér nýjan nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum (það er enn ekki búið að gefa út hvaða dag það verður). Starafugl telur niður með myndböndum af verðlaunahöfum fyrri ára.
Selma Lagerlöf hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels fyrst kvenna árið 1909. Hér má sjá hana lesa stuttan bút úr skáldsögunni Charlotte Löwensköld fyrir leikkonuna Birgir Sergelius, sem var þá að fara að leika í kvikmynd gerðri eftir bókinni, með það fyrir augum að Birgit skilji persónu sína betur, en hún lék titilhlutverkið. Myndbandið er líklega frá árinu 1930.
Nóbelsverðlaunaniðurtalning: Toni Morrison
Í byrjun október má reikna með því að akademían í Stokkhólmi velji sér nýjan nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum (það er enn ekki búið að gefa út hvaða dag það verður). Starafugl telur niður með myndböndum af verðlaunahöfum fyrri ára.
Bandaríska skáldkonan Toni Morrison hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1993. Hér má sjá hana ræða merkingu þess að skrifa um kynþætti – hvað það þýði, hver geri það og svo framvegis – í spjallþætti Charlie Rose.
Nóbelsverðlaunaniðurtalning: Gabriela Mistral
Í byrjun október má reikna með því að akademían í Stokkhólmi velji sér nýjan nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum (það er enn ekki búið að gefa út hvaða dag það verður). Starafugl telur niður með myndböndum af verðlaunahöfum fyrri ára.
Síleski femínistinn og ljóðskáldið Gabriela Mistral var fyrsti suður-ameríski höfundurinn til að hljóta bókmenntaverðlaun Nóbels, árið 1945. Ljóðið „La Espera Inútil“ („Beðið til einskis“) er hér lesið af Mariu Maluenda á spænsku (en enska þýðingu má finna hér).
Ómöguleiki ódauðleikans: Uppfinning Morels
Jorge Luis Borges sagði um Uppfinningu Morels eftir Adolfo Bioy Casares, sem er nýkomin út í íslenskri þýðingu Hermanns Stefánssonar 1: „mér virðist ekki ónákvæmt og ekki ofmælt að segja að hún sé fullkomin.“ Undir þetta tók ekki minni maður en Octavio Paz. Þessi meðmæli ættu að vera nóg til að fá alla til að […]
Tilraunir í félagslegu krúttraunsæi
Viðtal við Sverri Norland, höfund Kvíðasnillinganna
Ég segi nokkrar sögur í Kvíðasnillingunum. Fyrsti hluti fjallar um vináttu drengjanna þriggja, „kvíðasnillinganna“. Þar eru þeir litlir og frekar saklausir strákar í leit að ævintýrum. Sá næsti lýsir því hvernig þeir reyna seinna á þrítugsaldri að slá í gegn í ferðamannabransanum með því að stofna farfuglaheimilið Hostel Torfbæ og síðan barinn Hipster Torfbar. Um leið klúðra þeir svo nokkrum ástarsamböndum við hæfileikaríkar og klárar stelpur. Þriðji og síðasti hluti fjallar um það þegar Steinar, aðalpersónan, gerist húsvörður í Íslendingakoti, eða „Aumingjahælinu“, heilsulind fyrir gjaldþrota og dapra Íslendinga sem rekin er af góðhjörtuðum útrásarvíkingi. Íslendingakot er eins konar ruslakista fyrir allt misheppnaðasta fólk þjóðarinnar.
Skáldskapur vikunnar: Rigning eftir Valgerði Þóroddsdóttur
Hún kom að nóttu.
Þung í myrkrinu
við gluggann, hún virtist
guðdómleg
svaraði:
„ég hvísla.“
Hér sé ljóð: Um Vísur eftir Birki Blæ Ingólfsson
Löngum hefir verið móðins að spá fyrir um dauða ljóðsins og hafa margir hlutast til við þann leik. Hafa og margvíslegar ástæður verið dregnar upp til að ýta stoðum undir slíkan málflutning. Hér skal fullkomlega ósagt látið hvort nokkuð sé til í slíkum málflutningi. En 25. ágúst síðastliðinn kom út fremur nýstárleg „ljóðabók“ eftir Birki […]
Skáldskapur vikunnar: Hún er reið eftir Maju Lee Langvad
HÚN ER REIÐ við blóðfjölskyldu sína vegna þess að þau hringja alltaf samdægurs þegar þau vilja hittast. Það væri ágætt ef þau gætu í það minnsta hringt einum degi fyrr. Hún er reið að samskiptin við blóðfjölskyldu hennar skuli öll vera á þeirra forsendum. Og það eru þau, í öllu falli að hennar mati. Hún […]
Skáldskapur vikunnar: Kauði eftir Bjarka Karlsson
Afi minn á Rauði
er ribbaldi og kauði
honum fylgir holdsveiki og herpes og dauði
sitt af hvoru tagi með sykri og brauði
suður á bæjum handjárnar hann Auði
heimasætan signir sig:
taktu mig afi, taktu mig
taktu mig upp til skýja
þar sem amma þæfir sokk á þeldökkan Svía
Skáldskapur vikunnar: Níðhöggur
Brot úr þriðja bindi Sögu eftirlifenda eftir Emil Hjörvar Petersen
Níðhöggur (sýnishorn) til niðurhals: Hér er er gripið niður í tvo kafla um miðbik bókarinnar, án þess þó að megin atburðarásinni sé spillt. Saga eftirlifenda III: Níðhöggur, lokabók þríleiksins, er væntanleg í október næstkomandi. Forsíðumynd Níðhöggs teiknaði Sigmundur Breiðfjörð. Fyrri tvær bækur þríleiksins eru:
Skáldskapur vikunnar: Úr Saltvatnaskilum
Við tók einhver hlýjasti vetur í manna minnum. Með öðrum orðum: það rigndi. Flesta daga fossaði vatnsflaumurinn eftir götunum og rennbleytti allt sem fyrir varð áður en hann hvarf ofan í göturæsin og þaðan aftur til sjávar. Allt virtist hafa lagst á eitt um að drekkja ísbjörnum heimsins – og mér með, það hvarflaði að […]
Skáldskapur vikunnar: Rómantísku hundarnir eftir Roberto Bolaño
Á þessum tíma var ég orðinn tvítugur og klikkaður. Ég hafði tapað landi en ég hafði unnið draum. Og þar sem ég hafði drauminn þurfti ég ekki á öðru að halda. Hvorki að vinna né biðja til guðs né að læra í morgunsárinu við hliðina á rómantísku hundunum. Og draumurinn bjó í tómi andans. […]
Viljaverk í Palestínu: Aðfararorð
Ljóðabókin Viljaverk í Palestínu er gefin út þann 22. júlí árið 2014. Sum ljóðanna í henni urðu til löngu fyrr og einhver þeirra hafa birst áður en flest þeirra eru þó ort fyrir þessa bók. Áskorunin sem skáldin fengu fyrir viku var að bregðast með einhverjum hætti við frægu ljóði Kristjáns frá Djúpalæk, Slysaskot í Palestínu. Tekið var fram að þau mættu sjálf túlka hvað fælist í „viðbragði“ – að það þyrfti ekki nauðsynlega að vera nýr texti og gæti þess vegna verið þýðing á hundgömlu kvæði, ef það passaði.
Þjóðarskáldsagan mikla á tuttugustu og fyrstu öld
Freedom og Sjálfstætt Fólk
Vegna stærðar og yfirburðarstöðu bandaríska heimsveldisins síðustu hálfa öld eða svo er auðvelt að gleyma því hversu ungt það er í raun. Þá miða ég ekki aðeins við undirritun Sjálfstæðisyfirlýsingarinnar árið 1776 heldur enn fremur ungt í menningarlegum skilningi. Einstök og einkennandi séramerísk menning – verk og raddir sem gætu aldrei hafa sprottið upp annars […]
Skáldskapur vikunnar: „E-mail“
Smásaga eftir Sindra Freysson
Kæri E.
Albéres var næstum hamingjusamur þegar hann vaknaði þennan fagra maímorgun við hljóð regndropa sem féllu á þakið einsog hamrað væri á ritvél. Sólin strokaði út allan texta regnsins hálftíma síðar. Í veðurblíðunni kristallaðist allt hið besta sem hægt var að finna í Frakklandi á þessum árstíma.
Já, næstum hamingjusamur – eins hamingjusamur raunar og gagnrýnandi getur yfirhöfuð orðið. Eina sem raskaði ró hans var þegar hann leit yfir á spanskgrænt þakið handan götunnar og kom auga á rytjulega kráku …
Skáldskapur vikunnar: Ljóðlist eftir Marianne Moore
Ég kann líka illa við hana: aðrir hlutir skipta meiru handan þessa fitls.
Þegar maður hins vegar les hana af fullkominni fyrirlitningu uppgötvar maður,
þrátt fyrir allt, stað þar sem hið ósvikna fær þrifist.
Hendur sem geta náð taki, augu
sem geta þanist, hár sem getur risið
gerist þess þörf, þessir hlutir skipta máli og ekki vegna þess að
hægt sé að þröngva upp á þá hástemmdri túlkun
Skáldskapur vikunnar: PLASTBLÓM eftir Yahya Hassan
Í ÍBÚÐINNI SEM ÉG KVEIKTI Í
BORÐUÐUM VIÐ ALLTAF Á GÓLFINU
PABBI SVAF Á DÝNU Í STOFUNNI
SYSTKINI MÍN ÞAU SEM ÞÁ VORU FÆDD
DREIFÐUST ÚT UM ALLA ÍBÚÐ
EITT VIÐ TÖLVUNA EITT SKRÍÐANDI Á GÓLFINU
OG EITT HJÁ MÖMMU Í ELDHÚSINU
EF ÞÚ HELDUR ÁFRAM AÐ PIRRA SYSTKINI ÞÍN
ÞÁ BRENNI ÉG ÞIG
SAGÐI MAMMA OG OTAÐI KVEIKJARANUM HANS PABBA
Skömm og heiður
Um Hamskiptin og Skugga sólkonungs
Fyrir skemmstu komu út tvær bækur sem segjast fjalla um hrunið en virðast báðar í reynd fjalla um góðærið. Hamskiptin eftir Inga Frey Vilhjálmsson og Skuggi sólkonungs eftir Ólaf Arnarson eru báðar ákæruskjöl og vilja færa fram rök fyrir því hverjum hrunið var að kenna. Í bók Ólafs birtist einn sökudólgur, Davíð Oddsson. Í Hamskiptunum er hins vegar bent á þig, það er Íslendinga yfirleitt, þjóðina eins og höfundur orðar það stundum.
Skáldskapur vikunnar: Ólíkar gerðir ferðablætis
1) að vera ævintýramaðurinn er draumurinn sem afþreyingin nærir okkur á
í draumnum erum við einstök því við erum Indiana Jones
við kýlum á það og sjá: bílfarmar af Indiana Jones aka um framandi hættuför (núna klaki)
Skáldskapur vikunnar: Úr Þunglyndisljóðum eftir Sternberg
Þýðing: Kári Páll Óskarsson
allt verður bara verra
maður getur leyft sér
að vona
en
allt verður bara verra
sama hvað ég geri
veldur útkoman
vonbrigðum
Skáldskapur vikunnar: The Man with the Beautiful Eyes
The Man with the Beautiful Eyes eftir Charles Bukowski. Myndband: Jonathan Hodgson.
Skáldskapur vikunnar: INNISTÆÐA Í PÚÐA // A SUBSTANCE IN A CUSHION
100 ár frá útgáfu Tender Buttons eftir Gertrude Stein
Að breytist litur er líklegt og munur afar lítill munur tilreiddur. Sykur er ekki grænmeti.
Sigg er nokkuð sem er það harðnar skilur eftir sig það sem verður mjúkt ef raunverulegur áhugi er fyrir hendi á nærveru jafn margra stúlkna og karla. Breytist þetta. Það sýnir að skíturinn er hreinn þegar hann er feikn.
Skáldskapur vikunnar: Ljóðavéfréttin
Sachiko Murakami og angela rawlings segja frá FIGURE
Lesandinn mætir á FIGURE og er boðið að spyrja spurningar – það er að segja, að leggja til meðvitund um hugðarefni á gefinni stundu. Næst velur lesandinn einn af þremur stokkum. Í hverjum stokki eru frá 78 upp í 120 spil sem eru „stokkuð“ með slembiferli. Lesandinn velur síðan lögn – hvernig spilin eru lögð niður. Þegar hér er komið sögu eru spilin afhjúpuð. Upprunalegu spurninguna má nota sem titil á bókmenntaverk og spilin mynda í senn spádóm við spurningunni sem og tiltekin nýjan bókmenntatexta.
Skáldskapur vikunnar: Eldar
– smásaga eftir Steinar Braga
Þau voru að sofna þegar hann fann lyktina af reyknum. Einar lá hreyfingarlaus og þefaði út í loftið.
„Finnurðu lyktina?“ spurði hann.
„Lykt?“ Lúsía lokaði bókinni og virti hann fyrir sér.
„Lykt af reyk.“
Ofsi Hitlers og óforbetranleg stríðni
- um skáldsögurnar Look Who's Back eftir Timur Vermes og The Jewish Messiah eftir Arnon Grunberg
Skáldsagan Look Who’s Back (Er ist wieder da) eftir þýska rithöfundinn Timur Vermes hefst á því að Adolf Hitler vaknar í almenningsgarði í Berlín. Það er sumar og árið er 2011. Hann man síðast eftir sér í bönkernum. Í skamma stund er hann ringlaður yfir því hvað hafi gerst en kemst svo að þeirri niðurstöðu […]
Rigningarvatn
List er kapítal. Tjáning, innra líf og sköpun er kapítal. Samfélagskipan eins og við þekkjum hana byggist á verkaskiptingu sem byggist á arðráni og misskiptingu. Sú verkaskipting þar sem sérstakir listamenn eru starfandi, framleiðandi tjáningu, innra líf og sköpun, á meðan hinir djöflast í verksmiðjunni – byggist á arðráni og misskiptingu. Mýtan um listamanninn þrífst […]
Plokkfiskur er ekki bara nauðsynlegur hann er líka hættulegur
Fyrsti kafli í plokkfiskbókinni
Plokkfiskur er verkamannamatur og einsog allur slíkur matur er hann heilagur. Hann tekur endalaust við – einsog Kristur og einsog hafið. Hann tekur við afgöngum úr ísskápnum og það er hægt að plokka upp á nýtt úr leifunum af honum sjálfum. Það veit heldur enginn hvar hann hefst og hvar hann byrjar. Hann hafnar öllum […]