Skáldskapur vikunnar: Rómantísku hundarnir eftir Roberto Bolaño

 

Á þessum tíma var ég orðinn tvítugur
og klikkaður.
Ég hafði tapað landi
en ég hafði unnið draum.
Og þar sem ég hafði drauminn
þurfti ég ekki á öðru að halda.
Hvorki að vinna né biðja til guðs
né að læra í morgunsárinu
við hliðina á rómantísku hundunum.
Og draumurinn bjó í tómi andans.
Herbergi úr viði,
hálfrökkvað,
í lunga hitabeltisins.
Og stundum fór ég aftur inn í mig
og heimsótti drauminn: eilíf stytta
í fljótandi hugsunum,
hvítur ormur sem engist um
í ástinni.
Ást sem æðir áfram.
Draumur innan í öðrum draumi.
Og martröðin hvíslaði: Þú munt þroskast.
Þú skilur eftir þessar minningar um kvalir, völundarhúsið,
og gleymir.
En á þessum tíma hefði verið glæpur að þroskast.
Ég er hér, sagði ég, með rómantísku hundunum,
og hér ætla ég að vera.

Ljóðið er frá árinu 1993 og birtist hér í þýðingu Helga Hrafns Guðmundssonar.