Teikning af Joyce og Proust eftir Luis Parejo.

Hinn merkingarlausi hversdagsleiki

Min Kamp, fyrsta bindi

Á Majestic hótelinu í París, 18. maí 1922, átti sér stað einn athyglisverðasti atburður bókmenntasögu tuttugustu aldarinnar. Risarnir tveir, James Joyce og Marcel Proust, voru staddir í sama herbergi í fyrsta og eina skiptið. Joyce hafði nokkrum mánuðum áður sent frá sér Ulysses, Proust hafði þá þegar gefið út stærsta hlutann af Í leit að glötuðum tíma, en átti eftir að deyja nokkrum mánuðum seinna – frá ókláruðu verki. Þessi atburður er löngu orðin goðsögn og eðli málsins samkvæmt kemur mönnum ekki heim og saman um orðaskiptin sem fram fóru á milli risanna tveggja. Heimildum ber þó nokkurn veginn saman um að báðir hafi sýnt verkum hins lítinn áhuga og sagst ekki hafa lesið neitt af þeim. Skáldið William Carlos Williams segir frá því að Joyce hafði riðið á vaðið með því að kvarta yfir sárum hausverk og sjónvandræðum. Proust svaraði með því að segja að hann væri að drepast úr magapínu og að hann þyrfti að koma sér burt undir eins. Joyce sagðist líka vera að reyna að koma sér út, ef hann gæti fundið einhvern til að bjarga sér. Þar með kvöddust þeir.

MK1Bókmenntaverk norska rithöfundarins Karl Ove Knausgårds, Min Kamp, hefur nú þegar verið sett í samhengi við meistaraverk Prousts, af norrænum gagnrýnendum jafnt og enskum sem veita verkinu sífellt meiri athygli eftir því sem bindin koma út í enskri þýðingu. Sá samanburður er óumflýjanlegur. Báðar eru bækurnar margra binda rannsókn á tíma og minningu. Knausgård viðurkennir einnig í verkinu sjálfu að hafa legið yfir Proust. Í báðum verkum finnum við, að því er virðist í fyrstu, tilviljunarkenndar minningar höfundanna. Hjá Proust er það hið ósjálfráða minni sem ræður ferðinni, það sem lykt eða bragð af köku getur sett af stað. Fyrsta bindi Knausgårds fjallar um uppgjör höfundarins við minningu föður síns en að öðru leyti stekkur verkið fram og tilbaka í tíma, frá endursögnum á atburðum úr fortíð höfundarins til almennra vangaveltna um lífið, dauðann og listina.

Min Kamp hefur vakið miklar deilur í heimalandinu. Titillinn – augljós vísun í hina alræmdu stefnuuyfirlýsingu Hitlers – á nokkra sök á því. Önnur ástæða er að í verkinu dregur Knausgård ekkert undan, hvorki í einkalífi sínu né sinna nánustu. Hafa þessar nærgöngulu lýsingar á þeim sem standa höfundinum næst leitt til þess að mikið af fjölskyldu hans og vinum hafa slitið tengslin við hann, og eru þær deilur enn lifandi þegar þetta er skrifað. Þannig hefur verkið vakið upp margar spurningar um tengsl skáldskapar og veruleika, mörkin þar á milli og hversu langt rithöfundur má ganga í að afhjúpa einkalíf annarra.

Fyrsta bindið, sem hér er til umfjöllunar, fjallar eins og áður segir um samband Knausgårds við föður sinn sem dó úr alkóhólisma nokkrum árum áður en bókin er skrifuð. Dauðinn er alltumlykjandi í bókinni. Hún opnar á hugleiðingu um dauðann í nútimanum og hvernig við gerum okkar besta til að halda honum fjarri svo við þurfum ekki að hugsa um hann. Þaðan fer Knausgård í æsku sína og unglingsár og einblínir á nokkur skeið sem hafa sérstakt vægi í tengslum við föðurinn. Í seinni hlutanum er höfundurinn orðinn fullorðinn og reynir að takast á við dauða föður síns og gera upp við fortíð sína og fjölskyldu.

En hvað vakir endanlega fyrir Knausgård í þessu verki? Hann hefur engan áhuga á að réttlæta líf sitt þrátt fyrir að verkið virðist stundum stefna í þá átt, t.d. þegar hann útskýrir að fjölskyldulífið hafi aldrei verið nóg fyrir hann, vonin um að skrifa eitthvað stórkostlegt sé það sem keyri hann áfram. Hér er heldur ekki á ferðinni þroskasaga hans. Bókin endar ekki í neins konar lausn; tilfinningar Knausgårds í garð föður síns eru alveg jafn óljósar í lokin og í byrjun. Við fáum aldrei neina endanlega skýringu á neinu.

Þema Knausgårds virðist öðru fremur vera tilvistin sjálf, í allri sinni hversdagslegu nærveru, í öllum sínum ólíku birtingarmyndum. Barátta Knausgårds er ekki leit að merkingu, eða glötuðum tíma. Min Kamp er tilraun til að vera, eins einfalt og það kann að hljóma. Knausgård dregur ekki fram merkinguna í hversdagsleikanum, hann frelsar öllu heldur hversdagsleikann frá því að þurfa að hafa merkingu. Hann er einfaldlega eins og hann er. Hinn hreini hversdagsleiki lýtur að sjálfsögðu að einhverju leyti lögmálum frásagnar og stíls í skáldverki Knausgårds, en hann er alltaf tilbúinn til að varpa þessum takmörkunum fyrir róða í tilraun sinni til að fanga augnablikið.

James Joyce er þannig ekki síður en Proust undirliggjandi í verki Knausgårds. Min Kamp býður líkt og Ulysses upp á sannkallaða epík hversdagsins. Knausgård vill sýna fram á að allt, hversu hversdagslegt eða leiðinlegt það virðist vera, sé skáldskaparins virði, hvort sem það er þegar höfundurinn á unglingsaldri reynir að redda sér áfengi fyrir gamlárskvöld, eða þegar hann á fullorðinsárum þrífur upp skítinn eftir alkóhólistann föður sinn. Knausgård virðist best eiga heima í lýsingum á hinum minnstu smáatriðum, því hversdagslegri og tilkomuminni því betri. Inn á milli má þó finna almennar vangaveltur um m.a. list, heimspeki og lífið sjálft, en það er óhætt að segja að meirihlutinn sé helgaður hversdagslegum lýsingum og upplifunum.

SterneEn það er einmitt hér sem greina má áhrif frá Lawrence Sterne. Líkt og hann, í stórvirki sínu The Life and Opinions of Tristram Shandy, Gentleman, virðist Knausgård vera ófær um að sleppa nokkrum sköpuðum hlut. Ólíkt ljóðrænum endurminningum Prousts, og hinu ofurstrúktúraða verki Joyce, er Knausgård, í gegnum allt fyrsta bindið, með þráhyggju fyrir smáatriðum sem virðast ekki skipta neinu máli fyrir frásögnina. Höfundurinn leggur ótrúlegan metnað í lýsingar á hinu minnstu smáatriðum. Einfaldur tebolli krefst ítarlegrar lýsingar og skýringar. Frásagnir af tónlistargræjum sem höfundurinn átti á unglingsárunum fá sömu meðferð. Knausgård virðist oft á tíðum við það að falla í sömu gryfju og Sterne sem, eins og frægt er, fyllti fleiri og fleiri bindi af verki sínu án þess að komast nokkuð áleiðis í frásögninni, það þurfti alltaf að taka eitthvað annað með í reikninginn áður en að frásögnin gat hafist. Min Kamp er þannig á sama hátt tilraun til framsetningar veruleikans í skáldskap á eins skýran og afdráttarlausan hátt og hægt er, án þess að skilja neitt útundan. Á meðan að Sterne tókst á við þetta vandamál á kómískan hátt nær Knausgård hins vegar að nýta sér hversdagsleikann til þess að ná fram (ef lesið er nógu lengi) skrýtnum dáleiðandi áhrifum. Hið venjulega, fábrotna og einfalda, það sem fyllir líf okkar allra en við veitum sjaldnast mikla athygli er sett í kastljósið og eftir því sem líður á bókina viljum við vitum meira, ekkert atriði er of smátt, engar upplýsingar ónauðsynlegar.

En verkinu er ekki sýnd verðskulduð virðing með eintómum vitnunum í aðra áhrifavalda. Min Kamp er skáldsaga, endurminning, ævisaga, Bildungsroman, en á sama tíma ekki neitt af þessu. Verkið er óneitanlega einstætt í bókmenntasögunni. Knausgård gerir sitt besta til að birta mynd af sér sem manneskju, með öllum sínum kostum, göllum og hugmyndum um lífið, hversu rangar sem þær kunna að vera. Þessi tilraun hefur vissulega verið gerð áður, Játningar Rousseaus eru ágætt dæmi, en þeim mistekst að fanga það sem stendur öllum vissulega næst; hversdagsleikann í allri sinni marglitu mynd. Á meðan að Rousseau einblíndi á innra líf sitt, beinir Knausgård sjónum sínum að hinum ytri heimi, heiminum sem mótaði hann og fortíðinni sem er alls ekki liðin. Hún er alltaf til staðar í sjálfsskilningi og upplifun einstaklingsins. Það eina sem okkur stendur til boða er að velja hvernig við setjum okkur í samband við hana.

Það eru því hin minnstu smáatriði umhverfisins og fortíðarinnar sem eru lykillinn að innra, huglæga lífi okkar, svarið við spurningunni hver við séum. En huglægnin birtist ekki á strúktúraðan hátt, með skýru upphafi, miðju og endi, þar sem allt er á sínum stað, eins og í flestum ævisögum. Öllu heldur er hún samansett af streymi hugsana og minninga úr ólíkum áttum sem við erum í margvíslegu sambandi við á ólíkum tímabilum æviskeiðs okkar. Þessa tilviljunarkennd hugsunarstreymisins reynir Knausgård að fanga, og skýrir hún strúktúrinn, eða frekar strúktúrleysið. Það er einnig hér sem sérstæði verksins liggur að mestu leyti.

Eitt af því athyglisverða við Min Kamp er að þrátt fyrir að höfundurinn hafi gráðu í bókmenntafræði, snúast nánast allar almennar hugleiðingar hans í bókinni um myndlist, fremur en bókmenntir. Hann eyðir miklum tíma í að dásama Rembrandt og Munch, frekar en Shakespeare eða Kierkegaard. Þessi aðdáun á myndlist er skiljanleg eftir lestur bókarinnar. Við getum lesið verkið sem tilraun Knausgårds til að fanga viss augnablik. Að negla vissar upplifanir niður svo þær renni ekki í sjó gleymskunnar. Eins og í myndlist skipta smáatriðin höfuðmáli fyrir Knausgård, hann skissar líf sitt og sinna nánustu, umhverfi sitt og sambandið sem hann á í við það, eins ítarlega og hann getur. Ekkert er verkinu óviðkomandi, skáldskapurinn þarf að ná yfir alla tilveruna. En sú tilvera birtist á óreiðukenndan hátt í huglægni okkar, eins og verkið reynir að útlista.

Þess vegna ætti að vera auðvelt að ímynda okkur Knausgård á Majestic hótelinu 1922. Hann myndi passa vel inn í þann félagsskap. Hann myndi líklegast, hikandi og með áhugaleysi, fá sér sæti við hliðiná Proust og Joyce. Ef að hann hefði yfirhöfuð eitthvað að segja myndi hann líklega, eins og þeir gerðu samkvæmt sumum heimildum, kvarta yfir hinu eða þessu vandamáli sem er að plaga hann í augnablikinu og láta sig svo hverfa. Allir þrír eru sammála um að mikilvægasta en jafnframt erfiðasta viðfangsefni skáldskaparins sé hið hversdagslega, það er þar sem hið ægifagra liggur. En það viðfangsefni er óþrjótandi auðlind, eins og verk þeirra þriggja eru til marks um.