Jonathan Franzen í sjónvarpsþætti Opruh Winfrey.

Þjóðarskáldsagan mikla á tuttugustu og fyrstu öld

Freedom og Sjálfstætt Fólk

Vegna stærðar og yfirburðarstöðu bandaríska heimsveldisins síðustu hálfa öld eða svo er auðvelt að gleyma því hversu ungt það er í raun. Þá miða ég ekki aðeins við undirritun Sjálfstæðisyfirlýsingarinnar árið 1776 heldur enn fremur ungt í menningarlegum skilningi. Einstök og einkennandi séramerísk menning – verk og raddir sem gætu aldrei hafa sprottið upp annars staðar – byrjaði ekki að taka á sig alvöru mynd fyrr en nokkru síðar. Ameríska bókmenntahefðin eins og við þekkjum hana í dag – ein sú ríkasta í heiminum sem telur ótrúlega mikið af kanónuverkum þrátt fyrir ungan aldur – nær ekki lengra aftur en til nítjándu aldarinnar, til Ralph Waldo Emersons. Emerson er og hefur verið guðfaðir amerískrar menningar. Hann var lærifaðir og vinur fjölmargra helstu skálda þjóðarinnar, svo sem Louisu May Alcott, Henry David Thoreau og Walt Whitman. Amerísk menning á uppruna sinn hjá honum vegna þess að það var fyrst og fremst hann sem náði að slíta menningarlegu tengslin við gömlu fyrirmyndirnar í Englandi og á meginlandi Evrópu, en þær höfðu dóminerandi áhrif á þeim tíma. Í klassískum greinum sínum og fyrirlestrum eins og Self-Reliance og The American Scholar skoraði hann á ameríska lista- og menntamenn að hætta að horfa alltaf til evrópskrar menningar og reiða sig á sína eigin hugsun og hæfileika sem átti að vera í nánum tengslum við umhverfi sitt og daglegt líf. Einnig útlistaði hann, sem forvígismaður amerísku forskilvitlegu hreyfingarinnar (transcendental movement), róttæku einstaklingshyggjuna sem varð svo að einu aðaleinkenni bandarísku þjóðarsálarinnar. Birtist hún enn í dag, í ólíkum myndum, á nánast öllum sviðum samfélagsins og gerir það að verkum að þjóðfélagsumræðan vestra orkar oft á tíðum stórfurðulega á utanaðkomandi aðila.

Ameríska bókmenntahefðin er einnig athyglisverð að því leyti að innan hennar er veigamikill undirflokkur sem telur nokkur af mestu verkum heimsbókmenntanna. Þessi verk kalla Bandaríkjamenn „The Great American Novel“ eða hina miklu amerísku skáldsögu. Slík skáldsaga er raunar ekki séramerísk uppfinning, þjóðarepíkin er auðvitað mun eldri og á augljósar rætur í kviðum Hómers og Eneasarkviðu Virgils til dæmis. Hún blómstraði einnig sérstaklega á tímum mikillar þjóðernishyggju á nítjándu öld víðar en í Bandaríkjunum. En í amerískum bókmenntum hefur þessi hugsjón um skáldsöguna verið mjög fyrirferðamikil. Borgarastríðsskáldið John William De Forest var sá fyrsti sem notaði þetta heiti en það festi sig svo í sessi sem eins konar æðsta markmið bandarísks rithöfundar langt fram á síðari hluta tuttugustu aldar, það verk sem öllum upprennandi skáldum dreymdi um að skrifa en fæstum tókst.

Til að fá þessa heiðursnafnbót, sem þó er aldrei alveg laus við deilur nema í tilfelli örfárra verka, þarf skáldsagan að uppfylla viss skilyrði. Fyrst og fremst á þessi titill við um verk sem ná að fanga tíðarandann og tímabilið sem þau eru sprottin úr best og nákvæmast. En verkið verður einnig að fanga hina einstöku amerísku upplifun og vera rödd þjóðarinnar. Þrátt fyrir að vera þannig besta framsetningin á samtíma sínum nær hún einnig út fyrir þá takmörkun og segir eitthvað mikilvægt um þjóðarsálina í heild. Ef vel tekst til fer verkið í kanónuna og verður að skyldulesningu. Þessi metnaður, að ætla að skrifa hina miklu amerísku skáldsögu, var mjög áberandi meðal frægra rithöfunda eins og F.Scott Fitzgerald (sem náði því marki og gott betur).

Dæmi um verk sem hlotið hafa þennan titil, eða verið nefnd sem mögulegir kandídatar, eru margar af þekktustu skáldsögum Bandaríkjanna: Moby-Dick, The Adventures of Huckleberry Finn, The Scarlet Letter, The Great Gatsby, The Grapes of Wrath, Lolita, Invisible Man, o.fl. Eins og gefur að skilja verður listinn umdeildari eftir því sem hann færist nær nútímanum, en núlifandi rithöfundar sem hafa verið nefndir í þessum flokki eru t.d. Don Delillo, Thomas Pynchon og Phillip Roth. En það er ekki bara það að verk þessara höfunda séu nýrri sem gerir þau að umdeildum viðbótum. Öllu heldur er það sú staðreynd að nútímarithöfundar hafa fyrir löngu sagt skilið við sósíal-realismann sem þjóðarskáldsagan spratt upp úr og var skrifuð í. The Crying of Lot 49 og White Noise til dæmis eru einfaldlega allt annars konar verk og hafa því sumir talið tíma hinnar miklu amerísku þjóðarskáldsögu vera liðinn (á meðan að aðrir vilja meina að þetta hlutverk hefur færst í skaut sjónvarpsþáttaraða í nútímanum og að hinir miklu dramatistar myndu í dag skrifa þáttaraðir eins og The Sopranos, The Wire, Breaking Bad, o.s.frv. Ég tel eitthvað vera til í þessari fullyrðingu en ræði hana ekki nánar hér þar sem sú spurning er efni í aðra grein).

Það vill svo til að Íslendingar eiga einnig gott dæmi um slíkt verk, en Sjálfstætt fólk ber öll einkenni hinnar miklu þjóðarskáldsögu í þessum sama skilningi. Í ljósi mikils áhuga og dálæti íslenska nóbelsskáldsins á bókmenntum Bandaríkjanna, eins og sést t.d. í vinskap hans við Hemingway og þýðingunni Vopnin kvödd, er ekki langsótt að skilja Sjálfstætt fólk sem tilraun til að skrifa hina miklu íslensku þjóðarskáldsögu og var Laxness þannig undir áhrifum frá þessari hefð. Það vill einnig svo skemmtilega til að höfundurinn sem ég hyggst ræða í eftirfarandi er einmitt mikill aðdáandi verks Laxness. Við munum ræða þetta samband neðar.

Um það leyti sem nýjasta bók Jonathan Franzens, Freedom, kom út árið 2010 birti Time Magazine umdeilda forsíðugrein um hann með titlinum „Great American Novelist“ og sló því þannig á föstu að hann ætti heima á sama lista og Melville, Twain og Hawthorne (og var Franzen þar með fyrsti rithöfundurinn til að prýða forsíðu Time í tíu ár, sá sem hlaut heiðurinn þar áður var Stephen King – þetta eitt og sér segir mikið um stöðu bókmenntanna í dag). Þessi fullyrðing hefur verið dregin í efa af sumum bókmenntagagnrýnendum, á meðan að aðrir hafa tekið undir þennan titil og hampað Franzen sem rithöfundi sem er fær um að skrifa sósíal-realístíska skáldsögu sem tekst á við samtímann og segir okkur eitthvað um líf okkar (the way we live now), en þetta er einmitt óneitanlega orðið að sjaldgæfum eiginleika í hinum tæknivædda nútíma þar sem lestur og mikilvægi bókmennta fer hratt minnkandi.

Nú hyggst ég blanda mér í þessar deilur. Það eru einkum tvær spurningar sem ég vil spyrja – og reyna að svara. Sú fyrri er hvort Freedom á skilið titilinn „Great American Novel“ og, ef svo reynist vera, hvað segir það um samtíma okkar og stöðu þjóðarskáldsögunnar? Ég mun svo ræða Sjálfstætt fólk í lokin, en sá samanburður varpar áhugaverðu ljósi á Freedom og þjóðarskáldsöguna í heild.

Freedom fjallar um Berglund fjölskylduna, „týpíska“ efri-miðstéttar bandaríska fjölskyldu á þrjátíu ára tímabili. Í fyrri hluta bókarinnar er nokkuð hoppað fram og aftur í lífi aðalpersónanna og fjölskyldna þeirra, ásamt því sem hann inniheldur sjálfsævisögu Pattys sem hún hefur skrifað að undirlagi sálfræðings síns. Síðari hlutinn stekkur fram í tíma og gerist árið 2004. Sögusviðið færist frá St.Paul, Minnesota til Washington D.C., þangað sem hjónin flytja í síðari hlutanum, en New York kemur einnig mikið við sögu.

Hjónin Walter og Patty kynntust á háskólaárunum í gegnum sameiginlega vini, tónlistarmanninn ofursvala Richard sem átti í sambandi við alvarlega geðsjúka vinkonu Pattys, Elizu. Við fáum einnig frásögn af fjölskyldum beggja, en Patty kemur af ríku forréttindafólki, móðir hennar er þingmaður Demókrataflokksins, á meðan að Walter elst upp við mjög bágar heimilisaðstæður og fátækt og á því sjálfum sér að þakka velgengi sína. Walter varð nánast við fyrstu sýn yfir sig ástfanginn af Patty sem var ekki sama sinnis og var hrifnari af Richard. En Patty gefur eftir síðar í frásögninni og giftist Walter sem gafst aldrei upp á að eltast við hana. Walter er mikill hugsjónamaður sem hefur helgað líf sitt því að koma í veg fyrir eyðileggingu umhverfisins sem hann vill meina að stafi fyrst og fremst af offjölgun mannkyns. Lausnin sem hann sér er sú að gera barneignir hallærislegar meðal ungs fólks og fjallar síðari hluti bókarinnar að miklu leyti um tilraun hans til að hrinda þessu verkefni af stað, með hjálp Richards sem hann telur að geti náð til ungu kynslóðarinnar sökum frægðar sinnar sem svalur tónlistarmaður. Patty var á unglingsárum efnilegur íþróttamaður en á efri árum tekur að halla undan fæti í sálarlífi hennar, að hluta til vegna nauðgunar sem hún varð fyrir sem unglingur en einnig vegna sambands síns við Richard, og í síðari hluta bókarinnar er hún hálfgerður iðjuleysingi sem skortir tilgang í líf sitt og tekur gremju sína út á sínum nánustu, Walter sérstaklega og er hjónaband þeirra hrein martröð á þessum tímapunkti. Hjónin eiga tvö börn, Joey og Jessicu, og fær Joey stærra hlutverk þar sem við fylgjumst með sambandi hans við nágrannastelpuna Connie og þegar hann reynir síðar að fóta sig í forarpyttinum sem er bandarísk stjórnmál og viðskipti, en gott viðskiptatækifæri sem hann fær upp í hendurnar og snýst um að selja varahluti til bandaríska hersins í Írak endar á ógeðfelldan hátt.

Inn í þessa atburði fléttast önnur ástarsambönd og framhjáhöld sem fá mikla athygli í frásögninni. Patty og Richard hrifust hvert af öðru þegar þau voru ung en misstu af tækifærinu til að svala löngunum sínum. Þessi hrifning hvarf þó aldrei alveg og þegar þau eru komin á fullorðinsár láta þau loks undan löngunum sínum í sumarhúsi Walters, besta vinar Richards sem hann hefur alltaf þótt vænt um og passað upp á. Joey, sem á þessum tímapunkti er giftur Connie, gerir sitt besta til að halda framhjá henni með ofurfallegri systur skólafélaga síns, en sú tilraun fer ekki eins og hann hafði vonað. Walter á í síðari hluta bókarinnar í nánu sambandi við aðstoðarmann sinn, Lalithu, sem er yfir sig ástfangin af honum, en vegna óbilandi tryggðar hans við Patty er hann mjög hikandi við að stofna til ástarsambands (þrátt fyrir leyfi Pattyar!). Það breytist þó þegar Walter uppgötvar svik Pattyar og Richards, en það gerist þegar Richard tekur boði Walters um að hjálpa honum að vekja ungt fólk til vitundar um offjölgun og eyðileggingu umhverfisins, en það gerir hann aðeins vegna þess að hann sér tækifæri til að endurnýja ástarsambandið við Patty. Hún hafnar honum þó og í fýlukasti skilur Richard eftir sjálfsævisögu hennar, sem inniheldur allan sannleikann, á skrifborði Walters.

Þessi yfirferð yfir helstu atburði og persónur bókarinnar ætti að nægja til að draga fram augljósan galla á verki Franzens. Það er varla ein einasta persóna bókarinnar sem lesandanum getur líkað vel við. Walter er bókstaflega eina persónan sem er ekki sjálfumglaður narcissisti og er sá eini sem hefur áhuga á einhverju öðru en sjálfum sér. Hinar persónurnar, Patty, Richard og Joey sérstaklega eru til skiptis eða á sama tíma: aumkunarverðar, ógeðslegar, gráðugar, eigingjarnar, grimmar, kaldar og á tímum hreint og beint illar. Auðvitað er það ekkert skilyrði að bókmenntir verði að fjalla um viðkunnanlegar persónur, sumar af bestu bókum allra tíma hafa óviðkunnanlegar persónur í aðalhlutverki og er þar Humbert Humbert Nabokovs eitt frægasta (og alræmdasta) dæmið. En það er þó skilyrði að lesandanum finnist persónan eða persónurnar áhugaverðar og að hann finni til með þeim að einhverju leyti, að hann geti sett sig í spor þeirra. Það er ekki tilfellið í Freedom þar sem lesandinn beinlínis óskar persónunum alls hins versta og fyllist af pirring og jafnvel andúð í garð þeirra. Þetta er þó ekki ætlun höfundarins sem virðist sjálfur hafa allavega einhverja samúð með þeim og reynir að fá lesandann til að vera á sama máli. Ef það er rétt lesið hjá mér er þetta tilraun sem mistekst. Jafnvel Walter fær enga auðvelda samúð. Í seinni hlutanum fer hann í samstarf við stórfyrirtæki sem ber ábyrgð á gríðarlegri eyðileggingu umhverfisins, og reynir að fegra ímynd aflanna sem hann hefur alla tíð verið á móti. Hann reynir að réttlæta þessi svik við prinsipp sín á mjög veikan hátt. Viðskiptum Joeys við bandaríska herinn lýkur á dauða bandarískra hermanna, sem hann ber því sök á, og þá veltir Joey því fyrir sér hvort hann eigi að stíga fram og játa hlut sinn í þessum glæp. Walter ræður honum frá því vegna hagsmuna hans og fjölskyldunnar. Þannig fetar hann í fótspor foreldra Pattys sem ráðlögðu henni að gleyma nauðguninni sem hún varð fyrir og vera ekkert að hafa hátt um hana vegna eigin hagsmuna.

Rótin að vanda persónanna – og það sem þematengir allar hinar mismunandi frásögur frá ólíkum tímabilum – greinir Franzen með einu hugtaki og er það titill bókarinnar. Franzen vill meina að það sé einmitt frelsið sem er að gera út af við þessar skemmdu og illa innrættu persónur sem við fáum að kynnast. Þetta sést kannski best í tilfelli Patty, en velsældin sem hún lifir í er að fara með hana í seinni hluta bókarinnar og hún tapar öllum tilgangi og jákvæðum mannlegum eiginleikum. Aftur á móti virðist hápunktur lífs hennar hafa verið unglingsárin þegar hún þurfti að eiga við geðsjúka bestu vinkonu sem kom henni sífellt í eitthvað klandur og laug statt og stöðugt að henni. En þar, þegar hún stóð frammi fyrir raunverulegum hindrunum, virðist sjálfsþroski hennar hafa náð hámarki. Walter fylgir svipaðri braut. Hann elst upp við mjög erfiðar aðstæður, sjúka móðir, alkóhólista föður, húðlata og eigingjarna bræður. Þessi erfiðu uppvaxtarár og stöðuga barátta gerir hann hins vegar að hinum góða manni sem hann er orðinn að á háskólaárunum. Það er velgengni hans og innganga í efri-miðstéttina, með stóru húsi í úthverfunum og öllu tilheyrandi, þar á meðal meira frelsi, sem leiðir að hörmungunum. Það sama má segja um Richard sem er kannski frjálsasta persónan í bókinni. Rokkstjarnan sem er dáður af öllum og hefur engar skuldbindingar en er gjörsamlega tómur að innan, hefur ekkert jákvætt fram að færa til neins og er á barmi sjálfsvígs í síðari hlutanum. Með sama hætti er helsta einkennið á öllum slæmu ættingjunum í fjölskyldum Walters og Pattys það sama, að þau vinna ekkert og gera í rauninni ekki nokkurn skapaðan, merkingarbæran hlut. Í tilfelli systkina Pattyar lifa þau samt sem áður í tiltölulegum vellystingum vegna auðs fjölskyldunnar, en það er ljóst að þetta frelsi hefur haft alvarleg skaðleg áhrif á sjálf þeirra og andlega heilsu.

Punktur Franzens er þó ekki að frelsi sé beinlínis slæmt og skaðlegt í sjálfu sér. Öllu heldur virðist hann vilja benda á hvernig nútímamaður sóar frelsi sínu þar sem hann kann ekki að beina því í jákvæðan farveg og ýjar Franzen að því að tæknin spili hér lykilhlutverk. Frelsi er líklega mest notaða hugtak í bandarískum stjórnmálum og þjóðfélagsumræðu, og notað til að réttlæta allt milli himins og jarðar, en Franzen bendir á að það er hvorki gott í sjálfu sér né nægilegt skilyrði fyrir hamingjusömu lífi og sjálfsþroska. Aðrir þættir eru mikilvægari, einna helst tilgangur sem flestar persónur bókarinnar skortir, en frelsi getur undir vissum kringumstæðum haft skaðleg áhrif á þessa þætti.

Þessi sérameríski skilningur á frelsi er ræddur í bókinni sjálfri. Franzen vill meina að með frelsi eigi Bandaríkjamenn við frelsið til að rústa lífi sínu, og það er einmitt þannig sem persónur hans nýta sér það. Franzen bendir í bókinni á tilfelli lægri-stéttafólks sem bregst ætíð harkalega við öllum tilraunum til að takmarka skaðlegar vörur, til dæmis byssur, tóbak eða alkóhól. Eins og ég minntist á í innganginum virkar þessi umræða í Bandaríkjunum oft stórskrýtin og Evrópubúar eiga bágt með að skilja af hverju hinn fátæki meirihluti virðist alltaf taka stöðu gegn sínum eigin hagsmunum. En Franzen kemur með áhugaverða skýringu og bendir á að það sé einmitt vegna þess að fátækt fólk hefur svo lítið frelsi sem fær þau til að bregðast hin verstu við þegar einhver dirfist að reyna að taka frá þeim það litla frelsi sem þau búa þó yfir; frelsið til að reykja og drekka sig til dauða, frelsi til að kaupa morðvopn, í stuttu máli frelsi til að eyðileggja líf sitt eins og manni sýnist.

Þetta er því gagnrýni Franzens á bandarískt samfélag í hnotskurn: þau eru hreinlega að deyja úr frelsi. Ásamt þessari neikvæðu sýn á frelsið má finna gagnrýni á tæknivæðingu nútímans, en Franzen hefur einmitt verið duglegur við að skrifa greinar þar sem hann bölsótast út í „menningarlega alræðishyggju“ sjónvarpsins, dauða alvöru bókmennta, skaðleg áhrif internetsins á hugsun og einbeitingu o.s.frv. Hann vill meina að við stefnum beint í átt að gríðarlegum samfélags- og náttúruhörmungum, en öllum er sama vegna þess að við erum alltof upptekin á Facebook. Ritferill hans er má segja barátta við nútímann, en hann leitast við að skrifa gagnrýnar, sósíal-realístískar skáldsögur í nítjándu aldar stíl, þrátt fyrir að áhugi á þeim sé í lágmarki (vinsældir hans benda þó til annars). En það er einmitt þessi metnaður sem margir gagnrýnendur dást af og hampa honum fyrir og tek ég heils hugar undir það.

En ég tel þó einnig ýmsa vankanta vera á þessari sýn Franzens á nútímann, sérstaklega ef verk hans er sett í samhengi við „The Great American Novel“. Eins og við höfum þegar rætt verður slíkt verk að fanga tíðarandann og ná að tjá þjóðarsálina. Það er augljóslega metnaðurinn hjá Franzen með framsetningu hans á týpískri amerískri fjölskyldu og hvernig hún lifir í dag. En ég set stórt spurningarmerki við hversu týpísk hún í raun og veru er. Þegar nánar er að gáð þjónar hún mjög illa því hlutverki að vera fulltrúi bandarískrar þjóðar nútímans.

Helsta gallann höfum við þegar rætt. Siðferðislegt óhreinlæti persóna Franzens er á svo háu stigi að það jaðrar við karikatúr. Ég neita hreinlega að samþykkja þessa sýn á fjölskyldu nútímans, í Bandaríkjunum eða annars staðar, en slíkt samansafn af ógeðfelldum og aumkunarverðum eiginhagsmunaseggjum í sömu fjölskyldu tel ég vera mjög óraunsætt. Slíkar fjölskyldur má án efa finna, en þær eru varla dæmigerðar fyrir þjóðina í heild.

Annað atriði sem kemur í veg fyrir að við getum skilið Berglund fjölskylduna sem dæmigerða er efnahagsleg staða hennar. Margar umfjallanir um bókina lýsa henni sem miðstéttarfjölskyldu en það er þó langt frá því að vera raunin. Walter hefur náð miklum frama og hefur nægar tekjur til þess að fjölskyldan lifir í efnislegum vellystingum án þess að Patty þurfi að vinna. Þessar aðstæður eru hreinlega ekki í boði fyrir lang stærstan hluta Bandaríkjamanna. Því eru fjölskylduaðstæður þeirra draumur sem flest fólk mun aldrei koma til með að nálgast miðað við núverandi efnahagshorfur. Þetta var vissulega einu sinni tilfellið, á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar. Richard Yates setti fram svipaða gagnrýni í verki sínu Revolutionary Road sem kom út árið 1961 og hitti þá beint í mark. En þessi veruleiki er löngu horfinn fyrir lang flesta og fjölskyldur í dag komast ekki af án þess að báðir foreldrar séu á vinnumarkaði, oft í fleiri en einni vinnu. Sem sýn á nútímann – sem einkennist helst af hratt minnkandi millistétt sem berst í bökkum við að halda sér á floti, oftast með mikilli skuldasöfnun, ásamt gríðarlegu atvinnuleysi og óöryggi – er heimur Freedom því langt frá því að teljast dæmigerður. Of mikið frelsi er ekki hátt á listanum yfir alvarlegustu vandamál vel flestra nútímamanna, en Franzen virðist ekkert hafa gægst út fyrir líf sitt og vina sinna sem tilheyra sama minnihluta og Berglund fjölskyldan.

Ég vil þó ekki ganga svo langt að lýsa mig ósammála titlinum sem Time veitti Franzen: að hann sé hið stóra ameríska skáld í hinum hefðbundna skilningi. Því við verðum að hafa í huga að titillinn „Great American Novel“ gæti einnig átt við um besta verk hvers tíma, það verk sem kemst næst því að fanga tíðarandann. Það getur vel verið að Franzen eigi titilinn skilið af þessum sökum. Mér dettur allavega enginn annar rithöfundur í hug sem nær sama takmarki betur, að tjá bandarísku þjóðarsálina á tuttugustu og fyrstu öld. Bestu rithöfundarnir í dag fást við allt önnur listræn markmið. En það er þá með vissri gremju sem maður viðurkennir þennan titil. Er þetta virkilega það besta sem hin mikla ameríska bókmenntahefð getur reitt fram í dag?

Þegar Franzen er borinn saman við þau skáld sem hann er þá kominn í hóp með: Melville, Faulkner, Nabokov, Morrison, Ellison, þá fer manni hreint ekki að lítast á blikuna. Því þrátt fyrir að Freedom sé vissulega vel skrifað verk er það langt frá því að ná fagurfræðilegum hæðum þessara skálda. Einföld tilraun til að sannreyna þetta er að spyrja sig hvort manni langi til að lesa verkið aftur? Er það mögulegt að endurlesturinn myndi breyta skilningi manns á því eða lá hann fyrir við fyrsta lestur? Bók Franzens er gríðarlega ávanabindandi, maður hættir ekki að lesa fyrr en hún er kláruð. En það þýðir þó ekki endilega að bókin hafi mikla dýpt – atriði sem margir lesendur og gagnrýnendur virðast hafa gleymt. Önnur skýring er að þeir hafi beðið svo lengi eftir þjóðarskáldsögunni sem segir þeim hvernig þeir lifa að þeir stökkva á fyrsta verkið og höfundinn sem gerir tilraun í þá átt. En þessi langa bið hefur augljóslega lækkað standardinn töluvert frá því sem áður var.

Ég er hjartanlega sammála Franzen um að skörp samfélagsgagnrýni sé eitthvað sem vantar í nútímabókmenntir og á hann hrós skilið fyrir tilraun sína til að reyna að ráða bót á því. En hún ein og sér er ekki nóg. Aðrir gagnrýnendur hafa borið Franzen saman við Dickens og Tolstoy (en Stríð og Friður kemur mikið við sögu í Freedom) vegna áhrifa sem greina má frá þeim. Formlega séð stenst Franzen þennan samanburð. En það sem Franzen virðist ekki hafa tekið frá þeim er hin mikla ást sem er alltaf undirliggjandi í verkum þeirra, þrátt fyrir sterka gagnrýni sem finnst vissulega einnig. Ást á þjóð sinni og öllu mannkyninu sem þeir smita lesandann af. Slík ást á þjóð sinni á þó ekkert skylt með þjóðernishyggjunni sem við þekkjum úr stjórnmálum tuttugustu aldarinnar og er í uppsveiflu í nútímanum, hugmyndafræði sem telur þjóðina nú þegar vera fullkomna og viðurkennir enga galla. Hin miklu þjóðarskáld elska þjóð sína með öllum sínum kostum en sérstaklega göllum og eru verk þeirra velviljuð tilraun til að hjálpa lesandanum að skilja sjálfan sig betur, hvort sem hann er innan við landamærin eða utan. Lestur verka þeirra er upplifun sem gleymist aldrei. En það er þó ekki samfélagsgagnrýninni einni að þakka. Gildi Bleak House til dæmis liggur ekki í gagnrýninni á lagakerfi Englands á nítjándu öld, og hinna ógeðfelldu lögfræðinga og dómara sem viðhéldu því. Ef svo væri værum við ekki enn að lesa hana í dag. Ólíkt Tolstoy og Dickens skilur Franzen fátt annað eftir sig en andúð og biturleika. Á tímum finnst manni hann beinlínis tala niður til lesandans, frá einhverjum hærri siðferðis stalli sem aðeins hann stendur á, langt fyrir ofan alla aðra. En slíkt er hvorki að finna hjá Dickens eða Tolstoy, né heldur þeim skáldum sem hingað til hafa verið talin þjóðarskáld Bandaríkjanna.

Ef við snúum okkur nú loksins að Laxness, þá er fróðlegt að bera Freedom saman við Sjálfstætt fólk. Franzen hefur þó nokkrum sinnum í viðtölum lýst yfir mikilli aðdáun á skáldsögu Laxness og nefnir hana sem eina af sínum tíu uppáhalds allra tíma. Ég gef mér að lesendur þekki Sjálfstætt fólk það vel að óþarfi sé að fara náið út í efni hennar og persónur. En það eru viss sterk þematengsl milli verkanna sem gefa til kynna að Freedom sé undir miklum áhrifum frá verki Laxness, ef ekki beinlínis tilraun til að endurskrifa hana í bandarísku samhengi á tuttugustu og fyrstu öld.

Alveg eins og Laxness tekur Franzen mikilvægasta og fyrirferðamesta hugtak þjóðfélagsumræðunnar – það sem enginn vogar sér að gagnrýna án þess að eiga hættu á að vera kallaður föðurlandssvikari – og varpar nýju ljósi á það. Hjá Laxness og Íslandi var það sjálfstæðið, hjá Franzen og Bandaríkjunum er það frelsið, en þessi hugtök eru auðvitað náskyld. Í greiningum þeirra komast báðir höfundar einnig að svipaðri niðurstöðu: þessi heilögu hugtök sem leika lykilhlutverk í sjálfsskilningi beggja þjóða og eru hafin yfir gagnrýni í almennri umræðu, eru í rauninni á sama tíma rótin að helsta vanda þeirra. Alveg eins og persónur Freedom, sem frelsið er að gera út af við, er óbilandi sjálfstæðisbarátta Bjarts í Sumarhúsum helsti galli hans sem leggur líf hans og hans nánustu í rúst.

Ef það er rétt hjá mér að Sjálfstætt fólk hafi verið einhvers konar fyrirmynd hjá Franzen, verk sem hann reyndi að endurspegla eða jafnvel endurskrifa með Freedom, þá tókst honum ekki eins vel upp í öðrum veigamiklum atriðum. Því þrátt fyrir að Sjálfstætt fólk sé vissulega hnífbeitt gagnrýni á íslenskt samfélag og þjóðarsál, þá getum við ekki annað en fundið til með Bjarti í Sumarhúsum, þrátt fyrir alla þrjóskuna, þröngsýnina og heimskuna. Við erum hann og við höfum samúð með göllum hans vegna þess að þeir eru gallar okkar. Laxness nær, með dularfullum hætti sem er aðeins á færi hinna bestu skálda, að fanga heila þjóð í einni persónu. Þetta mistekst Franzen. Ég efast stórlega um að hinn almenni bandaríski lesandi sjái sjálfan sig í Walter, Patty, Richard eða Joey. Það sem ég tel að sé stærsti munurinn á þessum rithöfundum, fyrir utan auðvitað ljóðræna fegurð máls Laxness sem Franzen kemst ekki nálægt, er sá að Laxness, eins og Dickens og Tolstoy, elskaði augljóslega og skildi þjóð sína og var Sjálfstætt fólk ekki skrifuð af biturleika, hvað þá að hún sé predíkun úr siðferðislegu hásæti. Hún er vissulega áfellisdómur en lestur Sjálfstæðs fólks skilur okkur samt sem áður eftir jákvæð í garð þjóðar okkar, þrátt fyrir þá annmarka sem Laxness greindi með skurðlæknisnákvæmni. Ég fullyrði ekkert um hvers konar tilfinningar Franzen ber raunverulega í brjósti til þjóðar sinnar. En þessi samanburður bendir til þess að nauðsynlegt skilyrði fyrir skrifum á þjóðarskáldsögu sé ekki einungis neikvæðar heldur einnig fyrst og fremst jákvæðar tilfinningar gagnvart þjóðarsálinni sem rithöfundurinn reynir að tjá. Ef Franzen býr yfir slíkum tilfinningum sýnir hann þær allavega ekki í Freedom.

Slíkt er alltaf erfitt að segja til um, en ég á mjög bágt með að ímynda mér að Freedom verði enn lesin eftir fimmtíu ár, próf sem önnur verk sem hingað til hafa verið kölluð „Great American Novel“ standast auðveldlega – hvað þá hundrað. Og ef Franzen er sá eini sem heldur á lofti þessari bókmenntahefð í dag þá er erfitt að komast að annarri niðurstöðu en að hún sé í verulegri hættu, ef ekki löngu dauð eins og sumir hafa haldið fram. Tilraun Franzens er lofsverð og bókin er á köflum vel skrifuð, en vegna ýmissa vankanta stenst hann ekki samanburðinn við þjóðarskáld fyrri tíma. Hvort yfirhöfuð sé mögulegt að skrifa þjóðarskáldsögu á tuttugustu og fyrstu öld, á tímum dreifðrar og brotakenndrar sjálfsveru og tæknivæðingu, er önnur spurning sem ég þori ekki að svara með fullri vissu. En niðurstaða þessarar umfjöllunar gefur ekki tilefni til bjartsýni. Ég kýs þó að halda í vonina og bíða spenntur eftir einhverju sem á titilinn frekar skilið og getur staðið jafnfætis með þeim skáldum sem ég hef rætt ofar. Þangað til verður Franzen að duga.