Skáldskapur vikunnar: Hún er reið eftir Maju Lee Langvad

HÚN ER REIÐ við blóðfjölskyldu sína vegna þess að þau hringja alltaf samdægurs þegar þau vilja hittast. Það væri ágætt ef þau gætu í það minnsta hringt einum degi fyrr.

Hún er reið að samskiptin við blóðfjölskyldu hennar skuli öll vera á þeirra forsendum. Og það eru þau, í öllu falli að hennar mati.

Hún er reið að það skuli vera ómögulegt að komast að samkomulagi við blóðforeldra hennar án milligöngu elstu systur hennar.

Hún er reið yfir að elsta systir hennar skuli hafa mest að segja, bara af því að hún er elst í systkinahópnum.

Hún er reið við elstu systur sína.

Hún er reið við næstelstu systur sína.

Hún er reið við næstelstu systur sína því hún bað hana að taka þátt í borga fyrir námsdvöl frænda þeirra í Bandaríkjunum. Það má vel vera að það sé alvanalegt í Suður Kóreu að ættingjar hjálpi hver öðrum með útgjöldin, en hún er þrátt fyrir allt alin upp í Danmörku þar sem enginn hefur nokkru sinni beðið hana að taka þátt í að greiða fyrir menntun frænda sinna. Svo veður hún heldur ekki í peningum þótt hún hafi alist upp í Danmörku. Vissulega fékk hún þriggja ára ritlaun en þá peninga fékk hún svo hún gæti einbeitt sér að því að skrifa bækur. Það er ekki meiningin að hún eyði þeim í að greiða fyrir námsdvalir ættingja sinna erlendis. Á hinn bóginn verður hún að fara að taka þátt í skuldbindingum fjölskyldunnar vilji hún rækta nánari tengsl við blóðfjölskyldu sína. Það gerir ekkert gagn að hún geri bara kröfur til fjölskyldunnar. Hún verður líka að mæta þeim kröfum sem fjölskyldan gerir til hennar. Hún verður að gefa eitthvað til baka.

Hún er reið að hún skuli þurfa að taka þátt í skuldbindingum fjölskyldunnar vilji hún rækta nánari tengsl við blóðfjölskyldu sína. Hún getur ekki að því gert að finnast hún dálítið misnotuð af næstelstu systur sinni. Rétt einsog hún getur ekki heldur látið vera að finnast það misnotkun þegar elsta systir hennar biður hana að kenna tveimur dætrum sínum ensku.

Hún er reið við sjálfa sig að taka því sem misnotkun frekar en fjárfestingu sem muni komi henni sjálfri til góða. Þegar frænkur hennar hafa lært næga ensku geta þær túlkað fyrir hana og blóðfjölskyldu hennar, og þá væru þau ekki alltaf svona háð Kyong Hee.

Hún er reið að þau skuli vera háð Kyong Hee.

Hún er reið við Kyong Hee fyrir að þýða ekki orðrétt það sem blóðfaðir hennar segir.

Hún er reið við Kyong Hee fyrir að þýða ekki orðrétt það sem blóðmóðir hennar segir.

Hún er reið við Kyong Hee fyrir að þýða ekki orðrétt það sem hún segir.

Hún er reið við Kyong Hee fyrir að túlka það sem hún segir á máta sem hún heldur að muni gagnast henni og blóðfjölskyldu hennar.

Hún er reið við elstu systur sína fyrir að vilja ekki fá einhvern annan en Kyong Hee til að túlka fyrir þau. Nú var hún rétt búin að ákveða að segja blóðfjölskyldu sinni að hún væri lesbísk. Hún spurði samt Mijeong hvort hún vildi ekki túlka fyrir sig því hún gat ekki undir nokkrum kringumstæðum séð Kyong Hee fyrir sér segja blóðforeldrum hennar að hún væri lesbísk. Kyong Hee heldur, hefur hún frétt frá Laurent, að hún hljóti að hafa átt erfiða æsku, fyrst hún er lesbísk.

Hún er reið við Kyong Hee fyrir að trúa því að hún hafi átt erfiða æsku, fyrst hún er lesbísk. Það má vel vera að Kyong Hee sé kristin, en það að vera kristin er engin afsökun fyrir að draga slíkar ályktanir.

Hún er reið við sjálfa sig að vilja yfir höfuð segja blóðforeldrum sínum að hún sé lesbísk. Það er ekki nokkur ástæða til að segja þeim neitt sem þau geta ekki skilið hvort eð er.

Hún er reið við sjálfa sig fyrir að trúa því ekki að blóðforeldrar hennar geti skilið það, ef hún segir þeim að hún sé lesbísk.

Hún er reið að hún skuli bæði vera ættleidd frá Kóreu og lesbísk. Einsog það væri ekki nóg að vera annað hvort ættleidd frá Kóreu eða lesbísk.

Hún er reið við sjálfa sig fyrir að trúa því að það væri léttara að vera annað hvort ættleidd frá Kóreu eða lesbísk. Það er alls ekkert víst að það væri léttara. Það kemur svo margt annað til.

Hún er reið að vera ættleidd til lands þar sem það er alvanalegt fyrir lesbíur að vera með stutt, aflitað hár og ganga með buxurnar á hælunum og stálkeðju í buxnastrengnum. Þannig líta allavega flestar þeirra út sem koma inn á Vela. Það getur vel verið að í Danmörku sýni fólk samkynhneigðum meira umburðarlyndi en í Suður Kóreu, en á móti kemur að lesbíur í Suður Kóreu eru ekki skopstæling af sjálfum sér. Reyndar hefur hún hitt margar lesbíur á börum og klúbbum í Seoul sem eru einmitt hennar týpur. Vandamálið er bara að hún getur ekki talað við þær.

Hún er reið að hún skuli ekki geta talað við Yoo Mi fyrst þær laðast nú augljóslega hvor að annarri.

Hún er reið að hún skuli ekki geta sagt Yoo Mi að henni finnist hún sæt.

Hún er reið við sjálfa sig að hafa boðið Yoo Mi á stefnumót fyrst þær geta augljóslega ekki talað saman. Hún hefði getað sagt sjálfri sér að þetta yrði vandræðalegt.

Hún er reið við sjálfa sig að hún skuli hafa tekið Mijeong með sem túlk á annað stefnumót sitt með Yoo Mi. Vegna þess að það var enn vandræðalegra en á fyrsta stefnumótinu þegar þær þurftu stöðugt slá upp orðum á farsímunum sínum.

Hún er reið að Yoo Mi skuli ekki tala ensku.

Hún er reið að hún skuli ekki tala kóresku. Maður þarf ekki að geta talað saman til að geta stundað kynlíf, segir Mijeong, þegar hún barmar sér yfir tungumálavandræðunum.

Hún er reið að hún skuli ekki vita hvað Yoo Mi hvíslaði að henni meðan þær stunduðu kynlíf. Það næsta sem hún kemst „komuni“ þegar hún slær upp orðinu í farsímanum sínum er „komu“, sem þýðir „encouragement; inspiration; stimulation; incitation; incitement“.

Hún er reið að hún skuli þurfa að spyrja Mijeong hvað „komuni“ þýðir ef hún vill vita hvað Yoo Mi sagði við hana þegar þær stunduðu kynlíf. Það er ekki til neitt sem heitir „komuni“ segir Mijeong. Hún hugsar sig um í augnablik. Getur það hafa verið „keuman hae!“, sem hún hvíslaði? Eða „kkeullini“? Hún man satt best að segja ekki hvort það var nær „keuman hae!“ eða „kkeullini“, segir hún við Mijeong, sem svo útskýrir hvað orðin þýða. „Keuman hae!“ þýðir „stop it!“ og „kkeullini“ þýðir eitthvað einsog „do you think I’m attractive?“. Þriðji valkosturinn er að hún hafi hvíslað „kkollini“ segir Mijeong. Það þýðir eitthvað einsog „do you feel like making love to me?“ Mijeong útskýrir að „kkollini“ sé slangur sem bara mjög ungt fólk noti. Það er ódýrt orð, segir hún. Hún veit ekki nákvæmlega hversu gömul Yoo Mi er, en hún er að minnsta kosti yngri en hún sjálf. Þegar hún veltir því fyrir sér hlýtur hún að vera talsvert yngri.

Hún er reið við sjálfa sig yfir að hafa verið með Yoo Mi.

Hún er reið við sjálfa sig að hún skuli hafa sagt Astrid frá því að hún hafi verið með Yoo Mi. Þetta snýst hvorki um ást né kynlíf, segir hún við Astrid þegar þær tala saman á Skype. Þetta snýst um eitthvað annað, sem hún á erfitt með að útskýra hvað er, en það hefur að minnsta kosti ekkert með ást eða kynlíf að gera.

Hún er reið við Astrid fyrir að trúa sér ekki þegar hún segir að það hafi ekkert með ást eða kynlíf að gera. Þrátt fyrir að hún hafi reynt að útskýra fyrir Astrid að þetta sé liður í því sem henni finnst best lýst sem lausnarferli, þá vill Astrid ekki trúa henni. Astrid vill ekki trúa því að það hafi hvorki snúist um ást eða kynlíf þegar hún var með Yoo Mi, heldur að hún þyrði að sjá sjálfa sig sem asíska, að hún þyrði að sjást sem asísk. Það má vel vera að þetta sé liður í lausnarferli, segir Astrid, en hún kærir sig samt ekki um að hún sé með öðrum. Hvort heldur sem þeir eru gulir, rauðir eða bláir, kærir hún sig ekki um að hún liggi með öðrum en sér.

Hún er reið við sjálfa sig fyrir að rífast við Astrid á Skype.

Hún er reið við Astrid fyrir að rífast við sig á Skype.

Hún er reið að næstum öll samskipti við Astrid skuli eiga sér stað í gegnum tölvu.

Hún er reið við sjálfa sig fyrir að hafa ekki áttað sig á því fyrr að það myndi ekki ganga að vera í langlínusambandi við Astrid.

Hún er reið við Astrid fyrir að biðja sig ekki að flytja til baka til Danmerkur.

Hún er reið að finnast hún hlekkjuð við Suður Kóreu. Það er einsog eitthvað utanaðkomandi hindri hana í að flytja aftur til Danmerkur, segir hún við Astrid, þegar Astrid spyr hversu lengi hún haldi að hún muni búa í Seoul.

Hún er reið við sjálfa sig að hafa framleigt Astrid íbúðina sína.

Hún er reið við Astrid að hún skuli liggja og ríða öðrum í rúminu hennar.

Hún er reið við sjálfa sig að halda að Astrid liggi og ríði öðrum í rúminu hennar.

Hún er reið við sjálfa sig að hún hafi ekki selt íbúðina sína þegar hún var síðast í Kaupmannahöfn. Það var þess vegna sem hún fór þangað en þegar hún hafði árangurslaust leitað að kaupanda ákvað hún að framleigja Astrid í eitt ár í viðbót.

Hún er reið við sjálfa sig að hafa framlengt leigusamninginn við Astrid. Þótt hún hafi sloppið við að borga fasteignasala fyrir að finna kaupanda þá hefði það verið best fyrir þær báðar ef hún hefði bara selt íbúðina. Á meðan Astrid býr þarna, á meðan hún sefur í rúminu hennar, borðar mat af diskum í hennar eigu, er erfitt að færast áfram. Það er eiginlega fullkomlega ómögulegt.

Hún er reið við sjálfa sig að hún skuli tjá ást sína á Astrid í gegnum íbúð og húsgögn.

Hún er reið við sjálfa sig að hún skuli hafa leigt íbúðina með nokkrum húsgögnum. Þetta er einsog í gamaldags hjónabandi, segir Astrid, þegar þær tala saman á Skype. Maður gæti haldið að við hefðum búið saman í áraraðir þegar maður sér hvernig við höfum ruglað reytum, segir hún.

Hún er reið við sjálfa að hún skuli hafa skilið sjónvarpið eftir í íbúðinni, fyrst hún á það ekki sjálf. Það er ættleiðingarmóðir hennar sem á það, og hún fékk það að láni á sínum tíma, og nú hefur það bilað, segir Astrid þegar þær tala saman á Skype. Í sömu atrennu býðst Astrid til að mála gólfið í íbúðinni hennar ef hún bara greiðir fyrir málninguna. Gólffjalirnar eru svo slitnar að maður getur ekki heflað þær meira, segir Astrid, það fer ekki vel með trégólf að enginn skuli hugsa um það, bætir hún við.

Hún er reið að hún skuli ekki geta tekið afstöðu til þess hvort hún eigi að leyfa Astrid að mála gólfið í íbúðinni sinni eða ekki. Það virkar svo tilgangslaust að taka afstöðu til praktískra spurninga sem varða íbúð í Kaupmannahöfn nú þegar hún sjálf er hinumegin á hnettinum. Hver veit hvort hún muni nokkru sinni aftur búa í þessari íbúð? Hvort hún muni nokkru sinni búa aftur í Kaupmannahöfn? Það getur verið að hún muni aldrei aftur búa í þessari íbúð og þá gæti hún allt eins kastað peningunum út um gluggann, finnst henni. Að mála gólfið er ekki beinlínis neitt sem hækkar söluverðið og það getur fljótt kostað fleiri þúsund að borga fyrir málningu, grunn, pensla og allt það, hugsar hún.

Hún er reið við sjálfa sig að hún skuli ekki hafa selt íbúðina þegar hún flutti til Seoul. Þannig hefði hún getað hlíft sér við öllum praktísku hugleiðingunum varðandi íbúðina. Hún gat hins vegar ekki vitað að hún myndi vera svona lengi í Seoul. Í upphafi ætlaði hún bara að vera í burtu í hálft ár, en eitt leiddi af öðru, og nú eru bráðum liðin tvö og hálft ár síðan hún bjó í Danmörku.

Ljóðskáldið Maja Lee Langvad fæddist í Suður Kóreu og var ættleidd til Danmerkur þriggja mánaða gömul. Ljóðabókin Hun er vred – et vidnesbyrd om transnational adoption (Hún er reið – vitnisburður um þverþjóðlega ættleiðingu), sem þessi texti er fengin úr (þetta eru síður 150-156 úr ríflega 200 síðna löngum bálki) kom út núna í vor og hefur vakið talsverða athygli á Norðurlöndunum. Líkt og fyrri bók Maju, Find Holger Danske, er hún sjálfsævisöguleg og fjallar um og flækir sjálfsmynd þess sem hefur verið ættleiddur. Áður hefur birst á íslensku þýðing Hallgríms Helgasonar á frumdrögum þessa bálks í tímaritinu Stínu, 6. árgang 2011, 2. tölublaði. Textann hér að ofan þýddi hins vegar Eiríkur Örn Norðdahl. Hægt er að kaupa bókina á heimasíðu forlagsins Gladiator.