Laugardaginn 6. september klukkan 15 verða opnaðar tvær nýjar myndlistarsýningar í Anarkíu í Kópavogi. Í þetta sinn eru það þær Helga Sigurðardóttir og Margrét Kristjánsdóttir sem sýna verk sín.
Sýning Helgu Sigurðardóttur í neðri sal Anarkíu ber yfirskriftina Um býflugurnar og blómin.
Þar er annars vegar um að ræða ljósaskúlptúra, gerða úr pappamassa, og hins vegar vatnslitaverk, máluð á vatnslitastriga og pappír. Í verkum Helgu er sjónum beint að frjósemi og æxlun í fleiri en einum skilningi. Ljósaskúlptúrarnir vísa til býflugnabúa og hins mikilvæga frjósemis- og frjóvgunarhlutverks býflugnanna í lífskeðjunni – og raunar einnig í lífsskilyrðum mannkynsins, en frjóvgun býflugna er talin undirstaða allt að þriðjungs þeirrar fæðu sem mannkynið nærist á. Í vatnslitaverkunum er unnið útfrá formum sem eiga rætur að rekja til túlípana – sem eru eins og önnur blóm einmitt mótparturinn í frjósemisiðju býflugnanna – en í verkunum hafa þessi form brotist undan beinni skírskotun til veruleikans og öðlast sjálfstæða tilveru með margvíslegar formrænar og táknrænar vísanir. Við vatnslitamálunina er notað ríkulegt vatn sem eykur flæði litanna og skapar litasprengingar sem ásamt hinum margræðu lífrænu formum tjá ást, gleði og reiði – en vísa jafnframt til lífs og frjósemi.
Í efri sal Anarkíu er málverkasýning Margrétar Kristjánsdóttur, Síðasta ólífutréð – óður til palestínskra kvenna.
Málverk Margrétar eru andlitsmyndir af konum og þar veltir hún fyrir sér konunni undir slæðunni, ekki síst palestínskum konum sem hafa lifað mörg stríð og misst í þeim börn og barnabörn. Jafnframt er sjónum beint að vonsku og sinnuleysi heimsins sem stendur og horfir á slátrun ungra barna í beinni útsendingu, án þess að aðhafast. Þetta eru ágengar myndir og þrungnar tilfinningu, áhorfandinn horfist í augu við angist og þolgæði þess sem búið hefur við ranglæti og öngþveiti svo kynslóðum skiptir. Blaðgullið sem notað er í verkunum skírskotar til helgimynda (íkona) grísk-katólsku kirkjunnar en vekur einnig hugrenningar um mátt gullsins og vanmátt mannúðar og skynsemi gagnvart óreiðu og grimmd.
Báðar sýningarnar standa til 28. september.
Anarkía listasalur er til húsa að Hamraborg 3 (norðanmegin) í Kópavogi og er opinn þriðjudaga til föstudaga kl. 15-18 og um helgar kl. 14-18.