Mynd: Artangel.co.uk

Oddný Eir meðal þeirra sem hljóta bókmenntaverðlaun ESB 2014

Í dag var tilkynnt um vinningshafana í keppninni um bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins 2014 á bókamessunni í Frankfurt. Verðlaununum er ætlað að veita nýjustu og bestu upprennandi rithöfundunum í Evrópu viðurkenningu. Vinningshafar þessa árs eru: Ben Blushi (Albaníu), Milen Ruskov (Búlgaríu), Jan Němec (Tékklandi), Makis Tsitas (Grikklandi), Oddný Eir (Íslandi), Janis Jonevs (Lettlandi), Armin Öhri, (Liechtenstein), Pierre J. Mejlak (Möltu), Ognjen Spahić (Svartfjallalandi), Marente de Moor (Hollandi), Uglješa Šajtinac (Serbíu), Birgül Oğuz (Tyrklandi) og Evie Wyld (Bretlandi).
Bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins (EUPL) standa þeim löndum opin sem eru þátttakendur í Skapandi Evrópu, sem er fjármögnunaráætlun ESB vegna hinna skapandi- og menningarlegu greina. Á hverju ári sjá landsdómnefndir frá einum þriðja af þátttökulöndunum – 13 að þessu sinni – um að útnefna vinningshöfundana. Sjá minnisblað um Æviágrip höfundanna og samantekt um vinningsbækurnar.

„Ég óska vinningshöfunum í keppninni um bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins innilega til hamingju “ sagði Androulla Vassiliou, framkvæmdastjóri Evrópusambandsins um menntun, menningu, fjöltyngi og æskulýðsmál. „Verðlaununum er ætlað að sýna nýjustu og bestu upprennandi rithöfundunum í Evrópu sóma, hvert svo sem ættland þeirra eða tungumál kann að vera. Tilgangurinn er að vera vettvangur fyrir það besta sem Evrópa hefur upp á að bjóða í samtímabókmenntum; að styðja við bakið á bóksölu þvert á landamæri og að hvetja til þýðinga, útgáfu og lesturs á bókmenntaverkum frá öðrum löndum. Hin nýja Skapandi Evrópa áætlun ESB hefur upp á að bjóða styrki til þýðinga sem hjálpa rithöfundum til þess að ná til lesenda handan sinna eigin landmæra og utan eigin tungumálasviðs.“
Sérhverjum vinningshafa áskotnast 5.000 evrur í verðlaun. En það sem meira er, þá njóta þeir sömuleiðis aukinnar kynningar og athygli á alþjóðlegum vettvangi. Útgefendur þeirra eru hvattir til þess að sækja um ESB styrki til þess að láta þýða vinningsbækurnar yfir á önnur tungumál og ná þannig til nýrra markaðssvæða.

Frá því að verðlaununum var hleypt af stokkunum árið 2009, þá hefur ESB útvegað fjármagn til þýðinga á bókum 56 (af 59) EUPL vinningshafa, á 20 mismunandi evrópsk tungumál, þannig að útkoman varð alls 203 þýðingar – sem þýðir 3 – 4 þýðingar per bók. Vinningshafarnir njóta þess einnig að þeim býðst betri sýnileiki á öllum helstu bókamessum Evrópu, þar á meðal messunum í Frankfurt, London, Gautaborg og á Passaporta messunni í Brussel.

Vinningshöfum þessa árs verða afhent verðlaun sín við hátíðlega athöfn sem fram fer í Concert Noble höllinni í Brussel hinn 18. nóvember, að viðstöddum framkvæmdastjóra Evrópusambandsins um menntun og menningu, þingmönnum á Evrópuþinginu og ítölsku fulltrúunum sem nú er formennskuríki leiðtogaráðsins.

EUPL verðlaunin eru skipulögð af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins í samstarfi við Samtök evrópskra bóksala, Evrópska rithöfundasambandið og Samband evrópskra bókaútgefenda.