Skáldskapur vikunnar: PLASTBLÓM eftir Yahya Hassan

 

Í ÍBÚÐINNI SEM ÉG KVEIKTI Í
BORÐUÐUM VIÐ ALLTAF Á GÓLFINU
PABBI SVAF Á DÝNU Í STOFUNNI
SYSTKINI MÍN SEM ÞÁ VORU FÆDD
VORU DREIF ÚT UM ALLA ÍBÚÐ
EITT VIÐ TÖLVUNA EITT SKRÍÐANDI Á GÓLFINU
OG EITT HJÁ MÖMMU Í ELDHÚSINU
EF ÞÚ HELDUR ÁFRAM AÐ PIRRA SYSTKINI ÞÍN
ÞÁ KVEIKI ÉG Í ÞÉR
SAGÐI MAMMA OG OTAÐI KVEIKJARANUM HANS PABBA
EN ÞEGAR HÚN LAGÐI HANN FRÁ SÉR VARÐ ÉG FYRRI TIL
ÉG STAKK KVEIKJARANUM Í VASANN
GEKK SEKUR FRÁ
SETTIST Í SKOTIÐ Á MILLI OFNSINS OG SÓFANS
LÉT LOGANA FARA Í SLEIK VIÐ PLASTSTILKINN
ÉG SAT ÞAR ÞANGAÐ TIL ÉG GAT EKKI SETIÐ LENGUR
FÆRÐI MIG AÐEINS FRÁ OG LEIT FYRST Á LOGANA
SVO Á PABBA
OG HUGSAÐI AÐ ÞAÐ VÆRI BEST AÐ LEYFA HONUM AÐ SOFA
EN ÞÁ KOM MAMMA SKRÆKJANDI
OG PABBI VAKNAÐI LÖNGU FYRIR BÆNIR
OG LOGARNIR TÓKU TIL STARFA
OG PABBI SKREIÐ UPP STIGANA Á NÆRBUXUNUM
LOÐINN EINS OG GÓRILLA
VARAÐI HANN ALLA TAMÍLANA Í STIGAGANGINUM VIÐ
EN VIÐ FÓRUM NIÐUR Í KJALLARA
OG BIÐUM EFTIR SLÖKKVILIÐINU
ÞAÐ EINA SEM VIÐ TÓKUM MEÐ Í NÝJA STIGAGANGINN
VAR SVARTA SJÓNVARPIÐ SEM VIÐ ÁTTUM Í FÁEIN ÁR ENN
BAKHLIÐIN VAR BRÁÐNUÐ
OG FYRSTU BERNSKUMINNINGAR MÍNAR BRUNNAR
ÉG BREIDDI ÚT FULLT AF DAGBLÖÐUM
ÞAR TIL MEGNIÐ AF GÓLFINU VAR ÞAKIÐ
VIRTI FYRIR MÉR ÖLL ORÐIN OG MYNDIRNAR
ÞANGAÐ TIL MATURINN VAR BORINN INN
EF PABBI KOM AUGA Á ORÐ EINS OG KYNLÍF EÐA TYPPI
EÐA MYND AF LÉTTKLÆDDUM SKANDÍNAVA
SEM GÆTI KYNT UNDIR VANTRÚ
ÞÁ REIF HANN HANA ÚR EÐA SNERI BLAÐINU VIÐ
EN Á GAMLÁRSKVÖLD SÁTUM VIÐ SAMAN VIÐ BORÐ
ÞAÐ VAR TÓMATSÓSA OG KÓK OG HNÍFAR OG GAFFLAR
HANN GAF Á KJAFTINN EF STEMMINGIN VARÐ OF GÓÐ
ANNARS VAR ÞETTA AFAR SIÐMENNTAÐ BORÐHALD

Ljóðið er úr bókinni Yahya Hassan eftir Yahya Hassan, sem valdið hefur miklu fjaðrafoki á norðurlöndunum og víðar síðustu misserin – líkt og má lesa um hér. Það birtist hér í þýðingu Bjarka Karlssonar en bókin öll er væntanleg frá Máli og menningu í haust.