Skáldskapur vikunnar: Ljóðlist eftir Marianne Moore

 
Ég kann líka illa við hana: aðrir hlutir skipta meiru handan þessa fitls.
Þegar maður hins vegar les hana af fullkominni fyrirlitningu uppgötvar maður,
þrátt fyrir allt, stað þar sem hið ósvikna fær þrifist.
             Hendur sem geta náð taki, augu
             sem geta þanist, hár sem getur risið
             gerist þess þörf, þessir hlutir skipta máli og ekki vegna þess að

hægt sé að þröngva upp á þá hástemmdri túlkun
             heldur vegna þess að þeir hafa
notagildi. Þegar þeir verða nógu afleiddir
             til að skiljast ekki lengur
má segja hið sama um okkur öll, að við
             dásömum ekki það sem
             við getum ekki skilið: leðurblökuna
                         sem rígheldur sér á hvolfi eða í leit að

æti, fíla sem troðast, ótemju sem fer í kollhnís,
             óþreytandi úlf undir
tré, rýninn sem verður ekki bifað iðandi í skinninu
eins og hross undan fló, hafna-
boltaaðdáandann, tölfræðinginn –
             né heldur er réttmætt
                         að mismuna „kaupsýsluritum og

kennslubókum“; öll skipta þessi fyrirbæri máli.
             Maður verður hins vegar að skilja
á milli: þegar hálfskáldin draga þau fram í dagsljósið
             er útkoman ekki ljóðlist,
né fyrren skáldin meðal okkar verða
             „bókstafstrúarmenn
             ímyndunaraflsins“ – ofan við
                         óskammfeilni og smámuni og geta stillt fram

til sýnis, ímynduðum görðum með raunverulegum
                                    froskum, munum við öðlast
hana. Í millitíðinni, ef þú krefst annars vegar
hráefnis ljóðlistarinnar í
             öllum sínum hráleika og
             þess sem hins vegar er
                         ósvikið, þá hefurðu áhuga á ljóðlist.

Þýðing: EÖN