Skáldskapur vikunnar: „E-mail“

Smásaga eftir Sindra Freysson

„E-mail“ sem rafbók:
—KINDLE—
—EPUB—
—PDF—
Kæri E.

Albéres var næstum hamingjusamur þegar hann vaknaði þennan fagra maímorgun við hljóð regndropa sem féllu á þakið einsog hamrað væri á ritvél. Sólin strokaði út allan texta regnsins hálftíma síðar. Í veðurblíðunni kristallaðist allt hið besta sem hægt var að finna í Frakklandi á þessum árstíma.

Já, næstum hamingjusamur – eins hamingjusamur raunar og gagnrýnandi getur yfirhöfuð orðið. Eina sem raskaði ró hans var þegar hann leit yfir á spanskgrænt þakið handan götunnar og kom auga á rytjulega kráku sem þar hímdi kolsvört og skuggaleg; Albéres var hjátrúafullur þótt hann hefði skömm á hjátrú að hætti borgaralegrar upplýsingar. Hann leit snöggt undan, harðákveðinn í að láta ekki skrattans illfyglið spilla fyrir sér efnilegum degi.

Ég á að vera hafinn yfir svona kerlingabækur, hugsaði hann með sér. Síðan andvarpaði hann; líf hans snerist um bækur – þær voru ástkonur og vinir þegar best lét, þrælapískarar og plága þegar verst lét. Hann hafði aldrei náð tengslum við þá fullyrðingu Kafka að bók verði að vera öxin sem heggur í gaddfreðið hafið innra með okkur.

Albéres var óþægilega meðvitaður um vaxandi síðukeppi og grá punghár, en honum fannst hrörnun sín – þó hvimleið væri – hjóm borið saman við andans verkin sem hann hafði seinustu tuttugu árin haft viðurværi af að lofa og lasta, upphefja og jarða. Auðvitað fækkaði bitastæðum andans verkum eftir því sem nær dró í tíma: Skáldsagan var að kikna undir eigin þunga og sífellt fleiri höfundar – svokallaðir höfundar sagði hann stundum í góðra vina hópi – sem virtu ekki skáldsöguna einsog hún verðskuldaði virtust vera útgefnir. Hann hafði til dæmis skrifað ritdóm af miklum móð fyrr í vikunni, dóm um bók eftir ungan höfund með asnalegan hökutopp og starandi augnaráð, bók sem hann hafði sett í „kurteislega tætarann“.

Kurteislegi tætarinn fólst í að skjóta hér og þar inn í þungbúinn bókadóm nokkrum hrósyrðum. Fyrir vikið varð neikvæðnin ekki jafn æpandi og ekki vaknaði grunur um annarlegar hvatir gagnrýnandans. Enginn gat þó velkst í vafa um að honum fannst bók skeggjaða höfundarins torræð og ruglingsleg samsuða, full af ofsóknaræði og skringilegheitum.

En hann þurfti líka að lesa og dæma bækur af slíku tagi; leiðin til hásætis hins ósnertanlega og alvitra bókmenntapáfa var vörðuð ótal drullupyttum. Skuggaleg dalverpi innan um sólfægða tindana í bókaheiminum. Hann hafði meðal annars skrifað bækur um Giraudoux og Sartre og á þeim ilmandi slóðum vildi hann dvelja; í gjöfulu kompaníi við rómuð mikilmenni bókmennta og heimspeki. Hann hafði afplánað sína vist í drullunni að sinni og var því allshugar feginn að geta slakað aðeins á þennan dýrðardag og látið sig dreyma um fyrirheitna landið – starfsvettvang á öðru og útbreiddara blaði þar sem athyglin, völdin og launin voru að sama skapi meiri; nánar tiltekið Le Monde. Kátlegt hugsaði hann með sér; fyrirheitna landið mitt er Heimurinn. Heimurinn! Maður hljómar bara einsog árásargjörn geimvera! Hann kímdi að eigin fyndni.

Hann smurði dísætri kirsuberjasultu á brauð, sótti morgunblöðin tvö sem hann keypti og opnaði annað þeirra. Allt var í sömu ánægjulegu skorðunum þar til hann rakst á kvikindislega fréttaklausu á blaðsíðu 3.

Hann var miðpunktur hennar, tilefni hennar!

Albéres galopnaði augun með skelfingarsvip. Hann hóstaði upp brauðmolum löðrandi í sultu einsog berklasjúklingur blóðkögglum. Fyrirheitni heimurinn fjarlægðist og varð óskýr þúst í þoku. Langþráð hásætið fuðraði upp. Honum varð óglatt. Hann leit út og sá ekki lengur svartan fugl bölvunarinnar á þakinu; aðeins sjónvarpsloftnet sem ófust saman í ótal risavaxin E.

Lítum aðeins betur á ástæður þess að brauðsneið með sultu stóð í þessum ágæta manni vorfagran dag árið sem mannskepnan tróð tunglið fótum í fyrsta skipti:

Hann, það er að segja franski gagnrýnandinn René-Marill Albéres, ritdæmdi í maí árið 1969 bók landa síns Georges Perec, La Disparition, í hinu virta bókmenntariti Les Nouvelles littéraires. Hann sagði bókina hráa, ofbeldisfulla og yfirborðslega og var almennt talað lítt hrifinn. Af dómnum var fullkomlega ljóst að gagnrýnandinn góði hafði ekki veitt því eftirtekt að hvarfið sem titill bókarinnar vísar til, er í raun ekki mannshvörfin í bókinni heldur sú staðreynd að í henni er hvergi að finna hinn mjög svo algenga staf E. Þann sérhljóða er hvergi að finna í þeim tæplega 100 þúsund orðum sem teygja sig einsog maurafylking á milli spjalda bókarinnar.

Þessi mistök endurspegla ekki aðeins glámskyggni gagnrýnandans, sem gerði hann sjálfkrafa að aðhlátursefni í frönskum bókmenntaheimi, heldur einnig hversu lipurlega bókin rann áfram án umrædds stafs. Þetta dæmi fjallar því bæði um hið hættulega ólæsi þeirra sem eiga að kunna að lesa og mikla stílgáfu höfundar. En þegar ég velti þessum mistökum betur fyrir mér, komst ég jafnframt að þeirri niðurstöðu að í þeim kjarnast ákveðinn boðskapur sem ekki mætti daufheyrast við.

Ef umrædd bók, Hvarfið, er gerð að nokkurs konar táknmynd fyrir heiminn allan og Albéres er fulltrúi fjöldans, kemur í ljós að heimurinn getur vel án bókstafsins E verið – og fjöldinn myndi tæpast sakna E lengi. Ekki frekar en orða sem glatast úr tungumálum heimsins á hverjum degi. Í því sambandi má benda á frásagnir um frumstætt samfélag eyjaskeggja á Kyrrahafi, sem hefur afar fátæklegan orðaforða. Og orðaforðinn rýrnar stöðugt, því í hvert skipti sem meðlimur ættbálksins deyr er nokkrum orðum útrýmt til að tákna sorg eftirlifenda. Dauðinn og tungumálið eru semsagt óaðskiljanleg.

Ímyndi maður sér að bókstafir stafrófsins, sem eru auðvitað mismargir og ólíkir eftir löndum og tungumálum, standi fyrir mannverur, verður þetta ennþá athyglisverðara íhugunarefni. Með öðrum orðum; ef hátt í þrjú hundruð blaðsíðna bók þrífst ágætlega án eins algengasta stafs sem fyrirfinnst í flestum tungum, gæti hinn troðfulli heimur ekki hæglega komist af án fjölmargra íbúa sinna?

Ég svaraði því játandi eftir stutt hik.

Þegar ég hafði rutt þeirri siðferðislegu hindrun úr vegi, vöknuðu nýjar og síst minna spennandi spurningar í huga mér. Því er ekki að leyna að þessar spurningar eiga rætur að rekja til þeirrar staðreyndar að gestirnir á hótelinu sem Tómas Guð orti um forðum, hafa fyrir löngu breytt því í óvistlega holu. Þar er ekki lengur þverfótað fyrir fólki:

Það er alls staðar. Ekki aðeins eru herbergin pakkfull; gangarnir, geymslurnar og móttakan iða af fólki. Opnaðu fyrir krana og í stað vatns streymir út hold. Þakið er þéttsetið fólki, það hangir á veggjunum og hírist á svölunum, matsalnum var breytt í flóttamannabúðir fyrir löngu. Innan skamms hlýtur hótelið, veggir þess og gólf, að láta undan þunganum og hrynja. Alls staðar er fólk einsog í stappaðri fjöldagröf kviksettra! Það hrúgast umhverfis okkur og það er ekkert að hverfa, heldur fjölgar sér og étur sig á ógnvænlegum hraða í gegnum jörðina sem nærir það af veikum mætti …

Mig verkjar í höfuðið að hugsa um manngrúann sem sprettur upp og fjölgar sér einsog arfi í glataðri paradís.

Georges Perec var ekki fyrsti höfundurinn sem upprætti E úr skáldskap sínum, langt í frá. Við getum farið aftur um tvöþúsundogfimmhundruð ár og hitt þar fyrir Grikkjann Lasus, sem var aðeins að þreifa fyrir sér á þessu sviði, eða farið tæp tvö þúsund ár aftur í tímann og hitt fyrir annan Grikkja, Tryphiodorus að nafni, sem skrifaði 24 binda verk um ævintýri Ódysseifs. Í fyrsta verkið vantaði alfa, í annað beta, í þriðja gamma, fjórðu delta, í fimmtu epsilon – og svo framvegis alla leið að omega. Fræðimaðurinn Addison, sem gaf þessu brottnámi nafn snemma á 18. öld, kallaði það „lipogram“ – lipo dregið af gríska orðinu „leipen“, sem þýðir að yfirgefa eða að vanta, og „gram“ frá orðinu „gramma“, sem merkir bókstafur. Ég þekki ekkert íslenskt orð yfir þetta hugtak og leyfi mér því að stinga upp á heitinu „stafahvarf“ – orð sem er skínandi gegnsætt og þjált að mínu viti.

Addison var ekkert yfir sig hrifinn af stafahvarfi, en sagði þó synd að bók Tryphiodorusar hefði ekki varðveist. Hún myndi vera einn dýrmætasti fjársjóður grískrar tungu; safn sjaldgæfra orða, flókinnar málfræði og óvenjulegrar stafsetningar. Í slíkum fjársjóði voru nokkrir bókstafir einskisverðir.

Og við getum rakið okkur áfram í bókmenntasögunni; Lope de Vega Carpipo skrifaði fimm skáldsögur með þessari tækni á síðari hluta 16. aldar og fram á þá sautjándu. Landi hans, Alcala y Herrera, sem lifði og dó á 17. öld, skrifaði Los dos soles de Toledo og sleppti bókstaf. Átjándaraldar maðurinn Gottlob Burman hataði bókstafinn R út af lífinu, neitaði fyrir vikið að segja eða skrifa eftirnafnið sitt í sautján ár og orti 130 R-laus ljóð. Og Franz Ritter skrifaði seint á 18. öld um 200 blaðsíðna skáldsögu, Die Zwillinge, án þess að leyfa R að vera með í fjörinu. Orðaleikarinn Gyles Brandreth umritaði ýmis leikrit Shakespeare og felldi út nokkra stafi í leiðinni; í leikritinu um Skotann morðóða Macbeth duttu bæði A og E út úr textanum. Aðdáunarverð þrekraun; bara í titli verksins koma báðir þessir bókstafir fyrir. Og Ross nokkur Eckler lék sömu kúnstir með barnagælur.

Og áður en ég lýk þessari upptalningu; uppáhaldsdæmið mitt er Ernest Vincent Wright. Hann eyddi hálfu árinu 1937 í að skrifa heila E-lausa bók og tókst það. Ekkert E. Samt er það svo að í ensku er E notað fjórfalt – fimmfalt fullyrða sumir – oftar en nokkur annar bókstafur. Í frönsku er líka erfiðast að forðast E, en Perec tókst þó að útiloka það glæsilega einsog gagnrýnandinn vinur okkar fékk óþyrmilega að kynnast (enski þýðandinn þurfti að kljást vð nær ósigrandi textavirki, en hafði frækinn sigur). Í spænsku er A algengasti stafurinn. Í þýsku ræður R ríkjum. Sömu sögu er að segja um íslensku, þó að A fylgi fast á hæla þess. Speglar kannski eðli tungumálanna og skapgerð þjóðanna sem þau tala á skondinn hátt.

Wright ákvað að skrifa E-lausu bókina sína einmitt vegna þess hversu oft stafurinn kom fyrir í tungumálinu og „sökum þess að það var sagt ómögulegt“. Maður að mínu skapi – hið ómögulega á að vera eilíf hvatning. Hann batt niður E-arminn á ritvélinni sinni með snæri til að nota ekki stafinn í ógáti eða láta freistast. Í bókinni eru 50.110 orð án E. Það stóð raunar framan á henni þegar hún kom út árið 1939. Hún hét Gadsby – með D-i – og flestir keyptu hana í misgripum fyrir bók F. Scott Fitzgeralds, The Great Gatsby. Sagan segir að höfundurinn hafi dáið á útgáfudegi bókarinnar. Svona einsog ef Guð hafi hrokkið upp af um leið og hann hafði framkvæmt hið ómögulega: skapað heiminn. Sem er hreinn og tær himinn án E.

Já, heimurinn. Fyrirheitni staðurinn. Mig langar til að minna á þá skemmtilegu staðreynd að í nöfnum 111 landa af 186 löndum heimsins er ekkert E að finna – og farnast E-lausu löndunum þó þokkalega. Íbúar jarðarinnar eru tæplega sjö milljarðar og síðan verða þeir átta og níu … Í Evrópu búa yfir áttahundrað og þrjátíu milljónir karla og kvenna. Á Íslandi búa um þrjúhundruðogtuttuguþúsund manns og eftir hálfa öld muni íbúarnir verða hátt í hálf milljón talsins. Á höfuðborgarsvæðinu búa um það bil tvöhundruðogfimm þúsund manns. Í Breiðholtshverfi er að finna tuttuguogtvö þúsund manns. Í blokkinni minni búa sjöhundruð manns. Í stigaganginum mínum búa sextíu manns. Ég bý hins vegar einn. Í íbúð á efstu hæð. Raunar í íbúð E-6.

Loksins er ég farinn að tala um sjálfan mig. Ég reyni að forðast það eftir megni. Mér líður vel bakvið tjöldin. Ég vil einungis taka fram að það er ekkert E í nafninu mínu.

En ég er vissulega Einn með stóru E-i. Engin kona. Engir krakkar. Enginn köttur. Enginn gullfiskur á krónísku hringsóli í glerkúlu. Aðeins ég og veraldlegar eigur mínar. Þær eru of fáar til að það taki því að telja þær upp – ég dýrka hvorki hluti né sanka að mér verksmiðjuframleiddum minningum. Einmanaleiki mannsins birtist fyrst og fremst í hlutunum sem mynda krans um tilveru hans.

Ég borða einn en það pirrar mig ekki. Ég verð hins vegar óþægilega angurvær þegar ég horfi á litla einsmannsborðið sem ég sit við á kvöldin, diskinn, glasið og hnífapörin. Og sú tilfinning magnast þegar ég stari á tilbúna upphitaða réttinn sem hentar með stærðfræðilegri nákvæmni einum einstaklingi, í þessu tilviki mér. Ein manneskja er líka ósköp matgrönn. Afgreiðslustelpurnar í búðinni glápa tortryggnum augum á mig þegar ég legg matarkörfuna upp á færibandið og tíni upp úr henni þetta smáræði sem ég þarfnast. Einsog þær haldi að því sem uppá vanti hafi ég troðið inn á mig. Ég áfellist þær ekki. Aðrir viðskiptavinir í stórmarkaðinum ýta drekkhlöðnum innkaupakerrum upp að afgreiðslukössunum og kikna undan pokaklyfjunum á leiðinni út í eilífð neyslunnar. Önnum kafnir smiðir sorpfjallsins.

En ég er ekki einmana þótt ég sé einn. Ég kalla aldrei á félagsskap. Ég öfunda ekki stórfjölskyldurnar sem þyrpast út á gangana á morgnana; vansvefta, langþreyttar og átakanlega rúnar næðinu sem allir menn þarfnast til að finna friðinn. Í fjölskyldum er enginn svefnfriður; börn halda vöku fyrir foreldrum sínum með gráti, tölvuleikjum, heimtufrekju eða fyrirgangi, foreldrar halda vöku fyrir börnum sínum með drykkju, sjónvarpsglápi, kynlífi, klósettferðum og rifrildum. Á andvökunóttum heyri ég í þeim úr öllum áttum, nema að ofan – þar er einungis kalt bárujárn einsog lok á krukku fullri af suðandi flugum. Alls staðar er fólk að angra fólk. Endalaust. Einrúm mitt er aðeins í orði kveðnu.

Á hverjum morgni keyri ég of hratt í vinnuna í von um að komast þangað áður en fólksmergðin í bílunum teppir allar götur. Ég keyri hraðar en svo að ég geti leitt hugann að fegurðinni í borginni – því að mér er sagt að hún eigi sér snortra kima, þótt ég hafi aldrei beinlínis hrifist af heildinni. Ég veit ekki heldur hver viðmiðunin kann að vera? Múrmansk? Það skipti líka engu hvort ég myndi reyna að bera Reykjavík saman við meintan ljótleika Pristína eða meinta fegurð Parísar; í mínum augum drukkna öll einkenni stórborga í manngrúa. Fólkið kaffærir allt. Flóðbylgja holdsins.

Á þessum geigvænlega hraða renna afturljós bílanna saman í eina línu einsog blóðbuna úr morgunsárinu. Aðrir keyra líka hratt, kannski á flótta frá vettvangi glæpsins – hver og hvar svo sem hann er, kannski innra með okkur? Kannski henti maðurinn í græna skutbílnum kerlingunni sinni framaf svölunum í rifrildinu um nóttina. Níddist maðurinn í gráa jeppanum á börnunum? Eða skar konan í rauða smábílnum karlinn á háls í gærkvöldi? Morð hefur svo ótal mörg andlit. Og morðingjarnir svo margvísleg farartæki.

Á fleygiferð á malbikinu finnst manni bílarnir vera í einum hnappi, að hraðinn sameini þessar málmflísar sem skotið hefur verið út úr svefnhverfum í morgunsárið. Líti maður af malbikinu og rassgatinu á næsta bíl bíður aðeins gjörgæslan eða ormagarðurinn. Ef einhver víkur af leið er dauðinn vís.

Já, einmitt það sem ég ætlaði að tala um: Dauðinn.

Vitundin um dauðann kemur hænufeti á undan vitneskjunni um tilurð lífsins. Dauðinn er sterkari í manneskjunni í samræmi við svart og þungt eðli sitt. Við burðumst með dauðann á öll stefnumót okkar. Hann íþyngir okkur á verslunargötunni, í veislum, í þröngum vinahópi, í einrúmi tveggja þar sem lífið verður oftast til – og að sjálfsögðu í umferðinni. Dauðinn er einsog strikamerki á vörum; sönnun þess að varan sé framleidd og gjaldgeng í tölvustýrðu kerfinu. Og það er tímabært að við horfumst í augu við dauðann með nýjum hætti. (Í framhjáhlaupi vil ég minna á að það er ekkert E í dauðanum.)

Ég vinn sem forritari í meðalstóru hugbúnaðarfyrirtæki skammt frá gömlu höfninni; út um glugga matsalarins má sjá ryðétna hvalveiðibátana nudda saman kinnum og gulan vita blikka fjarlæg skip einsog kappsöm skækja. Ég mata tölvur á talnarunum sem aðrir hafa sett saman. Ég þykist hvorki skilja til hlítar þessar tölulegu stærðir né vita hvaða tilgangi forritin þjóna þegar búið er að slá inn allar tölurnar; það er ekki í mínum verkahring. Þetta er að mörgu leyti tilbreytingarlaust starf en launin eru furðugóð, vinnutíminn er þolanlegur og hugurinn er ekki undirlagður á meðan; augun og fingurnir sjá um obbann af erfiðinu.

Að mörgu leyti minnir þetta á að vinna í fiski, en í stað þorskhausa eru tölur á færibandinu. Eini munurinn er kannski sá að einn þorskur sem fer forgörðum skiptir engu máli, en gleymist tala í forritun eða fari eitthvert á flakk geta afleiðingarnar verið skelfilegar fyrir niðurstöðuna. Raunar þarf lítið til að gagnlegt forrit umturnist í gjöreyðandi vírus. Einn tölustafur hverfur, einn bókstafur villist af leið …

Sem breytir þó ekki fyrrsögðu; nákvæmnin felst fremur í samstillingu augna og handa en margbrotinni heilaleikfimi. Ég hef því svigrúm til dagdrauma – sem ég nýti mér sjaldnast því draumavingl er mér lítt að skapi – eða heilabrota um óskyld efni, sem ég viðurkenni að ég láta sífellt oftar eftir mér. Yfirleitt tæmi ég þó aðeins hugann, hvíli hann til að geta stimplað mig út að vinnudegi loknum án þess að vera þurrausinn andlega. Af því leiðir að ég hugsa mestmegnis í eigin tíma, á eigin reikning. Það hefur þann ótvíræða kost að ég hef ekkert samviskubit yfir hugsunum mínum; ég stel ekki neinu frá öðrum á meðan.

Ég lá til dæmis í rúminu heima hjá mér þegar ég fór að velta fyrir mér hinu horfna E og gagnrýnandanum seinheppna sem gaf fjarveru eins fínlegs bókstafs engan gaum og maulaði sultubrauðið sitt barnslega glaður í bragði – þar til hann fletti síðu og framtíðarvonir hans brotlentu. Ég vaknaði snemma og fór allt í einu að hlæja. Ég hugsaði um E-ið sem hvarf sporlaust, sem enginn saknaði, og ég fékk hugljómun – ef nota má svo merkingarþrungið og hástemmt orð til að lýsa því sem laust niður í huga mér. Morgunstund einbúans á efstu hæðinni færði honum – yðar einlægum – og heiminum öllum eftirfarandi útkomu. Óhjákvæmilega útkomu:

Það er nauðsynlegt að fækka aðeins í heiminum. Grisjun mun gera okkur kleift að öðlast kyrrðina og rýmið sem mig og fleiri dreymir um. Eða með bláköldum orðum; drepa þarf menn. Mér er bölvanlega við tilhugsunina, ég tek það fram. Ég er ekki gefinn fyrir ofbeldi. Ég er kveif ef eitthvað er, sakaskráin er flekklaus. En ég hef gert upp hug minn, mér verður ekki hnikað héðan í frá. Við erum OF mörg. Ótal símaskrár af ótal nöfnum. Endlausir smáletraðir dálkar.

Til að leggja mitt af mörkum til hamingju heimsins þarf ég að ráða mann af dögunum. Ryðja honum úr vegi, kála honum, bana honum, drepa hann, myrða, slátra, aflífa …

Miðað við hversu manndráp eru fátíð á Íslandi er tungumálið ískyggilega auðugt af orðum um þann hryllilega verknað. Kannski er skýringin á lágri morðtíðni að finna í nákvæmlega þeirri staðreynd; frá upphafi hafa íbúarnir einkum vegið hvern annan í orðum. Við höfum látið Íslendingasögunum og kvikmyndunum eftir blóðbaðið. Þetta styður það sem fyrr sagði; dauðinn og tungumálið verða ekki aðskilin. Ég er ósköp feginn að tungumálið sé vinsælasta morðvopnið á Íslandi. Ég myndi ekki kæra mig um að búa við sverðaglamur, sprengingar, kúlnahríð eða hnífakast, því einsog áður sagði, er ég friðsamur, dagfarsprúður og löghlýðinn þegn. Ég hef aldrei gert öðrum manni miska. Ég hef óbeit á valdbeitingu og misþyrmingum, hryllir við blóði. Einhvern tímann gekk ég fram á mannræfil sem hafði verið misþyrmt niðri í miðbæ, andlitið var ókennileg, rauð klessa – eggjahræra alþakin tómatssósu flaug mér í hug. Mér klígjaði svo heiftarlega við manninum að ég gat enga líkn veitt honum. Hann æpti á hjálp en ég læddist í burtu einsog vansæl vofa.

Þetta segi ég til að skýra út, ekki síður fyrir sjálfum mér en þér, að forsenda ákvörðunar minnar á ekki rætur að rekja til blóðþorsta eða dálætis á því frumstæða atferli að vinna öðrum mein. Þvert á móti. Kalt og yfirvegað mat ræður fyrirætlunum mínum og gjörðum. Mér þykir raunar afar leitt að þurfa að myrða til að ná markmiðum mínum; ég vildi óska að ég hefði önnur ráð. En skýringin er þessi:

Ég trúi því að með því að velja einstakling af handahófi og koma honum fyrir kattarnef geti ég stuðlað að skárri heimi. Hvernig þá? viltu örugglega vita. Jú, svarið er einfalt. Miðað við núverandi fólksfjölgun í heiminum verður óbærilegt að vera til um það leyti sem ég kemst á eftirlaun. Fólk verður alls staðar; maðkaflóki að kjamsa á eigin slímugu bendu. Hver einasta fæðing er atlaga að framtíðinni. Með öðrum orðum; um það leyti sem mér og jafnöldrum mínum ætti loks að gefast kostur á að njóta lífsins mun lífið líkjast dauðanum. Verður kannski verri en dauðinn. Ferðalag til útlanda verður kvalræði, blint kafsund í skítugu djúpi holds og vessa.

Eitt morð breytir litlu þar um, bendir þú eflaust á og það réttilega. Ég veit að með því að svipta einn mann lífi hef ég aðeins fjarlægt einn dropa úr sjónum – og hver er svo geðsjúkur að reyna að lækka yfirborð hafsins með dropateljara?!

Ekki ég.

Það vakir annað og meira fyrir mér. Ég held nefnilega að þessi hugmynd mín, sé hún fagmannlega útfærð og fái víðtæka umfjöllun, kunni að marka upphaf fjöldahreyfingar. Það er ekki vanþörf á, sérstaklega hjá þjóðum sem eru að kikna undan sjálfum sér. Ég bind vonir við að það verði vinsæll leikur á heimsvísu að drepa; velja sér eina manneskju úr ágengum og þvaðrandi aragrúanum og binda enda á þjáningar hennar. Svo vinsæll raunar að A sem drepur eða ætlar sér að drepa B viti ekki nema C verði fyrri til, og enginn þeirra hafi að sjálfsögðu minnstu hugmynd um hvort að D, E eða F o.s.frv. fyrirkomi þeim, annað hvort áður en þeim tekst að murka lífið úr einhverjum eða skömmu síðar.

Leikurinn, sem ég kalla á víxl Hvarfið og Mínus E, gæti orðið einstaklega spennandi og furðu jafn ef þátttakendur rækta með sér metnað til að drepa sem flesta. Stöðugt kemur eitthvað nýtt á óvart og dánartalan hækkar sífellt, þangað til aftur er orðið líft í veröldinni og maður kafnar ekki í fólki. Dauðaleikur í þágu lífs.

Ímyndaðu þér; leikur og landhreinsun um leið. Atvinnuleysi yrði útrýmt, offjölgun heyrði sögunni til, hungur, fátækt og svo framvegis. Og ekki má gleyma því að fólk sem hrærist í stöðugum ótta um lífstóruna kann betur að meta lífið. Við myndum njóta þess til fulls að vera til í hinni yfirþyrmandi nálægð við dauðann, hvarf lífsins. Hótelið okkar myndi loks bjóða upp á mannsæmandi gistingu. Hótel Hvarf.

Ég er þess fullviss að þótt leikurinn breiðist út um alla heimsbyggðina og fólk týni tölunni umvörpum, verði söknuðurinn hverfandi miðað við ávinninginn. Við skulum ekki gleyma Albéres, karlgreyinu sem veitti því enga athygli að E var horfið, saknaði þess bókstaflega ekki eitt andartak. Hann þurfti ekkert E.

Og við skulum muna að „stafahvarf“ er meira en samkvæmisleikur; það táknar strangar hömlur sem eru lagðar á höfundinn og textann – og auðvitað lesandann. Ég minni aftur á að í bók Perec eru hátt í 100 þúsund orð en ekkert E. Samt hlykkjast hún áfram einsog glettið textafljót með persónum sínum og atburðum. Því skyldi það ekki endurtaka sig í veruleikanum?

Ég geri mér jafnframt grein fyrir að með því að spyrna leiknum úr vör mun ég fyrr eða síðar stefna sjálfum mér í lífshættu. Höfundurinn verður á valdi eigin leiks. Mér finnst það þó lítil fórn miðað við hugsanlegan afrakstur veraldarinnar. Ég er jú bara einn lítill stafur í óralöngu stafrófi forgengilegra tákna.

Þér kemur ábyggilega á óvart að ég skrifi þér til að segja frá þessum áformum mínum; við þekkjumst tæpast nokkuð. En svarið við því er einfalt: Þú hefur orðið þess heiðurs aðnjótandi að vera valinn fyrsti þátttakandi í leiknum sem bætir heiminn. Þú ert manneskjan sem ég hef ákveðið að drepa. Þú ert E-ið mitt. Mitt feiga E.

Ég þykist að vísu vita að þetta séu engar sérstakar gleðifregnir og þú hafir ætlað þér að hverfa úr þessu mannkrökka jarðlífi með öðrum og hversdagslegri hætti. Ef það veitir einhverja huggun, get ég upplýst þig um að tölvuforritið sem ég smíðaði valdi þig af handahófi úr þjóðskrá. Þetta er ekkert persónulegt. Mér kom það raunar nokkuð á óvart að tölvan hefði slumpast á manneskju sem ég kannaðist við. En eftir á að hyggja; samfélag okkar er þannig vaxið að vart er við öðru að búast. Maður þekkir mann, kona þekkir konu, morðingi þekkir fórnarlamb sitt, A þekkir E.

Að mörgu leyti virðist það magnaðri tilviljun að nafn þitt byrjar á E. Ég kipptist til þegar ég sá nafnið birtast á skjánum. Kaldhæðni tilviljunarinnar býr að venju yfir eigin fegurð, einsog skurðhnífur. En tölurnar láta aldrei að sér hæða og þar sem nöfn yfir 8000 íslenskra karla byrja á bókstafnum E og nöfn yfir 11.000 kvenna, má segja að líkurnar hafi verið þér í óhag.

Kannski finnirðu smávægilega fróun í trú á framhaldslíf, sem er örugglega góðra gjalda vert, þótt persónulega telji ég ólíklegt að eitthvað gerist eftir lokapunktinn. Ekkert er líklegri áfangastaður en kraðak engla. Þér til hughreystingar get ég þó sagt að höfundur E-lausu bókarinnar, áðurnefndur Perec, setti síðar á ævinni saman litla sögu þar sem E var eini sérhljóðinn: Fyrirheitna land fyrir E-ið. Framhald er því ekki útilokað. Mér fannst sömuleiðis óviðeigandi annað en að láta þig vita fyrirfram af áformum mínum, það væri rakinn dónaskapur að gera það ekki. Og ég er að eðlisfari ákaflega kurteis maður.

Ég vona sumpart að þú hafir lesið þennan tölvupóst frá mér áður en þú fórst út í bílinn þinn í morgun. Annars deyrðu grunlaus um hugkvæmni leiksins. Veist ekki hvernig á því stendur að klukkan 9.30 í dag (eða næstu daga, vikur eða mánuði, grípi þig ótti við lestur þessa bréfs sem hindrar för þína í dag) verður þú miðdepill í hræðilegu umferðarslysi á horni gatnanna – nei ég vil ekki segja of mikið. Eitthvað verður að koma á óvart. Mundu bara að endir byrjar á E.

Þú getur þó skemmt þér við að reikna út hugsanlega staðsetningu andláts þíns. Og til að aðstoða þig við þessa síðustu og skelfilegustu útreikninga lífs þíns vil ég benda á að á höfuðborgarsvæðinu eru rétt rúmlega 2.500 götur. Það virðist talsvert mikið þegar haft er í huga að hér búa aðeins rúmlega 205 þúsund manns, eða um áttatíu og tveir að meðaltali í götu: Malbikaðar bókahillur troðnar af steinsteyptum bókum fullar af blaðsíðum sem mora af óþörfum stöfum. Þar á meðal ert þú.

Kærar lestrarkveðjur. Að -ilífu.