Mynd: www.michaelmarshallsmith.com

Skáldskapur vikunnar: Allir fara

Smásaga eftir Michael Marshall Smith í þýðingu Hjörvars Péturssonar

Allir fara til niðurhals:

kindleepubPDF

Ég sá mann í gær. Ég var á leið heim í gegnum óræktina með Matta og Jóa og við sögðum Jóa að hann væri vitlaus af því að hann hafði séð þessa risastóru kónguló og hann hélt að þetta væri svarta ekkjan eða eitthvað þegar þetta var bara, kónguló sko, og ég sá manninn.

Við gengum niður eftir í áttina að blokkinni og hlógum og ég leit óvart upp og þessi karl var þarna við endann á götunni, hann var stór og kom gangandi í átt til okkar. Við fórum út af götunni áður en hann mætti okkur og svo gleymdi ég honum.

Allavega, Matti þurfti að fara heim af því að maturinn er svo snemma heima hjá honum og mamma hans klikkast ef hann er ekki kominn í tæka tíð fyrir uppvaskið svo ég hékk í pínu stund með Jóa og svo fór hann líka heim. Svo gerðist ekkert að ráði um kvöldið.

Í morgun fór ég snemma á fætur af því að við ætluðum að eyða deginum niðri við lækinn og hann er langt í burtu. Ég smurði samlokur og setti í poka og stakk líka niður epli. Svo fór ég og bankaði upp á heima hjá Matta.

Mamma hans kom til dyra og hleypti mér inn. Hún er alveg í lagi sko, og lítur vel út miðað við að hún er mamma, en hún er dálítið ströng. Hún er eina manneskjan í öllum heiminum sem kallar mig Pétur en ekki Pésa. Herbergið hans Matta er alltaf eins og það sé nýbúið að laga til, sem er reyndar býsna flott þótt það hljóti að vera algjör klikkun að halda því við. Í það minnsta er alltaf á hreinu hvar allt er.

Við fórum niður til Jóa. Matti var eitthvað þögull á leiðinni niður eins og hann langaði að segja mér eitthvað, en hann gerði það ekki. Mér fannst að ef hann langaði, þá hlyti hann segja mér það fyrr eða seinna. Þannig eru bestu vinir. Það þarf ekkert alltaf að tala. Það sem skiptir máli kemur í ljós fyrir rest.

Jói var ekki tilbúinn svo við urðum að bíða meðan hann kláraði morgunmatinn. Pabbi hans er eitthvað skrýtinn. Hann situr og les í blaðinu og rymur bara yfir því annað veifið. Ég held að ég gæti ekki borðað morgunmat með einhverjum sem léti svoleiðis. Ég held ég gæti ekki þolað það. Þetta hlýtur að vera eitthvað sem maður tekur upp á þegar maður verður fullorðinn, held ég.

Allavega, loksins var Jói tilbúinn og við fórum frá blokkinni. Það var strax orðið frekar heitt í sólskininu þótt klukkan væri bara níu að morgni og ég var glaður yfir að vera bara í stuttermabol. Mamma hans Matta lét hann vera í peysu ef það skyldi bresta á með stormi eða eitthvað og ég vissi að hann myndi verða þokkalega stiknaður í lok dagsins en það er bara ekki hægt að tala við mömmur.

Þegar við gengum frá blokkinni í átt að óræktinni leit ég til baka og sá manninn aftur, hann stóð hinumegin við götuna og horfði á blokkina. Hann starði upp á efstu hæð og síðan fannst mér hann snúa sér við og líta í átt til okkar, en það var erfitt að segja því að sólin skein beint í augun á mér.

Við gengum og hlupum gegnum óræktina, við stoppuðum lítið núna af því að við vorum þarna í gær. Við litum á virkið en það var þarna ennþá. Stundum koma krakkar og skemma það en það var í lagi með það í dag.

Matti náði einum góðum á Jóa með krumpuðu laufblaði. Hann setti það á handarbakið á sér þegar Jói leit í burtu og svo fór hann að stara á það og sagði, „Pési…“ með svaka hræðslu í röddinni, og ég fattaði hvað hann var að gera og þóttist líka vera hræddur og Jói gleypti við því.

„Ég sagði ykkur það,“ segir hann – og hann bakkar í burtu – „ég sagði ykkur að það væru svartar ekkjur,“ og við hefðum getað haldið því áfram en ég fór að hlæja. Jói var eitthvað ruglaður í smástund og svo rumdi hann bara eins og hann væri pabbi sinn að lesa dagblaðið svo við gripum tækifærið og kölluðum hann pabba það sem eftir var dagsins.

Við komum ekki að læknum fyrr en undir hádegi og Matti fór úr peysunni og batt hana um mittið á sér. Þetta er nokkra kílómetra frá blokkinni, lengst hinumegin við óræktina og úti á enginu. Þetta er samt fínn lækur. Hann er svo fínn að við förum ekki of oft þangað, eins og við viljum ekki fá yfir okkur af honum.

Maður labbar bara yfir engið og sér ekki neitt og svo allt í einu er maður kominn og þarna er þessi pínulitli gilskorningur ofan í jörðina. Hann dýpkar dálítið með hverju ári, held ég, nema þegar það rignir ekki neitt. Kannski dýpkar hann líka þá, ég veit það ekki. Hann er svona þrír metrar á dýpt og það rigndi í ár svo það er fullt af vatni í botninum og maður verður að passa sig við að príla niður því annars rennur maður og endar í drullunni. Matti fór á undan. Hann er bestur að klifra og rosalega fljótur. Hann fór á undan þannig að ef Jói rynni þá myndi hann ekki detta alla leiðina útí. Ef Jói dettur, þá dettur hann bara, finnst mér, en Matti er góður í svona. Kannski af því að hann á svona snyrtilegt herbergi.

Jói reddaði sér sjálfur niður í þetta skipti, hver hefði trúað því, og ég fór síðastur. Það er best að koma sér niður með því að snúa baki í lækinn og renna fótunum framaf þangað til maður hangir á brúninni með höndunum. Svo er bara að láta sig gossa. Meðan ég var að síga niður tók ég eftir hvað það sést langt út yfir sléttuna, bara það sem ég sá með hausinn rétt yfir jörðinni. Það er nákvæmlega ekkert að sjá um óravegu, ekkert nema runnar og ryk. Ég held líka að maðurinn hafi verið þarna, úti í fjarskanum, en það var erfitt að vera viss og svo rann ég og endaði næstum ofan í læknum sjálfur, sem hefði verið alveg ömurlegt og Jói hefði blaðrað um það ógeðslega lengi.

Við gengum eftir læknum dálítinn spöl þar til við komum að hafinu. Það er ekki hafið í alvörunni, bara smá svæði þar sem gilið víkkar út í hyl sem er svona fimm metra breiður. Það er dýpra þarna en annarsstaðar við lækinn og vatnið er dálítið gruggugt, en þetta er rosalega flott. Þegar maður er þarna niðri þá sést ekki neitt nema himinhringurinn og maður veit að það er ógeðslega langt í allt saman. Það er gömul hurð þarna sem við köllum skipið okkar og við togum hana að einum bakkanum á hafinu og við reynum allir að komast um borð og fleyta henni út á miðjuna. Vanalega er þetta svolítið vesen og ég veit að Matti og Jói eru að velta fyrir sér vandræðunum sem þeir lenda í við mömmur sínar þegar þær sjá fötin þeirra, en í dag gekk þetta einhvern veginn allt upp og við flutum beint út á miðjuna og það gaf bara pínulítið á bátinn.

Við lékum okkur í smástund og svo bara sátum við þarna lengi lengi og töluðum og svoleiðis. Ég var að hugsa hvað það væri gott að vera þarna og svo kom smá þögn og Jói reyndi sjálfur að segja eitthvað svoleiðis. Það kom hálfasnalega út úr honum en við vissum hvað hann átti við svo við sögðum honum að halda kjafti og þóttumst ætla að ýta honum út í. Matti þóttist vera með kónguló á fótleggnum bara með því að stara og verða allt í einu óttasleginn í framan og Jói fór að hlæja, og ég fattaði að svona verða brandarar til. Þetta var okkar eigin brandari sem enginn annar myndi nokkru sinni skilja og sem við myndum aldrei gleyma sama hversu gamlir við yrðum.

Matti horfði einu sinni á mig eins og hann væri að fara að segja hvað hann væri að hugsa, en þá sagði Jói eitthvað asnalegt og hann hætti við. Við sátum bara þarna og héldum áfram að kjafta og snúa okkur við svo við brynnum ekki of illa. Einu sinni þegar ég leit upp á gljúfurbarminn fannst mér eins og ég sæi kannski haus að gægjast yfir brúnina en sennilega var þetta ekkert.

Jói er með úr svo við vissum hvenær klukkan var orðin fjögur. Við megum ekki leggja af stað seinna en fjögur því annars nær Matti ekki heim í tæka tíð fyrir kvöldmat. Við gengum til baka gegnum óræktina en hlupum ekki neitt. Við vorum þreyttir eftir sólina og við vorum ekkert að flýta okkur heim vegna þess að þetta var búinn að vera góður dagur og þeim lýkur alltaf þegar við skiljumst. Það er ekki hægt að endurtaka þá daginn eftir, sérstaklega ekki með því að fara og gera það sama aftur.

Við vorum seinir þegar við komum aftur í götuna svo Matti og Jói hlupu á undan. Ég hefði hlaupið með þeim en ég sá að maðurinn stóð við hinn endann á blokkinni og mig langaði að horfa á hann og sjá hvað hann var að fara að gera. Matti beið í smástund eftir að Jói var farinn og sagðist myndu sjá mig eftir kvöldmat. Svo hljóp hann af stað og ég bara dólaði mér í smástund.

Maðurinn leit aftur upp eftir blokkinni eins og hann væri að leita að einhverju. Hann vissi að ég var bara að hanga en hann kom ekki strax í áttina til mín, eins og hann væri eitthvað óöruggur með sig. Ég fór og settist á vegginn og lék mér með nokkra steina. Ég var ekkert að flýta mér.

„Heyrðu,“ var sagt og ég leit upp og sá manninn standa yfir mér. Það var síðdegissól í augum hans og hann skýldi þeim með hendinni. Hann var í fínum jakkafötum og hann var yngri en foreldrar eru, en samt ekki svo. „Þú átt heima hérna, er það ekki?“

Ég kinkaði kolli og leit framan í hann. Mér fannst ég kannast við hann.

„Ég átti heima hérna einu sinni,“ sagði hann, „þegar ég var strákur. Uppi á efstu hæð.“ Svo skellti hann upp úr og ég þekkti hann á hljóðinu. „Það er orðið langt síðan. Ég kom aftur eftir öll þessi ár til að sjá hvort nokkuð hefði breyst.“

Ég sagði ekki neitt.

„Það er varla, þetta lítur ennþá eins út.“ Hann sneri sér við og leit í átt að blokkinni og svo aftur til baka framhjá mér út yfir óræktina. „Leikið þið strákarnir ykkur enn þarna úti á engjunum?“

„Já,“ sagði ég, „það er gaman. Við eigum virki þar.“

„Og lækurinn?“

Hann vissi að ég lék mér þar ennþá: hann hafði fylgst með okkur. Ég vissi hvað það var sem hann vildi raunverulega fá að vita, svo ég lét nægja að kinka kolli. Maðurinn kinkaði líka kolli, eins og hann vissi ekki hvað hann ætti að segja næst. Eða meira eins og hann vissi hvað hann langaði að segja, en vissi ekki hvernig hann ætti að koma orðum að því.

„Ég heiti Tommi Spivey,“ sagði hann, og svo þagnaði hann. Ég kinkaði aftur kolli. Maðurinn hló vandræðalega. „Þetta hljómar ábyggilega eins og algjör klikkun, en… ég sá þig fyrr í dag, og líka í gær.“ Hann hló aftur, renndi hendinni gegnum hárið og spurði svo loks um það sem hann hafði verið að velta fyrir sér. „Það vill ekki svo til að þú heitir Pési, er það nokkuð?“

Ég leit upp í augun á honum, og svo leit ég undan.

„Nei,“ sagði ég. „Ég heiti Nonni.“

Það virtist koma á hann í smástund, en svo var eins og honum létti. Hann sagði eitthvað meira um blokkina og fór svo. Aftur í borgina eða eitthvað.

Eftir matinn hitti ég Matta á bílastæðinu bak við blokkina. Við töluðum dálítið um daginn, til þess að hita hann upp, og svo sagði hann mér það sem hafði legið á honum.

Fjölskyldan hans var að flytja. Pabbi hans hafði fengið betri vinnu einhvers staðar annars staðar. Þau yrðu farin eftir viku.

Við töluðum dálítið meira saman og svo fór hann aftur inn og hann leit einhvern veginn öðruvísi út, eins og hann væri þegar farinn.

Ég var úti lengur, sat á veggnum, hugsaði um söknuð. Ég var ekki sorgmæddur, bara þreyttur. Auðvitað myndi ég sakna Matta. Hann var besti vinur minn. Ég hafði saknað Tomma þó nokkra hríð, en svo kom einhver annar. Og svo einhver annar, og svo einhver annar. Það er alltaf nýtt fólk. Það kemur og fer. Kannski ætti Matti eftir að snúa aftur einhvern daginn, eins og Tommi. Stundum koma þeir aftur. En allir fara.

Michael Marshall Smith – Everybody Goes
Hjörvar Pétursson þýddi