Mynd: Gulli Már.

Skáldskapur vikunnar: Rigning eftir Valgerði Þóroddsdóttur

 

Hún kom að nóttu.
Þung í myrkrinu
við gluggann, hún virtist
guðdómleg

svaraði:
„ég hvísla.“

Heilagt
Heilagt
Heilagt
hvísl.
Mótefni gegn draugunum.
Hungraðir í minningar
þramma þeir á rúðuna
og bjóða kossa.

Þetta er það sem þetta snýst um.
Líkami þinn í einhverju herbergi og þú ert ekki lengur þar.

Við æðum áfram.
Handan við brúnina er alltaf önnur brún.
Við þurfum bara að grafa.

Ekki enn,
handan við endann er annar endir.

Við erum næstumþví komin.

Valgerður Þóroddsdóttir er ljóðskáld og blaðamaður frá Reykjavík, menntuð í Bandaríkjunum og á Íslandi, einn forgöngumanna Meðgönguljóða. Eftir hana liggur meðal annars bókin Þungir forsetar sem hún skrifaði með Kára Tulinius.