Google minntist útgáfu Uppfinningar Morels á 98 ára afmæli Adolfo Bioy Casares, 15. september 2012 (athugulir lesendur taka eftir því að hann hefði orðið 100 ára í síðustu viku).

Ómöguleiki ódauðleikans: Uppfinning Morels

Jorge Luis Borges sagði um Uppfinningu Morels eftir Adolfo Bioy Casares, sem er nýkomin út í íslenskri þýðingu Hermanns Stefánssonar 1: „mér virðist ekki ónákvæmt og ekki ofmælt að segja að hún sé fullkomin.“ Undir þetta tók ekki minni maður en Octavio Paz. Þessi meðmæli ættu að vera nóg til að fá alla til að lesa hana, en í ofanálag er hægt að nefna að þrátt fyrir að engin þekkt kvikmyndaaðlögun hafi verið gerð þá hefur hún, og hugmyndirnar sem settar eru fram í henni, haft mikil áhrif á kvikmyndir á borð við L‘année derniére á Marienbad (Alain Resnais, 1961). Hverjar eru þessar hugmyndir? Í eftirfarandi texta mun ég fjalla um þær og bókina í heild en vil þó vara lesendur við að útilokað er að fjalla um bókina án þess að gefa upp söguþráðinn. Þessi „spoiler“ gæti mögulega dregið úr ánægjunni við lesturinn, eigi maður bókina eftir.

Uppfinning Morels er skáldsaga sem erfitt er að setja í flokk. Vísindaskáldsaga, fantasía, heimspekileg skáldsaga og vangavelta 2 eru flokkar sem allir eiga vel við en enginn af þeim passar þó fullkomlega við hana. Andi Borges svífur þó yfir vötnum þar sem bókin minnir oft á smásögur hans, líkt og til dæmis Funes el memoriso. Þema bókarinnar er dauðinn, ódauðleiki, tími, eftirsjá og ást. Þá er það sérstaklega ódauðleikinn sem fær mjög frumlega rannsókn sem á í samræðu við frægu goðsögnina um Faust eins og ég mun ræða neðar.

Sagan er sögð frá sjónarhorni manns sem er á flótta undan réttvísinni. Eftir að hafa fengið ábendingu frá vini sínum ákveður hann að ferðast til afskekktrar og yfirgefinnar eyju sem er langt frá allri mannabyggð. Sagan segir að ástæða þess að eyjan er yfirgefin sé sú að dularfullur sjúkdómur herji á alla sem koma nálægt henni. Maðurinn ákveður að setjast þar að en plön hans fara út um þúfur þegar hópur fólks birtist allt í einu á eyjunni. Hann felur sig og njósnar um þau. Dularfull kona að nafni Faustine (augljós vísun í goðsögnina um Faust) vekur sérstaka athygli hans. Hann fylgist með henni hvert kvöld þar sem hún horfir á sólsetrið og verður smám saman ástfanginn af henni. Eftir nokkurn tíma ákveður hann, heltekinn af ást, að reyna að vekja athygli hennar, en uppgötvar sér til mikillar undrunar að þá lætur hún eins og hann sé ekki til. Allar tilraunir til að ná af henni tali mistakast. Í framhaldinu sér hann mann, Morel, ræða við hana. Þessar samræður þeirra á milli eru einkennilegar, stundum eru þær nánar, stundum fjarlægar og formlegar. Sögumaðurinn dregur þá ályktun að einhvers konar samband sé á milli þeirra og fyllist afbrýðissemi.

Á þessum tímapunkti tekur sögumaðurinn eftir enn skrýtnari hlutum. Samræðurnar milli Morel og Faustine endurtaka sig. Þau eiga í nákvæmlega sömu samræðum og fyrir viku síðan, og endurtaka svo aftur þessar sömu samræður viku seinna. Fólkið kvartar einnig yfir kulda jafnvel þótt það sé steikjandi hiti. Þau dansa utandyra jafnvel þótt að stormur geysi og, sem er kannski það dularfyllsta af öllu, önnur sól birtist á skyndilega himninum. Hér fer sögumaðurinn skiljanlega að efast um geðheilbrigði sitt og má í bókinni finna frábærar lýsingar af sálarlífi manns sem telur sig vera að missa vitið.

Á endanum finnur sögumaðurinn þó skýringuna á þessu öllu saman. Morel á eyjuna og hefur fundið upp aðferð og tæki til að taka upp og setja fram ígildi veruleikans sem öll skilningarvitin nema. Því er fólkið á eyjunni eins og þrívíðar upptökur sem hægt er að sjá, snerta, finna lykt af, o.s.frv. Morel lýtur þó ekki á uppfinningu sína sem eintómt upptökutæki, fyrir honum er fólkið enn lifandi í gegnum hana:

Ætti ekki að kalla líf það sem leynist á hljómplötu, það sem birtist ef plötuspilarinn virkar, ef ég ýti á hnapp? Á ég að halda til streitu kenningu kínverskra mandarína, að hvert líf sé háð hnappi sem óþekktar verur ýta á? Þér sjálf, hversu oft hafið þér ekki spurt um áfangastað manneskjunnar, spurt hinnar gömlu spurningar: Hvert er förinni heitið? Hvar hvílum við, líkt og óspiluð hljómplata, uns Guð ákveður að við skulum fæðast? Sjáið þér ekki líkindin milli örlaga mannsins og myndanna?

(bls. LXXVI)

Vegna sérstakra flóðaðstæðna á eyjunni fær uppfinningin einnig ótakmarkaða orku sem sér til þess að upptakan spilast endurtekið út í hið óendanlega. Morel telur sig því hafa fundið upp tæki til að fanga ódauðleikann og ákveður að gefa fólkinu sem er á eyjunni með honum þessa „gjöf“. En fyrir ódauðleikann þurfa þau að borga hátt gjald: uppfinningin drepur nefnilega þann sem tekinn er upp og eru því Morel, Faustine og öll hin löngu dáin og sögumaðurinn raunverulega einn á eyjunni. Þetta gerði Morel vegna ástar sinnar á Faustine, sem var óendurgoldin.

Sögumaðurinn fyllist angist yfir þessari uppgötvun þar sem Faustine, ástin hans, er löngu dáin og hefur hann því enga möguleika á að eiga í samskiptum við hana. Eftir nokkra umhugsun tekur hann þó undir sjónarmið Morels og heillast af möguleikanum á ódauðleika:

Faustine forðaðist samvistir við hann; þess vegna lagði hann á ráðin um vikuna miklu, dauða allra vina sinna, til þess að öðlast eilíft líf með Faustine. Þannig bætti hann upp fyrir að hafa afsalað sér möguleika lífsins. Hann gerði sér ljóst að dauðinn yrði hinu fólkinu ekki skaðleg þróun; í skiptum fyrir óvissan líftíma gaf hann völdum vinum sínum eilíft líf.

(bls. CVII)

Hann finnur því út hvernig uppfinningin virkar og tímasetur mjög nákvæmlega upptöku af sjálfum sér ræða við Faustine og horfa á sólsetrið með henni. Hann fremur í rauninni sjálfsmorð en mun í staðinn verða ódauðlegur saman með Faustine í uppfinningu Morels.

Uppfinning Morels er því, mætti segja, útlistun á hugsunartilraun Nietzsches, hinni eilífu endurtekningu hins sama. Hvernig myndum við bregðast við tilraun af þessu tagi? Samkvæmt Nietzsche er eilíf endurtekning erfiðasta heimsmynd sem hægt er að samþykkja þar sem hún girðir fyrir hvers kyns lausn frá þessum heimi yfir í annan betri eins og hin kristna heimsmynd boðar. Með því að lifa lífinu í þeirri trú að allt endurtaki sig út í hið óendanlega neyðumst við til að einblína alfarið á þennan heim og gera það besta úr honum. Þessi heimsmynd gerir okkur því sterkari sem manneskjur. En Uppfinning Morels flækir þó þessa afstöðu.

Löngunin eftir ódauðleika er fyrirferðamikið þema í bókmenntasögunni. Hinar ýmsu útgáfur af goðsögninni um Faust, sem Caseres vísar í, hafa tekist á um þessa algengu mannlegu löngun. Þá er það sérstaklega löngunin til að vilja að augnablikið endist að eilífu, eins og í Faust í meðförum Goethe, sem Caseres beinir spjótum að. Þessi klassíska löngun felur nefnilega í sér þversögn. Því það er einmitt hverfulleiki augnabliksins, sú staðreynd að það á sér tímabundið stað og kemur svo aldrei aftur, sem gefur því gildið og gerir það að einhverju sem við viljum að endist að eilífu. Um leið og það er svo orðið eilíft missir það þetta gildi. En Caseres setur fram nýja útgáfu af hinu faustíska samkomulagi. Morel telur sig hafa yfirstigið þessa þversögn með því að láta heila viku endurtaka sig að eilífu án þess að fólkið viti af því að það er fast í endurtekningu. Þannig varðveitir hann augnablikið og gildi þess á sama tíma.

Myndi maður sjálfur velja þessa útgáfu af ódauðleika? Caseres fangar tilfinningar lesandans vel í gegnum sögumanninn. Uppfinning Morels heillar lesandann á sama tíma og hann fyllist hryllingi við tilhugsunina. Eilífðin er einfaldlega alltof stórt viðfang fyrir mannlega hugsun. Hún er dæmi um það sem Kant kallaði hið ægifagra 3, það sem skynsemi okkar nær ekki utan um og vekur upp sterka, skrýtna tilfinningu sem er í senn jákvæð og neikvæð. En Caseres setur ómöguleika og óhugsanleika eilífðarinnar fram á frábæran hátt. Endurskapanir Morels eru vissulega ódauðlegar – en án þess þó að vita af því. Er eitthvað varið í eilífðina ef maður er ekki meðvitaður um hana? Er þetta jákvætt ástand, eins og Morel virðist telja, eða eru þetta verstu örlög sem hægt er að hugsa sér?

Bókin fjallar einnig um algengt þema í vísindaskáldsögum: hver er kjarni þess að vera maður? Eru endurskapanirnar í uppfinningu Morels raunverulegar manneskjur eins og við hin? Við fyrstu sýn myndi maður neita þessu en við frekari tilhugsun hallast maður meira og meira að sjónarhóli Morels sem heldur því fram að endurskapanir hans séu ekkert minna raunverulegar, ekkert minna mannlegar: „Sú kenning að myndirnar hafi sál virðist staðfestast af þeim áhrifum sem vél mín hefur á manneskjur, dýr og gróður sem notuð eru sem sendar.“ (bls. LXXVI) Ef við getum séð, heyrt, snert, og fundið lykt af manneskju sem stendur fyrir framan okkur, hvað vantar þá? Hvað er það nákvæmlega sem fólkinu á eyjunni skortir sem gerir þau minna mannleg? Svarið við þessum spurningum er alls ekki augljóst þrátt fyrir að við gefum okkur að það hljóti að vera eitthvað sem vantar, við komum bara ekki orðum að því. Fyrir okkar tíma hefði það verið sálin, en það er nákvæmlega hún sem Morel telur uppfinningu sína fanga.

Caseres gerir þessar spurningar enn áhugaverðari með því að láta sögumanninn verða ástfanginn af einni endursköpuninni. Aðstæðurnar vekja þess vegna einnig upp spurninguna um hvað ást sé. Hvað er það sem við raunverulega verðum ástfangin af? Gjörðir Morels stýrast af ást. Sögumaðurinn, sem elskar Faustine, fyllist hryllingi við tilhugsunina um að ástin hans sé föst í uppfinningu Morels: „Að vera niðurkominn á eyju sem byggð var gervidraugum var óbærilegasta martröðin af þeim öllum; að vera ástfanginn af einni þessara svipmynda var verra en að vera ástfangin af draug.“ (bls. LXXX-LXXXI) En eins og áður segir tekur hann síðar undir málstað Morels og setur sjálfan sig inn í vélina til að geta verið með Faustine í eilífðinni.

Uppfinning Morels er ógleymanleg skáldsaga sem ásækir lesandann með dökkri, draumkenndri fegurð sinni í langan tíma eftir að lestrinum er lokið.

   [ + ]

1. Bókin kom út í tímaritröðinni 1005
2. Speculative fiction
3. Das Erhabene