Vísir – Illugi hunsar bókaútgefendur

Bókaútgefendur eru uggandi, svo vægt sé til orða tekið, vegna fjárlagafrumvarps sem kynnt verður í dag. Þeir óttast að virðisaukaskattur á bækur verði hækkaður, sem mun að þeirra sögn leiða til hruns í bókaútgáfu.

Egill Örn Jóhannsson er formaður félags Íslenskra bókaútgefenda. Hann er ómyrkur í máli, segir útgefendur hafa fyrir því rökstuddan grun að breytingar á virðisaukaskattskerfinu muni leiða til þess að virðisaukaskattur á bækur muni hækka.

via Vísir – Illugi hunsar bókaútgefendur.

Vísir – Þú færð svo mikla auglýsingu!

Á sama tíma og við stærum okkur af blómlegu menningarlífi og grósku í listum virðist viðhorfið til listamanna lítið breytast. Aftur og aftur berast fréttir af því að þeir sem leggja stund á listsköpun séu hlunnfarnir í launum. Leikarar í kvikmyndinni Sumarbörn hafa ekki fengið greidd laun, ásóknin í að tónlistarmenn spili frítt á „off venue“ á Airwaves er byrjuð og í niðurstöðum kjarakönnunar BHM kemur fram að þótt leikarar séu ánægðastir félagsmanna í sínu starfi eru þeir að sama skapi óánægðastir með launin. Það er sem sé enn grunnt á því viðhorfi að þeir sem velji að vera listamenn geri það af köllun og það að fá að starfa sem slíkur séu laun í sjálfu sér. Eins og listamenn þurfi ekki að sjá fyrir sér eins og annað fólk og geti lifað á ánægjunni af vel heppnuðu listaverki einni saman.

Friðrika Benónys skrifar um kjaramál listamanna via Vísir – Þú færð svo mikla auglýsingu!.

„Ekki búinn að fá krónu borgaða“ – DV

„Það er bara nákvæmlega satt og rétt að það er ekkert barn búið að fá borgað,“ sagði Matthías Matthíasson tónlistarmaður í samtali við DV á miðvikudag. Matthías er faðir drengs sem lék í kvikmyndinni Sumarbörn í fyrra, þá átta ára gamall. Líkt og aðrir leikarar og kvikmyndargerðarfólk gerðu foreldrar drengsins samning við framleiðendur sem nú er búið að fara á bak við. Samkvæmt heimildum DV eru dæmi um að börn eigi eftir að fá greiddar allt frá 50 þúsund krónum upp í 300 þúsund krónur fyrir vinnu sína.

via Sonur Matta lék í Sumarbörnum: „Ekki búinn að fá krónu borgaða“ – DV.

Roy Anderson hlaut gullljónið – DV

Kvikmyndin En duva satt på en gren och funderade på tillvaron, eða Dúfa sat á grein og íhugaði tilveruna, eftir sænska leikstjórann Roy Anderson hlaut Gulljónið sem besta myndin á kvikmyndahátíðinni í Fenyjum. Hann er fyrsti Svíinn sem hlýtur þessu virtu verðlaun.

Kvikmyndin sem er sú þriðja í þríleik Andersons, sem inniheldur kvikmyndina Söngvar frá annarri hæð (Sånger från andra våningen), sem kom út árið 2000, og Þið lifendur (Du levande), frá árinu 2007, en þær fjalla um mannlega tilveru og grámyglulegt skandinavískt samfélag á meinfyndinn hátt.

via Roy Anderson hlaut gullljónið – DV.

Vísir – Skáldverk kvenna í öndvegi

Það styttist í jólin og jólabókaflóðið alræmda um það bil að skella á. Eftir fantagott útgáfuár í fyrra, þar sem hvert stórvirkið rak annað, er útgefendum nokkur vandi á höndum en á útgáfulistum forlaganna fyrir komandi vertíð er þó ýmislegt bitastætt sem bókaunnendur geta farið að hlakka til að lesa. Bækur eftir konur eru áberandi og ýmsar af okkar bestu skáldkonum senda frá sér bók í haust.

Friðrika Benónýs skoðar jólabókaflóðið via Vísir – Skáldverk kvenna í öndvegi.

Þarf ég að lifa ef ég vil ekki deyja? | Læknablaðið

Óttar er óragur við að fara úr fræðimannshlutverkinu og lýsa sínum persónulegu skoðunum, hvort heldur er um persónur, hópa eða einstaka þætti tengda sjálfsvígum. Áhrifamestu kaflarnir lýsa hans eigin sálarkreppum, þar sem hann var kominn fram á brúnina milli lífs og dauða.

Fyrir þá sem ekki þekkja hljóta kaflarnir um sögu viðhorfa yfirstjórnar kristinnar kirkju til sjálfsvíga að vekja upp undrun. Á fyrstu öldum kristinnar kirkju ríkti upphafning á þeim sem fórnuðu lífi sínu fyrir trúna, en seinna fordæming og útskúfun á þeim sem sviptu sig lífi, hvort heldur í trúarlegum tilgangi eða í örvæntingu og uppgjöf.

via Þarf ég að lifa ef ég vil ekki deyja? Dómur um bók Óttars Guðmundssonar | 09. tbl. 100. árg. 2014 | 2014 | Tölublöð | Læknablaðið.

Vísir – Aðeins of óljós saga

l. Allt er svolítið bla. Og út af því að allt er frekar óljóst gerir það leikurunum erfitt fyrir að vita nákvæmlega hvert persónur þeirra stefna, hvað þær vilja og af hverju í ósköpunum þær gera það sem þær gera. Það gerir það svo að verkum að ég sem áhorfandi skil ekki neitt í neinu. Skil ekki af hverju þetta fólk er á Flateyri, hvaða hvatir búa að baki viðbrögðum þeirra og ákvörðunum og hvert myndin stefnir. Það er engin yfirvofandi hætta, yfirvofandi gleðitíðindi, yfirvofandi sorg. Það er akkúrat ekkert yfirvofandi og svo er myndin bara búin. Og skilur nákvæmlega ekkert eftir sig.

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar um París Norðursins via Vísir – Aðeins of óljós saga.

Vísir – Var fleygt út af virtri listavefsíðu

Hann hefur valdið talsverðu fjaðrafoki á stærstu listamannasíðu á netinu, deviantart.com, en á fjórum dögum fékk hann 10.000 hitt, og rúmlega 1.000 skilaboð. „Svona 950 af skilaboðunum voru neikvæð þar sem menn voru að kalla mig þjóf og ég fékk meira að segja hótanir,“ segir Odee en honum var fleygt út af síðunni í kjölfarið. Ástæðan er sú að Odee tekur í raun höfundarréttarvarið efni og notar það nánast óbreytt til þess að búa til ný listaverk úr því, um er að ræða svokallaðan klippimyndastíl.

„Ég tók tíma í rannsóknarvinnu því ég vildi vera viss um að þetta væri einstakt. Ég þurfti að finna hvernig ég ætlaði að prenta verkin, svo þurfti ég að rannsaka hvort þetta væri löglegt, þetta er á svo gráu svæði í listaheiminum,“ útskýrir Odee.

via Vísir – Var fleygt út af virtri listavefsíðu.

Vísir – Villtar í báðum merkingum orðsins

Emil segist aldrei hafa lagt ljóðlistina á hilluna þótt skáldsagnaskrifin hafi eðlilega tekið mest af tíma hans undanfarin ár. „Ég byrjaði sem ljóðskáld og fékk góð viðbrögð, sérstaklega með aðra bókina, Ref, og þótt ég væri að skrifa prósa kallaði ljóðformið alltaf á mig. Það er önnur tjáning og maður fær útrás fyrir aðra hluti. Ljóðin mín geta verið dálítið hörð og ádeilukennd þótt ég myndi ekki kalla mig ádeiluskáld. Ég yrki voða lítið um tilfinningaleg málefni en því meira um það hvernig ég upplifi samtímann og meginstef þessarar bókar er yfirþyrmandi græðgi, blekking félagslegra hlutverka og hömlulaus löngun til sköpunar. Enda lýsir titillinn, Ætar kökuskreytingar, mikilli græðgi og yfirborðsmennsku. Persónur og ljóðmælendur í þessari stuttu ljóðabók hafa orðið fyrir siðrofi og einhvers konar hruni. Þær eru dálítið villtar, í báðum merkingum orðsins.“

via Vísir – Villtar í báðum merkingum orðsins.

Viltu verða rithöfundur? Ágúst Borgþór kennir smásagnaskrif | Pressan.is

„Það er ekki hægt að kenna fólki ritstörf á sama hátt og að aka bíl eða nota forritið Excel en það er alveg ljóst af minni reynslu að á námskeiði af þessu tagi getur fólk náð miklum framförum í ritlistinni. Satt að segja hefði ég ekki slegið hendinni á móti svona námskeiði í upphafi ferilsins. Ég er í rauninni að matreiða þarna á nokkrum vikum það sem tók mig mörg ár að læra sjálfur með því að lesa smásögur eftir aðra og glíma við að skrifa þær. Lykilatriði á námskeiðinu er lestur, við lesum fjölbreyttar smásögur og skoðum hvernig þær eru settar saman. Það má segja að við lesum smásögur dálítið eins og þjálfarar horfa á fótboltaleik. Búum til töflufund og greinum þetta, afhjúpum trikkin hjá rithöfundum. Eftir það eiga nemendur eftir að verða færari um að læra af reyndari höfundum sem þeir lesa, þó að auðvitað verði enginn óbarinn biskup í þessu og framundan sé mikil vinna.“

via Pressan.is.

Heimóttarskapur í Þjóðleikhúsinu « Símon Birgisson

Auðvitað má Friðrika gagnrýna það þema sem Þjóðleikhúsið valdi sér að þessu sinni – hinn íslenska leikritavetur. Þegar leikhús byggir vetrardagskrá sína á ákveðnu þema er það beiðni til almennings, gagnrýnenda og blaðamanna um umræðu, beiðni til fólks að taka afstöðu og lýsa skoðun sinni á þemanu. Leikhús sem hefur ekkert þema býður ekki upp á þennan díalóg við gesti sína. Og þegar maður býður upp á umræðu er eðlilegt að fólk sé með og á móti. En því miður finnst mér Friðrika ekki ræða efnislega um málið heldur gleyma sér í gömlum klisjum um leikgerðir vs. ný leikrit.

Verkin á fjölum Þjóðleikhússins fjalla flest um okkur – sem einstaklinga og sem þjóð. Þemað snýst því ekki eingöngu um þá staðreynd að höfundar verkanna séu íslenskir heldur um efni verkanna og hvað þau segja um okkur. Kannski er einmitt mikilvægt á tímum þar sem þjóðernishyggja og þjóðmenning eru algeng hugtök í umræðunni að við horfum í eigin barm og þorum að takast á við okkur sjálf. Það gera stórir höfundar í verkum sínum, það er ástæðan fyrir því að þau verða klassísk og það er ástæðan fyrir því að við í leikhúsinu þurfum að takast á við þau oftar en einu sinni; samfélagið er sífellt að breytast og þar með sýn okkar á persónur líkt og Bjart í sumarhúsum, Fjalla-Eyvind eða Karítas.

Símon Birgisson svarar aðfinnslum Friðriku Benónýs via Heimóttarskapur í Þjóðleikhúsinu « Símon Birgisson.

Vísir – Er íslenskt endilega alltaf best?

Þórhildur Þorleifsdóttir leikstjóri vakti máls á þessari hættu á málþingi um hlutverk stofnanaleikhúsa í vor og talaði um „heimóttarskap“ í því sambandi. Þau ummæli fóru ekki vel í alla en Þórhildur ítrekaði í svargrein við mótbárum Völu Höskuldsdóttur á vefritinu Reykvélinni að einangrun íslensks leikhúss leiddi til heimóttarskapar: „Ég notaði orðið heimóttarskapur aftur og aftur…fyrst og fremst til að undirstrika áhyggjur mínar af þeirri einangrun sem íslenskt leikhús býr við. Og sú einangrun er staðreynd.“

Þessi varnaðarorð Þórhildar hafa því miður greinilega ekki skilað sér til ráðamanna í Þjóðleikhúsinu. Ekki einungis eru öll verkin á leikárinu íslensk heldur er aðeins einn leikstjórinn erlendur. Hið ríkisrekna íslenska leikhús vill greinilega frekar efla einangrun sína en opna nýja glugga, sem er ekki vænlegt fyrir framtíð íslenskrar leiklistar.

Friðrika Benónýs skrifar um leikárið via Vísir – Er íslenskt endilega alltaf best?.

Dr. Gunni velur bestu böndin á Airwaves

Þá er búið að tilkynna öll böndin sem spila á Airwaves, 5-9. nóvember. Að vanda er þetta magnaður grautur, spriklandi og ilmandi af því nýjasta í heimi heðbundinnar og óhefðbundinnar dægurtónlistar. Það er auðvitað hægt að mæta bara og láta stöffið leika um sig án alls undirbúnings, láta koma sér á óvart og hrífast með. Svo er líka hægt að kynna sér stöffið, t.d. á Spotify playlistanum sem er á heimasíðunni. Miðar eru ennþá til, það kostar 18.500 kall á allt gúmmilaðið.

via Bestu böndin á Airwaves | DR. GUNNI.

Lars von Trier með nýja sjónvarpsþætti – Kvikmyndir.is

Næsta verkefni danska leikstjórans Lars von Trier verður þáttaröðin The House That Jack Built. Þættirnir verða á ensku þrátt fyrir að leikarahópurinn komi víðsvegar að úr heiminum.

Framleiðslufyrirtæki Lars Von Trier og Peter Aalbæk Jensen, Zentropa, mun framleiða þættina líkt og allt annað efni sem hefur komið frá leikstjóranum í seinni tíð. ,,Þið hafið aldrei séð svona sjónvarpsþætti og þið munuð aldrei sjá svona þætti aftur,” var haft eftir Jensen.

Trier mun skrifa handritið sjálfur og hefst sú vinna í haust. Áætlað er að tökur hefjist árið 2016.

via Lars von Trier með nýja sjónvarpsþætti – Kvikmyndir.is.

Vísir – Sjálfstætt fólk er algjörlega hræðileg saga

„Ég held að það sem blekkir oft með Laxness er það, að tungumálið er svo fallegt í sjálfu sér. Þessum hluta verksins, þessari fegurð í textanum, er oft ruglað saman við það að sagan í Sjálfstæðu fólki er í rauninni algjörlega hræðileg saga, í ætt við grísku tragedíuna. Það að segja hræðilega sögu í fallegu máli ætti í rauninni að ýta undir hryllinginn og ég held að það sé engin bók Íslandssögunnar sem fólk er tilbúnara til að mistúlka en þetta verk Nóbelsskáldsins,“ segir Þorleifur, kíminn.

via Vísir – Sjálfstætt fólk er algjörlega hræðileg saga.

Hægir sér nakin á fána ISIS – DV

Vel þekktur egypskur aðgerðasinni og bloggari, Aliaa Magda Elmahdy 23 ára, deildi mynd á Facebooksíðu sinni í gær þar sem hún sést, ásamt annarri konu, hægja sér og hafa tíðir á fána Íslamska ríkisins (ISIS). Báðar konur eru naktar á myndinni. Verknaðurinn er gerður í mótmælaskyni gegn íslamska hryðjuverkahópnum ISIS en samtökin hafa vakið athygli að undanförnu fyrir einstaka grimmd bæði í Írak og Sýrlandi.

via Hægir sér nakin á fána ISIS – DV.

Bókaþjóð í bobba « Ragnar Þór Pétursson

Niðurstöður prófsins voru þær að nokkru munaði að öll níu ára börn á landinu læsu liðugt. Raunar gerði það ekki nema u.þ.b. tuttugasta hvert barn. Og skólakerfið þótti skila á milli 7 og 8% nemenda ólæsum út í lífið. Með ólæsum er verið að meina að börnin gátu ekki tautað sig í gegnum 100 atkvæði á mínútu. Og var þó ekki verið að gera neina kröfu um lesskilning. Börnin þurftu bara að geta lesið hljóðin. Þegar við æðrumst nú yfir börnum sem ekki geta lesið „sér til gagns“ erum við að tala um börn sem mörg hefðu flogið gegnum almenna prófið á sínum tíma.

via Bókaþjóð í bobba « Ragnar Þór Pétursson.

Mike Leigh heiðursgestur á RIFF | RÚV

Breski kvikmyndaleikstjórinn Mike Leigh verður heiðursgestur á Alþjóðlegri Kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF, í september. Nýjasta mynd hans verður sýnd á hátíðinni, en hún fjallar um enska málarann Turner.

Mike Leigh er einn ástælasti kvikmyndaleikstjóri Breta og hefur hlotið fjölda verðlauna á ferlinum. Nú bætist í safnið, en forseti Íslands mun veita honum heiðursverðlaun RIFF fyrir æviframlag sitt til kvikmyndalistarinnar þann 1. október næstkomandi.

via Mike Leigh heiðursgestur á RIFF | RÚV.

Vísir – “Við viljum bara skapa“

Rappsveitin sendi frá sér sitt fyrsta myndband á dögunum við lagið No Love en í myndbandinu má sjá tvo rappara sveitarinnar í einkaþotu, þyrlu og í sérsmíðuðum bíl að kasta fimm þúsund króna seðlum upp í loftið.

„Við erum að vinna í kringum þessa R’n’B- og hiphop-stefnu,“ segir Cody. „Við viljum ekki vera með einhverja eina stefnu, við viljum bara skapa.“

via Vísir – "Við viljum bara skapa“.

Er Ólafur Elíasson svar menningarelítunnar við vatnsrennibrautagörðum?

„Ólafur Elíasson vill greinilega veita fólki upplifun“ skrifar danski myndlistarmaðurinn Søren Storm Kristensen í Politiken í dag.

Í nýjustu verkum sínum hefur hann gengið svo langt í að hámarka upplifunina – kannski í raun og veru jafn langt og vatnsrennibrautagarðurinn Lalandia … ? Eru það ekki í raun og veru sömu prinsipp sem fylgt er í þessum tveimur upplifunarverkum?Náttúran flutt inn í hús og manni finnst einsog maður sé á staðnum. Maður getur að sjálfsögðu mælt í mót, því í þessu tilfelli er það hið óvænta og fókusinn á „náttúruna“ sem er til umfjöllunar. En er það svo mikilvægt, og hvað er það þá? Er það áhugavert eða fylgir því einhver mikilvæg yrðing?

Via Er Olafur Eliasson finkulturens svar på Lalandia? – Politiken.dk.

Vísir – Skiptir út kommentakerfinu fyrir ljóð

„Þetta er tilraun til að koma ljóðum í þessa „one click away“-menningu sem er ráðandi í dag,“ segir ljóðskáldið Birkir Blær Ingólfsson en hans fyrsta ljóðabók, Vísur, kemur út í dag á fréttavef Vísis í samstarfi við forlagið Meðgönguljóð.

„Þetta virkar þannig að fólk getur sótt forrit sem skiptir út athugasemdakerfinu á Vísi fyrir ljóð úr bókinni,“ segir Birkir. „Ljóðin birtast koll af kolli undir fréttum þar til bókin klárast og þá eyðir forritið sér sjálft og kommentakerfið snýr aftur.“

via Vísir – Skiptir út kommentakerfinu fyrir ljóð.

Vísir – Afnemum virðisaukaskatt af bókum

Blómleg bókaútgáfa er grundvallaratriði þegar kemur að verndun og þróun móðurmáls. Afnám virðisaukaskatts á bækur yrði til þess að skjóta styrkari stoðum undir greinina alla og ekki veitir af. Nær allar þjóðir líta á það sem nauðsynlegan stuðning við tungumál og menningu að stilla skattheimtu á bókaútgáfu mjög í hóf eða afnema hana alfarið. Það má ekki aðeins sjá um gjörvalla Evrópu heldur einnig í Asíu og Suður-Ameríku.

Formenn RSÍ og FÍBÚT skrifa via Vísir – Afnemum virðisaukaskatt af bókum.

Ekkja Steins Steinarrs segir frá I : Herðubreið

Eg varð strax veik fyrir Steini. Eg get ekki sagt, hvað það var sérstaklega, sem laðaði mig að honum, nema það hafi verið, hvernig hann talaði, bæði röddin og hvernig hann komst að orði. Hugsunarháttur hans var gerólíkur því, sem aðrir tömdu sér. Að kynnast Steini er eini viðburðurinn, sem nokkurntíma hefur komið fyrir mig í þessu lífi. Og síðan er eg gerbreytt. Það, sem gerðist áður, er fyrir mér eins og draumur.

via Ekkja Steins Steinarrs segir frá I : Herðubreið.

Vilja lýsa Smáís gjaldþrota | RÚV

Stjórn Smáís, Samtaka myndrétthafa á Íslandi, hefur óskað eftir að félagið verði tekið til gjaldþrotaskipta. Ástæðan er sögð vera brot fyrrverandi framkvæmdastjóra samtakanna, sem stjórnin segir hafa viðgengist í mörg ár.

Samtökin voru stofnuð 1992 til að gæta hagsmuna rétthafa kvikmynda- og sjónvarpsefnis á Íslandi. Að Smáís standa Ríkisútvarpið, 365 miðlar, Skjárinn, sem rekur Skjá einn, Samfélagið, sem rekur Sambíóin og útgáfufyrirtækin Sena og Myndform.

via Vilja lýsa Smáís gjaldþrota | RÚV.

Dönsk listasýning gegn fordómum sökuð um rasisma – DV

Í gjörningnum sjá förðunarfræðingar um að farða þátttakendur á þann hátt að þeir virðast hafa annan húðlit, séu af öðrum kynþætti eða kyni. Svo geta þátttakendur gengið um meðal almennings og athugað hvort að viðhorf til þeirra og viðbrögð fólks séu öðruvísi en vanalega.

[…]

Gagnrýnendur segja aftur á móti að förðunin minni á svokallaða „blackface“ málningu, en slík andlitsmálning var notað á árum áður til að sýna svertingja í leikhúsum og öðrum skemmtunum, oftast á hátt sem byggði á niðurlægjandi staðalímyndum og fordómum.

via Dönsk listasýning gegn fordómum sökuð um rasisma – DV.

Viðskiptablaðið – Breiðholtið skreytt

Hér ætla ég ekki að dæma um ágæti verksins, enda hef ég ekki séð það í heild sinni með berum augum og er þess vegna ekki dómbær á það. Heldur ætla ég ekki að tjá mig um eina klisjukenndustu umræðu Íslands um að stuðningur hins opinbera við listir sé peningaeyðsla. Mér er mun frekar hugleikinn rótgróinn misskilningur varðandi myndlistina – að hún þjóni einungis hlutverki sem skraut, að hún sé bara til að fegra umhverfi sitt. Þá á ég ekki við að list eigi alltaf að vera í formi flókinna innsetninga, heldur á ég við að takist henni vel til þá er hlutverk hennar í því að fegra umhverfið oft það sem er áhrifaminnst í fari hennar. Í því ljósi er hægt að setja spurningamerki við það hvort stór útilistaverk séu endilega besta leiðin til að bæta listalíf Breiðholtsins.

via Viðskiptablaðið – Breiðholtið skreytt.

Enn fleiri dagar: Kolbrún Björt segir frá Edinborgarhátíðinni | REYKVÉLIN

Ég hata Fringe, ég hata Fringe, ég hata Fringe, ég hata Fringe…

Í tvo daga (10. og 11. ágúst) reyni ég að kyngja pirringnum og kæfa öskur (FARIÐ BURT!) á leið minni um borgina. Við kærastinn, staðráðin í því að sjá eitthvað skemmtilegt reynum að  komast hjá því að ákveða neitt og plönum að detta bara um sýningu. Förum út bæði kvöldin á líklega staði en allt sem er í boði lítur annaðhvort hrikalega út, kostar morðfjár eða er búið/ byrjar ekki fyrr en um 23.00. Í stað listrænna upplifanna finnum við kraðak og innilokunarkennd. Í stað spontant ævintýra fulla túrista.

via Enn fleiri dagar: Kolbrún Björt segir frá Edinborgarhátíðinni | REYKVÉLIN.

Hátíð í Edinborg – skýrsla : TMM

Árum saman hef ég vitað af leiklistarhátíðunum í Edinborg en aldrei farið enda mikið fyrirtæki. Í ár bar svo óstjórnlega vel í veiði að heimilisvinir fengu hús þar í borg í húsaskiptum á réttum tíma og buðu okkur gistingu sem annars er erfitt að fá í borginni á þeim tíma. Maður spurði sig náttúrlega hvers vegna Edinborgarbúar vildu flýja að heiman á þessum hátíðatíma en eiginlega vissum við svarið um það leyti sem við komum heim.

Því að það gengur ekkert venjulega mikið á þessar vikur í borginni. Íbúafjöldinn tvöfaldast og meðal gestanna eru fjöllistamenn af öllu tagi sem ekki láta sér nægja að sýna í þar til gerðum húsum heldur leika listir sínar á götum úti, hvar sem svolítið rými gefst. Á götunni sem er kölluð Royal Mile er hver hópurinn af öðrum að sýna sig og ekki verður þverfótað fyrir þúsundum ungmenna sem dreifa auglýsingablöðum til vegfarenda.

Silja Aðalsteinsdóttir skrifar um Fringe via Hátíð í Edinborg – skýrsla : TMM.

Vísir – Pong spilaður á ljósahjálmi Hörpu

Borgarbúum býðst að spila tölvuleikinn sígilda Pong á ljósahjálmi Hörpu vikunna 23. til 31. ágúst, frá menningarnótt og til loka Reykjavík Dance Festival. Um er að ræða nýtt listaverk eftir Atla Bollason og Owen Hindley.

Í tilkynningu segir að þetta sé í fyrsta sinn sem Ólafur Elíasson, hönnuður glerhjúps Hörpu, leyfir öðrum listamönnum að eiga við ljósin í hjúpnum.

via Vísir – Pong spilaður á ljósahjálmi Hörpu.

Dagur 8: Kolbrún Björt segir frá Edinborgarhátíðinni | REYKVÉLIN

Verkið er byggt upp af vitnisburðum á uppskálduðum réttarhöldum yfir Judith K. Maður hennar leiðir uppreisn gegn friðargæslu Sameinuðu þjóðanna í heimalandi þeirra í Afríku.  Þegar hann er sprengdur í loft upp fellur það í skaut hennar að leiða andspyrnuna. Fjórir nýir leikarar lesa vitnisburðina dag hvern og vita ekki, líkt og áhorfendur, hvað gerist. Þetta er kostur og galli. Dramatík verksins fellur oft flöt vegna látlausra tilburða leikaranna en tilfinning fyrir formlegum réttarhöldum er sterk. Hvað söguna varðar þá er hún ágætlega skrifuð. Það kemur þó alltaf illa við mig þegar hvítir karlmenn frá vesturlöndum segja sögur af ættbálkum Afríku (og því sem þar telst heiður, réttlæti, etc). Það er einnig annkanalegt að vita af hvítum karlmanni skrifandi lýsingar svartrar ungrar þjónustu stúlku af því hvernig diplómatar nauðga henni.

via Dagur 8: Kolbrún Björt segir frá Edinborgarhátíðinni | REYKVÉLIN.

Vísir – Erna Ómars til Íslenska dansflokksins

Erna Ómarsdóttir hefur verið ráðin listrænn ráðgjafi Íslenska dansflokksins og tekur þar við taumunum af Láru Stefánsdóttur.

Erna er einn virtasti dansari og danshöfundur Íslendinga, verk hennar hafa notið mikilla vinsælda og hún hefur hlotið fjölda alþjóðlegra viðurkenninga. Erna mun leiða dansflokkinn á komandi leikári og verður lögð áhersla á frumsamin verk eftir íslenska og upprennandi danshöfunda.

via Vísir – Erna Ómars til Íslenska dansflokksins.

Act Alone – Dagur 2 | REYKVÉLIN

Síðan er Jón Steingrímsson gerður að hálfgerðum dýrlingi, verkið er notað til að réttlæta allar gjörðir hans og jafnvel á fimmtugsaldri er maðurinn eins og saklaus skólastrákur. Það var engin ástæða til að kafa djúpt í ævi hans, McGuffin verksins er eldgosið og móðuharðindin, og það var engin ástæða til að fegra allar gjörðir hans. Maður spyr sig, var það virkilega góðverk hjá manninum að giftast ríkri ekkju og láta húðstrýkja tólf manns sem hvísluðu í sveitinni um tilhugalíf þeirra?

Snæbjörn Brynjarsson skrifar um Act Alone á Reykvélina via Act Alone – Dagur 2 | REYKVÉLIN.

Druslubækur og doðrantar: Litbrigði ástarinnar – um samkynhneigð í heimi múmínálfanna

Í sögunni um Þöngul og Þrasa er vöngum velt yfir samhenginu á milli fegurðar, verðmæta og eignaréttar, en þegar öllu er á botninn hvolft má túlka lausnina þannig að það sé ástin sem skipti langmestu máli. Tákn ástarinnar er rúbíninn sem falinn er í töskunni sem óttaslegnu smáverurnar drösla með sér hvert sem þær fara og Morrinn ágirnist og síðar Galdrakarlinn líka.

Erna Erlingsdóttir skrifar um Tove Jansson via Druslubækur og doðrantar: Litbrigði ástarinnar – um samkynhneigð í heimi múmínálfanna.

100 ár frá fæðingu Tove Jansson « Silfur Egils

Ég hef alltaf verið mjög hrifinn af þessum fígúrum og heimi þeirra – hinum hjartahreina og hugprúða Múmínsnáða, hinum hugsandi en klaufska Múmínpabba, Múmínmömmu með veskið og kaffikönnuna – hún er jarðbundin og góðhjörtuð og heldur þessu öllu saman. Svo er Snúður með flökkueðli sitt, hin kaldhæðna og síkvika Mía, Hemúllinn með söfnunaráráttuna og hinn huglausi Snabbi.

via 100 ár frá fæðingu Tove Jansson « Silfur Egils.

„Eru ekki að sjá neitt brjálæðislega spennandi í kringum sig“ | Listaukinn | RÚV

Ég veit ekki hvort ég sé að henda einhverri jarðsprengju út í loftið, en mér finnst þetta vera eitthvað strákadæmi. Þú veist. Þetta eru strákar að segja hvað þeim finnst um hlutina. Þeir eru ekki að sjá eitthvað brjálæðislega spennandi í kringum sig og tryllast úr spenningi að sýna öðrum það. Og einsog ég segi, þá hljómar það kannski pínu leiðinlega, en það er upplifun mín af þessu. Og ég upplifi þetta miklu meira þannig að ef maður vill fá þær skoðanir að þá fer maður þarna og nær sér í þær. Og ef maður vill það ekki þá gerir maður það ekki. Og ég veit ekki, þetta er svo miklu afmarkaðra [en veftímaritið Blær], þetta er heimspeki og þýðingar á ljóðum og svona, sem að, örugglega, það bara, er markhópur fyrir þetta, og ég er ekki að skoða svona á netinu. Þannig að ég einhvern veginn, ég veit ekki, ég nenni ekki að lesa greinar um þýðingar á heimspekiritum, eða eitthvað.

Benedikt Hermann Hermannsson (sem mælir hér að ofan) og Bryndís Björgvinsdóttir ræddu um veftímaritin Starafugl og Blæ í Listaukanum á Rás 1 via Listaukinn | RÚV.

Ofurhetjur og klámvædd æska | RÚV

Milos tekur gríðarlega áhættu með mynd sinni og gerir heiðarlega tilraun til að skapa kvikmynd sem nálgast kynlíf og klámvæðingu af næmni og nánd, en ekki bara til að sjokkera og selja. En engu að síður snerist umtalið að miklu leyti um nákvæmlega það, sem er kannski ómögulegt að forðast þegar söguefnið er svona djarft. Það er alltaf flókið að setja erfitt efni á svið til að fjalla gagnrýnið eða heiðarlega um það, án þess að hætta á að áhorfendur skynji það sem upphafningu en ekki ádeilu. Líklega fer það einfaldlega eftir persónulegri skynjun hvers áhorfanda fyrir sig. Minn ótti gagnvart myndinni reyndist þó nokkuð ástæðulaus, því þótt hún sé sannarlega yfirgengileg og dálítið erfið á köflum, þá þótti mér Milos nálgast bæði efnið og persónurnar á flókinn og frumlegan hátt sem ég átti einfaldlega ekki von á.

Gunnar Theódór Eggertsson skrifar um bíó via Ofurhetjur og klámvædd æska | RÚV.

Allar góðar sögur fjalla um bömmer þess að vera manneskja: Málstofa um skapandi og fræðilega textagerð

Lýsing: Í málstofunni verður rætt um skapandi og fræðileg textaskrif út frá ólíkum sjónarhornum með því markmiði að varpa ljósi á samfélagslegan umbreytingarkraft texta og skáldskaps. Rýnt verður í margvíslegar sagnagerðir auk þess sem framvinda og persónusköpun í skáldskap verður skoðuð. Fjallað verður um hefðbundin pólitísk pistaskrif sem og óhefðbundari, listrænni skrif í samhengi við samfélagsgagnrýni. Þá verður rætt um þá áskorun að koma sér að verki við skriftir, auk þess sem virkni húmors í textagerð verður til umræðu. Á milli þess sem aðstandendur málstofu halda stutta tölu um kraftinn sem býr í textanum mun þáttakendum bjóðast að leika sér að orðum og texta í gegnum æfingar sem koma umbreytandi hugarflugi á stað.

via Allar góðar sögur fjalla um bömmer þess að vera manneskja: Málstofa um skapandi og fræðilega textagerð.

Ef Baudelaire hefði verið í Stuðmönnum … – helgi-ingolfsson.blog.is

Vormánuðir síðastliðnir voru óvenjufrjóir í íslenskri bókaútgáfu. Þá komu m.a. út nóvellan Mörður eftir Bjarna Harðarson, skáldsagan Gosbrunnurinn eftir Guðmund Brynjólfsson og ágætar ljóðabækur á borð við Ástríði (eða Ástríður) eftir Bjarka Bjarnason, sem byggir á dagbókum Gísla Brynjúlfssonar frá fyrstu Hafnarárum hans, og Þýdd ljóð og smásögur eftir Tryggva V. Líndal, sem hefur m.a. að geyma fjölmargar ljóðaþýðingar úr verkum forn-grískra skálda. Sem og annar árgangur af ritröðinni 1005, sem fjallað mun um hér að neðan. Þótt lítið hafi verið fjallað um þessi verk af bókaskríbentum get ég fullyrt að um auðugan garð er að gresja.

Helgi Ingólfsson skrifar um 1005 via Ef Baudelaire hefði verið í Stuðmönnum … – helgi-ingolfsson.blog.is.

Druslubækur og doðrantar: Niður með þjóðríkið! Upp með bíóið! Spjallblogg um Mánastein Sjóns.

En það var samt ekki löngu eftir þetta sem Halldór Laxness sagði að nú hefði Reykjavík allt sem heimsborg þyrfti, „ekki aðeins háskóla og kvikmyndahús, heldur einnig fútboll og hómósexúalisma“. Þess má til gamans geta að Máni Steinn er einnig fæddur 23. apríl 1902 – ég varð ekkert lítið æst þegar útreikningar mínir leiddu mig að þeirri niðurstöðu. Hins vegar kemur fram að Máni Steinn er illa læs, og það er gaman að sjá kvikmyndum gert hærra undir höfði sem uppsprettu fantasíunnar og skáldskaparins. Maður er miklu vanari því að sjá bækur rómantíseraðar í bókum, það er kannski merki um sjálfhverfu rithöfundarins.

Kristín Svava Tómasdóttir og Guðrún Elsa Bragadóttir ræða Mánastein via Druslubækur og doðrantar: Niður með þjóðríkið! Upp með bíóið! Spjallblogg um Mánastein Sjóns..

Nýjar setningar: Göng til Gaza

Ég hafði verið að brjóta heilann um afstöðuljóðlist, um hverju hún áorkar, hvort hún áorkar nokkru yfirhöfuð og þá hvernig. Vegna Palestínu, aftur. Svörin virðast yfirleitt þau sömu: litlu, varla og góð spurning. Ég held að minnsta kosti að fullyrða megi að ákveðin tegund hennar virki ekki, sé strand, ef ekki dauð, nema þegar hún sé eftir fólkið sem verður fyrir misréttinu, í þessu tilviki Palestínumenn. En hvað ber að gera? Og hvað er afstaða? Ef marka má skáldin virðist það vera eitthvað á borð við „morð eru vond“.

Kári Páll Óskarsson skrifar via Nýjar setningar: Göng til Gaza.

Ragnar Þór um þýðendur

Raunar eru þýðingar á ýmsum verkum orðnar það gamlar að varla má búast við því að ungur lesandi ráði við að skilja þær á íslensku áður en hann er orðinn fær um að lesa þær á ensku. Mér dettur í hug 1984 eftir Orwell sem þýdd var á íslensku árið 1951. Orwell er allajafna einstaklega skýr höfundur sem ekki hleður upp óþarfa hindrunum milli meiningar og meðtöku. Íslenska þýðingin er langt frá því að vera skýr. Á hverju heimili undir eftirliti Stóra bróður er til dæmis flatskjár sem bæði er sjónvarp og myndavél. Orwell kallar skjáinn „telescreen“. Í íslensku heitir hann „firðtjald“.

Ragnar Þór Pétursson hrósar þýðendum.

Hátíð Sturlu Þórðarsonar | Bændablaðið

Í tilefni þess að í ár eru liðin 800 ár frá fæðingu Sturlu Þórðarsonar sagnaritara og skálds er íbúum Dalabyggðar og gestum þeirra hér með boðið til Sturluhátíðar.

Hátíðin fer fram í félagsheimilinu Tjarnarlundi í Saurbæ sunnudaginn 27. júlí og hefst kl. 13:30.  Í lok hátíðarinnar, um kl. 15:30, verður haldið að Staðarhóli þar sem Sturla bjó um árabil og er jarðsettur.

via Hátíð Sturlu Þórðarsonar.

Dóttir mín, þjófsnauturinn : Herðubreið

Umræðan um þjófnað á höfundarréttarvörðu efni er þekkt.

Píratarnir segja (í einfölduðu máli): Það er svo auðvelt að stela efni. Allir eru að stela. Af því að það er hægt. Deal with it.

Aðrir andmæla og segja réttilega: Þjófnaður verður ekkert skárri þótt ekki þurfi að nota kúbein og þess vegna steli fleiri. Þjófur er þjófur er þjófur.

Alltílæ, segja Píratar, finnum lausn: Endurskilgreinum höfundarréttinn.

Enginn veit hvað sú hugmynd merkir í praxís, en hún minnir á aðra gamla tillögu, um að endurskilgreina eignarréttinn. Það var reynt í nokkrum samfélögum, með kunnum afleiðingum.

Karl Th. Birgisson skrifar um höfundarrétt á Herðubreið via Dóttir mín, þjófsnauturinn : Herðubreið.

Vísir – Bókasöfn án bóka

Rithöfundar eru mjög ósáttir við þann niðurskurð sem þeir þurfa nú að sæta og vilja sumir taka bækur sínar úr hillum bókasafna. Hlutverk bókasafna hefur breyst á síðustu árum, hlutverk þeirra sem menningarmiðstöðva hefur orðið meira en það eru þó bækurnar sem leggja grunn að bókasöfnum og ekki er hægt að hugsa sér söfnin bókarlaus. Það er mikilvægara í dag en oft áður að standa vörð um bókina og bóklestur, hvetja til aukins lesturs líkt og rithöfundar og bókasöfnin hafa gert undanfarið, bæði saman og sitt í hvoru lagi. Skýtur það skökku við að dregið sé úr framlagi til rithöfunda í landi þar sem höfuðborgin hefur orðið þess heiðurs aðnjótandi að vera útnefnd Bókmenntaborg Unesco, unnið er að stofnun Bókabæja fyrir austan fjall og stefnt á stærsta lestrarátak sem lagt hefur verið í á Íslandi næsta haust. Án rithöfunda og bókasafna hefði þetta ekki komið til því rithöfundarnir sjá okkur fyrir efnivið sem bókasöfnin hjálpa til að koma á framfæri og hvetja alla til að njóta.

Samtök forstöðumanna almenningsbókasafna taka undir mótmæli við skerðingu bókasafnssjóðs via Vísir – Bókasöfn án bóka.