Heimóttarskapur í Þjóðleikhúsinu « Símon Birgisson

Auðvitað má Friðrika gagnrýna það þema sem Þjóðleikhúsið valdi sér að þessu sinni – hinn íslenska leikritavetur. Þegar leikhús byggir vetrardagskrá sína á ákveðnu þema er það beiðni til almennings, gagnrýnenda og blaðamanna um umræðu, beiðni til fólks að taka afstöðu og lýsa skoðun sinni á þemanu. Leikhús sem hefur ekkert þema býður ekki upp á þennan díalóg við gesti sína. Og þegar maður býður upp á umræðu er eðlilegt að fólk sé með og á móti. En því miður finnst mér Friðrika ekki ræða efnislega um málið heldur gleyma sér í gömlum klisjum um leikgerðir vs. ný leikrit.

Verkin á fjölum Þjóðleikhússins fjalla flest um okkur – sem einstaklinga og sem þjóð. Þemað snýst því ekki eingöngu um þá staðreynd að höfundar verkanna séu íslenskir heldur um efni verkanna og hvað þau segja um okkur. Kannski er einmitt mikilvægt á tímum þar sem þjóðernishyggja og þjóðmenning eru algeng hugtök í umræðunni að við horfum í eigin barm og þorum að takast á við okkur sjálf. Það gera stórir höfundar í verkum sínum, það er ástæðan fyrir því að þau verða klassísk og það er ástæðan fyrir því að við í leikhúsinu þurfum að takast á við þau oftar en einu sinni; samfélagið er sífellt að breytast og þar með sýn okkar á persónur líkt og Bjart í sumarhúsum, Fjalla-Eyvind eða Karítas.

Símon Birgisson svarar aðfinnslum Friðriku Benónýs via Heimóttarskapur í Þjóðleikhúsinu « Símon Birgisson.