Alheimsupplestur til stuðnings og heiðurs uppljóstraranum Edward Snowden

Mánudagskvöldið 8. september verður dagskrá tileinkuð Edward Snowden á Loft Hostel, Bankastræti 7a, 101 Reykjavík.

Dagskráin er hluti af alheimsupplestri til heiðurs honum sem skipulagður er af Alþjóðlegu bókmenntahátíðinni í Berlín. Þetta sama kvöld verða upplestrar um heim allan, frá Lillehammer til Cape Town og Nýja Sjálandi til Íslands, þar sem yfir 200 rithöfundar og fylgismenn tjáningarfrelsis munu lesa upp texta Snowdens.

Hlutskipti hans er einstakt. Ungur Bandaríkjamaður fórnar öllu sínu til að vara heiminn við hættunni af eftirlitskerfum nútímans. Uppljóstranir hans höfðu gríðarleg áhrif og enn verður ekki séð fyrir afleiðingar þeirra. Þær opnuðu augu heimsins fyrir nýjustu tækni njósnageirans og fullkomnu virðingarleysi hans gagnvart friðhelgi einkalífsins. Innrásinni í Írak fylgdi annarskonar innrás, inn í líf okkar allra.

„Ég hef séð inn í dimmustu skúmaskot valdsins og það sem þeir óttast mest er ljósið.“ – Edward Snowden

Skipuleggjendur íslenska kvöldsins eru Hallgrímur Helgason rithöfundur og Birgitta Jónsdóttir þingskáld.

Á meðal lesara á Loft Hostel verða Katrín Jakobsdóttir, Steinunn Ólína, Sjón, Kristín Helga Gunnarsdóttir, Kristín Eysteinsdóttir, Óttarr Proppé, Aðalheiður Ámundadóttir, Sindri Freysson, Mörður Árnason og Helga Vala Helgadóttir.

Að lestri loknum verða umræður undir stjórn Þórðar Snæs Júlíussonar og Magnúsar Halldórssonar frá Kjarninn.is.