Hungurleikarnir

Ég mun framleiða bíómynd um hvað kapítalisminn er vondur og hún mun græða þúsund milljón dollara. Hún mun selja byltingarbling á tvöþúsund milljónir dollara og sá byltingarfræjum í þrjúþúsund milljón hjörtu.

Ég geri það því ég veit að maginn gaular hærra en hjartað slær og hann gaular á súpermáltíð, megaviku og happy hour. Byltingin er í eftirmat en hún er bara á matseðlinum á litlum lífrænum fjölskylduveitingastað í útjaðri borgarinnar, sem verður lokaður í allt sumar, vegna þess að við erum að taka upp framhaldsmyndina einmitt þar.

Á meðan megið þið sætta ykkur við ís í brauðformi, það verður ykkar eina bylting þetta sumarið, bylting frá heitri sólinni sem þið bölvið meira en okkur sem bræðum jöklana fyrir ykkur, sólinni sem þið látið brenna ykkur en leyfið ekki fyrir nokkra muni að koma í staðinn fyrir þessa dýrðlegu olíu sem stundum framkallar fallega grá ský til varnar þessari helvítis sól.

Áður en þið drukknið munum við svo koma fyrir tíu ísbúðum á hálendinu þannig að eftirlifendur geta haldið byltingunni áfram svo lengi sem sólin skín. En þegar síðustu geislarnir hverfa frá kulnaðri jörðinni verður engin bylting lengur og geimvindarnir munu blása sigðinni úr frosinni greip þinni.

Ásgeir H. Ingólfsson

Gleðileg jól (og langt jólafrí)

Kæru lesendur – kæru dásamlegu, yndislegu lesendur. Fyrir hönd allra aðstandenda Starafugls, baktjaldavefara, krítíkerhersins, ljóðaritstjórans og allra hinna, óska ég ykkur gleðilegra jóla. Yfir jólin mun ljóðaritstjórinn, Jón Örn Loðmfjörð, sinna eitilhörðustu lesendum með daglegum ljóðabirtingum – en að því loknu, þegar nýja árið gengur í garð, leggjast allir í hýði fram til 1. febrúar (hugsanlega mun detta inn ein eða tvær leikhúsrýni) og mæta tvíefldir og endurnærðir til starfa. Heimspeki Starafugls er enda sú að auk áræðninnar sé íhugunin – hvíldin, pásan, glápið út í eilífðina – mikilvægasti hluti listrænnar starfsemi af öllu tagi, og þar með talið rýninnar.

Þar til í febrúar bið ég ykkur því einfaldlega vel að lifa. Við sjáumst.

f.h. Starafugls
Eiríkur Örn Norðdahl

Mótordjákninn í París

Í umræður um búvörusamningana lagði Viðar Víkingsson nýverið til YouTube-hlekk á mynd sína, Tache blanche sur la nuque eða A White Spot in the back of the Head – eða, öllu heldur: Djákninn á Myrká. Myndin er um hálftíma löng, frá árinu 1979, á frönsku, og meðal leikara eru Sigurður Pálsson skáld og Kristín Jóhannesdóttir leikstjóri. Djákninn úr þjóðsögunni fer um París á mótorfák með hyrndan hjálm, ungir kaþóliskir integristar verða honum að bana fyrir meint helgispjöll en Sigurður, í hlutverki transmiðils, nær sambandi við djáknann framliðinn svo hann muni hafa sig hægan. Oblátur eru líkami Krists, segja kaþólikkar, en hvað sem því líður eru þær auðvitað líka landbúnaðarafurð.

Prince (1958-2016)

Það voru áreiðanlega 15 þúsund manns sem skildu okkur að – mannhafið fyrir framan mig og hann einsog pínulítill tindáti í móðu lengst, lengst í burtu – ég var lúinn og einn og drónið var endalaust, mannfjöldinn kannaðist bara við tón af og til, likk af og til, og þá fóru hrollstunur um hópinn.

Og svo byrjaði það. Og þótt hann væri búinn að daðra við það í áreiðanlega tíu mínútur kom það einhvern veginn samt einsog þruma úr heiðskíru lofti. Ég man að ég hugsaði að það þyrfti brjálæðislega stórt egó – egó sem fyllir upp í heiminn – til að geta náð kontakt við svona stóran hóp fólks í einu, til að geta snert mig svona djúpt þar sem ég stóð lengst aftur í rassgati. Og kannski meinti ég bara að maður þyrfti að vera brjálæðislega stór manneskja, mikill listamaður.

Pipene fær Goetheverðlaunin á Zebra

Ljóðkvikmyndahátíðin Zebra Poetry Film Festival fór fram í Berlín nú um helgina og voru fjórar kvikmyndir verðlaunaðar La’eb Al Nard / The Dice Player í leikstjórn Nissmah Roshdy frá Egyptalandi, við ljóð eftir Mahmoud Darwish, essen – stück mit aufblick í leikstjórn Peters Böving við ljóð eftir Ernst Jandl, The Aegean or the Anus of Death í leikstjórn Eleni Gioti við ljóð eftir Jazra Khaleed og svo ljóðið hér að ofan, Pipene í leikstjórn Kristian Pedersen við ljóð eftir Øyvind Rimbereid, sem hlaut verðlaun sem kennd eru við Goethestofnunina. Ljóðkvikmyndaútgáfan Gasspedal Animert, sem framleiddi myndina í samstarfi við Gyldendal í Noregi, hefur sett hana á netið til ókeypis áhorfs. Fleiri myndir má sjá á heimasíðu Gasspedal Animert.

Nóbelsverðlaunaniðurtalning: Alice Munro

Síðar í dag (klukkan 11 að íslenskum tíma, 13 að sænskum) verður tilkynnt um nýjan nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum. Starafugl hefur undanfarnar vikur talið niður með myndböndum af verðlaunahöfum fyrri ára.

Í fyrra vann kanadíska skáldkonan Alice Munro – við mikinn fögnuð – og höfðu þá einhverjir á orði að það eina neikvæða við að hún skyldi valin væri að þá fengi Margaret Atwood þau líklega aldrei, því samlandar fái þau að jafnaði ekki með svo stuttu millibili að Atwood entist ævin í að bíða (og maður er víst ekki gjaldgengur lengur þegar maður er dauður). Hér að ofan má sjá Atwood og Munro ræða saman á Skype – um bókmenntir.

Við látum svo vita um sigurvegara ársins strax og tilkynningin berst frá Stokkhólmi.

Bíó vikunnar: Á Undan Twin Peaks kom …

Í tilefni af þeim tíðindum að árið 2016 megi vænta þriðja árgangs þáttaraðinnar Twin Peaks, í leikstjórn Davids Lynch:

Árið 1987 gerði BBC sjónvarpsþátt þar sem Lynch kynnti helstu áhrifavalda sína meðal súrrealískra kvikmyndagerðarmanna. Fyrsta myndin sem hann sýndi brot úr í þættinum var Entr’acte eftir René Clair, með tónlist eftir Erik Satie.

Myndin er 20 mínútna löng. Hún var gerð árið 1924, sem millispil milli tveggja þátta í ballett eftir Satie. Meðal þeirra sem koma fram í myndinni eru Man Ray og Marcel Duchamp. Það er hugsanlegt að enn hafi aldrei sést fallegri notkun á slómó en í atriðinu sem hefst hér á slaginu 11:00.

Nóbelsverðlaunaniðurtalning: Pearl S. Buck

Á morgun, fimmtudag, verður tilkynnt um nýjan nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum. Starafugl telur niður með myndböndum af verðlaunahöfum fyrri ára.

Bandaríski rithöfundurinn Pearl S. Buck hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1938. Hér má sjá hana ásamt leikaranum Theodore Harris ræða við Merv Griffin um nýja bók sem þau skrifuðu saman – For Spacious Skies – kommúnisma (sem hún er lítið hrifin af) og góðgerðastarf þeirra Theodores í Kína og Japan, sem og eðli kínverja og asíubúa almennt. Líklega er óhætt að segja að viðtalið sé „barn síns tíma“, en það er skemmtilegt fyrir það.

Nóbelsverðlaunaniðurtalning: Kenzaburo Oe

Næsta fimmtudag verður tilkynnt um nýjan nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum. Starafugl telur niður með myndböndum af verðlaunahöfum fyrri ára.

Japanski rithöfundurinn Kenzaburo Oe hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1994. Í viðtalinu hér að ofan ræðir hann meðal annars áhrifavalda sína – þar á meðal barnabækurnar um Nils eftir Selmu Lagerlöf (sem hlaut sjálf Nóbelsverðlaun árið 1909) og það hlutverk sem sonurinn, Hikari, spilar í bókmenntum hans, en hann fæddist með alvarlegan heilagalla og var ekki hugað líf – á þeirri reynslu byggði Kenzaburo meðal annars skáldsöguna sem á ensku nefnist A Personal Matter.

Nóbelsverðlaunaniðurtalning: William Faulkner

Í byrjun október má reikna með því að akademían í Stokkhólmi velji sér nýjan nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum (það er enn ekki búið að gefa út hvaða dag það verður). Starafugl telur niður með myndböndum af verðlaunahöfum fyrri ára.

William Faulkner hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1949. Þetta myndband er ekki af Faulkner sjálfum en segir frá skrítnum höfundarréttardeilum þar sem dánarbú Faulkners kærði Woody Allen vegna þess að ein sögupersónan í Midnight in Paris vitnar í bók Faulkners, A Requiem for a Nun. Sögupersóna Allens, sem leikin er af Owen Wilson, segir: „The past is not dead! Actually, it’s not even past. You know who said that? Faulkner. And he was right. And I met him, too. I ran into him at a dinner party.“ – Í bók Faulkners er textinn örlítið öðruvísi: „The past is never dead. It’s not even past.“ Lögfræðingum dánarbúsins þótti mikil óhæfa að ekki skyldi koma til greiðsla vegna þessarar notkunar – en dómstólar dæmdu á endanum þeim í óvil (og sjálfsagt má reikna með að þeir hafi aldrei ætlast til að vinna málið fyrir rétti, heldur vonað að Woody Allen myndi heldur greiða þeim einhverja peninga en að fara með málið fyrir dómstóla með öllum þeim tilkostnaði sem slíku fylgir).

Nóbelsverðlaunaniðurtalning: José Saramago

Í byrjun október má reikna með því að akademían í Stokkhólmi velji sér nýjan nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum (það er enn ekki búið að gefa út hvaða dag það verður). Starafugl telur niður með myndböndum af verðlaunahöfum fyrri ára.

Frjálslyndi kommúnistinn José Saramago, frá Portúgal, hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1998 – og er flestum líklega að góðu kunnugur, sérílagi fyrir skáldsöguna Blindu. Hér má sjá hann ræða – af ítrustu alvöru – um hið innihaldslausa lýðræði og það hvernig hugtakið er notað til að halda fólki ánægðu. Hann talar á portúgölsku en það er hægt að kveikja á texta á nokkrum ólíkum tungumálum með því að smella á eitt táknanna hægra megin niðri á skjánum.

Nóbelsverðlaunaniðurtalning: Ernest Hemingway

Í byrjun október má reikna með því að akademían í Stokkhólmi velji sér nýjan nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum (það er enn ekki búið að gefa út hvaða dag það verður). Starafugl telur niður með myndböndum af verðlaunahöfum fyrri ára.

Ernest Hemingway hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1954. Hér má sjá hann ræða verðlaunin við mjög sólgleraugnaðan herramann á Kúbu og mikilvægi landsins og þjóðarinnar (sérlega norðurstrandakúbana) fyrir bókmenntir hans, og þess að vera fyrsti „Cubano sato“ (sem mun þýða eitthvað á borð við „hver annar Kúbani“, með fyrirvara um spænskukunnáttu ritstjórnar) til að hljóta verðlaunin.

Nóbelsverðlaunaniðurtalning: Elfriede Jelinek

Í byrjun október má reikna með því að akademían í Stokkhólmi velji sér nýjan nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum (það er enn ekki búið að gefa út hvaða dag það verður). Starafugl telur niður með myndböndum af verðlaunahöfum fyrri ára.

Leikskáldið Elfriede Jelinek hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 2004. Hér að ofan má sjá kitlu fyrir leikrit hennar Die Kontrakte des Kaufmanns, í leikstjórn Þorleifs Arnar Arnarssonar – en sviðsmyndin er eftir Símon Birgisson.

Nóbelsverðlaunaniðurtalning: Nelly Sachs

Í byrjun október má reikna með því að akademían í Stokkhólmi velji sér nýjan nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum (það er enn ekki búið að gefa út hvaða dag það verður). Starafugl telur niður með myndböndum af verðlaunahöfum fyrri ára.

Þýska skáldkonan (og gyðingurinn) Nelly Sachs hlaut verðlaunin (ásamt hinum austurrísk-ísraelska Shmuel Yosef Agnon) árið 1966. Hún rétt náði að komast úr klóm nasista fyrir tilstuðlan vinkonu sinnar, Selmu Lagerlöf (sem hlaut verðlaunin 1909), og flúði þá til Svíþjóðar, þar sem hún eyddi því sem eftir var ævinnar. Ljóðið Landslag úr öskrum er flutt hér á þýsku, Landschaft aus Schreien, en hér má lesa ljóðið á ensku.

Nóbelsverðlaunaniðurtalning: Wislawa Szymborska

Í byrjun október má reikna með því að akademían í Stokkhólmi velji sér nýjan nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum (það er enn ekki búið að gefa út hvaða dag það verður). Starafugl telur niður með myndböndum af verðlaunahöfum fyrri ára.

Pólska skáldkonan Wislawa Szymborska hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1996. Hér má sjá hana spjalla við kollegu sína Ewu Lipska um dularfullan hlut sem sú síðarnefnda færir henni og biður hana að giska hvað sé. Myndbandið er á pólsku en textað á ensku.

Nóbelsverðlaunaniðurtalning: Naguib Mahfouz

Í byrjun október má reikna með því að akademían í Stokkhólmi velji sér nýjan nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum (það er enn ekki búið að gefa út hvaða dag það verður). Starafugl telur niður með myndböndum af verðlaunahöfum fyrri ára.

Naguib Mahfouz frá Egyptalandi hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1988. Í viðtalinu hér að ofan ræðir hann (á ensku) meðal annars um tjáningarfrelsi, fötwuna á hendur Salman Rushdie og fleira. Mahfouz varði Rushdie af miklum móð í arabaheiminum og í kjölfar fötwunnar lenti skáldsaga hans Börnin frá Gebelawi líka undir smásjá öfgamanna sem reyndu að myrða hann árið 1994 – hann var stunginn í hálsinn en lifði af.

Við biðjumst velvirðingar á að hljóðið dettur út í nokkrar sekúndur – en þar átti líklega bara að vera tónlist – og örstuttan kvikmyndabút vantar vegna höfundarréttarvandræða.

Nóbelsverðlaunaniðurtalning: Doris Lessing

Í byrjun október má reikna með því að akademían í Stokkhólmi velji sér nýjan nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum (það er enn ekki búið að gefa út hvaða dag það verður). Starafugl telur niður með myndböndum af verðlaunahöfum fyrri ára.

Breska skáldkonan Doris Lessing hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 2007. Í (dásamlegu) myndbandinu hér að ofan má sjá hana bregðast við þegar fréttamenn tilkynna henni að hún hafi unnið – hún missti af tilkynningunni því hún var úti í búð (og finnst greinilega ekkert voðalega mikið til þessa koma).

Nóbelsverðlaunaniðurtalning: Odysseus Elytis

Í byrjun október má reikna með því að akademían í Stokkhólmi velji sér nýjan nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum (það er enn ekki búið að gefa út hvaða dag það verður). Starafugl telur niður með myndböndum af verðlaunahöfum fyrri ára.

Nóbelsverðlaunahöfundar falla iðulega í gleymsku – Odysseus Elytis er einn þeirra sem sjaldan er nefndur, en hann vann verðlaunin árið 1979. Það er erfitt að finna gott myndband af slíkum höfundum, en hér má sjá tvö óþolandi tölvugerð andlit flytja eitt ljóða hans. Við biðjumst fyrirfram velvirðingar.

Nóbelsverðlaunaniðurtalning: JM Coetzee

Í byrjun október má reikna með því að akademían í Stokkhólmi velji sér nýjan nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum (það er enn ekki búið að gefa út hvaða dag það verður). Starafugl telur niður með myndböndum af verðlaunahöfum fyrri ára.

Suður-afríski höfundurinn JM Coetzee hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 2003. Hér ræðir hann um vinnuna og iðnaðinn að baki bókmenntum, fegurðina og það hvernig fanga megi heiminn. Síðan les hann örlítið á hollensku úr bókinni Age of Iron (með enskumt texta).

Nóbelsverðlaunaniðurtalning: Selma Lagerlöf

Í byrjun október má reikna með því að akademían í Stokkhólmi velji sér nýjan nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum (það er enn ekki búið að gefa út hvaða dag það verður). Starafugl telur niður með myndböndum af verðlaunahöfum fyrri ára.

Selma Lagerlöf hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels fyrst kvenna árið 1909. Hér má sjá hana lesa stuttan bút úr skáldsögunni Charlotte Löwensköld fyrir leikkonuna Birgir Sergelius, sem var þá að fara að leika í kvikmynd gerðri eftir bókinni, með það fyrir augum að Birgit skilji persónu sína betur, en hún lék titilhlutverkið. Myndbandið er líklega frá árinu 1930.

Bíó vikunnar: Suspiria

Bíó vikunnar að þessu sinni er ítalska hryllingsmyndin Suspiria (Stunur) eftir leikstjórann Dario Argente. Myndin fjallar um unga bandaríska konu sem hefur nám í virtum dansskóla í Þýskalandi – en fljótlega kemur í ljós að það á sér stað eitthvað fleira í skólanum en bara dans og dillerí. Myndin sem kom út árið 1977 er sú fyrsta í trílógíu leikstjórans, sem hann kallar „Mæðurnar þrjár“ – en sú næsta, Inferno kom þremur árum síðar, 1980, en sú síðasta, La Terza Madre, ekki fyrren árið 2007. Sögurnar í trílógíunni eru lauslega byggðar á persónum úr prósaljóði Thomas de Quincey, „Suspiria de Profundis“. Í helstu aðalhlutverkum eru Stephanie Harper, Joan Bennett, Alida Valli og Stefania Cassini, auk þess sem hinn magnaði Udo Kier birtist í aukahlutverki.

Nóbelsverðlaunaniðurtalning: Toni Morrison

Í byrjun október má reikna með því að akademían í Stokkhólmi velji sér nýjan nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum (það er enn ekki búið að gefa út hvaða dag það verður). Starafugl telur niður með myndböndum af verðlaunahöfum fyrri ára.

Bandaríska skáldkonan Toni Morrison hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1993. Hér má sjá hana ræða merkingu þess að skrifa um kynþætti – hvað það þýði, hver geri það og svo framvegis – í spjallþætti Charlie Rose.

Nóbelsverðlaunaniðurtalning: Gabriela Mistral

Í byrjun október má reikna með því að akademían í Stokkhólmi velji sér nýjan nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum (það er enn ekki búið að gefa út hvaða dag það verður). Starafugl telur niður með myndböndum af verðlaunahöfum fyrri ára.

Síleski femínistinn og ljóðskáldið Gabriela Mistral var fyrsti suður-ameríski höfundurinn til að hljóta bókmenntaverðlaun Nóbels, árið 1945. Ljóðið „La Espera Inútil“ („Beðið til einskis“) er hér lesið af Mariu Maluenda á spænsku (en enska þýðingu má finna hér).

Nýtt myndband með Asonat

Myndbandinu var leikstýrt af tvíeykinu Seba & Maga, en lagið er af væntanlegri breiðskífu Asonat sem kemur út þann 30. september næstkomandi og mun hún kallast Connection. Myndbandið er unnið með svokölluðu Rotoscopic Animation tækni. Rafpoppsveitin Asonat er skipuð Jónasi Þór Guðmundssyni (Ruxpin), Olenu Simon og Fannari Ásgrímssyni – en skífan kemur út á vegu​m bandarísku útgáfunnar n5MD. Breiðskífan hefur að geyma tíu frumsamin lög með sveitinni og er hárfín og hlýleg blanda af raftónlist og popptónlist

Emiliano Monaco: Ég er ekki nógu gott landslag (2011)

Ég er ekki nógu gott landslag er klukkustundar löng heimildamynd eftir Emiliano Monaco, frá árinu 2011. Hún fjallar um tvo sjómenn, að segja má aldraða – en hér finnst mér orðin strax gleypa mig, vani þeirra leiða mig í ógöngur: þetta er ekki sú gerð heimildamyndar sem fjallar um eitt eða neitt, heldur er hún mynd af. Svipmynd af lífi tveggja trillukalla á Hofsósi, Sigfúsar og Hjalta. Já, þeir eru eldri en þeir voru einu sinni, og aldurinn og heilsan er meðal þess sem kemur við sögu. Sigfús siglir með kókflösku til að slá á sykursýkina en Hjalti er orðinn þreklítill.

Bíó vikunnar: Divine Intervention eða Buster Keaton í Palestínu

Divine Intervention er kvikmynd frá palestínska leikstjóranum Elia Suleiman, frá árinu 2002. Það er freistandi að segja gamanmynd, eða kómedía, og jú, jafnvel hárnákvæmt, þó að viðfangsefnið gefi henni þyngd og fleiri aðferðum sé beitt í henni. Íslendingar hæla sér stundum fyrir að hafa svartan húmor. Hér mætti tala um svarta kómedíu eða rökkurkómedíu, en ekki alveg í sömu merkingu: ekki vegna þess að líf og dauði séu vanvirt af léttúð, heldur frekar í skilningi noir-mynda.

Tove Jansson 100 ára

Bo Andersson syngur lagið Höstvisa eftir Erna Tauro við texta Tove Jansson.

„Tove Marika Jansson (9. ágúst 1914 – 27. júní 2001) var finnlandssænskur rithöfundur, listmálari og teiknari, fædd í Helsinki. Hún var komin af listafólki en móðir hennar var sænska listakonan, Signe Hammarsten-Jansson og faðir hennar finnski myndhöggvarinn Viktor Jansson. Hún er þekktust fyrir bækur sínar um Múmínálfana, þó skrifaði hún einnig aðrar bækur ásamt því að myndskreyta bækur eftir aðra. Til dæmis myndskreytti hún bæði Hobbitann eftir J.R.R. Tolkien og Lísu í Undralandi eftir Lewis Carroll.“

via Tove Jansson – Wikipedia, frjálsa alfræðiritið.

Ge9n í heild sinni (ókeypis!)

Fyrir þremur árum síðan var þessi mynd frumsýnd á yndislegu hátíðinni Skjaldborg – Hátíð íslenskra heimildamynda. Nokkrir sáu hana síðan í Bíó Paradís, en samt er hún eiginlega búin að standa í hálsinum á mér eins og kartafla eða ósagt orð. Hálfsagt orð. Svo ég geti vaxið upp úr henni sjálfur segi ég núna gjörið svo vel. Njóti þeir sem njóta vilja – og dreifi þeir sem dreifa vilja.

Haukur Már Helgason (á Facebook)

Bíó vikunnar: Alheimur / Universe

Þjóðarkvikmyndaráð Kanada stóð að framleiðslu þessarar hálftíma löngu svarthvítu heimildamyndar um geimrannsóknir árið 1960, eða einu ári áður en Júrí Gagarin fór í geimferð fyrstur manna. Annar leikstjóra heimildamyndarinnar, Colin Low, starfaði síðan með Stanley Kubrick að kvikmyndinni 2001: A Space Odyssey, sem var frumsýnd árið 1968. Skyldleiki þessarar stuttu heimildamyndar við verk Kubricks virðist margvíslegur.