Hungurleikarnir

Ég mun framleiða bíómynd um hvað kapítalisminn er vondur og hún mun græða þúsund milljón dollara. Hún mun selja byltingarbling á tvöþúsund milljónir dollara og sá byltingarfræjum í þrjúþúsund milljón hjörtu.

Ég geri það því ég veit að maginn gaular hærra en hjartað slær og hann gaular á súpermáltíð, megaviku og happy hour. Byltingin er í eftirmat en hún er bara á matseðlinum á litlum lífrænum fjölskylduveitingastað í útjaðri borgarinnar, sem verður lokaður í allt sumar, vegna þess að við erum að taka upp framhaldsmyndina einmitt þar.

Á meðan megið þið sætta ykkur við ís í brauðformi, það verður ykkar eina bylting þetta sumarið, bylting frá heitri sólinni sem þið bölvið meira en okkur sem bræðum jöklana fyrir ykkur, sólinni sem þið látið brenna ykkur en leyfið ekki fyrir nokkra muni að koma í staðinn fyrir þessa dýrðlegu olíu sem stundum framkallar fallega grá ský til varnar þessari helvítis sól.

Áður en þið drukknið munum við svo koma fyrir tíu ísbúðum á hálendinu þannig að eftirlifendur geta haldið byltingunni áfram svo lengi sem sólin skín. En þegar síðustu geislarnir hverfa frá kulnaðri jörðinni verður engin bylting lengur og geimvindarnir munu blása sigðinni úr frosinni greip þinni.

Ásgeir H. Ingólfsson