Mótordjákninn í París

– og skáldið sem transmiðill

Í umræður um búvörusamningana lagði Viðar Víkingsson nýverið til YouTube-hlekk á mynd sína, Tache blanche sur la nuque eða A White Spot in the back of the Head – eða, öllu heldur: Djákninn á Myrká. Myndin er um hálftíma löng, frá árinu 1979, á frönsku, og meðal leikara eru Sigurður Pálsson skáld og Kristín Jóhannesdóttir leikstjóri. Djákninn úr þjóðsögunni fer um París á mótorfák með hyrndan hjálm, ungir kaþóliskir integristar verða honum að bana fyrir meint helgispjöll en Sigurður, í hlutverki transmiðils, nær sambandi við djáknann framliðinn svo hann muni hafa sig hægan. Oblátur eru líkami Krists, segja kaþólikkar, en hvað sem því líður eru þær auðvitað líka landbúnaðarafurð.