Ég er ekki nógu gott landslag er klukkustundar löng heimildamynd eftir Emiliano Monaco, frá árinu 2011. Hún fjallar um tvo sjómenn, að segja má aldraða – en hér finnst mér orðin strax gleypa mig, vani þeirra leiða mig í ógöngur: þetta er ekki sú gerð heimildamyndar sem fjallar um eitt eða neitt, heldur er hún mynd af. Svipmynd af lífi tveggja trillukalla á Hofsósi, Sigfúsar og Hjalta. Já, þeir eru eldri en þeir voru einu sinni, og aldurinn og heilsan er meðal þess sem kemur við sögu. Sigfús siglir með kókflösku til að slá á sykursýkina en Hjalti er orðinn þreklítill. Atburðir í verkinu, sem eru dreifðir, eins og gróður í íslensku landslagi, snúast þó ekki allir um aldur mannanna. Við sögu kemur, meðal annarra, kunningi sem hefur komið ár sinni betur fyrir borð og er að selja bát með kvóta fyrir 90 milljónir. Það er fyrir hrun, þegar 90 milljónir voru nokkurt fé. Það er ekki laust við að hann spígspori svolítið stórbokkalega þegar hann kemur í heimsókn til Sigfúsar. Það fer vel á með þeim en þegar Sigfús sjanghæjar gestinn til að halda fyrir sig á málningardollu á meðan hann umhellir í hana brúnni drullu glittir samt í átök um hver venslin á milli þeirra skuli vera, yfir/undir eða hlið við hlið, eða bæði og þá hvernig.
Bilið milli atburða og persóna er þannig ekki tómarúm, frekar en gengur og gerist – í því hvíla vensl og þau eru á stirðri hreyfingu. Þögnin og hvíldin þegar Sigfús og kona hans, Fanney ef ég les rétt, sitja saman á verönd í veðurblíðu er ekki heldur tóm: kallinn mun vanta vettlinga til að verka fiskinn, konan stingur upp á leðurhönskum sem honum þykir ekkert vit, hún gengur burt.
Í myndinni eiga persónurnar líka vensl við myndavélina. Framan af verkinu agnúst karlarnir svo mikið yfir þessari áráttu mannsins að vera stöðugt að mynda þá, að kvikmyndin sem þú ert að horfa á virðist þeim sjálfum þvert um geð. Þegar Sigfús fer til Reykjavíkur í verslunarleiðangur útskýrir hann hins vegar, að því er virðist nokkuð hróðugur, fyrir verslunarmanninum að leikstjórinn vilji mynda sig, Sigfús, en ekki GPS-tækin sem hann er að skoða. Nákvæmlega þannig er einhvern veginn hálfpartinn á huldu, í öllum samskiptum, hvaða tilfinningar búa að baki því sem sagt er – það er engin leið að segja hvort maðurinn kunni kvikmyndatökunni kannski allan tímann vel, ekki frekar en hvort hann langaði kannski helst einmitt að nota leðurvettlingana sem hann fúlsaði við.
Verslunarmaðurinn segir Sigfúsi sögu, í knappasta hugsanlega máli, sem virðist vera verð heils verks í viðbót. Þeir hafa aldrei hist áður en mynda snögglega kunningsskap gegnum tengsl við landshluta: faðir tengdaföður verslunarmannsins, segir hann, var næstsíðasti ábúandinn í Málmey, sem liggur í Skagafirði, skammt frá Hofsósi. Hann hafi flutt þangað með dætur sínar til að forða þeim frá erlendu hermönnunum í seinni heimsstyrjöld. „Útlendingasvarminum“.
Samskiptin í verkinu, venslin milli fólks, birtast í það minnsta einum íslenskum áhorfanda sem ofurkunnugleg, en verða um leið ný við að vera færð í mynd. Hitt helsta verðmæti verksins eru myndir af áþreifanlegri fyrirbærum sem dag frá degi geta líka virst heimafólki sjálfsögð: opin farangursgeymsla á fólksbíl, full af ópökkuðum og óskornum signum fiski. Hestar sem klóra sér um hnakkann á plöstuðum vírum háspennumastra.
Nútíminn birtist stundum sem aðskotahlutur á Íslandi. Það gerir hann auðvitað víðar, en bar kannski óvíða niður af jafn mikilli festu, jafn hratt og þar. Steinsteypt hús, ísskápar og bílar virðast stundum undarleg nýmæli sem við erum enn að máta okkur við. Ég veit að auðvitað er ekkert undarlegt, í beinni upplifun manns, af því að vera í háappelsínugulum gúmmíregnstakk í umhverfi sem er annars sparara á litafyllingu. En fangað og innrammað á flöt skapar það og annað sem heita má hliðstætt stöðuga, látlausa myndræna spennu, jafnvel íróníu.
Aldurinn er þarna líka. Endanleikinn. Niðurlagið. Allt í allt er myndin hæglát, þolinmóð, lúmsk, góð.