Elia Suleiman í Divine Intervention (2002)

Bíó vikunnar: Divine Intervention eða Buster Keaton í Palestínu

Divine Intervention er kvikmynd frá palestínska leikstjóranum Elia Suleiman, frá árinu 2002. Það er freistandi að segja gamanmynd, eða kómedía, og jú, jafnvel hárnákvæmt, þó að viðfangsefnið gefi henni þyngd og fleiri aðferðum sé beitt í henni. Íslendingar hæla sér stundum fyrir að hafa svartan húmor. Hér mætti tala um svarta kómedíu eða rökkurkómedíu, en ekki alveg í sömu merkingu: ekki vegna þess að líf og dauði séu vanvirt af léttúð, heldur frekar í skilningi noir-mynda.

Það er hægt að kalla myndina kómedíu vegna þess að hún beitir misræmi milli almennra væntinga og tiltekinna aðstæðna, karaktera og athafna á einmitt þann máta. Og er, fyrir vikið, fyndin. Það sem meiru varðar er þó hugsanlega – og ég held að hér sé engu spillt – að aðalpersóna myndarinnar lifir af. Hún á eitthvað skylt við noir vegna þess að hinar myrku aðstæður sem ramma verkið inn, óréttlæti og kerfisbundið ofbeldi, víkja ekki, heldur veit áhorfandinn þegar hann stendur upp að staðan í Palestínu hefur, á meðan hann horfði, ekki breyst.

Ef ég segði að þetta væri mynd um, til dæmis palestínskan mann sem á í ástarsambandi við ísraelska konu, og um föður mannsins, sem veikist, þá væri það satt en ekki alveg rétt. Þetta er ekki fyrst og fremst mynd um heldur mynd af: mynd af lífi undir hernámi. Aðalhlutverkið er leikið af Suleiman, leikstjóranum, sjálfum. Hann minnir á Buster Keaton. Þeir sem þekkja Keaton vita trúlega nákvæmlega hvað er þá átt við. Svipbrigðaleysi Suleimans er ekki hlutlaust eða meiningarlaust heldur langþreytt. Það veit, sem er ekki sama og að skilja. Þekking, furða og sorg virðast eitt og sama fyrirbærið, í þrjósku þess sem sér ekki lengur ástæðu til að bregðast við atviki eftir atvik, í tilveru sem er öll á röngunni. Það gefur undirtón myndarinnar og grínsins.

Einhverjir hafa kallað verkið áróðursmynd, og vísa þá einkum til lokaatriðisins, sem hér verður ekki gefið upp. Ég held að allir aðrir þættir og atriði liggi frekar undir grun en sú sena. Það er: öll önnur atriði myndarinnar gerast í heimi sem einkennist af hernáminu. Furðurnar í þeim eru ekki á kostnað hins kómíska raunsæis. Atriðin eru sannfærandi og þau vekja samúð, meðal annars með því að vera ekki ídealísk. Þar birtast engir dýrlingar. Lokaatriðið fæst hins vegar beinlínis við einhvers konar dýrling. Það er fullkomlega fantasískt, og birtist fyrir vikið, í samhengi þess sem á undan far, tongue-in-cheek sem mætti þýða með línunni: með mátulegu glotti. Lokaatriðið birtist blátt áfram, eins og það er, en það felur líka í sér bendinguna: ég hefði getað gert svona mynd, en ég gerði það ekki. Eða, í samhengi fyrri furða í myndinni, eins og í atriðinu hér að ofan með plómukjarnann og skriðdrekann: mikið vildi ég að. Svipbrigðaleysi Busters Keaton fylgir lokaatriðinu, fylgir myndinni á leiðarenda, eins og bros Cheshire-kattarins sem vomir yfir, þó að kötturinn bregði sér frá.

Myndin öll virðist vera á YouTube: