Austur-Þjóðverjar fokkuðust líka í Shakespeare. Þýskt frímerki með Lé konungi frá tímum Alþýðulýðveldisins.

„Fokking“ Shakespeare

Það er gengið að því sem gefnu að ég sé sífellt að „fokka“ í Shakespeare, kannski eðlilega. Það er einfaldlega það sem allir gera sem ekki setja upp textann eins og þeir finna hann í Quarto eða Folio útgáfum (Folio þykir fínna, „upprunaleg“ stafsetning og allt það). Nota bene er samt verið að tala um útgáfur þegar vitnað er í „textann“, hinn eini „sanni“ texti er ekki til, bara handrit sem líklega eru unnin upp úr sneplum af blöðum sem voru settir í hendur leikara og svo safnað saman eftirá. Þetta íkoníska undraverk sem William Shakespeare, hver sem hann nú var, er talinn hafa sett saman, hefur sem sagt aldrei verið til. Líklega unnu skáldin bara allt öðruvísi þá. Líklega meitlaðist allt talsvert í munni leikarans áður en útgáfan (með ákveðnum greini) var sett saman. Hinn eini „sanni“ texti mun aldrei verða til aftur. Nú má ekki aðeins rífast um hvort Quarto eða Folio sé betra heldur Cambridge eða Oxford, Arden eða hvað þetta heitir alltsaman. En samt eru allir sem vinna eitthvað með Shakespeare á sviði að „fokka“ í honum. Af því að þeirra útgáfur urðu til eftir að einhver (annar en Shakespeare) setti saman fyrstu drögin þarna 1600-og-guð-má-vita-hvenær.

Nei. Ekki eru allir sakaðir um að „fokka“ í verkunum þó þeir setja þau ekki upp í heild sinni. Það er einhversstaðar lína í sandinum dregin af þeim sem vald hafa til að segja hvað sé „rétt“ og „satt“ og „ekta“ í listheiminum. Lína sem greinir milli þess hvað sé of mikill niðurskurður á „upprunalega“ textanum og hvað „eðlilegt“ er að skera burt. Þetta eru jú svo andskoti mörg orð. Og nútímamaðurinn á erfitt með að sitja á rassinum lengur en 2 tíma. Það er að segja fyrir framan eitthvað annað en tölvuna. En að stroka öll orðin út? Eða allt nema nokkrar ræður? Þá ertu að „fokka“ í Shakespeare. Maður skildi halda að eftir 400+ ár væru menn ekki svona uppteknir af því hvað höfundurinn skrifaði. Maður skildi halda að kannski væri kominn tími á að atburðir svo sem leiksýningar hefðu það vægi að vera ekki lengur metnir á þeim forsendum hvaða orðum þeir byggju á. En nei. Það virðist erfitt að draga þá línu í sandinn.

The ideology of print is so powerful that to define a Shakespeare play in terms of anything but some combination of extant print, or hypothesized manuscript, documents seems almost inconceivable. Like all powerful ideologies, it seems natural, commonsense even, that the ‘‘real’’ Hamlet is always, in the last analysis, found in a book.

(Kidnie 2005: 103)

Samkvæmt þessu var ekkert „raunverulegt“ við uppsetningu mína á Lé konungi síðasta vor. Það var ekkert handrit. Það var sýning sem byggði á Lé konungi (eina af útgáfunum skulum við segja). Persónurnar Goneril, Regan og Cordelia voru á sviðinu. Leikkonurnar sem léku þær höfðu eytt meiri tíma en flestir sem taka að sér hlutverkin í að kanna texta þeirra, birtingarmyndir og sess í menningarlegu minni (cultural consciousness) vesturlanda. En þær fylgdu ekki upprunalega textanum í einu og öllu. Bútar hans fundu sér leið inn í sýninguna. Þjóðsagan sem Shakespeare var að „fokka“ í var þarna líka. Tónlist Ettu James og Billie Holiday sagði það sem uppá vantaði. Leikur þar sem allar þrjár gerðu gys að dauðdaga hinna átti meira erindi á okkar svið en einræður Lés. Lér sjálfur var rauður stóll. Samt kölluðum við verkið „King Lear“. Hinn „raunverulegi“ Lér eftir Shakespeare var víðsfjarri samkvæmt öllu. Var þá ekkert sem gerðist á sviðinu „ekta“ nema það sem við höfðum upp úr „textanum“? Var það samt „ekta“ ef vitlaus karakter fór með orðin á blaðinu? Hvað vorum við að gera ef ekki Lé konung?

[…] What is authentic is the text – in Shakespeare’s case, by necessity some form of printed text. The performance, by comparison, is authentic insofar as it can reproduce the text […] Authenticity, in other words, always already present in the text, inevitably eludes performance; performance is measured in relation to the text in degrees of infidelity and inauthenticity.

(Kidnie 2005: 103-104)

Með öðrum orðum: Hvernig gæti eitthvað svo einskorðað við upplifun verið „ekta“ eða „satt“, ef engin eru verkleg ummerkin, ekkert handrit sem maður getur keypt í miðasölunni? Ef Shakespeare er að finna í rituðu máli þá er allt sem ekki er ritað mál ekki Shakespeare. En maður spyr sig aftur á móti: Hvernig gæti eitthvað svo einskorðað við upplifun (sem leiksýning óneitanlega er) verið einhvern hátt ekki ekta, fals? Ég hef sett upp Pericles, Prince of Tyre þar sem um níu línur af formála var allt sem var „ekta“ og jafnvel sá texti var samsuða af línum hist og her úr verkinu. Líklega líka lygi þá, fals. Og dansinn sem sagði söguna, var þá líklega 100% laus við að vera ekta. Shakespeare að nafninu til einungis. Eitt stórt „fokk“.

Það skiptir þá engu hver þekking okkar á verkunum, Lér konungur, og Pericles, Prince of Tyre, var. Það sem skiptir máli er hvort að við áttum rétt á því að kalla okkar sviðsverk sama nafni og Shakespeare kallaði sín. Að „fokka“ í Shakespeare lýtur nefnilega ákveðnum lögmálum. Annaðhvort er gert ráð fyrir að fólk þekki textann eða ekki. Í tilfelli Lés gerðum við ráð fyrir að allir hefðu nú þegar sínar eigin hugmyndir um hvað Lér konungur er um. Þar af leiðandi fannst okkur ekkert athugavert við að kalla okkar atlögu að verkinu „King Lear“, enda í okkar huga alveg jafn mikið Lér konungur og uppsetning Benedict Andrews hjá Þjóðleikhúsinu um árið. Hversu mikið við skárum af textanum var aukaatriði fyrir okkur. Það að hinum hefðbundna söguþræði sem finna má í bókum væri ekki fylgt skipti okkur ekki máli. Við vorum að segja söguna, ekki Shakespeare, ekki hvítir miðaldra karlmenn í góðum djobbum við virta háskóla, ekki stofnun sem telur sér hag af því að fylgja ímynduðum reglum um hvað sé „ekta“ Shakespeare. Og okkar útgáfa var ekta fyrir okkur, feminísk, síð-módern og háð því að áhorfendur hefðu eigin menningarlegar minningar um manninn sem telur sig svikinn af dætrum sínum. Okkar Lér var einfaldlega eðlileg þróun á efniviði sem er menningarleg arfleið tímans, heimsins alls.

Það þekkir hinsvegar enginn Pericles. Hvað vorum við þá að gera dans-leikhúsverk upp úr honum? Okkur langaði að segja söguna, lið fyrir lið (nokkurnveginn), eins og hún kemur fram í textanum. Bara ekki með orðum. Kölluðum verkið „Marina“ og drógum þar með úr væntingum áhorfenda til að sjá „ekta“ uppfærslu á verki Shakespeare. Dönsuðum orðin. En ef Shakespeare er að finna í textanum, þá vorum við ekki að setja upp Shakespeare.

Ég lék í Winter’s Tale á sviði Shakespeare‘s Globe. Verkið var skorið niður og lagði áherslur á sögu Hermionie, líkt og við lögðum áherslu á sögu Marinu í Marinu. En við vorum á Globe sviðinu og við fórum með textann. Hann var meira að segja upp úr fyrstu Folio útgáfunni. Vorum við ekki að setja upp Shakespeare? Ef já, hvað þarf að breyta miklu, skera mikið til að svarið verði nei?

Við vorum jú að leika útgáfu af verki Shakespeare. En ef textinn er Shakespeare og Shakespeare er textinn er þá ekki rétt að halda fram að ef þú breytir textanum eitthvað ertu hætt að setja upp Shakespeare? Ef þú þýðir textann ertu hætt að setja upp Shakespeare? Ef þú mismælir þig í miðju kafi, hóstar í stað þess að flytja textann í réttum iambic takti eða ætlar þér að rappa „að vera eða ekki vera“ ertu ekki að gera Shakespeare? Eins og ég sagði í byrjun var textinn aldrei einn og heill „Shakespeare“ og Shakespeare var aldrei bara texti á blaði. Hann er ekki fasti sem hægt er að benda á og segja, þarna er hann. Svona er Shakespeare. Þetta er Hamlet. Svona á að gera Lé konung. Verk Shakespeare eru leikverk, lifandi og óstöðug og því alltaf háð tíma og rími.

Hamlet, I would argue, exists in a shared cultural and lived space that embraces and ranges across both performance(s) and text(s) […] Performance is therefore never incidental to an idea of Hamlet – it is not an embellishment of, or deviation from, the ‘‘real’’ thing. It is a basic part of the way the next synchronic point (and the next, and the next) are constructed in a diachronic process called ‘‘Shakespeare’s play,’’ thereby creating and thus perpetuating an illusion of relative canonical stability. Shakespeare’s plays change over time, and in a particular time, under the ongoing pressure of cultural and creative processes. It is in part through performance, above all through the ways performance is brought into a relational tension with text, that one can arrive at all at a provisional and subjective knowledge of the ‘‘real’’ thing.

(Kidnie 2005: 115)

Að „fokka“ í Shakespeare er því alveg jafn „ekta“ og að lesa hann upp úr rykugri skrjóðu á gömlu bókasafni. Það eina sem má ekki gera við Shakespeare er að gleyma því að hann er ekki og hefur aldrei verið annað en röð af útgáfum að textum og sviðsetningum.

Heimildir:

Kidnie, M. J. 2005 „Where Is Hamlet? Text, Performance, and Adaptation“, A Companion to Shakespeare and Performance, edited by Barbara Hodgdon, W. B. Worthen, Blackwell Publishing Ltd.