Meira að segja plötuumslagið er fallegt – en einhvern veginn ósýnilegt fyrir sakir kunnugleika síns.

97: The Freewheelin’ Bob Dylan með Bob Dylan

Titillinn er svolítið einsog ef Jónsi í Sigur Rós gæfi út plötu sem héti Jónsi krúttar yfir sig.

Platan er góð. Hvað á maður að segja? Þetta er Freewheelin’. How many roads og svona. Konan mín fékk lögin strax á heilann – mér er enn illt í hásininni og kemst ekki út að hlaupa, spilaði þetta yfir matseldinni í staðinn – og bölvaði mér þangað til Sirkus Íslands straujaði yfir Dylan með kabarettstrippi um kvöldið.

Hið íkoníska. Þetta á eftir að verða erfitt, held ég. Ég reikna með því að gera nokkrar uppgötvanir á þessari 100 platna vegferð minni en mikið af þessari hlustun verður hálf uppgötvunarlaus. Ég rak mig ekki á margt nýtt við þessa hlustun. Nema þegar hann segir, alveg í bláendann á plötunni, að hann segist ætla að sofa hjá Elizabeth Taylor – og reita Richard Burton þannig til reiði. Það fannst mér dálítið Eminemlegt fyrir árið 1963 – kannski var það þetta sem Seamus Heaney átti við þegar hann sagði þá Eminem vera sambærilega („He has created a sense of what is possible“ sagði Heaney orðrétt). Eminem var alltaf að segjast vilja sofa hjá frægum konum.

Restin var sem sagt bara einsog við var að búast. Þetta er bara Dylan. Og kannski er það ekkert bara. En þessar gömlu plötur eru bara dálítið þurrausnar og mega hugsanlega við hvíld – Dylan á líka nýrri plötur og minna spiluð lög. Mér skilst reyndar að Let me die in my footsteps hafi átt að vera á plötunni en hafi verið tekið út. Kannski væri það annars jafn þreytt. Spilum það.

Eiríkur Örn Norðdahl, ritstjóri Starafugls, ætlar næsta árið að hlusta á 100 efstu plöturnar af lista Rolling Stone frá 2003 yfir 500 merkustu plötur allra tíma – á meðan hann hleypur, hjólar eða keyrir – og reyna að hafa á þeim einhverja skoðun. The Freewheelin’ Bob Dylan með Bob Dylan hlustaði Eiríkur á meðan hann eldaði víetnamskt núðlusalat með steiktum rækjum og hrísgrjónanúðlum.