Björk sprellar með Tori Amos og PJ Harvey

Tónlist vikunnar: HVAÐ ER NÝTT? HVAÐ ER TÍTT?

Hæ,

Tónlist vikunnar hér. Langt síðan við höfum sést. Eða sérðu mig kannski ekkert? Er eitthvað kám á linsunni? Jæja nema hvað, hér er ég allavega. Upprisin með Starafuglinum. Tónlist vikunnar. Hún lengi lifi.

NEMA HVAÐ. Þessi grein er síst extra löng. Lítið að lesa. Ef þig vantar eitthvað að lesa geturðu niðurhalað Viljaverk í PalestínuÞú ættir eiginlega samt að gera það, og lesa smá. Og leggja svo smá inn á neyðarsöfnun Íslands-Palestínu.

Í millitíðinni er hér smá íslensk músík sem þú getur horft á áður en þú leggur inn allan peninginn, þá eða hlustað á meðan þú leggur inn allan peninginn.

Þetta er nýjasta myndband Gusgus-liða, er hlutu nokkuð jákvæða umsögn (þó ekki plötudóm) hjá Starafugli fyrir ekki löngu. Skiptar skoðanir eru á gæðum myndbands – og reyndar lags líka – en umsjónarmanni þykir hvorutveggja ágætt.

Loftleiðir er nýjasta lag rapparans Gísla Pálma. Umsjónarmaður var í fyrstu mikill aðdáandi Gísla Pálma;  þótti hann sérlega duglegur að tilrauna með formið og prófa nýja takta og framburði. Og er það eiginlega ennþá. GP tók þó það illa í tónleikadóm sem einn skjólstæðinga umsjónarmanns ritaði um hann fyrir ekki löngu að hann svona hefur átt erfitt með að hlusta á músíkina hans af ánægju síðan. En, þetta lag er gott. Og tilraunagjarnt. Og myndbandið er fallegt. Og umsjónarmaður hefur alltaf talið sér trú um að það sé fáránlegt að ætlast til þess að manni þurfi endilega að líka við listamenn til að geta metið verk þeirra, eða einusinni þótt þeir viðkunnalegar persónur (alveg síðan hljómsveitin Andhéri var skúnksleg í partýi eftir tónleika í Menntaskólanum á Ísafirði árið ’96). Hverslags krafa er það eiginlega? Það er nóg að vera góður í einu í einu. Ef umsjónarmanni langar að finna einhvern að passa kettina sína leitar hann kannski til annarra en Gísla Pálma, en ef hann vill heyra hágæðarapp á íslensku leitar hann glaður til gamla GP.

Grísalappalísa er í uppáhaldi hjá Tónlist vikunnar. Þeir gerðu nýja plötu og það kom nýtt myndband. Stenst það væntingar? Hver veit!

Þetta kom út í gær. Myndband Mammúta við lagið Þau svæfa. Enn hefur ekki skapast nægur konsesus um hvorki lag né myndband til þess að Tónlist vikunnar geti tjáð sig af sjálfstrausti um annað hvort, enda væri hræðilegt að fara á móti almenningsáliti í þessum efnum. En þetta lofar góðu. Horfðu og athugaðu.

Hér er svo hljómsveitin Knife Fights með lagið Gnarbone. Knife fights er ægilega skemmtilegt.

Hljómsveitin Úlfur Úlfur varð til úr annarri hljómsveit, sem hét Bróðir Svartúlfs, en það verður að segjast eins og er að nýja nafnið er miklu fallegra. Þetta myndband er ákaflega áferðarfallegt, en þar má fylgjast með ævintýrum Úlfa úlfa á Bíladögum á Akureyri (hlýtur það ekki að vera?). Lagið er líka skemmtilegt, og maður fær verðlaun ef maður getur giskað hvað yfirúlfurinn er að segja.

Já og þetta er ógeðslega fyndið. Umsjónarmaður fann það þegar hann var að leita að mynd til að vera kámug með Tónlist vikunnar. Björk og Tori Amos gæða sér á laginu Unravel (sem er frábært lag, og gaman að sjá þær spila það), en í endanum má heyra góða konu segja: „The vomen of the sagas. They are wery strong. And Björrrk is vone of them.“ 

Og það er heví fyndið.

(PS – vinur umsjónarmanns benti honum á að þetta væri barasta ekkert Tori Amos þarna að spila með Björku, sama hvað YouTube segir. En konan í endann er jafn fyndin fyrir því).