Bíó: Operation Beton

Mér datt í hug að senda inn stutttmyndina Operation Beton. Þetta er allra fyrsta myndin frá Godard, Steypa eða Framkvæmdin Steypa, heimildamynd gerð árið 1955, um virkjanaframkvæmd, fyrir fyrirtækið sem stóð að virkjuninni. Hér er myndin:

– og textinn væri kannski bara einmitt þetta paragraf hér að ofan, frá „mér datt í hug“, ásamt paragrafinu sem við erum staddir í einmitt núna. Þannig get ég sneitt hjá kvíðanum yfir því að skrifa eitthvað með því að senda bara bréf. Og ég get bætt við kæruleysislega því sem ég man ekki nema hálfvegis, er ekki með bækurnar í kringum mig: mig rámar í að, í það minnsta ævisöguritari Godards, Richard Brody, hafi lagt þannig út af myndinni að í seinni verkum Godards birtist samviskubit yfir henni, yfir því að selja sig með þessum hætti. Ef ekki samviskubit, þá tilraunir til uppgjörs. Það getur verið. En mér þótti þetta annars ekki góð ævisaga. Hún var full af upplýsingum, sem er ágætt, en höfundur setti þær helst alltaf í samhengi svona frekar einfaldrar sálfræðivæðingar, ekki bara listamannsins heldur listaverkanna, sem verða öll, í höndum hans, að uppgjörum Godards í einkalífi og ástum. Sá lestur heldur oft alveg, en er æði langt frá því að vera áhugaverðasta hliðin á mörgum myndanna.

Leyfum þessu paragrafi hér að vera með líka, kannski: það sem mér finnst áhugaverðast við þessa mynd er myndefnið sjálft. Þetta orðlausa, lífvana grjót. Grjót og sandur og steypa og hnullungar, vélar úr stáli, trukkar og fjöll. Efnismassi. Tilfæringar á efnismassa. Þungir hlutir á flugi, eftir vírum, um himinhvolfin. Hlutir sem hafa það hlutverk eitt að vera þungir og vera þarna. Vera kyrrir, að endingu, þar sem maður setur þá. Kontrapunktur tónlistarinnar við þetta myndefni – ekki spyrja mig hvaða strengjakvartett – er dásamlegur, og birtist sem einhvers konar grófgerður forveri þess sem Kubrick gerir löngu síðar með Wagner og þunga hluti í geimnum. Þetta er tíu árum eftir stríðslok og ungu mennirnir með hjálmana eru þó ekki að drepa hver annan með öllu þessu efni. Það er auðvitað hugsanlegt, hins vegar, að myndin segi eitthvað allt annað við þá sem skilja frönskuna sem er töluð yfir hana.