Twin Peaks snýr aftur – DV

Fregnir herma að sjónvarpsþáttaröðin sígilda, Twin Peaks, snúi aftur árið 2016 og sé nú þegar í vinnslu hjá bandaríska sjónvarpsrisanum Showtime. Talsmenn Showtime vildu ekki tjá sig um málið en David Lynch og Mark Frost, heilarnir á bak við upprunalegu þættina, staðfestu þetta á Twitter fyrr í dag.

David Lynch mun leikstýra. Ekkert hefur þó heyrst um hverjir fari með aðalhlutverk.

via Twin Peaks snýr aftur – DV.

Illugi Gunnarsson: Betra læsi árið 2000, en hærri VSK

„Ég hef heyrt þessa umræðu og hún er skiljanleg. Ég vil þó benda á að það er varhugavert að draga of miklar ályktanir um samband á milli læsis og virðisaukaskattskerfisins. Ef við skoðum t.d. niðurstöðuna árið 2000 þá er hún mun betri en hún var núna síðast. En þó var það svo að þá hafði verið 14 prósenta virðisaukaskattur síðustu sjö átta ár þar á undan. Megnið af þeirri skólagöngu sem þá var hjá börnunum,“ segir Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra.

via Vísir – Varhugavert að tengja VSK á bækur við lestrarkunnáttu.

Traustur vinur kvikmyndagerðar | Jóhannes Þór Skúlason

Fjárfestingaáætlunin, og þar með þessi mörg hundruð milljóna hækkun, var ófjármagnað risakosningaloforð Samfylkingar og Vg. Það fyrsta sem ný ríkisstjórn þurfti að glíma við var að þetta kosningaloforð var ekki í neinu sambandi við raunveruleikann í ríkisfjármálunum, eins og skýrt hefur komið fram síðan. Það var því aldrei innistæða fyrir sjálfkrafa framlengingu á þessu og alls ekki hægt að nota slíka augljósa einsskiptisaðgerð sem eðlilegan samanburð um framlög á fjárlögum til kvikmyndasjóða til framtíðar.

Þrátt fyrir það var ákveðið að hækka framlög í kvikmyndasjóði í frumvarpi til fjárlaga 2014 miðað við það sem verið hafði í fjárlagafrumvörpum 2012 og 2013. Staðreyndin er því sú að framlög til kvikmyndasjóða í frumvarpi til fjárlaga hafa aldrei verið hærri í sögunni en á árunum 2014 og 2015.

(Framsóknarmaðurinn) Jóhannes Þór Skúlason skrifar via Traustur vinur kvikmyndagerðar | Jóhannes Þór Skúlason.

Unnsteinn Manuel: Finnst allt of mikið drasl í heiminum

Eins og er er aðeins hægt að streyma EP-plötunni í gegnum Soundcloud-síðu Unnsteins, en hægt verður að kaupa hana á geisladiski í nóvember. Hann segir það þó ekki skipta sig miklu máli hvort platan komi út annars staðar en í netheimum. „Númer eitt, finnst mér allt of mikið til af drasli í heiminum og númer tvö, þegar þú metur eitthvert lag eftir Elvis Presley eða Lord Pusswhip að sömu verðleikum af því að þú ert með bæði í gangi á Youtube á meðan þú ert að skoða eitthvað annað, þá er það miklu sanngjarnari samanburður.“ Sjálfur segist Unnsteinn ekki vera þjakaður af miklu plötublæti. „Mér finnst það í rauninni náttúrulegra að hlusta á tónlist svona, þar sem þú ert bara með tónlistina sjálfa. Ég hef alveg gaman af vínylplötum þegar ég er að DJ-a en vínylplötusafnið mitt er bara úti um allt. Ég er ekki með það á einum stað. Það segir kannski sitt.“

via Kynferðislegir taktar og sálartregi – DV.

Ég get hætt þegar ég vil hlaut Gullna lundann á RIFF

Verðlaunaafhending Alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Reykjavík, RIFF, fór fram í Iðnó þann 4. október 2014. Sigurvegarar eru eftirfarandi:

Gullni lundinn / uppgötvun ársins 

Ég get hætt þegar ég vil / Smetto quando voglio/I Can Quit Whenever I Want

Leikstjóri: Sydney Sibilia

Ítalska kvikmyndin, Ég get hætt þegar ég vil hlýtur Gullna lundann í ár. Í umsögn dómnefndar segir að myndin sé einstaklega skemmtileg ítölsk kómedía sem undirstriki fjölbreytileika Alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Reykjavík, sem rúmar bæði tilraunakenndar kvikmyndir sem og svo farsælar kvikmyndir sem eru til þess fallnar að falla í kramið hjá stórum hópi fólks. Myndin ber ekki þess merki að hún sé sú fyrsta sem Sydney Sibilia leikstýrir. Í henni er varpað athyglisverðu ljósi á stöðu menntamanna í Ítalíu en myndin segir sögu ólíklegra einstaklinga sem enda í heimi glæpa og gjálífs.

via RIFF verðlaun 2014 | Reykjavík International Film Festival.

Heiðrún Ólafsdóttir: Afskiptaleysi getur verið banvænt

Söguhetja Leiðar, Signý, segir sögu sína í fyrstu persónu og strax á fyrstu síðunum verður ljóst að hún hefur ákveðið að stytta sér aldur. Ástæðurnar fyrir þeirri ákvörðun koma smátt og smátt í ljós í endurlitum hennar, en lesandinn fær samt ekki tilfinningu fyrir því að hún sé þunglynd. „Það er líka eitt af því sem ég vildi koma á framfæri,“ segir Heiðrún. „Maður heldur alltaf að fólk sem sviptir sig lífi geri það af einhverri einni rosalegri ástæðu. Signý er hins vegar raunsæismanneskja og hefur bara komist að þeirri niðurstöðu að þetta sé ekki þess virði.“

via Vísir – Afskiptaleysi getur verið banvænt.

Umdeild Íbsenverðlaun | REYKVÉLIN

Í ár fékk Peter Handke verðlaunin og út brutust mikil mótmæli. Það á sér vissar skýringar. Ekki þannig að fólk væri að andmæla því út af lélegum gæðum verka hans, þetta voru ekki dramatúrgísk eða fagurfræðileg andmæli heldur pólitísk. Leikskáldið hafði nefnilega á tíunda áratugnum varið aðgerðir Serba og sér í lagi Milosevic forseta þeirra. (Handke hélt ræðu í jarðarför hans þar sem hann varði aðgerðir forsetans). Hann afneitaði þjóðarmorðum í Kosovo og hefur síðan þá ekki verið í náðinni innan þýska málsvæðisins ef svo má að orði komast.

Snæbjörn Brynjarsson skrifar via Umdeild Íbsenverðlaun | REYKVÉLIN.

Vísir – Ljóð kvenna lesin og sungin á Bakkanum

„Ég er búin að fá flott ljóðskáld,“ segir Rannveig Anna Jónsdóttir, forstöðumaður Konubókastofu, um dagskrá ljóðahátíðar í Rauða húsinu á Eyrarbakka á morgun, sunnudag, klukkan 14.

Hún kynnir til sögunnar Elísabetu Kristínu Jökulsdóttur, Kristrúnu Guðmundsdóttur, Heiðrúnu Ólafsdóttur og Sigrúnu Haraldsdóttur sem allar lesa upp úr bókum sínum.

via Vísir – Ljóð kvenna lesin og sungin á Bakkanum.

Auglýst eftir efndum og endurnýjun á stefnumörkun í íslenskri kvikmyndamenningu | Klapptré

Af þessum tölum er fátt annað hægt að álykta annað en að vilji stjórnvalda standi ekki til þess að hér sé framleitt íslenskt kvikmyndaefni af því magni og gæðum sem þó var víðtæk sátt um árið 2006. Þrátt fyrir betri stöðu ríkissjóðs í dag og hærri framlög til mennta- og menningarmála en árið 2006, virðast stjórnvöld ekki hafa áhuga á að efna samninga frá 2006 og 2010. Íslensk kvikmyndagerð er sú eina í heiminum sem talar íslensku. Innlend kvikmyndagerð endurspeglar þá menningu og samfélag sem við lifum í og sú eina í heiminum sem endurspeglar íslenskt þjóðfélag. Og þetta er staðan, þrátt fyrir að fyrir löngu sé sýnt fram á að öll opinber fjárfesting í innlendri kvikmyndamenningu skili sér margfalt til baka í ríkiskassann í krónum talið.

via Auglýst eftir efndum og endurnýjun á stefnumörkun í íslenskri kvikmyndamenningu | Klapptré.

„Að þið skulið vera að þessu“

Hátíðardagskrá og sýning tileinkuð fjörutíu ára rithöfundarafmæli Guðrúnar Helgadóttur

Á þessu ári eru fjörutíu ár síðan hin sívinsæla barnabók, Jón Oddur og Jón Bjarni (1974), kom út. Guðrún Helgadóttir, skapari þeirra bræðra og fjölmargra annarra ógleymanlegra persóna, á því fertugsafmæli í ár – sem rithöfundur. Í tilefni af þessu efnir Borgarbókasafn Reykjavíkur, í samstarfi við Bókmenntaborg í Reykjavík og Forlagið, til hátíðardagskrár fyrir aðdáendur […]

1005 – Réttir höfundar afhjúpaðir

Annað kvöld verður afhjúpað hverjir sömdu og þýddu sögurnar í þáttasafninu Styttri ferðum, sem út kom í vor í tímaritröðinni 1005. Listi yfir höfunda og þýðendur var raunar birtur í heftinu, en vísvitandi í rangri röð, og efnt til samkeppni um það hvaða texti tilheyrði hvaða höfundi. Uppátækið var tilraun í viðtökufræðum og hefur meðal annars leitt til þess að lítt kunnum höfundum hefur verið hampað en heimsþekktir höfundar hirtir af ritdómurum – algjörlega út frá textunum.

via Vísir – Réttir höfundar afhjúpaðir.

Óttalaus nálgun á eldfima fjölskyldusögu – DV

Guðrún er mögnuð í krefjandi hlutverki sínu sem Herra. Sterkur texti bókarinnar hjálpar til hvað það varðar, enda mögnuðustu tilþrif verksins að finna í orðum Hallgríms úr bókinni sjálfri, sem er á stundum eins og hárbeittir rýtingar. Hápunkti frábærs leiks Guðrúnar er náð þegar hún fer með einhverja áhrifaríkustu einræðu sem hefur verið flutt hér á landi síðustu ár. Þar nýtur texti Hallgríms sín einnig vel og verður að ljóslifandi myndum í huga áhorfenda.

via Óttalaus nálgun á eldfima fjölskyldusögu – DV.

Brotalamir í menningargeiranum ? – Rúnar Kristjánsson

Flest sem maðurinn gerir og framkvæmir, er og hefur verið flokkað á ýmsa vegu. En sú flokkun sem virðist gilda í þeim efnum í dag hefði líklega ekki verið mikils metin fyrir 50 árum, hvað þá einni öld !

Til dæmis er mat manna á listum í dag komið svo óralangt frá því sem áður gilti, að fjölmargt er talið til listaverka nú á tímum sem hefði verið álitið einskisvirði hér áður og tilheyra rusli frekar en list. Og listfræðingarnir, sem eiga náttúrulega að vera fróðustu menn samtímans um það hvað sé list, eiga stóran þátt í því hvernig málum er komið. Þeir einir vilja fá að túlka og tjá listaverkin og eftir þeirra umfjöllun er oft svo, að enginn er meira klumsa en „listamaðurinn” sjálfur !

En fólk með allar hugsanlegar listagráður endasendist í dag um heiminn á styrkjum frá háskólum og menningarstofnunum, og er að eigin sögn og annarra að vinna að list sinni, þó árangurinn sé oft og tíðum mjög svo undarlegur að margra dómi.

Rithöfundurinn Rúnar Kristjánsson skrifar um opinbera styrki til lista via Brotalamir í menningargeiranum ? – undirborginni.blog.is.

Bókaútgáfa á Íslandi er sjómennska | Auður Jónsdóttir

Bókaútgáfa á Íslandi er slík ævintýramennska að hún hefur verið knúin áfram af adrenalínfíklum með rassvasabókhald. Hún er hálfgerð sjómennska. Tarnavinna og endalaus áhætta. Stundum eru átök á milli rithöfunda og forleggjara, svipað og útgerðarmanna og sjómanna, en samstaða þegar á þarf að halda. Sem er oft. Því ef það hefði ekki verið samstaða og þögult samkomulag um að láta ævintýrin gerast upp á von og óvon, þá væri íslensk menning ólíkt fátækari.

via Bókaútgáfa á Íslandi er sjómennska | Kjarninn.

All Change Festival – Hvað er leikrit?

„Hátíðin fer fram á laugardag og sunnudag í Tjarnarbíói í Reykjavík og samtímis í fjórum öðrum borgum. Þetta er samstarf leikhúslistamanna sem stýrt er frá London og er vonandi upphafið að einhverju skemmtilegu,“ segir Hallfríður Þóra Tryggvadóttir, stjórnandi All Change Festival í Reykjavík. Hinar borgirnar þar sem hátíðin fer fram eru London, Augsburg, New York og New Orleans.

via Vísir – Hvað er leikrit?.

Hvað gekk Hallgrími Helgasyni til? – mbl.is

Þeir sem taka þess­ari gagn­rýni á slík­um ærumeiðandi rugl­ingi milli raun­veru­leika og skáld­skap­ar sem ein­hverju snobbi hjá fjöl­skyldu sem heit­ir eft­ir­nafni fyrsta for­seta Íslands þá lang­ar mig að spyrja, hvernig myndi ykk­ur líða ef minn­ing móður ykk­ar, og fjöl­skyldu væri af­skræmd með þess­um hætti? Það kem­ur því ekk­ert við hvaða eft­ir­nafn fjöl­skyld­an ber eða hvaðan hún kem­ur. Jú, vissu­lega heiti ég Björns­son en það hef­ur lít­il áhrif haft á mitt líf nema að fólki finnst stund­um rugl­ings­legt að ég beri karl­manns­eft­ir­nafn. Ég gef skít í snobb og get með sanni sagt að fjöl­skylda okk­ar á ekki slíkt til, held­ur ein­kenn­ist hún af hóg­værð og húm­or. Er það nokkuð annað en meiðyrði sem á sér stað þegar maður er vænd­ur um að nauðga barn­ungri dótt­ur?

via Hvað gekk Hallgrími Helgasyni til? – mbl.is.

Hjörtur Marteinsson hlýtur bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 2014 | Reykjavíkurborg

Í umsögn dómnefndar segir: „Ljóðabókin Alzheimer-tilbrigðin eftir Hjört Marteinsson hefur sérkennilegt og seiðandi aðdráttarafl […] Tónn bókarinnar er gráglettinn, hlýr, mjúkur og allt að því angurvær og höfundur miðlar vel þeirri þokukenndu tilfinningu sem hlýtur að fylgja því að horfa upp á ástvin sinn hverfa inn í völundarhús hugans, án mikillar vonar um endurkomu. Þessi tilfinning kemur ekki síst fram í beinskeyttum upphafslínum bókarinnar þegar ljóðmælandi hefst handa við að lýsa sjúkdómnum og áhrifum hans, en þar er sleginn sá mjúki sorgartónn sem einkennir verðlaunabókina Alzheimer-tilbrigðin: „Það gerðist bara.“

via Hjörtur Marteinsson hlýtur bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 2014 | Reykjavíkurborg.

Sýning og bókamarkaður í Safnahús á laugardaginn – Skessuhorn – fréttir af Vesturlandi

Eins og fram hefur komið verður Sauðamessa haldin í Borgarnesi á laugardaginn.  Tveir dagskrárliðir verða í Safnahúsinu við Bjarnarbraut í tilefni dagsins: Kl. 13.00 verður opnuð ný sýning í anddyri bókasafns; minningarsýning um Bjarna Helgason á Laugalandi. Áhersla er lögð á feril hans sem áhugaljósmyndara. Sýningin er sett upp í samvinnu við fjölskyldu Bjarna sem verður viðstödd opnunina. Bókamarkaður verður kl. 13.00 – 17.00 í samvinnu við Sögufélag Borgarfjarðar. Almennar bækur sem og bækur Sögufélagsins verða á kindarlegu verði í tilefni dagsins. Veitingar og konfekt og allir velkomnir segir í tilkynningu frá starfsfólki Safnahússin.

via Sýning og bókamarkaður í Safnahús á laugardaginn – Skessuhorn – fréttir af Vesturlandi.

Myndlistarsjóður skreppur saman | Viðskiptablaðið

Hæstu styrkupphæðina hlaut myndlistarhátíðin Sequences eða 1,8 milljónir króna, til að halda sjöundu útgáfu hátíðarinnar á næsta ári. Samkvæmt fjárlögum ársins 2015 er gert ráð fyrir því að framlag til Myndlistarsjóðs verði 15 milljónir króna á næsta ári en það er 1/3 af framlagi ríkisins til sjóðsins árið 2013 þegar fyrst var úthlutað úr honum.

via Viðskiptablaðið – 21 milljón úr Myndlistarsjóði.

Soffía Bjarnadóttir – Lífið er dálítið yfirþyrmandi gjöf

Sögukonan Hildur er með annan fótinn í eigin ímyndunum þannig að það er kannski ekki skrítið að skynjun hennar á öðru fólki sé dálítið ævintýraleg. „Hún er svolítið flækt í tíma og rúmi og losnar ekki við fortíð sína, eða kannski má frekar segja að hún sé sífellt að endurskapa fortíðina,“ segir Soffía. „Það sækja á hana þessar tilvistarlegu spurningar um ábyrgð, val og tilgang. Hvað það er sem dregur líf okkar áfram og hvað við erum að gera hérna. Mér finnst þessi bók vera um lífsviljann og þessa gjöf sem lífið er. Stundum verður sú gjöf dálítið yfirþyrmandi og við mannfólkið eigum oft erfitt með að glíma við hana, jafnvel þótt vel gangi. Ég lít ekki á sorg og gleði sem andstæður, þær eru alltaf samferða.“

via Vísir – Lífið er dálítið yfirþyrmandi gjöf.

Gagnrýni | Art and Craft (RIFF 2014) | Klapptré

Art and Craft er ekkert gríðarlega stílhrein mynd, hún er skotin á frekar einfaldan og dæmigerðan hátt á lággæða stafrænar myndavélar. En um leið er hún samt ekki þessi hefðbundna “talandi hausa” heimildarmynd. Það er gott flæði í henni og hún inniheldur nokkur flott “montage” með symmetískrum skotum af hverfinu sem Landis býr í, þannig að sjónræna hliðin er ekki alveg hunsuð. Í viðtalsatriðunum eru viðföngin einnig yfirleitt látin vera að gera eitthvað á meðan það talar frekar en bara sitja kjurrt og tala sem gefur myndinni smá líf.

via Gagnrýni | Art and Craft (RIFF 2014) | Klapptré.

Lestrarhátíð í Bókmenntaborg

Lestrarhátíð í Bókmenntaborg er haldin í þriðja sinn í október 2014 og að þessu sinni er hún helguð smásögum, örsögum og ritlist undir heitinu Tími fyrir sögu. Hátíðin stendur  allan októbermánuð og er dagskráin fjölbreytt. Hún er birt hér með fyrirvara um breytingar.

Þeir sem standa fyrir viðburðum í október sem tengjast lestri og orðlist og vilja koma sínum viðburðum á dagskrá eru hvattir til að hafa samband með því að senda póst á bokmenntaborgin@reykjavik.is.

via Dagskrá 2014 – Bókmenntaborgin.

Bókmenntanámskeið – Jón Kalman – Í fótspor stráksins

Ritþing Jóns Kalmans Stefánssonar verður haldið í Gerðubergi laugardaginn 25. október kl. 14 (sjá nánar hér). Í tengslum við þingið er boðið upp á námskeið þar sem fjallað verður um þríleik Jóns Kalmans sem samanstendur af bókunum Himnaríki og helvíti, Harmi englanna og Hjarta mannsins.

Sögusvið þríleiksins er íslensk sjávarbyggð undir lok 19. aldar, á þeim árum þegar stórtækar breytingar voru að eiga sér stað bæði í atvinnuháttum og hugarheimi fólks. Meðal annars verður sjónum beint að sögusviði og samfélagsmynd verkanna, ólíkum aðstæðum alþýðu og borgarastéttar og stöðu kynjanna. Þá verður einnig hugað að öðrum verkum Jóns Kalmans m.a. í tengslum við aðalpersónu þríleiksins, strákinn, og tengslum hans við aðra stráka sem birtast í verkum höfundarins. Fleira kann að bera á góma svo sem frásagnarháttur þríleiksins, hlutverk sendibréfa og mátt orðanna.

via Gerðuberg – Bókmenntanámskeið – Jón Kalman – Í fótspor stráksins.

Ása Helga: Breytum leiknum | Klapptré

Ása Helga Hjörleifsdóttir kvikmyndagerðarkona hélt hátíðargusuna svokölluðu á opnunarkvöldi Alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Reykjavík síðastliðinn fimmtudag. Ræðuna flutti hún á ensku en þar fór hún yfir hlutskipti kvenna í kvikmyndaiðnaðinum.

Ása Helga hefur gert tvær stuttmyndir síðan hún útskrifaðist úr námi og hyggst gera sína fyrstu kvikmynd í fullri lengd á næsta ári sem hún byggir á bók Guðbergs Bergssonar, Svaninum.

Í gusu sinni kom Ása Helga inn á hlutskipti kvenna í hinum erfiða heimi kvikmyndalistarinnar. Meðal annars sagði hún frá því að það eru fjögur ár síðan kona leikstýrði kvikmyndin fyrir ríkisstyrk hér á landi.

via Ása Helga: Breytum leiknum | Klapptré.

Að lifa stríð : TMM

Ég hef verið stór aðdáandi Konunnar við 1000° síðan ég las hana nýútkomna en ekki bjóst ég við að hún myndi þola að fara á svið. Tíu tíma sjónvarpssería kannski eða að minnsta kosti ílöng tveggja kvölda leiksýning eins og Heimsljós og Sjálfstætt fólk en ekki eitt tveggja tíma leikrit. Þetta hefur þó verið gert. Höfundurinn sjálfur, Hallgrímur Helgason, semur leikgerðina með Símoni Birgissyni dramatúrg og Unu Þorleifsdóttur leikstjóra, og hún er sýnd í Kassanum.

Leikgerðin hoppar nokkuð á tindunum í bókinni og sumir verða svo í skötulíki að þeir sem ekki hafa lesið bókina vita ekkert hvað var að gerast þegar það er búið. En að því sögðu er full ástæða til að fagna þessu framtaki; leikgerðin skilar kjarna verksins, bæði í texta og túlkun.

Silja Aðalsteinsdóttir skrifar um Konuna við 1000° via Að lifa stríð : TMM.

Drengur með náragáfu : TMM

Ævintýri lífs hans sem hann er kominn upp á svið til að segja okkur er einmitt tengt þessum stígvélum. Öðru atviki tæpir hann á úr æsku sinni sem hefur ekki verið eins fallegt eða skemmtilegt en það hefur hann bælt svo rækilega að það hefur tekið ævintýralegum umbreytingum í minninu.

Annars hefur Kenneth Máni ekki margt að segja en hann er mjög upptekinn af mannlífinu yfirleitt og tungumálinu sem er honum uppspretta fjörugra barnslegra athugana. Hann er hugfanginn af því þegar sama orðið hefur margar merkingar, eins og til dæmis „á“ – af því það er auðvitað á, og á, og á – og á!

Silja Aðalsteinsdóttir skrifar um Kenneth Mána via Drengur með náragáfu : TMM.

Atli Sigurjónsson um Altman (RIFF 2014) | Klapptré

Altman er eiginlega meira eins og langur sjónvarpsþáttur sem er einfaldlega stórfelld upphafning heldur en almennileg heimildamynd. Það er skimmað yfir mikið af efni, mörgu sleppt og maðurinn einfaldlega sýndur sem hálfgerður dýrlingur sem hann var ekki alveg. Hann var, að því er virðist, alkóhólósti og eiturlyfjafíkill sem auk þess hélt oft framhjá konunni sinni. Einnig var hann talinn hafa verið með nokkuð mikilmennskubrjálæði (líkt og margir aðrir leikstjórar á hans stalli). Það vita allir að Altman var merkismaður og frábær leikstjóri og Altman er ekki að segja aðdáendum hans mjög mikið sem þeir ekki vita nú þegar. Það er aðeins minnst á drykkju hans og að hann hafi vanrækt börnin en jafnvel það fær léttvæga umfjöllun.

via Gagnrýni | Altman (RIFF 2014) | Klapptré.

„Þær hafa alveg komið beinar og óbeinar“ – DV

Hann viðurkennir einnig að fólk í valdastöðum hafi oft verið ósátt og jafnvel haft í hótunum við þá. „Þær hafa alveg komið beinar og óbeinar. Við höfum svo sem aldrei fengið það beint í andlitið. En við eigum eftir að segja þessa sögu frá orði til orðs innan tíðar. Með hvaða hætti, get ég ekki alveg upplýst hér og nú, en þetta er merkileg saga. Grínið er kannski skörpustu gleraugun – beittasti hnífurinn er háðið. Eins og mannkynssagan segir okkur. Við höfum fengið útrás í gegnum Spaugstofuna og reynt að koma víða við.“

via „Þær hafa alveg komið beinar og óbeinar“ – DV.

Framtíðin í barnabókmenntum | Málþing í Norræna húsinu

Fyrirlestrar og pallborðsumræður um stöðu og framtíðarhorfur barnabókarinnar á Norðurlöndunum, föstudaginn 10. október 2014. 10.00–12.00 Fyrirlestrar – með kaffihléi: Óttarr Proppé, alþingismaður og bóksali, setur þingið. Sigurður Ólafsson, umsjónarmaður skrifstofu Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs kynnir verðlaunin og hlutverk þeirra. Nina Goga (NO): Visual exploration of tales and themes in contemporary Norwegian picture books. Nina Goga […]

Plöturýni: Aphex Twin – Syro | straum.is

Aphex hristir fram úr erminni ofgnótt af melódíum á plötunni; laglínur og stef sem ómerkilegri listamenn hefðu byggt heilu lögin á, treður hann fimm eða sex fyrir í einu og sama laginu. Oft eru undir-, mið- og yfirmelódíur í gangi á sama tíma. Bassa-, milli- og hátíðnirnar dansa hringi í kringum hvor aðra og nótur og taktslög skoppa hvert af öðru. Tempóin á plötunni ná alveg frá hægu hip hop-i yfir í æsilegt drum ‘n’ bass og það eru alltaf flöktandi varíasjónir í taktinum og óvænt slög, nokkurs konar spunakennd djazz-nálgun á trommuforritun.

Davíð Roach Gunnarsson skrifar um Aphex Twin via Plöturýni: Aphex Twin – Syro | straum.is.

Listamannaþing Félags vestfirskra listamanna

Árlegt listamannaþing og aðalfundur Félags vestfirskra listamanna fer fram á veitingastaðnum Talisman á Suðureyri laugardaginn 11. október. Þema þingsins í ár er kynning og markaðssetning. „Þemað er sannarlega eitthvað sem listamenn þurfa flestir að huga mikið að í starfi sínu. Sérstakir gestir þingsins og fyrirlesarar eru Einar Bárðarson, forstöðumaður Höfuðborgarstofu, Friðrika Benónýsdóttir, blaðamaður á Fréttablaðinu, og Jón Páll Hreinsson, verkefnastjóri hjá Atvest. Öll hafa þau mikla þekkingu á efninu og verður fróðlegt að heyra hugmyndir þeirra og vangaveltur um þennan mikilvæga þátt sem kynning og markaðssetning er sannarlega orðin í listinni í dag,“ segir í tilkynningu.

via BB.is – Frétt.

Ókeypis ritsmiðja á Iceland Noir

Írski glæpasagnahöfundurinn William Ryan mun halda ókeypis ritsmiðju á Bókasafni Kópavogs fimmtudaginn 20. nóvember kl. 17:00 þar sem hann leiðir þátttakendur í gegnum ferlið við smíð glæpasögu. Ritsmiðjan er hluti af Iceland Noir glæpasagnahátíðinni.

Nauðsynlegt er að skrá sig með því að senda tölvupóst á bokasafn@kopavogur.is, því fjöldi þátttakenda er takmarkaður. Ritsmiðjan verður á ensku.

via Bókasafn Kópavogs – Ritsmiðja: William Ryan.

Aukning á kvenkyns leikstjórum á Íslandi – Kvikmyndir.is

Á þriðjudaginn næstkomandi verða sýndar sjö stuttmyndir á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Reykjavík, RIFF. Athygli vekur hversu mikil aukning er á kvenkyns leikstjórum, en konur eru með helminginn af þeim myndum sem sýndar eru í íslenska stuttmyndapakkanum á hátíðinni.

,,Kvenfyrirmyndir í kvikmyndagerð eru mikilvægar og þeim er að fjölga með velgengni kvenleikstjóranna okkar. WIFT á Íslandi hefur líka verið áberandi í að vekja athygli á konum í kvikmyndagerð og unnið að því að leiðrétta það misvægi sem er á milli kynjanna í kvikmyndabransanum.” segir Marzibil Sæmundardóttir sem sýnir stuttmyndina Einhyrningurinn á hátíðinni.

via Aukning á kvenkyns leikstjórum á Íslandi – Kvikmyndir.is.

Ólöf, Palme og skandinavískur kynusli – DV

Slíkar væntingar til Ólafar um að syngja á þessu undarlega örtungumáli byggja eflaust að hluta til á þeirri ímynd sem Íslendingar hafa mótað sér erlendis á undanförnum árum. Skrýtna og skapandi krúttálfaþjóðin á heitum hipsterískum reit í Norður-Atlantshafi. Ólöf segist finna sterkt fyrir slíkum væntingum.

„Ég hef farið í viðtöl þar sem fólk er með mjög ákveðnar hugmyndir um hvað Ísland sé og hvað það þýði að vera frá Íslandi. Þegar ég tala í einhverja aðra veru þá líður mér svolítið eins og ég sé að segja því að jólasveinninn sé ekki til, sem getur verið svolítið fyndið.

via Ólöf, Palme og skandinavískur kynusli – DV.

Híerónýmusardagur – alþjóðlegur dagur þýðenda 2014

Þýðendur um allan heim halda upp á 30. september, sem kenndur er við heilagan Híerónýmus, enda hefur dagurinn verið opinberlega viðurkenndur sem alþjóðlegur dagur þýðenda og túlka í tæpan aldarfjórðung þótt hugmyndin að þýðendadegi sé nokkuð eldri. Íslenskir þýðendur fagna líka og síðustu tíu ár hefur Bandalag þýðenda og túlka efnt til viðburða til að […]

Myndlist: Ladies, Beautiful Ladies – Hvað er þetta með ljóskurnar? | Pjatt.is

Á sýningunum fjallar hann um það hvernig ímyndir eru gerðar og mótaðar, dreifðar og endursagðar með því að nota málverk á striga, innsetningar og verk á pappír.

Á sýningunni má sjá málverk og vatnslitamyndir eða texta.

Í gryfjunni svokallaðri finnum við innsetningu þar sem sjá má skrásetningu Birgis á rannsókn sinni í Parísarborg.

Birgir hefur unnið með gamla bók sem inniheldur mannlýsingar á gleðikonum borgarinnar á síðustu öld.

via Myndlist: Ladies, Beautiful Ladies – Hvað er þetta með ljóskurnar? | Pjatt.is.

Stefán Máni: Ríkið fær meira en höfundurinn – Nútíminn

Tökum kiljur til dæmis. Af útsöluverði einnar kilju mun Ríkið taka 12% í virðisaukaskatt, það eru 360 krónur af 3.000. Höfundurinn fær 15% af heildsöluverði, 300 krónur af 2.000 – og greiðir síðan að sjálfsögðu tekjuskatt af þeim 300 krónum til ríkisins. En þó að við látum vera að taka tekjuskattinn inn í myndina þá blasir það við að af hverri seldri kilju fær ríkið mun meira en höfundurinn, sem fær langminnst af öllum — forleggjari og verslun fá mun meira.

via Stefán Máni: Ríkið fær meira en höfundurinn – Nútíminn.

Jónas Sen – Óþekkir sellóleikarar og mamma þeirra

Ég heyrði strengjakvartett skilgreindan á eftirfarandi hátt á sunnudagskvöldið: Fyrsta fiðlan er góði fiðluleikarinn, önnur fiðlan er lélegi fiðluleikarinn og víólan er fyrrverandi fiðluleikarinn. Sellóleikarinn er hins vegar maðurinn sem hatar fiðluleikarana.

Það var listrænn stjórnandi Rastrelli sellókvartettsins sem komst svo að orði á tónleikum í Listasafni Íslands á sunnudagskvöldið. Samkvæmt skilgreiningunni samanstóð kvartettinn þar af fjórum mönnum sem þola ekki fiðluleikara. Ástæðan fyrir hatrinu er sú að fiðluleikarar fá alltaf að spila safaríku melódíurnar á sinfóníutónleikum. Sellóin eru oftast í leiðinlega undirleikshlutverkinu. Það er óþolandi.

via Vísir – Óþekkir sellóleikarar og mamma þeirra.

Það hætti að næða um sálarholuna | viðtal við Orra Harðarson

Ertu introvert?

„Já. Það stóð mér stundum fyrir þrifum. Árið 2005 gerði ég t.d. sólóplötu sem tilnefnd var sem plata ársins á Íslensku tónlistarverðlaunum. Og þá hélt ég ekki einu sinni útgáfutónleika. Menn sem kjósa að sitja hjá með slíkum hætti, þrífast einfaldlega ekki á svo litlum markaði. Þá gildir einu hversu góða dóma maður fær. Kannski fór ég öðrum þræði að skrifa til að losna við þessa framkomupressu sem ævinlega fylgdi á tónlistarferlinum. Ég ímynda mér allavega að bókabransinn hafi svolítið meira umburðalyndi gagnvart intróvertum. Gyrðir Elíasson er allavega ekki mikið að þvælast á milli mötuneyta til að lesa upp úr verkum sínum, held ég.“

via Það hætti að næða um sálarholuna | Akureyri.net.

Okkar eigin: Tapio Koivukari

„Það má taka eina litla smásögu úr stærra verki eins og skáldsögu og gera heilt leikrit um þá persónu eða atburði. Og það verður einnig að fylgja öðrum reglum í leikhúsinu, hvort sem það er frásagnarlistin sem nýtur sín í gegnum sögumann eða að samtöl á milli persóna sem drífa framvinduna áfram,” segir Tapio Koivukari rithöfundur og skáld sem Ísfirðingum er góðu kunnur. Hann flytur opnunarerindi höfundasmiðjunnar Okkar eigin, í sal Listaskóla Rögnvaldar Ólafssonar í Edinborgarhúsinu kl. 21 á föstudagskvöld. Einnig verða smiðjurnar kynntar, en þær fara fram í Samkomuhúsinu á Flateyri um helgina og næstu helgar.

via BB.is – Frétt.

NÝ FRÉTT: “Salóme” besta heimildamyndin á Nordisk Panorama | Klapptré

Heimildamyndin Salóme eftir Yrsu Rocu Fannberg hlaut aðalverðlaun Nordisk Panorama hátíðarinnar nú rétt í þessu. Myndin hlaut einnig áhorfendaverðlaun Skjaldborgarhátíðarinnar sem fram fór í vor og verður sýnd í Bíó Paradís í nóvember.

Þetta er í fyrsta sinn sem íslensk kvikmynd sigrar í flokki heimildamynda á Nordisk Panorama.

via NÝ FRÉTT: “Salóme” besta heimildamyndin á Nordisk Panorama | Klapptré.

Verk eftir Svavar sögð fölsuð – mbl.is

Lög­regl­an í Kaup­manna­höfn lagði í morg­un hald á tvö mál­verk sem til stóð að selja á upp­boði hjá upp­boðshúsi Bru­un Rasmus­sen í dag. Grun­ur leik­ur á að verk­in séu fölsuð, en þau er sögð vera eft­ir lista­mann­inn Svavar Guðna­son (1909-1990)

Ólaf­ur Ingi Jóns­son mál­verka­for­vörður lagði fyrr í þess­um mánuði kæru til embætt­is sér­staks sak­sókn­ara vegna fyr­ir­hugaðs upp­boðs.

via Verk eftir Svavar sögð fölsuð – mbl.is.

Viðskiptablaðið – Bókaflækjur Illuga

Það kom lítið á óvart að Félag bókagerðarmanna skyldi mótmæla hækkun á virðisaukaskatti á bókum á dögunum. Þetta er hluti af einföldun ríkisstjórnarinnar á skattkerfinu og virðisaukaskattur fer úr 7 prósentum í 12. Bók sem kostar í dag 4.000 krónur með 7 prósenta virðisaukaskatti mun hækka í 4.187. Þetta er því hækkun upp á 187 krónur. Bókaútgáfan er vissulega mikilvæg og íslenskar bækur eru dýrar. Það skýrist þó að litlum hluta af virðisaukaskatti og verðhækkunin er í raun ekki veruleg. Það eru hlutir eins og lítill markaður og fjöldi útgefinna bóka sem skýra þetta háa verð á bókum. Því er hins vegar erfitt að breyta nema við náum að ættleiða alla þessa krúttlegu ferðamenn sem hingað koma.

via Viðskiptablaðið – Bókaflækjur Illuga.

Pétur Gunnarsson – Hláleg saga

Nú þegar enn einn ganginn upphefst orðræða um bókaskattinn er vert að rifja upp sögu sem helst má ekki gleymast. Það var árið 1990. Íslensk bókaútgáfa var að sligast undan 25% skatti á bækur, þeim hæsta á byggðu bóli. Þeir sem létu sig bókaútgáfu varða með rithöfunda í broddi fylkingar voru óþreytandi að vekja athygli á þeirri mótsögn að minnsti bókamarkaður veraldar skyldi búa við hæstu skattlagningu í heimi. Í miðri þeirri orrahríð barst liðstyrkur sem um munaði: Landsfundur Sjálfstæðisflokksins sendi frá sér ályktun þar sem skattinum var mótmælt og lagt til afnám hans (en fjármálaráðherra þá var Ólafur Ragnar Grímsson).

via Vísir – Hláleg saga.