Vísir – Plata sem mun græta steratröll

„Þegar maður er búinn að safna tilfinningunum sínum inn í einhvern tólf laga ramma fer maður í svona ástand sem er bæði þægilegt og viðbjóðslegt. Ég ætla bara að sleppa henni lausri og taka á því í sveitinni,“ segir Svavar, en hann flutti nýverið á frúargarð í Berufirði í Djúpavogshreppi fyrir austan.

Prins Póló í viðtali um nýja plötu via Vísir – Plata sem mun græta steratröll.

Vísir – Bók fyrir sjálfan mig tvítugan

„Til hvers vísar tvífarinn í titlinum? „Tvífarinn er kannski framandleikinn í manni sjálfum eða ýmislegt sem maður nær ekki sambandi við. Eða kannski er tvífarinn bara veruleikinn sjálfur. Mörg þessara ljóða fjalla um ákveðið sambandsleysi og einmana fólk og þar er ég kannski að miðla einhverri tilfinningu sem hefur hangið með mér lengi, en þetta er líka sýn mín á samfélagið og hvar við höfum verið stödd allmörg undanfarin ár.““

Anton Helgi Jónsson, ljóðskáld, í viðtali við Fréttablaðið via Vísir – Bók fyrir sjálfan mig tvítugan.

Halla Sólveig » Kjör barnabókahöfunda

„Það tíðkast að rithöfundur og myndhöfundur skipti með sér höfundalaunum, sem verða ósköp rýr. Þegar búið er að skipta laununum er ekki óalgengt að hvor höfundur fái innan við 200.000 krónur fyrir bókina. Og þá á eftir að borga skatta og gjöld. Að baki þessari krónutölu liggur oft gríðarleg vinna. Rithöfundurinn sekkur sér í heimildaöflun […]

Vísir – Heimskan nærir illskuna

„Þar sem frumsýning Þjóðleikhússins síðastliðið föstudagskvöld var óður til sannleikans er réttast að tala hreint út: Nú er öld heimskunnar. Lýðræðið hefur keyrt inn blindgötu; allar skoðanir eru metnar jafngildar burtséð frá því hvort þær byggja á þekkingu eða ekki. Afsprengi þessa er til að mynda sú einkennilega hugmynd, sem nú er viðtekin, að á löggjafarþingi eigi að sitja þverskurður þjóðarinnar en ekki þeir sem hæfastir eru til þess. Skynsemi má sín lítils. Kæfandi pólitískur rétttrúnaður er ríkjandi, gagnrýnin hugsun má víkja, tilgangurinn helgar meðalið og við slíkar aðstæður nær bókstafstrú og ofstæki máli. Þetta eru hættulegir tímar því heimskan nærir illskuna.“

Jakob Bjarnar Grétarsson skrifar um Eldraunina í Þjóðleikhúsinu via Vísir – Heimskan nærir illskuna.

Feyktu mér stormur – Karolina Fund

„Ljóðabókin Feyktu mér stormur hefur verið lengi í vinnslu enda var handritið að mestu leyti tilbúið árið 2011. Síðan þá hefur bókin tekið smávægilegum breytingum, og framförum, eins og vín sem hefur fengið að gerjast í góðan tíma. Nú er hún loksins tilbúin til útgáfu og inniheldur ljóð af ýmsum toga, bæði trúarlegum og veraldlegum, heimspekilegum og hugsunarlausum, en öll hafa þau eitthvað til brunns að bera.“

Hörður Steingrímsson fjármagnar nýja ljóðabók sína með hjálp Karolina Fund. Frekari upplýsingar: Feyktu mér stormur – Karolina Fund.

Þýðingarverðlaun fyrir færeyska skáldsögu | RÚV

„Ingunn Ásdísardóttir hlaut í [gær] íslensku þýðingarverðlaunin fyrir þýðingu sína á færeysku skáldsögunni Ó – sögur um djöfulskap eftir Carl Jóhan Jensen.

Í umsögn dómnefndar segir að orðfæri sögunnar sé snúið, kostulegt og ævintýralegt, skreytt tilbúnum orðum og orðleysum. Verkið sé endalaus sjóður af óvæntum uppákomum í tungumálinu.“

via Þýðingarverðlaun fyrir færeyska skáldsögu | RÚV.

Nokkur orð um Passíusálmana – Vísir

„Kristján fjallar í sömu bók ítarlega um hrynjandi og áherslur í Passíusálmunum. Það er athyglisvert að Hallgrímur lætur áherslu oft falla á orð sem bera litla merkingu, t.d. að hafa höfuðstaf á forsetningunni „í“ í þessum línum: „Út geng ég ætíð síðan / í trausti frelsarans“. Þetta er að öllum líkindum algjörlega meðvitað hjá skáldinu og veldur því að hljómfallið er aldrei vélrænt eða fyrirsegjanlegt heldur skapast við þetta sveigjanleg hrynjandi sem er í ætt við tónlist eins og Atli Ingólfsson hefur fjallað um á snjallan hátt í greininni „Að syngja á íslensku“ sem birtist í Skírni árið 1994.“

Margrét Eggertsdóttir skrifar um Passíusálmana via Vísir – Nokkur orð um Passíusálmana.

Brennu-Njálssaga besta íslenska verkið – mbl.is

„Úrslit í vali Kiljunnar á íslenskum öndvegisritum liggja nú fyrir en Brennu-Njálssaga vermir efsta sætið, en höfundur hennar er ókunnur. Í öðru og þriðja sæti eru skáldsögurnar Sjálfstætt fólk og Íslandsklukkan sem eru báðar eftir Halldór Laxness.

Ljóðmæli eftir Jónas Hallgrímsson er í fjórða sæti og Egilssaga í því fimmta, en talið er mögulegt að Snorri Sturluson sé höfundur verksins.“

via Brennu-Njálssaga besta íslenska verkið – mbl.is.

Eru skáldin virkilega „svokölluð“? « Eva Hauksdóttir

„Ég held nú reyndar að almenningur sé frekar jákvæður gagnvart hefðbundnum kveðskap og það séu einkum tveir mjög litlir hópar sem leggja lítið upp úr listrænu gildi bragformsins. Hugsanlega þrír hópar en ég held að sá þriðji sé ekki fordómafullur gagnvart forminu heldur bara bundinn af lögmálum markaðarins.

Mér virðast það einkum vera þeir, sem  hafa ekki þolinmæði til þess að læra þá undirstöðu sem þarf til að yrkja snoturlega, sem tala með fyrirlitningu um rím og stuðla. Hefðbundnir bragarhættir setja manni vitanlega ákveðnar skorður, rétt eins og tónlist lýtur ákveðnum reglum, en þeir sem líta á bragreglur sem vinnutæki, fremur en kúgandi kerfi, geta fundið öllu sem þeim liggur á hjarta hentugan bragarhátt.“

Eva Hauksdóttir skrifar um háttbundinn kveðskap: Eru skáldin virkilega „svokölluð“? « Eva Hauksdóttir.

Nýló vísað á dyr – mbl.is

„Í tilkynningu um sýninguna á verkum Hreins Friðfinnssonar í Nýlistasafninu kemur fram að hún verði sú síðasta í húsnæði safnsins við Skúlagötu. Nýkjörinn formaður stjórnar Nýló, Þorgerður Ólafsdóttir, staðfestir að svo sé. Eigendur húsnæðisins, fasteignafélag í eigu Arion banka, ákváðu að tvöfalda leiguverð í sumar, sem hún segir brjóta allmikið í bága við loforð sem gefin hafi verið.

„Þeir tilkynntu okkur að markmiðið væri svo að fá milljón á mánuði, sem er óeðlilega mikil hækkun í ljósi þess hversu gallað rýmið er enn þann dag í dag,“ segir Þorgerður. Leigan hefur nú verið um kr. 400.000.“

via Nýló vísað á dyr – mbl.is.

Smjörfjall sögunnar: Fimmta föstudagslag: Ungmennin frá Ipanema

„Lagið er af hinni rómuðu plötu Getz/Gilberto frá 1964, en þar unnu Stan Getz og João Gilberto með António Carlos Jobim og kynntu bossanova-tónlistina fyrir bandarískum hlustendum. Astrud Gilberto söng tvö undurfögur lög á plötunni, The Girl from Ipanema og Corcovado. Hún hafði ekki mikla reynslu sem söngkona og það var hálfgerð tilviljun að hún […]

Plötutíðindi – It’s Album Time æði

„Á plötunni er Terje er með annan fótinn á ströndinni en hinn út í geimi. En svo er hann líka með fullt af aukafótum sem hlaupa um dansgólf, kokteilboð, kvikmyndir, karnívöl og bara hvert sem þeim og Terje sýnist. Hann er tónlistarmaður með húmor fyrir sjálfum sér – en hann tekur húmorinn alvarlega og af barnslegri einlægni frekar en útjaskaðri kaldhæðni.“

-Davíð Roach Gunnarsson fjallar um It’s Album Time, hið stórgóða verk Norðmannsins Todd Terje, fyrir vefritið Straum.

12 Years a Slave: Loksins, loksins – DV

„Það er erfitt að segja eitthvað um bíómynd sem er jafn innilega MIKILVÆG og þessi. Bandaríkjamenn hafa verið duglegir að fjalla um það ljótasta í sögu annarra þjóða, svo sem helförina, og þeir hafa stundum fjallað um spillingu eigin stjórnmála og viðskipta og jafnvel gagnrýnt stríðsrekstur sinn. Því er það undarlegt að það sé ekki fyrr en nú að Hollywood gerir í fyrsta sinn stórmynd um þrælahaldið, sem er sjálf erfðasynd Bandaríkjanna, ef undan er skilin meðferðin á frumbyggjum landsins.“

Valur Gunnarsson skrifar um 12 Years a Slave á dv.is via Loksins, loksins – DV.

„Þessar breytingar hafa í raun ekkert með aldur að gera“ – DV

„Þessar breytingar hafa í raun ekkert með aldur að gera, heldur er þetta fyrst og fremst fagleg ákvörðun sem á auðvitað að skoðast á þeim forsendum. Ég er að taka þessa ákvörðun út frá ákveðinni endurstillingu á leikhópnum og er bara að skoða leikhópinn út frá þeim verkefnum sem liggja fyrir næstu árin,“ segir Kristín en Hanna María er á 66. aldursári og Theódór er á 65. aldursári og því stutt í eftirlaun hjá þeim og hefur Félag íslenskra leikara sent leikhússtjóra yfirlýsingu þar sem uppsögn þeirra tveggja er mótmælt.

via „Þessar breytingar hafa í raun ekkert með aldur að gera“ – DV.

„Ertu viss um að þú viljir gera þetta?“ | Sirkústjaldið

„Gagnrýni nýskáldsagnahöfundanna beindist hvað harðast að raunsæum skáldskap 19. aldarinnar og að því hvernig borgaralegt raunsæi Balzacs var orðið að einhvers konar mælistiku sem nútímaskáldsögur voru bornar saman við. Uppreisnin var ekki endilega gegn raunsæi sem bókmenntastefnu heldur gegn því hvernig birtingamyndir raunæis komu fram. 19. aldar raunsæið var einfaldlega ekki nógu raunsætt. Sarraute var til dæmis þekkt fyrir það að ljá skáldsögum sínum litlar sem engar persónulýsingar, í staðinn gaf hún persónunum orðið og leyfði þeim að koma smám saman í ljós, á sínum eigin forsendum.“

Andri M. Kristjánsson skrifar um Nathalie Sarraute í Sirkustjaldinu via „Ertu viss um að þú viljir gera þetta?“ | Sirkústjaldið.

Myndin af Ragnheiði | *knúz*

„Þannig hefur orðið til sú mynd sem við þekkjum af Ragnheiði. Hún er holdtekja skörungsskapar, hreinleika, ástríðu, hinnar þjáðu móður og hins upphafna píslarvotts. Við höfum fært hana inn í bókmenntaleg sniðmát (e. trope) og drögum út frá þeim ályktanir um upplifanir hennar. Með þessu kjósum við að draga fram þá þætti sem falla vel að þeirri sögu sem við viljum segja en veitum enga athygli þáttum sem draga úr vægi þessara sniðmáta. Meðal þess sem hefur verið sniðgengið er kynverund Ragnheiðar. Við leitum allra leiða til að varðveita „hreinleika“ hennar þrátt fyrir að hafa eignast barn í lausaleik. Sú Ragnheiður sem var, fyrir 350 árum, manneskja af holdi og blóði er horfin og eftir stendur mynd á stalli.“

Eva Dagbjört Óladóttir og Guðný Elísa Guðgeirsdóttir skrifa um óperuna Ragnheiði via
via Myndin af Ragnheiði | *knúz*.

Reykjavik Shorts & Docs Festival hefst í dag | Klapptré

„Reykjavík Shorts&Docs Festival hefst í dag fimmtudag og stendur til 9. apríl í Bíó Paradís og Stúdentakjallaranum. Þetta er í 12. sinn sem hátíðin er haldin. Að venju er áherslan á innlendar og erlendar stutt- og heimildamyndir, en auk kvikmyndasýninga verða fjöldi annarra viðburða á hátíðinni. Áhorfendur munu velja bestu íslensku stutt- eða heimildamyndamyndina og verða verðlaunin veitt sigurvegaranum á verðlaunaathöfn á lokakvöldi hátíðarinnar 9. apríl í Bíó Paradís.“

via Reykjavik Shorts & Docs Festival hefst í dag | Klapptré.

Ef ég sýni þér allt, segi ég þá satt? | RÚV

„Ég hugsa til kvenkyns poppstjarna nútímans, sem á góðum degi eru varla í nærbuxum. En Berger var kannski helst að hugsa um „the nude“ í samhengi evrópskra olíumálverka. Þar sitja fallegar postulínshvítar konur og horfa út úr málverkum, beint í augun á þér. Í slíkum verkum er nekt aðeins sjón fyrir þá sem eru klæddir. Eins og okkur, sem stöndum inni á safninu og virðum nakta líkamann fyrir okkur. En líkaminn horfir á móti, konan glottir út úr málverkinu.“

Valgerður Þóroddsdóttir pistlar í Víðsjá – via Ef ég sýni þér allt, segi ég þá satt? | RÚV.

Myndlistarsýning: Hlaðborð bókverka

„Föstudaginn 4. apríl milli 14:00-16:00 verður boðið upp á hlaðborð bókverka, en þar sýna nemendur á 1. og 2. ári verk sem urðu til á námskeiðinu Bókverkablót undir leiðsögn Jóhanns L. Torfasonar.

Hlaðborðið er hugsað sem forsýning á verkum sem sýnd verða á komandi Listahátíð í maí. Ellefu nemendur komu að gerð verkanna sem eru með fjölbreyttara móti og gefst gestum kostur á að skoða verkin með öllum skynfærum. Hlaðborðið verður í kennslustofunni „Finnlandi“ í Laugarnesi.“

via Myndlistarsýning: Hlaðborð bókverka.

Aronofsky horfist í augu við þversagnir syndaflóðsins | Klapptré

„En á meðan mér fannst svörin sem Aronofsky veitti í The Fountain full ódýr þá þorir hann hérna að horfast í augu við allar þær þversagnir sem þessi stutta saga er full af. Mögulega er Aronofsky heittrúaður, það væri þá bara en nein þversögnin að hann geri biblíu-bíómynd jafn fulla af efasemdum um almættið. Hann er ekkert að djóka – og það er það besta við myndina, hér er varla milligramm af kaldhæðni. En hann lítur heldur aldrei undan – og það krefst sannarlega hugrekkis.“

Ásgeir H. Ingólfsson skrifar um Nóa Aronofskys á Klapptré Gagnrýni | Noah | Klapptré.

Samlíðan í bókmenntum – Bókmenntaborgin

„Dagana 3. – 6. apríl 2014 verður haldin ráðstefna um samlíðan í bókmenntum á vegum Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands. Markmið ráðstefnunnar er að varpa ljósi á ýmsar hliðar samlíðunar út frá bókmenntum, tungumáli og samfélagi.

Fyrirlestrar eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir en þeir eru haldnir í samstarfi við Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO.

Aðalfyrirlesarar eru þau Dirk Geeraerts frá Leuven háskóla í Belgíu og Suzanne Keen frá Washington og Lee University í Bandaríkjunum. Erindin eru fjölbreytt og verður þetta áhugaverða efni skoðað frá ólíkum hliðum.“

via Samlíðan í bókmenntum – Bókmenntaborgin.

ÓLAFUR BYRJAÐUR AÐ YRKJA | Eiríkur Jónsson

„Ég yrki töluvert þessa dagana því ég er í góðu formi. Þetta er mest náttúrudýrkun“, segir borgarstjórinn fyrrverandi sem nú hefur meiri tíma en oft áður til að sinna hugðarefnum sínum. „Ég er búinn að loka læknastofunni minni og það má segja að ég sé sestur í helgan stein þó ég sinni enn gömlum sjúklingum mínum og öðru sem þarf.“

Ekki er ólíklegt að Ólafur sendi frá sér ljóðabók innan tíðar ef andinn heldur áfram að heimsækja hann.

via ÓLAFUR BYRJAÐUR AÐ YRKJA | Eiríkur Jónsson.

Illugi Gunnarsson á Tectonics | RÚV

„Einn af fjölmörgum listamönnum sem fram koma á Tectonics er Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra en hann heldur einleikstónleika í Kaldalóni Hörpu, fimmtudagskvöldið 10. apríl klukkan 22. Hugmyndin að því að fá Illuga til liðs við Tectonics kemur frá Ilan Volkov sjálfum en eins og kunnugt er er Illugi Gunnarsson liðtækur píanóleikari og vakti meðal annars athygli á afhendingu Tónlistarverðlaunanna fyrir nokkrum vikum þar sem hann lék eigið verk á flygilinn í Eldborgarsal Hörpu en sá flutningur varð kveikjan að einleikstónleikum hans á Tectonics.“

via Illugi Gunnarsson á Tectonics | RÚV.

Uppfært: APRÍLGABB!

Svar við bréfi Völu | REYKVÉLIN

„Sjálfsgagnrýni er ekki sjálfsniðurrif. Sjálfsgagnrýni er ekki sama og vanmáttarkennd, sem leiðir gjarnan til sjálfsniðurrifs. Sjálfsgagnrýni er að vera sífellt á vaktinni, en ekki rífa sjálfa sig niður. Skortur á sjálfsgagnrýni leiðir hins vegar auðveldlega til títtnefnds heimóttarskapar.“

Þórhildur Þorleifsdóttir svarar opnu bréfi Völu Höskuldsdóttur á Reykvélinni via Svar við bréfi Völu | REYKVÉLIN.

Vísir – Noah er “viðbjóður“ að mati guðfræðings

„Þetta er hræðileg mynd, ekki sjá hana, ekki eyða hálfri mínútu af æfi ykkar í að sitja undir þessum viðbjóði. Þetta er bara leiðinlegt, aðallega. Þetta er illa gert, þetta er vanhugsað, þetta er banalt, þetta er lapþunnt og heimskulegt. Að vissu leyti má segja að þetta útskýri hvernig komið er fyrir mannkyninu í dag vegna þess að synir Nóa eru slíkir aumingjar og mannleysur að ef þetta eru forfeður mannkyns; Guð hjálpi okkur.“

Davíð Þór Jónsson, guðfræðingur, ræðir kvikmyndina Nóa í Reykjavík síðdegis, ásamt Sverri Agnarssyni, formanni félags múslima.

via Vísir – Noah er "viðbjóður“ að mati guðfræðings.

Englar alheimsins: Afmeyjun leikhússins : Herðubreið

„Revíuleikþátturinn eftir hlé, þar sem forseti Íslands var færður úr sæti á fremsta bekk og upp á svið, sýndi vel að unga kynslóðin þorir það sem áður þótti tabú, að sveifla sér niður úr hámenningarturninum og dýfa nefinu niður í lágmenningarforina í listrænu teygjuhoppi. Þorir jafnvel að láta sig gossa ofan úr þýskum hámenningarturni, eigandi það á hættu að hálsbrotna. Extra bónus fyrir okkur sem heima sátum var svo að fá að sjá hinn raunverulega forseta fylgjast með gríninu um sjálfan sig. Ég hjó eftir því að ÓRG klappaði aldrei fyrir tilsvörum sínum á sviðinu nema einu sinni, þegar leikni forsetinn sagðist aldrei ALDREI ætla að hætta að vera forseti og það væri sko alls enginn brandari.“

Hallgrímur Helgason skrifar um sjónvarpsútsendingu á leikgerð Engla alheimsins í Herðubreið – via Englar alheimsins: Afmeyjun leikhússins : Herðubreið.

Úir og grúir af akkerisfrökkum | OK EDEN

„Í takt við önnur samtíningsverk, gullkorn úr bókum Laxness og það allt, þá mætti taka saman eigulegt kver, jafnvel myndskreytt, með skrautlegustu mannvígum Íslendingasagnanna. Gullmorð úr verkum víkinga … eitthvað í þá veruna. Úrvalsmorð bókaþjóðarbóka. Ég var að lesa eina stutta, Hallfreðar sögu vandræðaskálds.“

Haukur Már Helgason skrifar um þjóhnappamorð og fleira.

Úir og grúir af akkerisfrökkum | OK EDEN.

Rifist um vísu (og sitthvað fleira) á Facebook

„Ef til vill er of tilgerðarlegt og menntamannslegt að kalla Facebook Snjáldru, en ég kann þó ekki betra nafn. Ég skrifa frekar sjaldan athugasemdir, en fróðlegt er að sjá viðbrögðin. Til dæmis skrifaði Guðmundur Andri Thorsson eftirfarandi hugleiðingu í gær, miðvikudaginn 26. mars: Skáldastyttur bæjarins í Kiljunni – skemmtilegt sjónvarp. Steinn orti raunar um Tómas […]

Ferjan í Borgarleikhúsinu | Kvennablaðið

„Í skýringum á framvindu leikritsins birtist þessi setning mjög víða „Óvænt atburðarás er í uppsiglingu“ Ég náttúrlega veit ekki á hvaða skala blondínan í mér er en ég varð ekki vör við óvænta atburðarás, hún bara fór framhjá mér. Ég biðst fyrirfram afsökunar á því ef það er persónulegur sauðagangur minn sem veldur. Jæja, áfram, ég til að mynda skil ekki karakterana í verkinu, eða ég næ engri dýpt í þá. Konurnar eru allar taugabilaðar hver á sinn hátt, ólíkar innbyrðis og  nota því mismunandi aðferðir við að leyna sinni veiklun og þar af leiðandi eru það mismunandi aðstæður sem keyra innra myrkur þeirra upp á yfirborðið en allt gerist það um borð í Ferjunni.“

Helga Völundardóttir skrifar um Ferjuna Ferjan í Borgarleikhúsinu | Kvennablaðið.

Hendir kynjuðum barnabókum í ruslið – DV

„Menningarritstjóri The Indepentent on Sunday, Katy Guest, hefur skrifað grein beint að bókaútgefendum þar sem hún lýsir yfir nýrri stefnu blaðsins er við kemur barnabókmenntum. Í blaðinu mun ekki verða fjallað um bækur sem eru markaðssettar sérstaklega fyrir stráka eða stelpur. „Ég get haft áhrif, svo að ég lofa að frá og með þessum degi mun dagblaðið og vefsíða þess ekki fjalla um nokkra bók sem er beint eingöngu að strákum eða eingöngu að stelpum,“ segir Katy.“

via Hendir kynjuðum barnabókum í ruslið – DV.

Vísir – Ávarp á alþjóðaleiklistardaginn 2014

„Leikhúsið er líka svartur kassi. Þar sem orð er gert af anda og andi af lífi. Það skrásetur og flytur frásagnir. Það leitar uppi manneskjuna í þeim ásetningi að verða vitni að gleði hennar, sorg og sigrum. Að fundi hennar við sjálfa sig. Það er hlutverk leikhússins. Hvorki meira né minna. Að halda áfram tilrauninni um manneskjuna.“

Jón Atli Jónasson skrifar í Fréttablaðið Vísir – Ávarp á alþjóðaleiklistardaginn 2014.

Geimverur éta einræðisherra: The State of the Art eftir Iain M. Banks | Lemúrinn

„Álit þeirra er þó ekki aðeins nei­kvætt, þær drekka í sig menn­ingu jarð­ar­búa. Geimskipið sjálft fær æði fyrir ýmsum tón­list­ar­mönnum frá Bach til Stockhausen, og sendir in ósk til BBC World Service um að spila Space Oddity eftir Bowie sem er ekki sinnt, hinu nær-​​almáttuga geim­skipi til mik­illar gleði. Sögumaðurinn ráfar fyrir slysni í gegnum minn­is­merki í París um gyð­inga sem fluttir voru í útrým­ing­ar­búðir af nas­istum og er djúpt snortin af þversagna­kenndu eðli mann­skepn­unar, get­unni til að fremja svo hrylli­leg ódæð­isverk og til að sjá eftir þeim þeirra með svo áhrifa­miklum hætti.“

Guttormur Þorsteinsson skrifar um State of the Art eftir Iain M. Banks á Lemúrinn Geimverur éta einræðisherra: The State of the Art eftir Iain M. Banks | Lemúrinn.

Hvar er umræðan? | RÚV

„Við viljum meira af umfjöllun sem setur tónlistina í samhengi, faglega umræðu um það sem á sér stað í tónlist, hvað hún stendur fyrir, hvernig er hún flutt, til hvers, fyrir hvern og hvers vegna: Ég kalla eftir tónlistarfræðingum því þeir eru fáir hér á landi, tónlistarsaga Íslands á 20. öld bíður þess að vera betur skrásett og rannsökuð og samtímann vantar orðræðu um tónlist. Það er nánast hægt að telja á fingrum annarrar handar þau opinberu rit sem fjalla um tónlist á Íslandi á 20. öld og hvað þá þeirri 21.“

Berglind María Tómasdóttir skrifar og flytur pistil um tónlistarrýni í Víðsjá Hvar er umræðan? | RÚV.

Ern eftir aldri sýnd í Bæjarbíói í kvöld og á laugardag

„Í tilefni hátíðarhaldanna hafði Ríkissjónvarpið ákveðið að styrkja nokkra kvikmyndagerðarmenn til að gera myndir í tengslum við hátíðina — myndir sem síðar yrðu sýndar á RÚV. Einn þeirra var hinn 36 ára Magnús Jónsson, en tíu árum áður útskrifaðist hann sem einn af fyrstu vel skóluðu íslensku kvikmyndaleikstjórunum eftir að hafa stúderað í Moskvu undir handleiðslu Roman Karmen. En mynd Magnúsar, Ern eftir aldri, var aldrei sýnd í Ríkissjónvarpinu. RÚV „þorði ekki að sýna hana,“ sagði rithöfundurinn Árni Bergmann mörgum árum síðar.

[…]

Ern eftir aldri verður sýnd í Bæjarbíói, Hafnarfirði, þriðjudaginn 25. mars 2014, klukkan 20:00 og aftur laugardaginn 29. mars klukkan 16:00. Einnig verður sýnd önnur mynd Magnúsar, 240 fiskar fyrir kú, auk viðtals við hann og stuttra mynda sem Kvikmyndasafnið kallar heimsóknarmyndir til Sovétríkjanna.“

Lesið um Ern eftir aldri á Wheel of Work Ern eftir aldri — lætur engan fara að gubba | WHEEL OF WORK.

Ísland er „norrænt bananalýðveldi“ – DV

„Við þjáumst af menningarlegri einangrunarhyggju og hræðumst það sem er öðruvísi og minnum á Úkraínu, þjóðin er full af litlum útgáfum af Vladimír Pútín sem hafa það eitt að markmiði að halda Íslandi utan við Evrópusambandið,“ segir rithöfundurinn Steinar Bragi í viðtali við sænska dagblaðið Dagens Nyheter. Viðtalið var birt í blaðinu á föstudaginn.

via Ísland er „norrænt bananalýðveldi“ – DV.

Áttu eld? : TMM

„Það vantar svo sem ekki að fólk sé stolt af menningararfinum á góðri stund. Í gróðærinu þótti fínt að vísa í fornritin: Umfjöllun um starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar var tengd sagnaritun og fornum ættfræðiáhuga og ákjósanlegt fyrir Kára Stefánsson forstjóra að láta taka sjónvarpsviðtöl við sig með bókakost Árnastofnunar í baksýn. Annað líftæknifyrirtæki kallaði sig Urður Verðandi Skuld og Íslandsbanki skipti um nafn og vildi heita Glitnir eins og bústaður Forseta er sagður heita í Snorra-Eddu. Tilvitnanir í Hávamál skreyttu risastóra borða utan á hóteli í Pósthússtræti og í höfuðstöðvum FL-group í Lundúnum mættu viðskiptavinir einnig spakmælum úr hinu forna kvæði (og nei, „Margur verður af aurum api“ var ekki þar á meðal). Það er ekki laust við að manni finnist að fornritin hafi þarna verið orðin einn allsherjar fylgihlutur – dýrindis accessoire, það sem kallað er „bling“.“

TMM-vefurinn birtir mikinn bálk úr væntanlegu Tímariti – Svanhildur Óskarsdóttir skrifar um menningararfinn. Áttu eld? : TMM.

Sjá þig, stelpa! | Sirkústjaldið

„Málverk sögunnar eru uppfull af fáklæddum konum, sérstaklega á endurreisnartímabilinu. Konan birtist þannig sem viðfang, en ekki gerandi. Þær eru gyðjur og músur, undirgefnar karlmönnunum. Þeir eru listamennirnir.

Þetta á sér beina hliðstæðu í samtíma okkar þar sem konur eru hlutgerðar í auglýsingum. Líkami konunnar er söluvara. Það hlýtur að hafa áhrif á hvernig konur líta á sig sjálfar, enda hafa femínistar barist harðlega gegn auglýsingum þar sem vegið er að sæmd kvenna.“

Halla Þórlaug Óskarsdóttir skrifar um karllæga augnaráðið á nýjan vef, Sirkustjaldið. Sjá þig, stelpa! | Sirkústjaldið.

Á sjó : TMM

„Kristínarnar tvær hafa ekki dulið í viðtölum og umfjöllun um verkið að það sé táknrænt enda blasir það við. Vinsælt er að tákna lífið með sjóferð og þjóðarskútan er algengt tákn um íslenskt samfélag. Nöfn farþeganna vísa líka ótvírætt í íslenskt landslag og náttúru. Þessi þjóðarskúta er ekkert glæsiskip og það fer ekki sérlega vel um farþegana um borð. Konurnar húka í kojum og bedda í gluggalausri kompu neðst í skipinu, karlarnir í svefnsal ofar, væntanlega töluvert skárri vistarveru, auk þess sem þeir hafa barinn til ráðstöfunar þar sem þeir syngja og spila og skemmta sér meðan konurnar þrefa og þrasa undir þiljum.“

Silja Aðalsteinsdóttir skrifar um leikritið Ferjuna eftir Kristínu Marju Baldursdóttur, í uppsetningu Kristínar Eysteinsdóttur via Á sjó : TMM.

Spennustöðin: Hermann Stefánsson – bergthoraga.blog.is

„Ég hafði áhyggjur af því hvernig sögumanni myndi vegna í þessari för, var hann ekki að taka of mikla áhættu? Skyldi hann sleppa heill frá þessu? Það var þó ekki spennan sem slík sem bar bókina uppi, heldur textinn, málið og hugsunin. Höfundinum tekst nefnilega til að fá lesandann (í þessu tilviki mig) til að fylgja sér á þessu erfiða ferðalagi inn á við, að leita að sjálfum sér, nema ég er að leita að mér. Þetta var eins og að lesa ljóð. Ljóð tala oft fyrir þig. Sumar bækur tala ekki bara fyrir mann og segja hvað maður er að hugsa, þær eru eins og tónlist sem segir þér hvernig þér líður. Mikið er gott að eiga þessa listamenn að.“ 

Bergþóra Gísladóttir skrifar um Spennustöðina eftir Hermann Stefánsson á Moggabloggið Spennustöðin: Hermann Stefánsson – bergthoraga.blog.is.

Vísir – Sköpum betri umgjörð um myndlist

„Á sama tíma og söfnin laða til sín gesti sem borga aðgangseyri til að upplifa, skynja og njóta fá myndlistarmenn sem eru að sýna í söfnunum enn ekki greidda þóknun fyrir vinnu sína. Af eigin sýningarreynslu í opinberu safni get ég fullyrt að það var niðurlægjandi að vera fyrst á svæðið og seinust út en sú eina sem var ekki á launum.“

Jóna Hlíf Halldórsdóttir skrifar um fjármál myndlistarmanna via Vísir – Sköpum betri umgjörð um myndlist.

Opið bréf til Þórhildar Þorleifsdóttur: Í framhaldi af framlagi þínu til málþingsins um hlutverk stofnanaleikhúsa sem haldið var í Tjarnarbíói á dögunum. | REYKVÉLIN

„Það krefst hugrekkis að vera skapandi í hugsun, og það sem vökvar hugrekkið er trú. Trú á eigin verðleika, trú á að geta breytt heiminum, trú á að geta staðið upp þegar kona dettur, trú á að vera verðugt verkfæri listarinnar sem getur gert sitt besta, þreifað sig áfram, lært, gert betur næst. Að hafa eitthvað að gefa hér og nú, ekki síður en eftir MA eða MBA gráðuna. Sú sjálfsgagnrýni sem þú varst að kalla eftir á málþinginu þykir mér meira í ætt við sjálfsniðurrif, svipu eða þyrnikórónu, og er að mínu mati eitur í beinum alls sem lifir og sérstaklega fyrir þá sem eru svo hugrakkir að ætla sér að þjóna því krefjandi verkefni að helga líf sitt listinni.“

Vala Höskuldsdóttir skrifar opið bréf til Þórhildar Þorleifsdóttur á Reykvélinni. Opið bréf til Þórhildar Þorleifsdóttur: Í framhaldi af framlagi þínu til málþingsins um hlutverk stofnanaleikhúsa sem haldið var í Tjarnarbíói á dögunum. | REYKVÉLIN.

Bókahátíð færð yfir á laugardag

„Vetur konungur verður ekki sigraður í dag og því hefur sú ákvörðun verið tekin að færa Bókahátíðina á Flateyri yfir á morgundaginn, laugardaginn 22. mars og verður því þétt og vegleg dagskrá frá miðjum degi og fram eftir nóttu. En engin dagskrá í dag, föstudaginn. Hér fyrir neðan má sjá hvernig breytt dagskrá verður. Vonandi sjáum við sem flesta á morgun, enda hefur Vetur konungur lofað að láta lítið fyrir sér fara þá.“

via Bókahátíð færð yfir á laugardag –.

„Heyrið mig öll, þetta eru skemmdarverk!“ – DV

„Það kom svo í hlut Retro Stefson að ljúka tónleikunum og átti það vel við því hljómsveitin er örugglega eitt skemmtilegasta partíband landsins enda var það fyrsta verk Unnsteins Manuels að fá salinn til að standa á fætur og dansa með. Þegar talið var í lokalagið þustu svo allir aðstandendur á svið og djömmuðu með. Lokalagið var vel valið líka, Beastie Boys-slagarinn Sabotage. „Listen all of y’all it’s a sabotage!“ – „Heyrið mig öll, þetta er skemmdarverk!“.“

Fjallað um Stopp, gætum garðsins í DV „Heyrið mig öll, þetta eru skemmdarverk!“ – DV.

Druslubækur og doðrantar: Óvæntur skipsskaði við upphaf magnaðrar bókar

„Línuleg frásögn leynist þó undir óreiðunni og við fikrum okkur smám saman nær nútímanum en slíkt er aukaatriði – eða kannski er réttara að segja að í þessari yndislegu frásögn séu aukaatriðin alveg jafn mikilvæg og aðalatriðin. Innkaupalisti langalangafa Erlu gefur tilefni til vangavelta og ótrúlegustu pappírar, ljósmyndir, dómsskjöl og bréf verða innblástur að ferðalagi sem hrífur lesandann með sér. Þetta er einn helsti styrkur og sjarmi þessarar bókar – Þórunn hefur slíkt lag á textanum að maður fylgir henni hvert á land sem er.“

Maríanna Clara Lúthersdóttir skrifar um Stúlku með maga eftir Þórunni Erlu- Valdimarsdóttur á Druslubókavefinn Druslubækur og doðrantar: Óvæntur skipsskaði við upphaf magnaðrar bókar.

Vísir – Ljóðlympíuleikar 2014

„Við vonumst til að þetta verði alvöruljóðaslamm með aktífum áhorfendum og vonandi verða mikil læti og mikið stuð,“ segir Megan Auður Grímsdóttir, einn skipuleggjanda Ljóðlympíuleika sem haldnir verða á Loft Hosteli í kvöld. Þar munu skáldsystur og skáldbræður Reykjavíkur keppa til sigurs og aðeins eitt þeirra standa uppi sem sigurvegari.

via Vísir – Ljóðlympíuleikar 2014.

Vísir – Er alls enginn perri

„Ég vil mynda náttúrulega fegurð íslenskra kvenna og einnig landslag sem hentar viðkomandi kvenmanni. Hvert verk er í raun tvær myndir, ein af konu og hin af landslagi sem minnir mig á hverja konu fyrir sig. Ég hef ekki náð að klára verkið sökum veðurs og ætla að koma aftur í maí og klára verkefnið.“

Ljósmyndarinn Mirko Kraeft í viðtali í Fréttablaðinu Vísir – Er alls enginn perri.