Á sjó : TMM

„Kristínarnar tvær hafa ekki dulið í viðtölum og umfjöllun um verkið að það sé táknrænt enda blasir það við. Vinsælt er að tákna lífið með sjóferð og þjóðarskútan er algengt tákn um íslenskt samfélag. Nöfn farþeganna vísa líka ótvírætt í íslenskt landslag og náttúru. Þessi þjóðarskúta er ekkert glæsiskip og það fer ekki sérlega vel um farþegana um borð. Konurnar húka í kojum og bedda í gluggalausri kompu neðst í skipinu, karlarnir í svefnsal ofar, væntanlega töluvert skárri vistarveru, auk þess sem þeir hafa barinn til ráðstöfunar þar sem þeir syngja og spila og skemmta sér meðan konurnar þrefa og þrasa undir þiljum.“

Silja Aðalsteinsdóttir skrifar um leikritið Ferjuna eftir Kristínu Marju Baldursdóttur, í uppsetningu Kristínar Eysteinsdóttur via Á sjó : TMM.

Spennustöðin: Hermann Stefánsson – bergthoraga.blog.is

„Ég hafði áhyggjur af því hvernig sögumanni myndi vegna í þessari för, var hann ekki að taka of mikla áhættu? Skyldi hann sleppa heill frá þessu? Það var þó ekki spennan sem slík sem bar bókina uppi, heldur textinn, málið og hugsunin. Höfundinum tekst nefnilega til að fá lesandann (í þessu tilviki mig) til að fylgja sér á þessu erfiða ferðalagi inn á við, að leita að sjálfum sér, nema ég er að leita að mér. Þetta var eins og að lesa ljóð. Ljóð tala oft fyrir þig. Sumar bækur tala ekki bara fyrir mann og segja hvað maður er að hugsa, þær eru eins og tónlist sem segir þér hvernig þér líður. Mikið er gott að eiga þessa listamenn að.“ 

Bergþóra Gísladóttir skrifar um Spennustöðina eftir Hermann Stefánsson á Moggabloggið Spennustöðin: Hermann Stefánsson – bergthoraga.blog.is.

Vísir – Sköpum betri umgjörð um myndlist

„Á sama tíma og söfnin laða til sín gesti sem borga aðgangseyri til að upplifa, skynja og njóta fá myndlistarmenn sem eru að sýna í söfnunum enn ekki greidda þóknun fyrir vinnu sína. Af eigin sýningarreynslu í opinberu safni get ég fullyrt að það var niðurlægjandi að vera fyrst á svæðið og seinust út en sú eina sem var ekki á launum.“

Jóna Hlíf Halldórsdóttir skrifar um fjármál myndlistarmanna via Vísir – Sköpum betri umgjörð um myndlist.

Opið bréf til Þórhildar Þorleifsdóttur: Í framhaldi af framlagi þínu til málþingsins um hlutverk stofnanaleikhúsa sem haldið var í Tjarnarbíói á dögunum. | REYKVÉLIN

„Það krefst hugrekkis að vera skapandi í hugsun, og það sem vökvar hugrekkið er trú. Trú á eigin verðleika, trú á að geta breytt heiminum, trú á að geta staðið upp þegar kona dettur, trú á að vera verðugt verkfæri listarinnar sem getur gert sitt besta, þreifað sig áfram, lært, gert betur næst. Að hafa eitthvað að gefa hér og nú, ekki síður en eftir MA eða MBA gráðuna. Sú sjálfsgagnrýni sem þú varst að kalla eftir á málþinginu þykir mér meira í ætt við sjálfsniðurrif, svipu eða þyrnikórónu, og er að mínu mati eitur í beinum alls sem lifir og sérstaklega fyrir þá sem eru svo hugrakkir að ætla sér að þjóna því krefjandi verkefni að helga líf sitt listinni.“

Vala Höskuldsdóttir skrifar opið bréf til Þórhildar Þorleifsdóttur á Reykvélinni. Opið bréf til Þórhildar Þorleifsdóttur: Í framhaldi af framlagi þínu til málþingsins um hlutverk stofnanaleikhúsa sem haldið var í Tjarnarbíói á dögunum. | REYKVÉLIN.

Bókahátíð færð yfir á laugardag

„Vetur konungur verður ekki sigraður í dag og því hefur sú ákvörðun verið tekin að færa Bókahátíðina á Flateyri yfir á morgundaginn, laugardaginn 22. mars og verður því þétt og vegleg dagskrá frá miðjum degi og fram eftir nóttu. En engin dagskrá í dag, föstudaginn. Hér fyrir neðan má sjá hvernig breytt dagskrá verður. Vonandi sjáum við sem flesta á morgun, enda hefur Vetur konungur lofað að láta lítið fyrir sér fara þá.“

via Bókahátíð færð yfir á laugardag –.

„Heyrið mig öll, þetta eru skemmdarverk!“ – DV

„Það kom svo í hlut Retro Stefson að ljúka tónleikunum og átti það vel við því hljómsveitin er örugglega eitt skemmtilegasta partíband landsins enda var það fyrsta verk Unnsteins Manuels að fá salinn til að standa á fætur og dansa með. Þegar talið var í lokalagið þustu svo allir aðstandendur á svið og djömmuðu með. Lokalagið var vel valið líka, Beastie Boys-slagarinn Sabotage. „Listen all of y’all it’s a sabotage!“ – „Heyrið mig öll, þetta er skemmdarverk!“.“

Fjallað um Stopp, gætum garðsins í DV „Heyrið mig öll, þetta eru skemmdarverk!“ – DV.

Druslubækur og doðrantar: Óvæntur skipsskaði við upphaf magnaðrar bókar

„Línuleg frásögn leynist þó undir óreiðunni og við fikrum okkur smám saman nær nútímanum en slíkt er aukaatriði – eða kannski er réttara að segja að í þessari yndislegu frásögn séu aukaatriðin alveg jafn mikilvæg og aðalatriðin. Innkaupalisti langalangafa Erlu gefur tilefni til vangavelta og ótrúlegustu pappírar, ljósmyndir, dómsskjöl og bréf verða innblástur að ferðalagi sem hrífur lesandann með sér. Þetta er einn helsti styrkur og sjarmi þessarar bókar – Þórunn hefur slíkt lag á textanum að maður fylgir henni hvert á land sem er.“

Maríanna Clara Lúthersdóttir skrifar um Stúlku með maga eftir Þórunni Erlu- Valdimarsdóttur á Druslubókavefinn Druslubækur og doðrantar: Óvæntur skipsskaði við upphaf magnaðrar bókar.

Vísir – Ljóðlympíuleikar 2014

„Við vonumst til að þetta verði alvöruljóðaslamm með aktífum áhorfendum og vonandi verða mikil læti og mikið stuð,“ segir Megan Auður Grímsdóttir, einn skipuleggjanda Ljóðlympíuleika sem haldnir verða á Loft Hosteli í kvöld. Þar munu skáldsystur og skáldbræður Reykjavíkur keppa til sigurs og aðeins eitt þeirra standa uppi sem sigurvegari.

via Vísir – Ljóðlympíuleikar 2014.

Vísir – Er alls enginn perri

„Ég vil mynda náttúrulega fegurð íslenskra kvenna og einnig landslag sem hentar viðkomandi kvenmanni. Hvert verk er í raun tvær myndir, ein af konu og hin af landslagi sem minnir mig á hverja konu fyrir sig. Ég hef ekki náð að klára verkið sökum veðurs og ætla að koma aftur í maí og klára verkefnið.“

Ljósmyndarinn Mirko Kraeft í viðtali í Fréttablaðinu Vísir – Er alls enginn perri.

Fullkomið andleysi og vonin um breytingar | REYKVÉLIN

„Hvað átti svo sem eftir að segja? Hvað hafði ég við samfélagsumræðuna að bæta? Það var búið að gera devised verk um hrunið. Meira að segja innan stofnanaleikhúsanna. Það var ekki búið að tala um nokkurn skapaðan hlut annan en þetta helvítis hrun síðan Geir H. Haarde dirfðist að segja: „Guð blessi Ísland.“ Hvað átti ég að gera? Tala um eldgos? Myndirnar í sjónvarpinu sögðu allt sem segja þurfti. Átti að tala um spillingu, barnamisnotkun eða helvítis krónuna? Ég var hætt að lesa blöðin því ég þoldi ekki að heyra eitt aukatekið orð um það meir og ég hafði enga löngun til að sjá listina tala um íslenskan ömurleika líka. Nei, takk. Má ég plís fara á söngleik heldur, þessi snara er á leið um hálsinn á mér.“

Kolbrún Björt Sigfúsdóttir skrifar innblásinn pistil á Reykvélina: Fullkomið andleysi og vonin um breytingar | REYKVÉLIN.

Druslubækur og doðrantar: Óvæntur skipsskaði í magnaðri bók

„Ein magnaðasta jólalesningin mín var án efa Sigrún og Friðgeir – ferðasaga. Þetta er áhrifamikil lesning og ég var hreinlega skekin þegar ég lagði bókina loks frá mér. Það hefur væntanlega ýtt undir áhrifin að af dularfullum ástæðum – ég veit ekki hvernig – tókst mér að láta fram hjá mér fara um hvað bókin er.“

Maríanna Clara Lúthersdóttir skrifar um Sigrúnu og Friðgeir eftir Sigrúnu Pálsdóttur Druslubækur og doðrantar: Óvæntur skipsskaði í magnaðri bók.

Ærandi meðvitund um tilvist allra hluta | Einræði

„Fyrir óreyndan hlustanda slíkrar tónlistar er erfitt að finna nokkuð til að rýna í í verkunum, en fyrir vikið grípur maður enn fastar í hvern einasta melódíubút, tilbrigði við takt eða hljóð sem gæti verið úr kunnulegu hljóðfæri. Er þetta pípuorgel? Er verið að plokka strengina innan í flygli? En óhlutbundin list þarf ekki að vera skiljanleg, maður þarf að passa sig að reyna ekki um of að skilja. Ég loka því augunum og reyni að verða hluti af þessari tónlist sem ég skil ekki. Þrátt fyrir að hljóðheimurinn sé að mestu rafrænn er einhver hlý blær og lífræn áferð í tónlistinni. Maður svífur inn og út úr hljóðunum, það er hægara sagt en gert að hreinsa hugann og bara upplifa. Hugsanir um daginn og veginn troða sér alltaf inn.“

Skrifað um tónleika Tim Heckers í Mengi Ærandi meðvitund um tilvist allra hluta | Einræði.

Egla – bókadómur | OK EDEN

„Ég var að lesa Egils sögu Skallagrímssonar í fyrsta sinn. Mikið hrikalega er hún oft fyndin. Eftir að loka bókinni var ég hálfpartinn hlæjandi næstu klukkustundina yfir síðustu svívirðu Egils, sem hefði verið hans mesta og að því er virðist tilefnislausasta, hefði hann semsagt komist upp með hana: að ríða með silfur sitt til Alþingis – tvær kistur fullar, gjöf frá enskum kóngi sem hann hafði setið á í hálfa öld og svikist um að deila því með Skallagrími föður sínum og öðrum velunnurum – og sáldra því yfir þingheim til að láta viðstadda slást um það. Vegast á. Stjúpdóttir hans sagði: já, frábær hugmynd pabbi, og lét síðan eiginmann sinn koma í veg fyrir illvirkið. Fyrst Agli varð þess ekki auðið að efna til illinda einu sinni enn, faldi hann þennan fjársjóð einhvers staðar, blindur á níræðisaldri, og drap síðan þrælana tvo sem fylgdu honum til liðsinnis við það svo að enginn yrði, áreiðanlega, til frásagnar um hvar silfrið væri falið.“

Haukur Már Helgason skrifar um Egils Sögu via Egla – bókadómur | OK EDEN.

Bókmenntahátíð í Þórbergssetri 23. mars

„Sunnudaginn 23. mars næstkomandi verður árleg bókmenntadagskrá í Þórbergssetri í tilefni af því að í marsmánuði er afmælisdagur Þórbergs Þórðarsonar. Hann var fæddur 12. mars 1888 á Hala í Suðursveit. Gestur hátíðarinnar verður að þessu sinni Jón Gnarr borgarstjóri bókmenntaborgarinnar Reykjavíkur. Samkór Hornafjarðar flytur söngdagskrá og Soffía Auður Birgisdóttir heldur erindi um áhrif Þórbergs á nútima rithöfunda, þ.á.m. Jón Gnarr. Afhentar verða gjafir sem hafa verið að berast Þórbergssetri að undanförnu.“

Dagskrá og frekari upplýsingar: Bókmenntahátíð í Þórbergssetri 23. mars.

Vísir – Fær útrás fyrir sagnfræðinginn í leikhúsinu

„Það er líka annað sem fólk veit kannski ekki um leikhúsið að þótt æfingaferlið sé átta vikur þá er maður búinn að vera að vinna með textann og sögulegan bakgrunn verksins miklu miklu lengur. Ég hef stundum sagt að vinna við sum hlutverk sé næstum eins og BA-ritgerð. Þetta tengist mannfræði, þetta tengist sálarfræði og heimspeki, þetta tengist svo mörgu. Við erum alltaf með söguna á bakinu og þurfum að spegla bæði tíma verksins og samtímann. Þar að auki er maður alltaf að vinna með myndlistarfólki og tónlistarfólki og það var í rauninni ótrúlegt frelsi að fá að vera sá sem leiðir hópinn, eða einn af þeim.“

Margrét Vilhjálmsdóttir í viðtali í Fréttablaðinu – Vísir – Fær útrás fyrir sagnfræðinginn í leikhúsinu.

„Sannleikurinn er eins og sköp kvenna“ – DV

„Í sýningunni felst ákveðin speglun sem ekki veitir af í samfélaginu. Þó kvennabarátta undanfarinna áratuga hafi vissulega skilað miklum árangri er hætta á að við sofnum á verðinum og höldum að “þetta” sé komið eða komi að sjálfu sér. Útlits- og æskudýrkun ásamt raunveruleikafirrtum hugmyndum um kynlíf og mannslíkamann eru stór hættumerki. Konur þurfa að halda vöku sinni, standa saman og hætta að vantreysta sjálfum sér og kvenlægum gildum.“

Kristín Gunnlaugsdóttir í viðtali í DV „Sannleikurinn er eins og sköp kvenna“ – DV.

Klassísk kvenfyrirlitning | REYKVÉLIN

„Silfurtungan hvarf fyrir danshæfileikum, ómerkilegu dragi og hysteríu yfir drengnum sem hafði ekkert gert sér til frægðar annað en að glíma smá og skera nokkur illa skrifuð ljóð í trjáberki. Kvenpersónan sem hafði hreðjar nægar til að þykja sannfærandi í að blekkja hið karllæga samfélag samferðamanna Shakespeare var smækkuð niður í ástsjúka unglingsstúlku.“

Kolbrún Björt Sigfúsdóttir skrifar á Reykvélina Klassísk kvenfyrirlitning | REYKVÉLIN.

List fyrir okkar tíma; það var lítið Kristinn | REYKVÉLIN

„Fyrir mér lifum við ekki á tímum sem krefjast pönks (pönkið getur verið sjálfsblekking eins og hvað annað, sérstaklega ef maður er ekki eins róttækur og maður heldur). Í mínum augum lifum við á tímum fegurðarinnar. Eða tímum sem krefjast fegurðar. Fegurðar til að göfga mannsandann (já, það er list sem krefst hugrekkis, að stíga fram og segja: Þetta er fallegt). Því sannleikurinn er fallegur. Það er lygin sem er ljót.“

Snæbjörn Brynjarsson svarar þakkargreinum Kristins Sigurðs Sigurðssonar.

via List fyrir okkar tíma; það var lítið Kristinn | REYKVÉLIN.

Takk-debattinn:

Takk, Kristinn eftir Ásgeir H. Ingólfsson
Takk Snæbjörn – part II eftir Kristinn Sigurð Sigurðsson
Takk Snæbjörn – fyrri hluti eftir Kristinn Sigurð Sigurðsson
Lausnin – pistill innblásinn af málþingi um opinbera stefnu stóru leikhúsanna eftir Snæbjörn Brynjarsson (á Reykvélinni)
Menning handa þjóð – nokkrar hugleiðingar um mikilvægi menningar og aðgengi að henni eftir Snæbjörn Brynjarsson (á Reykvélinni)

Íslensk öndvegisverk – takið þátt í að velja « Silfur Egils

„Eins og sagt var frá í Kiljunni í gær erum við að taka saman lista yfir íslensk öndvegisverk – það sem er stundum kallað kanóna. Þetta er sáraeinfalt. Við biðjum sem flesta bókmenntaunnendur að taka þátt. Hver þátttakandi velur 20-30 íslensk bókmenntaverk. Þetta mega vera skáldsögur, ljóð, leikrit, ævisögur, barnabækur, fornsögur, fræðibækur og hvaðeina. En þetta eiga að vera grundvallarrit – sem eru orðin þáttur í menningu okkar. Verkin mega vera frá öllum tímabilum – allt frá söguöld og fram til vorra daga. Svörin skal senda á netfangið kiljan@ruv.is.

Niðurstöðurnar verða ópersónugreinanlegar, þ.e. hvergi kemur fram hver hefur valið hvaða verk og fyllsta trúnaðar gætt. Góð bókaverðlaun verða veitt þremur þátttakendum.“

via Íslensk öndvegisverk – takið þátt í að velja « Silfur Egils.

Vísir – Mammút með þrennu

Íslensku tónlistarverðlaunin voru afhent í tuttugasta sinn í Hörpu í kvöld. Verðlaun voru veitt í 24 flokkum og var hljómsveitin Mammút afar sigursæl. Plata sveitarinnar, Komdu til mín svarta systir, var valin plata ársins í flokknum popp og rokk og plötuumslagið það besta. Þá var lagið Salt með hljómsveitinni einnig valið lag ársins í sama flokki. Þess má geta að sérfræðingar Fréttablaðsins völdu plötuna einnig þá bestu árið 2013.

via Vísir – Mammút með þrennu.

Hlutverk opinberra leikhúsa | REYKVÉLIN

„Ég ætla ekki að tala um peninga. Við lendum alltaf í holum þegar við tölum um peninga. Hér er til nóg af peningum. Hér flæðir allt í peningum. Áhrif og umsvif listarinnar eru auðvitað mun veigameiri og mikilvægari en peningar, verða aldrei talin í júrum og krónum, aldrei sett fram í excelskjali. Þú getur ekki rökstutt blóm. Peningar eru bara kerfi sem mennirnir bjuggu til. Mig langar aðeins að fara yfir þau atriði sem mér finnst að mætti skoða, setja spurningarmerki við, endurhugsa, og fara yfir, varðandi opinber leikhús.“

Erindi Evu Rún Snorradóttur á nýlegu málþingi um hlutverk opinberra leikhúsa Hlutverk opinberra leikhúsa | REYKVÉLIN.

Vísir – Menningarsjokkið sterkur þáttur

„Hún yrkir um upplifun sína af því að koma frá Vínarborg til Íslands fyrir miðja síðustu öld og því verður ekki neitað að sterkur þáttur í skáldskapnum er menningarsjokkið sem hún hefur orðið fyrir við þá flutninga. Hún var gyðingur og kom í rauninni nauðbeygð hingað á flótta undan nasistum þannig að það er margs konar tregi í þessum ljóðum, bæði söknuður eftir heimalandinu og þeirri menningu sem var búið að drepa úti í Evrópu og fólkinu sem hún þurfti að skilja við. Móðir hennar varð til dæmis eftir úti í Austurríki og var síðar flutt í fangabúðir nasista.“

Sölvi Björn Sigurðsson ræðir um Melittu Urbancic via Vísir – Menningarsjokkið sterkur þáttur.

Eins og blaut tuska í andlitið | RÚV

„Mig grunar reyndar að svarið liggi því miður í þeirri staðreynd að af öllu því rugli sem er í gangi þessa dagana þá virki þetta léttvægt, algjört aukaatriði og auðvitað er það jákvætt í sjálfu sér að auknir fjármunir séu settir í fjársvelta menningarstarfsemi. Að minnsta kosti finnst mörgum okkar sem ættum einmitt að vera gagnrýna þetta, fjármunum vel varið sem renna þó til listamanna þessa lands. En tölum samt aðeins um þetta í alvöru, þá staðreynd að þarna eru pólitíkusar að taka ákvarðanir um hvaða tónlist skal ríkisstyrkt á sama tíma og mikið hefur verið fyrir því haft í fjöldamörg ár að stuðla að fagmennsku og gagnsæi í stjórnsýslu lista- og menningarmála.“

 

Berglind María Tómasdóttir fjallar um ríkisstyrki til lista: Eins og blaut tuska í andlitið | RÚV.

„Tveir apar“ – Magnús Kjartansson í Listasafni Íslands « Arkitektúr, skipulag og staðarprýði

„Þegar ég málaði stærsta verkið hér á sýningunni var ég að hugsa um lýðræðið á Ísland. Hvort hér væri yfirleitt nokkuð lýðræði. Þess vegna málaði ég tvo apa sem eitthvað eru að ráðskast með þetta og þar með held ég að ég hafi sagt allt sem ég hef að segja um þá mynd“

Þetta sagði Magnús Kjartansson um mynd sína „Lýðræði götunnar/Jungle democracy“ frá árinu 1989.

Hilmar Þór Björnsson skrifar um sýningu Magnúsar Kjartanssonar í Listasafni Íslands „Tveir apar“ – Magnús Kjartansson í Listasafni Íslands « Arkitektúr, skipulag og staðarprýði.

Grafir og bein – Nörd Norðursins

Það er enginn að fara að hringja og bjóða þér gull og græna skóga. Sá eini sem fær símtal í þessum bransa er Balti. Þú verður bara að gera hlutina sjálfur, skrifaðu þitt eigið efni því handrit vaxa ekki á trjánum. Ég er þó ekki að segja að fólk eigi að gera mynd með enga peninga eða skilja eftir sig skuldir út um allan bæ. En það er hægt að gera góðar ódýrar bíómyndir á Íslandi.

Anton Sigurðsson, leikstjóri, í viðtali á Nörd Norðursins.

Lausnin: Pistill innblásin af málþingi um opinbera stefnu stóru leikhúsanna | REYKVÉLIN

„Risarnir tveir eru spegilmynd af hvor öðrum. Ef einn setur upp Les Miserables setur hinn upp Mary Poppins og hinn síðan Spamalot. Þeir finna báðir alþjóðlegan leikstjóra til að setja upp Shakespeare á sama tíma. Þeir eru báðir fremstir í flokki þegar kemur að eflingu íslenskrar leikritunar. Báðir búa við sömu kröfu um að selja næga miða til að fjármagna reksturinn, og eru þar af leiðandi í stöðugri samkeppni, baráttu um áhorfendur og þótt þau séu skuldbundin lagalega til þess að taka á móti sjálfstæðum leikhópum, finna þau sig knúna til að ýta þeim út, (helst sem fyrst) af áhættufælni (oft eigna þau sér heiðurinn af verkum þeirra ef vel gengur þrátt fyrir að hafa lítið gert þeim til stuðnings). Risarnir eru eins í eðli sínu. Eins í stefnu sinni. Og alltof stórir.“

Snæbjörn Brynjarsson skrifar á Reykvélina: Lausnin: Pistill innblásin af málþingi um opinbera stefnu stóru leikhúsanna | REYKVÉLIN.

Gagnrýni | The Congress | Klapptré

„Þegar framtíðin er nálæg er hins vegar auðveldara að kasta akkeri í huga áhorfenda, akkeri sem tengir beint við þeirra eigin upplifanir og hvert þær geta mögulega leitt okkur. Þetta akkeri var í vissum skilningi fjær okkur í myndum um yfirvofandi heimsendi í kringum aldamótin (eins og 12 Monkeys, Strange Days og áðurnefnd Children of Men) því þar var verið að vinna með stef sem grandalausir Vesturlandabúar eru gjarnir á að hunsa, stef á borð við þriðja heims fátækt og loftslagsáhrif. Congress sver sig hins vegar meira í ætt við Her og The Matrix og ýkir einfaldlega veröld sem við erum nú þegar stigin inn í – heim alltumlykjandi tölvuvæðingar og sífellt tölvuteiknaðri bíómynda. Heim sem einhvern tímann hefði verið kallaður gerviheimur en verður sífellt raunverulegri.“

Ásgeir H. Ingólfsson skrifar um Congress á Klapptré Gagnrýni | The Congress | Klapptré.

„Tónlistarsagan er saga af verkum karla“ – Tónlist kvenna | RÚV

„Tónlistarsagan, líkt og önnur menningarsaga er saga af verkum karla. Í klassískum tónlistarheimi er sífellt verið að endurskapa gömul og klassísk verk og þannig er dvalið í fortíðinni — í nútíðinni. Það er innbyggð íhaldsemi í faginu sem aftur smitar vel út frá sér inn í heim nútíma- eða samtímatónlistar enda flestir þar komnir úr heimi klassíkur. Tilraunatónlist er ögn skárri enda kannski ákveðið kynleysi til staðar í þeim tónlistargeira, og áhrifin fjölbreytilegri.“

Berglind María Tómasdóttir flutti pistil í kjölfar uppskeruhátíðar KÍTÓNS 

via Tónlist kvenna | RÚV.

Leiklistargagnrýni Djöflaeyjunnar: Endurtekið efni? | REYKVÉLIN

„Borið hefur á að fólk innan leiklistarheimsins hafi á Fésbókinni og víðar tjáð sig um að það sæti furðu að menningarþátturinn Djöflaeyjan á Ríkissjónvarpinu notist við gagnrýnendur annarra fjölmiðla þegar kemur að því að gagnrýna leiklist. Þessir gagnrýnendur séu þá í raun aðeins að endursegja sína skoðun, sem nú þegar hafi birst í fjölmiðlum og að slíkt stuðli að meiri einsleitni í umfjöllun um leiklist. Við sendum því Brynju Þorgeirsdóttur, ritstjóra Djöflaeyjunnar, fyrirspurn um málið og hafði hún þetta að segja:“

Smellið hér fyrir meira Leiklistargagnrýni Djöflaeyjunnar: Endurtekið efni? | REYKVÉLIN.

Villuljós í Hörpu – Jónas Sen – Vísir

Atriðin voru ákaflega misjöfn að gæðum, eins og gengur þegar dagskráin er bland í poka. Sumt var mjög áhrifamikið. Þar á meðal var lag eftir Lay Low sem hún söng sjálf. Einnig má nefna lag eftir Báru Grímsdóttur í meðförum Vox feminae, sem og notalegt djasslag eftir Sunnu Gunnlaugsdóttur í eigin flutningi. Spuni eftir Ragnhildi Gísladóttur var líka skemmtilegur. […] Á milli laganna voru sýnd örstutt myndbrot. Þau samanstóðu af viðtölum við aðaltónlistarkonuna sem var að fara að stíga á sviðið hverju sinni. Nánast alltaf var spurt að því sama, og yfirleitt var það eina spurningin: Ertu stressuð? Það var afar einsleitt, sérstaklega eftir því sem á leið.

Jónas Sen skrifar um uppskerukvöld Kítóns Vísir – Villuljós í Hörpu.

Upptökur frá málþingi um hlutverk og stefnu opinberra leikhúsa. | REYKVÉLIN

Nú má sjá á Reykvélinni upptökur frá málþingi um hlutverk og stefnu opinberra leikhús og haldið var á vegum leiklistardeildar LHÍ. Magnús Þór Þorbergsson, lektor við deildina, stjórnaði umræðum. Til máls tóku, í aldursröð: Eva Rún Snorradóttir, Jón Páll Eyjólfsson, Steinunn Knútsdóttir og Þórhildur Þorleifsdóttir.

Smellið hér til að sjá: Upptökur frá málþingi um hlutverk og stefnu opinberra leikhúsa. | REYKVÉLIN.

Samræða um hlutverk og stefnu opinberra leikhúsa

„Þessa dagana stendur yfir ráðningarferli nýs leikhússtjóra Borgarleikhússins og síðar á þessu ári verður staða Þjóðleikhússtjóra auglýst laus til umsóknar.

Þessi væntanlegu umskipti hafa orðið tilefni nokkurrar umræðu og blaðaskrifa um hvað ráða eigi ferðinni í vali á listrænum stjórnanda í opinberu leikhúsi. Fyrr í vetur var varpað fram spurningunni um hvort íslenskt samfélag hefði efni á að reka menningarstofnanir á borð við þjóðleikhús sem aftur vakti spurningar um tilgang slíkra stofnana fyrir samfélagið.

Að því tilefni stendur Leiklistarsamband Íslands í samvinnu við sviðslistadeild Listaháskólans fyrir málfundi um hlutverk og stefnu opinberra leikhúsa.“

Frekari upplýsingar: Samræða um hlutverk og stefnu opinberra leikhúsa – LHI.is.

Kellíngar í dægurtónlist – erindi flutt á ráðstefnu Kítons | *knúz*

„Að því sögðu þá skiptir það verulegu máli að konur tjái sig um tónlist, því þó við höfnum þeirri miklu áherslu sem lögð var á það í annarri kynslóð femínisma að reynsluheimur og menning kvenna sé verulega frábrugðin reynsluheimi og menningu karla, þá er munur og þó hann fari minnkandi, þá mun hann seint hverfa. Frá því sjónarhorni er mjög mikilvægt að raddir kvenna heyrist í allri umræðu, þar með talið umræðu um tónlist. Það eru og fleiri svör við spurningunni um tilgang þess að konur taki þátt í opinberri umfjöllun og umræðu um tónlist, fjöldamörg svör reyndar, en ég læt nægja að nefna eitt til viðbótar: Það er mikilvægi þess að stúlkur eigi fyrirmyndir, sjái konur sem semja og flytja tónlist og taka þátt í umræðum um tónlist.“

Árni Matt skrifar um kyn og dægurtónlist.

via Kellíngar í dægurtónlist – erindi flutt á ráðstefnu Kítons | *knúz*.

Mala domestica : TMM

„En svo ætlaði þakið hreinlega af húsinu og allir stóðu á fætur sem einn maður, æpandi og klappandi, þegar höfundarnir gengu fram á sviðið, líbrettuskáldið Friðrik Erlingsson og þó fyrst og fremst gamli elskaði popparinn Gunnar Þórðarson sem hefur glatt okkur með lögum sínum og hljóðfæraleik í hálfa öld. Það má mikið vera ef í heiminum öllum finnst dægurtónlistarmaður sem nær eins stórkostlegum hápunkti á feril sinn og Gunnar náði í gærkvöldi.“

Silja Aðalsteinsdóttir skrifar á TMM-vefinn um óperuna Ragnheiði.

via Mala domestica : TMM.

Vísir – Nýr borgarleikhússtjóri er Kristín Eysteinsdóttir

Kristín Eysteinsdóttir leikstjóri hefur verið ráðin leikhússtjóri Borgarleikhússins.  „Mér líður mjög vel. Ég er ótrúlega þakklát og hlakka til að takast á við þetta,” segir Kristín í samtali við Vísi en tilkynnt var um valið nú rétt í þessu. Kristín segir að gestir Borgarleikhússins verði ekki varir við miklar breytingar í fyrstu.

„Ég tek við einstaklega góðu búi og mun halda áfram á sömu braut. Lykillinn af velgengninni hefur verið starfsfólkið í húsinu en auðvitað fylgja alltaf nýjar áherslur nýju fólki og ég hlakka bara til að leiða Borgarleikhúsið inn í nýja og spennandi tíma.“

via Vísir – Nýr borgarleikhússtjóri er Kristín Eysteinsdóttir.

Kolbrún Björt: Aldrei verð ég gagnrýnandi | REYKVÉLIN

Loks hef ég hef þekkt þó nokkra bókmenntagagnrýnendur í gegnum tíðina. Þeir hafa flestir verið áreittir í síma, í persónu, í tölvupóstum og í verstu tilfellunum á heimilum sínum vegna þess að þeirra faglærðu skoðanir þóttu rangar og heimskulegar. Einfaldast var auðvitað að kalla þá asna, gera lítið úr vitsmunum þeirra og þar með gera að því skóna að þeir sem væru þeim sammála vissu ekki hvað þeir voru að tala um. Það var alveg sama hvaða gráðu þeir höfðu á bakinu, hversu mikla reynslu af faginu. Ef þeir voru ekki hrifnir voru þeir augljóslega fífl.

Kolbrún Björt Sigfúsdóttir les yfir hausamótunum á gagnrýnendagagnrýnendum.

via Aldrei verð ég gagnrýnandi | REYKVÉLIN.

Dimitri Eipides– Opið bréf vegna RIFF – Vísir

Það að byggja upp kvikmyndahátíð kallar á mikla fagþekkingu, vinnu og áhuga. Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík, sem verður haldin í 11. sinn á þessu ári, hefur orðið að viðurkenndri hátíð alþjóðlega og hefur tekið á móti virtum kvikmyndagerðarmönnum og fagfólki frá öllum heimshornum. Hún hefur hlotið mikið lof alþjóðlegra gesta og fjölmiðla. Án nokkurs vafa eru tækifæri hennar til að þróast áfram og stækka augljós, að því gefnu að ekki séu gerðar tilraunir til að draga úr möguleikum hennar með því að stofna aðra viðburði henni til höfuðs. Það er afar sorglegt að svo merkur áfangi skuli steyta á hindrunum sem ógna framtíð hennar.

Dimitri Eipides, fyrrverandi dagskrárstjóri RIFF, skrifar opið bréf vegna ákvörðunar borgarstjórnar um að láta af stuðningi við hátíðina.

Sjá nánar: Vísir – Opið bréf vegna RIFF.

Bókmenntaverðlaun draga úr vinsældum bóka | theguardian.com

Samkvæmt rannsókn sem birt verður í marstölublaði Administrative Science Quarterly draga bókmenntaverðlaun úr vinsældum bóka. Fræðimennirnir Amanda Sharkey og Balázs Kovács báru saman 38.817 ritdóma um 64 bækur á alþýðumenningarvefsetrinu GoodReads.com – eða 32 pör bóka. Önnur bókin í hverju pari hafði hlotið tiltekin verðlaun, svo sem Man Booker verðlaunin eða bandarísku National Book Award. Hin hafði verið tilnefnd sama ár en vann ekki. Lesa áfram

Sami leikari og venjulega leikari ársins | Fréttastofa Sannleikans

Sami leikarinn og venjulega hlaut Edduverðlaunin sem besti leikari í aðalhlutverki. Fyrir hvaða mynd skiptir ekki máli því hann leikur í þeim öllum. Þá var hann einnig valinn aukaleikari ársins og auka aukaleikari ársins. Verðlaunin voru afhent í Silfurbergi í Hörpu í gær og sýnt var beint frá rauða dreglinum og frá verðlaunahátíðinni sjálfri. Það eru allir sammála því að það hafi verið slæmt sjónvarp.

via Sami leikari og venjulega leikari ársins | Fréttastofa Sannleikans.

Druslubækur og doðrantar: Í gryfju Nabokovs: Guðrún Elsa og Kristín Svava spjallblogga um Pale Fire

Ég held að grundvallarmunurinn á því hvernig við og Björn upplifðum söguna felist kannski í þessari samsömun sem ég er alltaf að tala um, eða fjarlægðinni sem er haldið við lesanda, sem Björn fílaði meira en við. Ég þoli samt ekki tilhugsunina um að tilfinningaleg tengsl mín við sögupersónur skipti svo miklu máli, ég fer ósjálfrátt að hugsa um ákveðinn bókmenntagagnrýnanda sem þoldi ekki The Road eftir Cormac McCarthy vegna þess að litli drengurinn í bókinni hreyfði ekki nóg við henni. Nei, þetta samræmist engan veginn þeirri mynd sem ég hef af sjálfri mér – til dæmis hataði ég The Road af allt öðrum ástæðum. En nú er ég aðeins farin út fyrir efnið. Ég held að ég sé að reyna að segja að ég sé voðalega töff. Hvað segir þú um þetta mál, Kristín Svava?

via Druslubækur og doðrantar: Í gryfju Nabokovs: Guðrún Elsa og Kristín Svava spjallblogga um Pale Fire.

Vandinn við að fyrirgefa – DV

Allt er þetta vel gert og lofar góðu framan af, en vandi höfundarins og sýningarinnar byrjar þó fyrst fyrir alvöru þegar tvinna á saman sögu fyrirtækisins og eigenda þess, persónulegri sögu nýja starfsmannsins Evu og sjálfstæðum sögum viðskiptavina fyrirtækisins af m.a. framhjáhaldi, kynferðislegu ofbeldi og sjálfsvígum. Þegar svo stjórnmálin og hið opinbera líf bætist líka við er eins og höfundurinn hafi færst fullmikið í fang. Hér hefði góður dramadurgur ef til vill getað greitt úr flækjunni og aðstoðað höfundinn við að velja bestu leiðina með áleitið efnið sem verkaði eins og ákall til áhorfenda um að gera gagnger reikningsskil í eigin lífi.Vandinn við að fyrirgefa – DV.

Leikhússtjórastöðurnar – Hvar er óskynsemin? | REYKVÉLIN

Ég efast ekki um listræna sýn og hugmyndafræði þessa ágæta fólks. Mér finnst hins vegar athyglisvert að umræða innan geirans, á meðal listafólksins, snýst meira um markaðsfræði og kortagesti en hvaða listrænu möguleikar felast í þessum lausu stöðum. Það er kannski skynsamlegt og praktíst að hugsa á þessum nótum, það er þar að auki næsta víst að niðustaða stjórna Borgó og Þjóðleikhússins verði í samræmi við þær, en það er leiðinlegt ef við listafólkið sjálft leyfum okkur ekki að fantasera um mögulegar breytingar á hugmyndafræðilegu og listrænu landslagi geirans. Erum við orðin það hrædd við aðsóknartölur og misheppnað branding að við leyfum okkur ekki einu sinni að hugsa út fyrir miðjuna og skoða aðra möguleika og „nýjar“ hugmyndir sem felast á jaðrinum eða í öðrum kimum geirans?

via Leikhússtjórastöðurnar – Hvar er óskynsemin? | REYKVÉLIN.

Vafasamt námsefni (opið bréf) | Menningarsmygl

Það væri hins vegar gaman ef næstu hneykslunarfrétt fylgdi smá hugleiðing um að í bókmenntatextum og bíómyndum eru skilaboðin stundum margræð og höfundar tala jafnvel þvert á hug sinn til þess að fá lesendur / áhorfendur til þess að sjá hlutina í nýju ljósi eða veita þeim tækifæri til þess að greina þá (svo eru mögulega ekkert svo slæm skilaboð í sumum fyrirsögnunum þrátt fyrir sjokkið sem þær bjóða upp á – eins og glöggir lesendur verða fljótir að sjá). Hugleikur Dagsson hefur til dæmis lengst af starfað sem listamaður og örugglega ósjaldan verið skítblankur – ef hann væri sama sinnis og aðalpersónan í myndasögunni sem vísað er til hefði hann líklega skotið sig í hausinn löngu áður en hann komst svo langt að teikna þessa sögu.

via Vafasamt námsefni (opið bréf) | Menningarsmygl.

Ritlist – að finna sína rödd | Eiríkur Örn Norðdahl – Blogg

Vandamálið við frambærilegan texta, í einfaldasta og algengasta skilningi þess hugtaks – það er að segja þeim skilningi að textinn sé læsilegur, skýr og á réttu máli – er að þannig texti er oft líka þurr og ópersónulegur, og það jafnt þótt hann beiti öllum hugsanlegum tólum skáldskaparins til að búa til innileika, sé beinlínis að drukkna í vísunum og líkingum og persónusköpun og sviðsetningu og guð veit ekki hverju. Því það er eitthvað næstum því óheiðarlegt við texta sem er of lærður, of pródúseraður, of fínn og fágaður – orðið sem ég er að leita að er alveg áreiðanlega „tilgerðarlegt“.

via Ritlist – að finna sína rödd | Eiríkur Örn Norðdahl – Blogg.