Bókmenntaverðlaun draga úr vinsældum bóka | theguardian.com

Samkvæmt rannsókn sem birt verður í marstölublaði Administrative Science Quarterly draga bókmenntaverðlaun úr vinsældum bóka. Fræðimennirnir Amanda Sharkey og Balázs Kovács báru saman 38.817 ritdóma um 64 bækur á alþýðumenningarvefsetrinu GoodReads.com – eða 32 pör bóka. Önnur bókin í hverju pari hafði hlotið tiltekin verðlaun, svo sem Man Booker verðlaunin eða bandarísku National Book Award. Hin hafði verið tilnefnd sama ár en vann ekki.

Rannsóknin sýndi fram á að bækur sem hljóta bókmenntaverðlaun glata að nokkru vinsældum sínum – fá lægri meðaleinkunn hjá lesendum – og rekja fræðimennirnir þetta til þess að verðlaunin verði til þess að þær rati víðar, fólk lesi þær jafnvel vegna þess að þær fengu verðlaunin frekar en til dæmis vegna þess að eitthvað við söguþráðinn veki athygli þeirra og þar með aukist óánægjan. Niðurstaðan er altso sú að það borgi sig alls ekki fyrir lesendur að snobba fyrir bókmenntaverðlaunum – þeir verði bara fyrir vonbrigðum.

Meira um málið í Guardian: Literary prizes make books less popular, study finds | Books | theguardian.com.