Viljaverk í Palestínu: Aðfararorð

Ljóðabókin Viljaverk í Palestínu er gefin út þann 22. júlí árið 2014. Sum ljóðanna í henni urðu til löngu fyrr og einhver þeirra hafa birst áður en flest þeirra eru þó ort fyrir þessa bók. Áskorunin sem skáldin fengu fyrir viku var að bregðast með einhverjum hætti við frægu ljóði Kristjáns frá Djúpalæk, Slysaskot í Palestínu. Tekið var fram að þau mættu sjálf túlka hvað fælist í „viðbragði“ – að það þyrfti ekki nauðsynlega að vera nýr texti og gæti þess vegna verið þýðing á hundgömlu kvæði, ef það passaði.

DNA-bankinn – Áhættulýsing vegna upplýsts samþykkis

(Höf. Lynn Kozlowski, Hjörvar Pétursson þýddi)

Ég er til vitnis.

Og einungis ég er hér einn,
í trúnaði,
til að fræða þig og upplýsa.

Mér er ætlað að skýra þér frá
þeim hættum sem þér eru fólgnar í bón okkar.
Ég mun lýsa þeim hreint út
svo sem mér var falið af Siðfræðinefnd
Rannsóknastofnana, því þú verður að skilja
hvaða hætta þér er búin með samþykki þínu
með undirskrift þinni og dagsetningu.