Kæri vinur – við hjá Starafugli ætlum að fagna alþjóðlegum baráttudegi verkamanna, 1. maí, einsog sönnum verkamönnum sæmir: með því að stappfylla vefinn af listaverkum, greinum, lögum, ljóðum, myndum og öðru viðeigandi efni. Efnið má vera birt eða óbirt, þýtt eða frumsamið, hvaða eðlis sem er, það má vísa beint eða óbeint í verkalýðsbaráttuna, sósíalismann, réttlætið, jafnréttið, samstöðuna og/eða fegurðina. Einnig leitum við að ábendingum um aðra verkalýðslist – t.d. bara lögum af youtube, viðtölum eða öðru slíku sem hægt er að endurbirta. Ef þú lumar á einhverju slíku – og vilt taka þátt í veislunni – geturðu sent það á eon@norddahl.org. Þú mátt líka gjarna láta boðið ganga. Með byltingarkveðjum frá ritstjórn.

Starafugl leitar að framkvæmdastjóra. Starfið felst peningaleit – selja auglýsingar, sækja um styrki – og annarri kaupsýslu, svo sem að greiða laun og fylla út í pappíra. Laun: umsemjanlegt hlutfall af fundnum peningum. Æskilegt er að viðkomandi hafi ástríðu fyrir menningarbyltingum. Umsóknir og ferilskrár sendist ritstjóra á eon@norddahl.org

Það má láta orðið ganga: Starafugl er alltaf að leita að menningarrýnum, góðu og gáfuðu og afdráttarlausu fólki sem vill taka þátt í stríðinu um samtímann. Í boði eru engin laun en nokkur ritstjórn og hugsanlega ókeypis bækur, leikhús- eða bíómiðar og „þess háttar“. Skrifið ritstjóra.

1. maí-kaffi Samtaka hernaðarandstæðinga fer fram í dag kl. 11 í Friðarhúsi, Njálsgötu 87 (verð kr. 500), en ganga verkalýðsfélaga fer af stað kl. 13.30.

Starafugl hefur uppgötvað að netfangið hans er ófleygt og kastar öllum pósti aftur í sendendur – og fær ekkert svar frá Vefhýsingu. Á meðan verið er að kippa þessu í laginn er best að senda efni beint á ritstjóra: eon@norddahl.org

Í dag lauk fyrstu heilu vikunni okkar. Engin orð nema „orð fá ekki lýst“ fá lýst hversu ánægð við erum með þær æðisgengnu manneskjur sem ljáð hafa Starafugli krafta sína og framleitt ekki bara fyrsta flokks efni heldur gert vefinn svona fallega. Við þökkum auk þess lækin, lesturinn, þökkum deilingarnar, velvildina, hjálpina og umræðuna og vonumst til áframhaldandi samstarfs. Þetta verður vonandi mikið ferðalag áður en yfir lýkur.

Fór í samheitaorðabókina og sló upp sögninni „rýna“ – og uppgötvaði að „rýna“ er ekki bara sögn heldur líka nafnorð. Samheiti við „rola“. Sögnin þýðir svo m.a. að „tala vinmæli við e-n“. Og hafiði það.

Starafugl leitar að fólki til að skrifa um bókmenntir og ljóð, kvikmyndir, tónlist, leiklist, matarlist og svo framvegis. Áhugasamir hafi samband á ritstjorn@starafugl.is