Ég segi nokkrar sögur í Kvíðasnillingunum. Fyrsti hluti fjallar um vináttu drengjanna þriggja, „kvíðasnillinganna“. Þar eru þeir litlir og frekar saklausir strákar í leit að ævintýrum. Sá næsti lýsir því hvernig þeir reyna seinna á þrítugsaldri að slá í gegn í ferðamannabransanum með því að stofna farfuglaheimilið Hostel Torfbæ og síðan barinn Hipster Torfbar. Um leið klúðra þeir svo nokkrum ástarsamböndum við hæfileikaríkar og klárar stelpur. Þriðji og síðasti hluti fjallar um það þegar Steinar, aðalpersónan, gerist húsvörður í Íslendingakoti, eða „Aumingjahælinu“, heilsulind fyrir gjaldþrota og dapra Íslendinga sem rekin er af góðhjörtuðum útrásarvíkingi. Íslendingakot er eins konar ruslakista fyrir allt misheppnaðasta fólk þjóðarinnar.