Ég held að grundvallarmunurinn á því hvernig við og Björn upplifðum söguna felist kannski í þessari samsömun sem ég er alltaf að tala um, eða fjarlægðinni sem er haldið við lesanda, sem Björn fílaði meira en við. Ég þoli samt ekki tilhugsunina um að tilfinningaleg tengsl mín við sögupersónur skipti svo miklu máli, ég fer ósjálfrátt að hugsa um ákveðinn bókmenntagagnrýnanda sem þoldi ekki The Road eftir Cormac McCarthy vegna þess að litli drengurinn í bókinni hreyfði ekki nóg við henni. Nei, þetta samræmist engan veginn þeirri mynd sem ég hef af sjálfri mér – til dæmis hataði ég The Road af allt öðrum ástæðum. En nú er ég aðeins farin út fyrir efnið. Ég held að ég sé að reyna að segja að ég sé voðalega töff. Hvað segir þú um þetta mál, Kristín Svava?
via Druslubækur og doðrantar: Í gryfju Nabokovs: Guðrún Elsa og Kristín Svava spjallblogga um Pale Fire.