Af röngunni í Ríó

Karnaval í Ríó, Kristur á Corcovado og Öskudagur í snjó

Það ríkir yfir nóttinni vogskorin fjallalína, falleg og myndræn og söngurinn ómar í transkenndum rythma, sóttheit nótt og upplýstur Endurlausnarinn með faðm sinn eins og stjörnuþoka af táknum að brjóta sér leið inn um dáleidd augu fjöldans á Sambódróme þar sem sjötíu þúsund manns trampa sér leið taktvissum skrefum. Dáleidd augu, troðfull eyru og áhorfendaskarinn grípur einfaldar laglínurnar um leið; eitthvað um að bruma og blómgast, eitthvað um fordómaleysi og eilífð. Flugeldarnir drynja og glitra, um litasprengingar og fegurðina að innan, er sungið, um guðdómlega paradís og töfra ímyndunaraflsins, er sungið; hina sönnu ást og samfélag þar sem ekki er gert lítið úr neinum, hin fegursta skrúðganga í 450 ára sögu Ríó-borgar syngur um sjálfa sig eins og skip, eins og ævintýr, eins og að hin fullkomlega sjálfhverfa fegurðarkennd sé dyggð og engu máli skipti hvað muni verða þegar göngunni er lokið… – Hver sambaskóli hefur sitt lag, sitt þema, sína sögu að segja með þeirri samsetningu sem ákveðin hefur verið; um það allt má lesa í ítarlegum bæklingi sem fólk styttir sér stundir við að glugga í á milli skrúðganganna – en allt skiptir þetta máli þegar kemur að stigagjöfinni; tæknileg útfærsla, litasamsetning, lífsgleði – í skrúðgöngunni er allt mælanlegt og strax á morgun byrjar hópur fólks að undirbúa næstu göngu eftir ár. Þetta eru fótboltalið dagsins í dag, fólk mætir í stuðningstreyjum með einhverjum af liðunum; Bela-Flor, Portela, Uniá de Ilha eða meistararnir frá því í fyrra – Unidos de Tijuca – en svo ganga fánar fyrir hvert lið um stúkuna þegar þær mæta á svæðið, og tryggðin við liðin gildir þá einu – rétt eins og í söngvunum; hingað er fólkið komið til að syngja og veifa fánum; ímyndaðu þér Ríó, eins og málverk eftir Dalí, guðdómleg borg og paradís, Cíudade Surreal: svo flæða fram fallhlífastökkvarar, fuglar og fiskar, hafmeyjur og konungar – og kitsj kitsj kitsj – í bland við brasíl-afrískar mýtur, shamana og svartar meyhórur, eilífð af fjöðrum og perlum og skrauti sem endar í haugum bakatil, á strætunum baksviðs, þar sem dauðþreyttir dansarar og hristarar og hopparar mæta veruleikanum aftur á enda þessarar gervi-breiðgötu, Sambódróme, leikvangsins sem er notaður undir þessa keppni einusinni á ári, á Karnevali í Ríó – þar sem gengist er við ævafornum forsendum úr heimi trúarbragðanna – öllu er snúið á haus til að tákna óreiðuna og spennuna; syndina sem býr í manninum og brosað að öllu saman, áður en holdið er beislað á ný.

Fyrr á öldum var skrúðgangan geistleg, hún endaði á hinu erkitýpíska Torgi sem finna má í hverri borg og hverjum bæ þar sem Ráðhús, stjórnsýsla og musteri kemur saman í hjarta hvers rómanskættaðs menningarsamfélags á þessu svæði; en siðurinn var líka eldri og í ætt við afmörkun tímans og tímamóta; einhverskonar áramótahátíð. Karnaval á ættir að rekja til hugmyndarinnar um táknrænt ritúal þar sem óreiðan er beisluð – hér í Ríó stendur hún einmitt í fimm til sex daga eins og Satúrnalíu-hátíðin í Róm til forna – þar sem meginkjarninn er þessi: Að gleðjast í hömluleysi og snúa öllum hlutverkum við. Herrarnir þjóna þrælum sínum – formfesta og regla siðmenningarinnar brestur. Þegar leið á hið kristna tímabil fól þetta í sér að Biskupinn klæddist búningi nýgræðingsins í klaustrinu og varð allra þjónn; Asni leiddi helgigönguna inn í kirkjuna, yngsti Nóvítinn skrýddist biskupskápunni og svo framvegis. Siðurinn hefur anga í ólíkar áttir, enda aðlagaði kirkjan sig að siðum í hverju landi: Nýtt ár hófst í Róm um það leyti sem við fögnum jólum en á Englandi var hringrás tímans í samhengi jarðyrkjunnar fagnað nær vori – eða páskum – nánar tiltekið má segja að rætur siða sem tengjast 1.apríl megi finna þar. Allt er þetta nátengt. Öskudagurinn í dag, lokadagur kjötkveðjuhátíðarinnar sem nær einhvernveginn útum allan heiminn er síðan okkar dansk-íslenska útgáfa, í kjölfar bolludags og Sprengidags af þessum viðsnúningsdegi sem við erum farin að kynnast enn frekar af því að siðir sem tengdir eru allra-heilagra messu (Halloween) berast til okkar – hátíð sem á rætur sínar siðum sem tengdir voru haustjafndægrum og uppskerulokum – því svo sannarlega erum við alltaf að verða fjölmenningarlegri. Og þannig fjölgar dögunum. Kannski fer það svo að við snúum menningarlegum forsendum okkar svo rækilega á haus á endanum að við hættum að skilja hversvegna við gerum hlutina; alveg eins og okkur er nákvæmlega sama um það að fastan er að hefjast; hreinsunartímabilið sem fylgir þessum viðsnúningi allra gilda. Þar sem rassar verða einkenni kvenna í stað andlitanna, þar sem það sannast einna helst að það er hin eina sanna nautn og draumaósk hvers karlmanns að klæðast kvenmannsfötum. Gervið og búningurinn! Það er það eina sem skiptir máli á Karnavali – ásýndin – og jú neyslan, það verður að vera ofgnógt og það verða að vera öfgar. Og maður verður að kunna textann, að kunna textann, og það verður að vera þannig að textann megi syngja; allavega fylgja með hér í Carioca, Sambadróme…

Hitinn er þrúgandi, hrynjandin allt um kring, sumir einir allir saman – frá Copacabana til Ipanema: Það verður allt jafn óraunverulegt ofanfrá Sykurhleifnum séð, tala nú ekki um frá Corcovado, Corcovado, Kristur á Corcovado fylgist með, vakir yfir, umfaðmar alla þessa synd, allt þetta hold, allt þetta piss og alla þessa gleði, Kristur á Corcovado, El Redentor ríkir yfir Caríóca, og Karnavalið nær hátindum sínum hægt og rólega, einum af öðrum, útum alla borg þarsem sorgin ekki dvelur – fimmhundruð manns bornir af leikvelli Sambadrómsins með dansmeiðsli – örmögnun undan fargi búninganna, og borgin að brenna í menguninni, sjötíu og sjöþúsund bílar renna inn í Ríó í dag fyrir lokadaginn og hún drukknar í búningum eins og fólkið – því það er ekkert eðlilegra – hér er ekki nokkur undanskilin þannig; nema heimilisleysingjarnir undir tætlunum sínum og barnaskarinn í tötrum sínum; engin undanskilinn þegar kemur að því að verða sér úti um búning; þó ekki sé það nema blóm í hárið, blóm í hárið – þakka þér – blóm í hárið, blómakransa í hafið og gefðu þig að gleðinni, gleymdu ekki að klappa höndunum í takt við apana, góla, geifla þig, gleymdu ekki að losa um hemlana, skrúfa þá lausa, þó ekki þannig að þú komist ekki heim…

Það getur orðið erfitt að rata í hitanum sem er þrúgandi og halda sönsum í þessari hrynjandi, frá Ipanema berst trumbusláttur; frá heilagri Teresu, úr Favellunum, trumbusláttur leggur undir sig Caríóka og Krist sem ríkir á Corcovado, Kristur þenur húðirnar; spurt hef ég tíu milljón manns og allar líta þær upp til hans, og stinga sér í hafið; eins og blómakrans í hafið; bara ekki á Botafogo – ekki stinga þér í hafið á Botafogo – eða elta skottið á þér inn í Maré, því þó að það sé ljúft að dansa og stirni á svitann og hold renni saman við hold í þvögunni og algleymi hundraðfaldrar þjóðhátíðar – þúsundfaldrar – fimm dagar af hrynjandi holdi, kjöti, kveðjum, drykkjum og dópuðum augnaráðum þúsund blokkóa; eitt partýið á eftir öðru, blokkó fyrir blanka, blokkó fyrir ríka, ein á eftir annarri; barnablokkó, þungarokksblokkó, bítlablokkó, trúðablokkó, sambablokkó, blokkó fyrir Raúl og blokkó fyrir Veloso, blokkó fyrir Pessóa og Augústó Bóal, blokkó fyrir þig og blessun, því Kristur ríkir yfir Caríóka – hann sér þig frá Corcovado – og það er eins gott að þú skemmtir þér vel, að þú náir öllu úr þér fyrir föstuna; snúir þér á hvolf og hristir úr þér það ósagða…

Það rignir í Ríó – það rignir og þú signir þig – Guð minn góður, Kristur á Corcovado hylur sig þykkninu og hvernig náum við heim fyrir þrumunum þegar sembalkliðurinn í dropunum rennur saman við flæðandi orgeltóna óttans sem læsir sig um andlitin; er komið að því – syndafallið – er komið að því, syngja andlitin og fagna því að loks megi vænta þess að jörðin hreinsi sig; prúðbúin andlitin, úrvinda andlitin, afklæðast búningum, háma í sig sundurskorna drjóla af kjöti á priki, klístraðar af fitu og farófa, meiri bjór grátbiðja andlitin, meiri gleði, meira líf, þetta er búið – klukkustund í helvíti Sambadrómsins er lokið; ljósin fylltu vitin, trumbur og hristur ærðu hlustirnar, það er búið að æfa þetta atriði með daglegum æfingum síðan fyrir aldamót, æfingarnar hefjast á hádegi og tíminn hann stendur í stað – syngja kapparnir frá Portela, Ímyndaðu þér Ríó, Cíudade Surreal, guðdómleg paradís, en klukkustundin í helvíti Sambadrómsins er liðin, borgin vakir eins og hún hefur vakað í fjögurhundruð og fimmtíu ár; öllu snúið á hvolf og dagur ei meir, ég bið þig Kristur á Corcovado, færðu mig í búning, snúðu mér á hvolf, gerðu mig að Ríó, Ríó að mér – guðdómlega paradís, Chopin horfir á hafið og heim eins og Íslendingur í Curitiba, frá Praia Vermahilla, og sigurskrúðgangan fær sungið sönginn sinn enn á ný – og fjöldinn ærist á Sambódróm. Kannski er öllu snúið á haus – hitinn og þrúgandi rakinn – heim í klakann, ég hugsa heim, ég hugsa heim, ég hugsa heim, og klæðist svo svörtu og sparka.carnival_794x620

 

Arnaldur Máni Finnsson – Starinn Brazil