Nútíminn séður í gegnum grasský: Inherent Vice

Með nýjustu kvikmynd sinni, Inherent Vice, hefur Paul Thomas Anderson tekist það sem hingað til hefur verið talið ómögulegt: að laga samnefnda skáldsögu Thomas Pynchons að kvikmyndaforminu. Í sjálfu sér eru margar bækur sem taldar hafa verið óaðlaganlegar en urðu samt að ágætis kvikmyndum, til dæmis Naked Lunch William S. Burroughs og Watchmen Alan Moores. En það eru góðar og gildar ástæður fyrir því að skáldsaga Pynchons hefur fengið þennan stimpil sem við munum ræða neðar og gerir mynd Andersons enn athyglisverðari. Viðbrögðin við myndinni hafa verið mjög misjöfn svo gagnrýnendur eru ekki sammála um hvort tilraun Andersons hafi yfirhöfuð tekist. Hvað sem því líður er myndin mikilvægt innlegg í langa og merkilega kvikmyndahefð ásamt því að hafa mikið að segja um nútímann.

Inherent Vice gerist árið 1970 og fjallar um hippann og einkaspæjarann Larry „Doc“ Sportello (Joaquin Phoenix) sem í byrjun myndarinnar fær heimsókn frá fyrrverandi kærustu sinni, Shöstu (Katherine Waterston). Hún fær hann til þess að koma í veg fyrir að núverandi kærasti hennar, moldríki fasteignasalinn Mickey Wolfmann (Eric Roberts), verði numinn á brott og honum komið fyrir á geðveikrahæli af konu hans og elskhuga hennar. Rétt eftir heimsóknina hverfa svo bæði Shasta og Mickey. Þegar Doc fer að rannsaka málið verður á vegi hans fjöldinn allur af litríkum persónum sem allar virðast tengjast Wolfmann – og hver annarri – á einhvern dularfullan hátt. Ber þar hæst hippahatarann og rannsóknarlögregluna „Bigfoot“ Bjornsen (Josh Brolin), samkynhneigðan nýnasista, kókaínsjúkan tannlækni, heróínsjúklinga, „undercover“ uppljóstrara sem veit ekkert hvern hann er að vinna fyrir og aðra eins utangarðsmenn. Eins koma samtökin „The Golden Fang“ mikið við sögu en hvort þau eru viðskiptasamtök tannlækna, glæpahringur eða bátur er erfitt að segja til um.

Skáldsaga Pynchons, Inherent Vice, hefur almennt verið af bókmenntafræðingum talin ein af hans léttari bókum, samanborið við til dæmis Gravity‘s Rainbow, Mason & Dixon og Against The Day. En hún ber þó öll einkenni hans: stórskrýtnar persónur, jaðarkúltur af ýmsu tagi, frábær samtöl, samsæri, eiturlyf, vænisýki ásamt mjög grófum húmor. Bækur hans eru oftast taldar vera erfiðar aflestrar og kvarta sumir lesendur yfir að erfitt sé að fylgja söguþræðinum í bókum hans (eða greina nokkurn söguþráð yfirhöfuð.) Eru ýmsar ástæður fyrir því. Þær hafa stundum verið gagnrýndar fyrir að vera ofskrifaðar, svo mettað af bókmennta- og menningarvísunum og orðaleikjum er mál Pynchons. Einnig eru bækur hans oftast stútfullar af mörgum mismunandi söguþráðum og frásögnum sem tvinnast saman og í sundur á ólíkum köflum og tímabilum. Finna má aragrúa af persónum sem hoppa inn og út úr frásögninni án kynningar eða upprifjunar (Gravity‘s Rainbow hefur til dæmis fjögur hundruð nefndar persónur). Inni í þessu öllu saman er oft aðalpersóna sem veit lítið sem ekkert hvað er að gerast í kringum sig, einskonar leiksoppur ólíkra persóna og samtaka sem hvert hefur sína eigin áætlun eða markmið. Þessi óvissa um atburði bókarinnar smitast þannig yfir á lesandann sem sjaldnast hefur yfirsýn yfir atburði bóka Pynchons. Þær eru oft eins konar púsluspil sem gengur illa upp. Lesandinn greinir ótal tengingar og sambönd á milli hinna ólíku persóna og atburða en þær ganga aldrei upp í neina heildarmynd af atburðarrásinni.

Pynchon er vanur sökkva sér inn í tímabilið sem hann skrifar um, hvort sem það er átjánda öldin í Mason & Dixon (skrifuð með átjándu aldar stafsetningu og málfari í þokkabót), lok seinni heimsstyrjaldarinnar í Gravity‘s Rainbow, eða aldamótin nítján hundruð og árin fram að fyrri heimsstyrjöld í Against The Day. Í tilviki Inherent Vice er það lok hippatímabilsins sem Anderson sýnir í myndinni með nostalgískum blæ við ljúfan undirleik Neil Young og Sam Cooke. En þar sem bókin er að forminu til reyfari er Pynchon undir miklum áhrifum frá helstu höfundum þeirrar bókmenntagreinar, til dæmis Ross Macdonald og sérstaklega Raymond Chandler. Augljóst er líka af stílbrögðum og tóni myndarinnar að Anderson er undir miklum áhrifum frá sama höfundi í kvikmyndaformi, en Raymond Chandler vann stærstan hluta ævinnar við handritaskrif.

Mynd sem kemur strax upp í hugann við áhorf Inherent Vice er The Big Lebowski (Coen bræður, 1998), en báðar fjalla þær um grasreykjandi hippa sem álpast inn í flókið samsæri sem þeir botna lítið í. Líkindi þessara mynda má reykja til sameiginlegs forföður. Bæði Paul Thomas Anderson og Coen bræður eru miklir aðdáendur The Long Goodbye Robert Altmans frá 1973. Sú mynd er byggð á samnefndri skáldsögu Raymond Chandlers og fjallar um muldrandi einkaspæjarann Philip Marlowe (leikinn af Elliot Gould) sem álpast inn í flókið samsæri sem hann rétt nennir að fylgja eftir. Anderson hefur látið hafa eftir sér að ást hans á myndinni hafi verið ein af ástæðunum fyrir því að hann vildi kvikmynda bók Pynchons. Coen bræður hafa sagt í viðtali að The Big Lebowski sé í rauninni The Long Goodbye á röngunni. Mynd Altmans fjallar um gamaldags einkaspæjara í nútímanum á meðan að mynd Coen bræðra fjallar um The Dude, nútímamann sem slysast inn í gamaldags glæpasamsæri.

Philip Marlowe birtist í fleiri bókum Chandlers. Önnur og eldri kvikmyndaaðlögun, The Big Sleep (Howard Hawks, 1946) þar sem Humphrey Bogart leikur Marlowe, var samkvæmt Paul Thomas Anderson annar áhrifavaldur að ákvörðun hans að aðlaga bók Pynchons. Ekki er erfitt að greina líkindin en The Big Sleep, svipað og Inherent Vice, er almennt talin vera óskiljanleg, svo flókinn er söguþráðurinn í henni. Það hefur þó ekki háð henni því hún er þrátt fyrir það talin vera klassík og ein besta mynd Bogarts.

Inherent Vice er þannig gegnsýrð af gömlum reyfurum og rökkurmyndum. En á sama tíma gerir bókin og kvikmyndaaðlögunin uppreisn gegn formúlunni. Þetta sést einna best á aðalsöguhetjunni, en ólíkt hinum eldklára og harða Phillip Marlowe, virðist Doc Sportello sjaldnast vita hvað sé á seyði og er oftast að farast úr vænisýki. Viský og sígarettum er skipt út fyrir marijúana – og nóg af því – en án þess að hafa gert nákvæma rannsókn er ég nokkuð viss um að það sé varla eitt einasta atriði þar sem Doc er ekki annað hvort að rúlla eða reykja jónu. Plottið er einnig óhefðbundið fyrir þessa bókmennta- og kvikmyndagrein, en segja má að söguþráðurinn sem lagt er upp með, hvað varð um Mickey og Shöstu, fjari út fyrir rest. Í staðinn fyrir að söguhetjan komi upp um glæpinn, oftast með einhverri úthugsaðri flettu, eins og við væri að búast í hefðbundnum reyfara, snýr Shasta aftur í seinni hluta myndarinnar af sjálfsdáðum. „Hvarf“ hennar var víst bara misskilningur. Eins, þrátt fyrir að Doc finni Mickey fyrir rest, færist allur fókus af honum og frásögninni lýkur í óljósu móki og áhorfandinn getur ekki verið viss um að neitt mál hafi í rauninni verið leyst, hvað þá að Doc hafi leyst það. Myndin heldur því á vissan hátt í níhilisma rökkurmyndanna en bætir við stórum skammti af svörtum húmor. En það er ljóst að skáldsagan, og kvikmyndaaðlögun Andersons, er miklu meira en hefðbundinn reyfari.

Þrátt fyrir að Inherent Vice sé byggð á skáldsögu Pynchons er hún einnig hálfgert framhald af síðustu mynd Andersons, The Master frá 2012. Báðar myndirnar fjalla um tilvistarkreppu eftirstríðsáranna í bandaríkjunum, þegar þjóðin var ekki viss um hvert ætti að stefna í kjölfar þess að hún kom út úr síðari heimstyrjöldinni sem ríkasta og máttugasta heimsveldi mannkynssögunnar. Í The Master leiddi þessi óvissa til uppgangs falsspámanna líkt og Lancasters Dodd (en sú persóna er byggð á L. Ron Hubbard stofnanda vísindakirkjunnar og leikin af Phillip Seymour Hoffman), leiðtoga sem lofuðu öllu fögru og sannfærðu fylgjendur sína um að allt væri mögulegt og enn fremur að þeir hefðu svör við öllu. Það er ekki tilviljun að næsta mynd Andersons gerist á síðasta hluta hippatímabilsins, árið 1970, sem er má segja blálokin á þessu skeiði vonar og tilrauna, en nokkrum árum eftir atburði myndarinnar á Watergate hneykslið sér stað og á stóran þátt í að binda endi á það (en sá atburður, ásamt Nixon og 7. áratugnum, leikur stórt hlutverk í annarri skáldsögu eftir Pynchon, Vineland frá 1990).

Á sama tíma markar 8.áratugurinn – samkvæmt fræðimönnum eins og Robert Brenner[1] – upphafið af nýfrjálshyggjunni sem átti svo eftir að leiða til hrunsins 2008 og efnahagskrísunnar sem við súpum seyðið af í dag, en bók Pynchons kom einmitt út í skugga hrunsins. Myndin gerist rétt áður en hefðbundin framleiðslustörf voru lögð niður í stórum stíl, laun allra nema þeirra tekjuhæstu stöðnuðu með þeim afleiðingum að almennt launafólk byrjaði að safna skuldum til að halda sömu lífsgæðum og niðurskurður velferðarkerfisins, einkavæðingin og ójöfnuðurinn sem við sjáum í dag hófst. Þessi þróun átti svo eftir að stóraukast á Thatcher-Reagan tímabilinu á 9.áratugnum, en ræturnar liggja í áratugnum á undan, sérstaklega í olíukrísunni 1973.

Þessir atburðir eru í bakgrunni bókarinnar og fjallar Pynchon þannig um nútímann á lúmskan hátt eins og hann er vanur að gera í bókum sínum. Þetta sjáum við til dæmis í senu þar sem blökkumaður sem er nýkominn úr fangelsi leitar til Docs vegna þess að hverfið þar sem hann bjó er gjörsamlega horfið, því hefur verið rutt burt af fasteignasölum og bröskurum sem vilja byggja þar verslunarmiðstöð og lúxusíbúðir. Eins fjallar myndin um Mickey Wolfmann, fasteignasala sem vill bæta ráð sitt og gefa auðæfi sín til góðgerðamála, en einhver dularfull samtök auð- og glæpamanna koma í veg fyrir það með því að ræna honum og halda honum föngnum. Það eru einmitt kapítalistar sem eru aðalskúrkarnir og vinna að eyðileggingu samfélagsins bak við tjöldin. Í myndinni birtist Kalifornía því sem eins konar síðasti griðastaður annars konar lífstíls, rétt áður en peningarnir tóku öll völd og réðu niðurlögum hans. Þetta er gert skýrar í bókinni, en hún endar á bílalest á þjóðvegi í mikilli þoku, þar sem bandaríska þjóðin æðir blind áfram inn í dökka, óljósa framtíð. Anderson ákvað að breyta endinum lítillega en þessi undirtónar eru þó enn til staðar í myndinni.

„Inherent Vice“ er lögfræðilegt hugtak – á íslensku er talað um „eðlislægan ágalla“ – sem vísar til dulins galla eða skemmdar í eign sem getur leitt til hrörnunar eða eyðileggingu hennar. Þetta mætti skilja sem svo að Pynchon vilji meina að það sé einmitt í andkúltúrnum – sem Doc og vinir hans eru fulltrúar fyrir – þar sem rótina að núverandi ástandi má finna. Andkúltúrinn ber á vissan hátt ábyrgð á því að kapítalismanum var sleppt lausum þar sem hann var ekki nógu vel á varðbergi. Hinn eðlislægi ágalli liggur þannig með öðrum orðum nákvæmlega í frjálslyndi og tilraunastarfsemi 7. áratugarins. Þannig er kynslóðin sem boðaði frjálsar ástir og útvíkkuð hugarástönd í vissum skilningi samsek. Hún var þó ekki meðvituð um þennan eðlislæga ágalla þar sem hún var, eins og Doc, alltof freðin til að átta sig á því hvað væri í gangi.

Inherent Vice er drepfyndin og er það aðallega húmorinn sem situr í manni. En undir niðri er einnig viss sorgartónn. Glæpurinn sem myndin fjallar um virðist ekki vera hver rændi Mickey Wolfmann eða hvað varð um Shöstu heldur mun fremur: hver drap von 7. áratugarins?

[1]Brenner, R. (2009) „What is Good For Goldman Sachs is Good for America: The Origins of the Current Crises.“ Vefslóð: http://www.sscnet.ucla.edu/issr/cstch/papers/BrennerCrisisTodayOctober2009.pdf Sótt: 6/2/15