Spor – smásaga eftir Atla Bollason

Það gat líka orðið dimmt suður í löndum, og næturnar kaldar og hljóðar. Ef þú staðnæmdist á kvöldgöngu og horfðir niður þröngt húsasund og lagðir við hlustir mátti kannski heyra veikan þyt í kittkattbréfi sem skrapaði göturnar eða skrjáf í sængurveri útum opinn glugga, en það var næstum einsog að hlusta á grasið gróa: á endanum vissirðu ekki hvort hljóðin komu innan úr höfðinu á þér, hvort þetta var heilinn að marra eða gormarnir í dýnu ávaxtasalans. Á slíkum kvöldum brá máninn bláleitri birtu á húsaraðirnar sem voru hver annarri líkar, hálfskakkar að sjá og ekki mjög reisulegar þótt hér hafi verið hafst við í nokkur árhundruð, löguð súpa og horft á sjónvarp. Hellusteinarnir endurvörpuðu tunglsljósinu enda máðir og gljáandi eftir ágang milljón skóa, hver með sína sögu. Legðirðu lófann á steinana myndu þeir eflaust ylja þér. Það mátti allavega ímynda sér það.

Á breiðustu götum bæjarins voru málmspor greipt í jörðina. Tveir samsíða teinar sem höfðu einhverntímann verið rennisléttir og gljáð einsog gull en voru núna hrúðraðir og ryðbrúnir. Milli teinanna var örmjór skurður – sjálf sporin, vart þumlungur að dýpt – þar sem hafði nú safnast fyrir drasl: bjórtappar, kjúklingabein, drykkjarrör, plástrar. Á aðaltorginu komu sporin svo saman í undurfallegu mynstri þar sem hver línan skar aðra og maður þurfti að hafa sig allan við ef maður vildi ekki týnast, villast af leið og enda kannski norður við bæjarhliðið eða í garðinum hjá bakaranum þótt stefnan hafi verið niður að strönd og út í sjó eða bara að hlusta á öldurnar. Suma haustmánuðina gat maður stolist upp í klukkuturninn áður en myrkrið breiddi yfir hafið og bæinn og séð ofan frá hvernig sporin glitruðu gullin í lækkandi sólinni. Þá líktust þau helst fíbónakkísku fiskineti sem við ímynduðum okkur kannski að væri fullt af spriklandi sardínum. En sporvagnarnir gengu ekki lengur. Þeir höfðu ferjað þorpsbúa bæjarendanna á milli í áratugi áður en stríðið kom. Eða ‘skall á’ segir maður víst, einsog styrjöld sé loftsteinn eða flóð eða einhver að detta og meiða sig. Þá breyttist víst allt. Samt eltum við sporin, við gengum þau á enda og lærðum leiðir vagnanna þartil við kunnum þær utanað einsog þjóðsönginn.

Einn daginn höfðum við gengið lengi meðfram sporunum sem lágu frá lystigarðinum norðvestast í hlíðinni, undir gamla virkisveggnum og gegnum verkamannahverfin í vesturbænum, næstum niður að verbúðunum áður en þau sveigja til austurs og liggja framhjá kirkjunni, neðan við fiskmarkaðinn, yfir aðaltorgið og aftur upp hlíðina, skáhallt til austurs, framhjá kvennaskólanum og útsýnispallinum, meðfram kirkjugarðinum og kapellu vorrar frúar í áttina að gömlu lestarstöðinni… en það er einsog þau hafi aldrei náð þangað, teinarnir enda í miðri götu, þeir hverfa hreinlega einsog fólkið sem er grafið hinumegin við vegginn undir mosagrónum steinum. Í gær var það sprelllifandi, maríneraði fisk í tómötum og olíu og stráði ferskum kryddjurtum yfir, dreypti á rauðvíni meðan rétturinn var í ofninum; það settist út á svalir, andaði að sér sumarkvöldinu og dæsti yfir öllum litunum sem höfðu slest á himininn. Svo enda teinarnir bara, vagninn kemst ekki lengra. Allir út.

Við vorum komin alla leið að kirkjugarðinum, fjögur saman. Hitinn ætlaði að kæfa okkur, flugnasuðið var ærandi, og stundum virtust sporin næstum bráðin í gegnum tíbrána. Trén innan við kirkjugarðsvegginn skýldu okkur fyrir skæðasta sólarljósinu og máluðu margræða skugga á götuna sem dönsuðu lítið eitt í golunni. Eitt okkar hafði gripið trjágrein sem lá undir veggnum og skóf upp úr sporinu milli teinanna með henni. Það var einsog angan aldanna gysi upp þegar röku grasinu og moldinni og hundaskítnum var rótað upp á götu í örmjóum, kubbslegum ræmum svo ég fitjaði upp á nefið. Við gengum sporin allt út á enda þar sem þeim sleppti, ekki langt frá kirkjugarðshliðinu. Einhver spurði afhverju þau hafi endað hér en það átti enginn svör. Það var fyrir okkar tíma, í öðrum heimi, fyrir stríð, heil ísöld að baki, vargöld meiraðsegja og engin leið að skilja það. Hitinn kom illa við Alexander og hann strauk sér pirraður um úfið hárið. Matthías mundaði trjágreinina og bankaði henni kæruleysislega við molnað malbikið, annarshugar. Ég góndi niður fyrir mig, á sporin hverfa undir skóna mína. Hér endar það þá, hugsaði ég: undir slitnum strigaskóm. María hafði rölt í burtu, lengra niður eftir stígnum og í áttina að hafinu sem glitraði einsog dansandi silkiþræðir aftan við silúettuna af henni. Hún var alltaf ýmist rétt á undan okkur eða rétt á eftir, heltekin af hugsunum sem við myndum eflaust aldrei skilja.

Hún sneri sér við og hvíslaði eitthvað og veifaði okkur að koma. Sjáiði, hvíslaði hún – og úti við endann á kirkjugarðsveggnum sat maður á bekk og hvíldi sig í skugganum. Þetta var gamall maður í fallegum en snjáðum einkennisbúningi, dökkbláum einsog hann væri kannski flugþjónn eða starfsmaður á fínu hóteli. Hnapparnir voru nýpússaðir og gljáðu einsog silfrað hár mannsins sem hann hafði greitt í nokkra þykka lokka sem náðu aftur á hnakka. Hann sat með hendur í skauti og horfði fram fyrir sig ögn niðurlútur einsog hann væri líka að velta teinunum í götunni fyrir sér og þyrfti því að halla höfðinu fram. Það var ró yfir honum.

– Þetta er gamli sporvagnastjórinn.

– Hvernig veistu?

– Bara. Það vita það allir.

Við staðnæmdumst og stóðum öxl í öxl við hliðina á Maríu og horfðum í áttina til hans. Stafur úr gljápússuðum kirsuberjaviði hallaði að bekknum þar sem hálfetin samloka lá í bréfpoka. Hann virtist ekki taka eftir okkur. Ég leit á Matthías og María leit á mig og Alexander góndi bara áfram. Við vissum ekki hvort við værum að trufla ef við héldum áfram.

– Hann er klikkaður. Snarbilaður.

– Hvernig þá?

– Löngu eftir að vagnarnir voru hættir að ganga þá mætti hann samt á skiptistöðina niðri í bæ á hverjum morgni og stimplaði sig inn. Sat svo aleinn og þambaði kaffi allan daginn og hlustaði á útvarpið og beið eftir að bjöllunni yrði hringt og það væru vaktaskipti. En auðvitað gerðist aldrei neitt. Einn morguninn var búið að negla fyrir hurðina og gluggana en hann hélt samt áfram að koma og borðaði nestið sitt á tröppunum í einkennisbúningnum og beið bara einsog asni. Svo talaði einhver við hann, einhver frá bænum eða sýslumanni eða eitthvað og þá hætti hann loksins að koma. Þetta er rugludallur.

– Þú ert að plata.

– Nei. Þegiðu. Pabbi sagði mér þetta.

Þögn. Og þess á milli: Flugnasuð, fuglasöngur og másandi andardráttur Alexanders í svækjunni.

Orðalaust gekk María aftur af stað, löturhægt. Hvað ertu að gera, hvíslaði Matthías æstur á eftir henni. Hnésíður kjóllinn sveiflaðist einsog nýklipptur hártoppurinn þegar hún leit yfirveguð um öxl án þess að svara. Enginn grallarasvipur, engir prakkarastælar; hún horfði bara til baka eitt augnablik og leið svo áfram einsog hún byggi yfir einhverri visku sem okkur skorti, einhverri óskiljanlegri og örugglega kvenlegri fullvissu. Þessi mynd brenndi sig í unga augnbotnana: María í sólleitum kjól með sprungna veggi kirkjugarðsins á aðra höndina og aflíðandi hlíðina á hina, ólífutré á stangli og laufgræn gresjan sem hverfur í sjóðandi mistur og storkin rykský, svo vegurinn sem hlykkjast niður að strönd og óendanlegur silfurblámi hafsins milli tveggja sandbrúnna kletta, einsog sjóblautur fjársjóður milli sólbrúnna læra. Og gamli sporvagnastjórinn einhversstaðar aftan við hana, úr fókus, líkastur lekandi vaxmynd af sjálfum sér, útbrunnu kerti.

Hún gekk alveg að bekknum og tók varlega upp samlokuna sem þar lá um leið og hún horfði stíft á manninn. Hún beið þess að hann sýndi einhver viðbrögð en það gerðist ekki neitt. Þá stakk hún brauðinu upp í sig og tók stóran bita. Við sáum bara baksvipinn á henni, en meðan hún stóð þarna ímyndaði ég mér að hún tyggði brauðið sviplaus í rólegheitum, merði saman brakandi bagettuskorpu við tómata og ögn súra skinku og piparrótarsósu með háum smjatthljóðum. Hún tuggði áfram og þegar maðurinn leit loks upp og sneri höfðinu ofurlítið til að sjá framan í hana þá fletti hún kjólnum upp um sig að framan með vinstri hendi og hrópaði oj perri!, grýtti afgangnum af samlokunni á jörðina við fætur mannsins og kom hlaupandi til okkar, skellihlæjandi. Við tókum öll til fótanna, María fremst og Alexander aftastur, og leyfðum sporunum í götunni að vísa okkur veginn aftur niður í bæ. Gamli maðurinn sat eftir og þegar ég leit um öxl eftir nokkur skref sýndist mér vera sorg í augunum á honum og þá var einsog einhver hefði slökkt í sígarettu í hjartanu mínu.

Við pústuðum ekki fyrr en við vorum komin að fiskmarkaðnum. Lyktin var vond svo við héldum fyrir nefið og reyndum að ná andanum gegnum munninn. Í ísi lögðum körum lágu fiskarnir í hrönnum og störðu út í heiminn svörtum augum. Mér fannst þeir glápa á okkur, fjóra andstutta krakka með sitthvað á samviskunni og æpandi eilífðina allt í kringum okkur.

– Djöfull var þetta fyndið! sagði Matthías og hló.

María roðnaði og brosti svo án þess að það næði til augnanna; einsog augu fiskanna voru þau annarsstaðar.

– Gamli ógeðslegi karl, bætti hann við.

Mig sveið enn í hjartað, ekki undan hlaupunum heldur vonleysinu sem ég þóttist nú hafa greint í tilliti sporvagnastjórans og brenndi mig einsog glóð. Hann hafði horft á mig skilningssljóum augum einsog til að spyrja hvers vegna við létum svona, hann hefði bara verið að hafa það notalegt í hitanum, og hvað varðaði okkur krakkabjálfana svosem um það? Allt í einu fylltist ég viðbjóði á Maríu; mjúkir andlitsdrættir hennar og kaffibrúnir leggirnir vöktu með mér djúpa ógleði og sama gilti um glottið sem guð hafði handmálað framan í Matthías. Ég umlaði óljósa afsökun, sagðist þurfa að fara heim, og lét mig hverfa. Um leið og ég var úr augsýn byrjaði ég að hlaupa. Ég hljóp í einum spretti alla leið niður í bæ og inn í hellulagt sund þar sem ég lagði ennið upp að svölum húsvegg og kastaði upp. Meðan ælan lak niður milli hellusteinanna mátti heyra í rottunum undirbúa kvöldmatinn innst í sundinu.

* * *

Skiptistöðin hafði staðið við aðaltorgið, hún var fremst í þríhyrndu húsi og samanstóð ekki nema af einu herbergi, ílöngu og trapísulaga, með dyrum á skemmstu hliðinni, stórum gluggum á langhliðunum og panelklæddum vegg aftast. Á honum var önnur hurð og þar fyrir innan klósettið og lítið búr þar sem kaffið var alltaf geymt. Undir gluggunum hafði fólk setið í áraraðir og beðið þess að komast í fiskbúð eða á listasafn eða undir sæng þar sem hold mætti holdi. Á meðan höfðu vagnstjórar í pásu drukkið rótsterkt kaffi úti við vegg og óskað þess að helvítis tíminn hægði á sér svona einusinni meðan þeir fægðu af rælni skjaldarmerkið framan á húfunni eða ofan á brjóstinu. Fyrir ofan útidyrnar að utanverðu var felld inn í steinsteypuna stór og mikil klukka sem þótti örugglega nýtískuleg einhverntímann en gekk ekki lengur, ekki frekar en sporvagnarnir sem hún átti að segja til um hvenær kæmu og færu. Ég speglaði mig í löngum rúðunum og virti fyrir mér úrvalið í minjagripaversluninni sem var þarna núna: litlir pappírsfánar á plaststöngum, krúttlegir bangsar í bolum merktum bænum, líkan af kirkjuturninum, kúlur sem var hægt að hrista svo snjónum tók skyndilega að kyngja niður á aðaltorginu þótt enginn myndi reyndar til þess að það hefði nokkru sinni gerst.

Ég gekk inn þótt mér væri enn hálfbumbult. Í næstum himinháum rekka voru myndir af rústunum ofan við bæinn prentaðar á póstkort. Þar voru líka margar myndir af ströndinni, einsog hún leit út einhvern daginn þegar bæjarbúar höfðu allir ætlað að vinna bug á hitanum með því að synda út í víkina, og önnur þegar enginn hafði orðið eftir nema tveir elskendur sem sátu hlið við hlið og horfðu í sólarlagið, skuggamyndir á rauðgulum grunni. Ég sneri rekkanum og enn fleiri myndir birtust, þarna brostu þrjár sóldýrkandi vinkonur í bikiníi til ljósmyndarans, þarna var búið að teikna kall sem veifaði fána og undir var skrítla á ensku.

– Get ég aðstoðað þig, ‘skan?

Ég hætti að snúa kortarekkanum og stakk höndunum ósjálfrátt í vasann og horfði flóttalega yfir búðarborðið sem hafði verið komið fyrir aftast í rýminu. Afgreiðslukonan var ósköp góðleg að sjá en ég þagði samt. Hún var tiltölulega ljós yfirlitum með áberandi fæðingarblett á annarri kinninni, næstum svartan og ögn upphleyptan, og það stirndi á silfurhjarta sem kúrði sig ofan í sólhrukkaða bringuna. Hún horfði á mig stórum brúnum augum um stund áður en hún blikkaði þeim í þrígang, leit út um gluggann, dró djúpt andann og fletti dagblaði með stórum myndum og fyrirsögnum í hástöfum. Meðan hún las nuddaði hún hjartað milli þumals og löngutangar. Ég gekk meðfram kertastjökum og lyklakippum og áprentuðum glösum og kaffikrúsum, stuttermabolum og æfingabuxum úr bómull og tók hitt og þetta upp, þreifaði á því eða hristi það lauslega. Þarna var spiladós sem spilaði lag um mann sem er svo ástfanginn að tunglið minnir hann á pizzu. Ég sneri sveifinni og bar dósina alveg upp að eyranu en tónarnir voru samt ógreinilegir.

– Sjáðu.

Afgreiðslukonan stóð alltíeinu fyrir aftan mig með aðra höndina útrétta meðan hin nuddaði hálsmenið. Ég rétti henni spiladósina og hún lagði hana á borðið, hélt varlega um kantana og mér fannst einsog hún þrýsti henni niður í viðarplötuna. Hún sneri sveifinni hægt með vinstri hendinni og nú ómaði lagið hátt og skýrt, fyrst löturhægt og hikandi en svo hraðar og með fastari takti. Laglínan var kunnugleg; ég ímyndaði mér að osturinn drypi af tunglinu, það var girnilegt en ég fann samt til sorgar innan í mér. Hún trallaði með og brosti til mín áður en hún setti spiladósina aftur á sinn stað. Ég fylgdi henni að afgreiðsluborðinu en vissi ekki hvað ég átti að segja svo ég opnaði bara munninn og byrjaði að tala:

– Þessi búð var einusinni biðstöð. Fyrir kallana sem keyrðu sporvagnana og líka fyrir þá sem voru að bíða.

– Já. Mikið ertu klár! Hefurðu gaman af sporvögnum? Sérðu vagnana þarna? Undir sokkunum?

Í hillunni fyrir aftan mig voru tvenns konar líkön af sporvögnum. Önnur gerðin var á lengd við höndina á mér og úr harðplasti. Vagninn var dökkgrænn að neðanverðu og stórir gluggarnir voru einsog litlir speglar sem höfðu verið límdir á plastið. Hurðirnar voru fastar en lítil hjól undir vagninum snerust. Þakið var fallega brúnt og með viðaráferð einsog bakveggurinn í búðinni. Ég renndi fingrunum yfir vagninn og fann fyrir hverri ójöfnu, meiraðsegja hurðarhúnninn var ögn upphleyptur, og það var skemmtilegt að klemma straumsnertuslána milli fingranna.

Hin gerðin var miklu minni. Sporvagninn rúmaðist allur í lófanum á mér. Hann var úr ögn mýkra plasti – eða var þetta hart gúmmí? – og var einsog tvívítt en þó nokkuð þykkt líkan af sporvagni. Það var ónákvæmt, lítil gleði fyrir fingurna, en vagninn var gulur og rauður og fallegur á að horfa. Úr honum lá stutt keðja með málmhring á endanum.

Ég leit til hennar. Hún brosti til mín yfir búðarborðið og ég fann daufa ilmvatnsangan. Mér líkaði þessi lykt. Þetta var falleg kona. Þetta var góð kona. Hún hallaði sér fram.

– Ef þú segir engum, þá máttu eiga þennan litla.

Það tók mig augnablik að skilja hvað konan hafði sagt en um leið og ég áttaði mig á því hvarf ógleðin og sorgin í skyndingu. Hvílík heppni! Ég herti fingurna utan um vagninn og horfði vantrúaður á hana.

– Það borgar sig að vera góður strákur, sagði hún, deplaði augunum þrisvar og hélt áfram að fletta blaðinu.

* * *

Ég sá móta fyrir Alexander og Matthíasi við skurðinn framundan svo ég fór út af sporinu og niður moldarstíg sem lá inn í skóginn. Það síðasta sem mig langaði var að hitta þá og svara spurningum um litla gúmmísporvagna og stelpur í sumarkjólum og góðhjartaðar konur með silfur milli brjóstanna og samlokur sem lágu ormétnar við fætur gamalla manna. Mig grunaði að þeir hefðu séð mig svo ég stóð grafkyrr um stund og hlustaði eftir fótataki. Þögnin umvafði mig. Sólin kom grænleit gegnum laufskrúðið. Maurar ferjuðu rifin blöð yfir stíginn í löngum röðum. Býflugur hlussuðust milli blóma. Gróðurlyktin var þung í loftinu, blanda af rotnandi laufbotni skógarins, útsprungnum rafflesíum og bjöllublómum og grasi og mosa, deyjandi trjáberki og dauðum skordýrum.

Eftir nokkrar mínútur þóttist ég viss um að strákarnir hefðu ekki séð til mín og án þess að hugsa um það losaði ég takið á sporvagninum og velti honum yfir í vinstri lófa. Mig verkjaði í hægri lófann undan hörðu gúmmíinu og höndin var orðin náhvít enda hafði ég kreppt hana af alefli allt frá því að dyrnar að versluninni skullu aftur á bakvið mig. Gleðin yfir gjöfinni hafði sópað allri eftirsjá og ónotum morgunsins í burtu en nú hafði ég tóm til að hugsa og þá sótti efinn á mig. Þetta var óneitanlega grunsamlegt. Hvers vegna hafði konan eiginlega gefið mér þennan vagn? Hún hlaut að vita hvað hafði gerst. Hún hafði séð eitthvað í augunum á mér, hvernig ráð þeirra seig alltaf suður fyrir silfurhjartað eða hvernig ég mátaði andlit hennar við skuggamynd stúlku með pilsfaldinn í lófunum. Myndi hún fletta upp um sig kjólnum og kalla mig perra næst þegar ég kæmi í búðina? Klípa svo í eyrað á mér og rassskella mig og kalla mig smábarn fyrir að gleðjast svona yfir einhverri andskotans lyklakippu? Þetta var vond kona en kannski líktist hún Maríu undir kjólnum. Það borgar sig að vera góður. Þetta var góð kona og kannski líktist hún Maríu undir kjólnum …

Ég sat dágóða stund á mosagrónum trjádrumbi og reyndi að róa hugann sem var á stanslausum þeytingi milli skelfingar og löngunar. Mér leið einsog það væri verið að draga mig upp í rússíbana. Maginn var fiðrildafullur og allt í kringum mig þetta iðandi líf og dauði, á skógarbotninum og í himninum og í buxunum. Myndin af Maríu í kjólnum var brennimerkt í vitund mína og hláturinn þegar hún kastaði frá sér samlokunni og kom hlaupandi endurómaði í höfðinu á mér. Augnaráð gamla mannsins var í minningunni orðið að kviksjá hundrað tilfinninga og ég var hálfpartinn farinn að efast um að hann hefði raunverulega setið þarna. Af hverju hefði hann líka átt að sitja þar, þessi gamli karl? Vildi hann vorkunn okkar? Var hann þess vegna svona einn og klikkaður og uppáklæddur í hitanum? Hafði hann ekki horft ósæmilega á Maríu, hafði ekki brugðið fyrir einhverju í augunum á honum? Þetta var perri, þessi ógeðslegi karl. Við vorum ógeð báðir tveir og sæðisdropinn sem gljáði nú í síðdegissólinni á röku, frjóu skógargólfinu milli fóta mér var sönnunin. Ég kreppti lófann aftur utanum litla sporvagninn svo fennti yfir hnúana. Svo nagaði ég og sleikti hvítar kjúkurnar milli þess sem ég renndi þeim eftir tanngarðinum í rólegum takti. Fiðrildin flögruðu enn í maganum á mér en ég fann þau setjast eitt af öðru og spenna litríka vængina milli líffæranna svo mig kitlaði.

* * *

Karlinn sat ekki lengur á bekknum þegar ég kom þangað. Ég hafði viljað sjá hann aftur og segja eitthvað við hann. Fyrirgefðu kannski. Eða fokkaðu þér. En nú var hann farinn og kannski hafði hann aldrei setið þarna. Ég settist á bekkinn og sá grilla í samlokuna undir sætinu. Hún var þó raunveruleg. Nú voru það hinsvegar þúsund maurar sem gæddu sér á henni, þúsund maurar með majónes út á kinn sem ropuðu í kór og hlutuðu svo brauðið sundur ögn fyrir ögn og fóru með heim til sín svo allir gætu notið þess saman. Ég leit í kringum mig og ímyndaði mér að ég hefði sjálfur setið þarna í dag. Ég horfði yfir að staðnum þar sem sporin enduðu, þar sem við höfðum staðið fjögur saman öxl í öxl og glápt á manninn. Þetta voru sporin sem hann hafði ekið eftir í áratugi, áður en stríðið kom og svo peningarnir og loks bílarnir, áður en karlinn gekk úr sér og gylltu saumarnir í einkennisbúningnum tóku að rakna upp. En þarna voru engin fótspor svo greina mætti. Það var engin leið að finna hann núna.

Sólin var að setjast meðan ég gekk áfram eftir stígnum og hún fékk rykskýin sem ég þyrlaði upp til að glóa fallega, þau vörpuðu gegnsæjum skuggum á götuna eitt andartak áður en þau leystust sundur og hurfu. Ég hafði ekki gengið lengi þegar ég sá þúfu í grasinu sem vakti athygli mína. Ég fór af stígnum og út á þurrt grasið sem stakk í fæturna. Það var sérkennileg lykt í loftinu sem ég reyndi að átta mig á hvaðan kæmi. Þegar ég kom nær sá ég að þetta var hundur. Hann lá grafkyrr með munninn hálfopinn; tennurnar beraðar í stirðnaðri grettu. Það var á honum ryklag svo feldurinn hvarf sjónum og dýrið fékk á sig óraunverulegan eintóna blæ því örfínt rykið huldi alla skugga og misfellur. Útlimirnir voru beinstífir og ögruðu þyngdaraflinu. Skorpin ásjóna hans minnti meira á vaxmynd en hund sem var nokkurntímann af holdi og blóði. En svo sá ég maðkana. Til að byrja með tók ég ekki eftir þeim því þeir voru eins á litinn og rykið en svo varð ég var við hreyfinguna. Ég skynjaði hana fyrst ómeðvitað, svo hafði ég óljósan ávæning af einhverskonar skriði eða flökti, dansi jafnvel, áður en ég sá loks maðkana sjálfa þar sem þeir engdust um hljóðlaust einsog hver og einn þeirra liði ónefnanlegar vítiskvalir. Og þá fyrst fann ég lyktina. Þegar raunveruleiki þessa hálfrotnaða hunds varð mér ljós fylltust vit mín af nálykt og ógleðin hvolfdist yfir mig á ný. Höndin seildist hugsunarlaust í vasann og ég greip þéttingsfast utan um sporvagninn og strauk hann með þumlinum um leið og ég reyndi að ná stjórn á önduninni. Ég gat ekki haft augun af hundinum þótt mig langaði ekkert frekar en að hlaupa í burtu. Augu hans læstu sér í mín og við störðum hvor á annan, hann handan eilífðarinnar en ég fastur undir brennandi sólinni. Hún nálgaðist nú hafflötinn í fjarska og bleikti allt sem fyrir geislum hennar varð.

Eftir nokkra stund gekk ég tilbaka, framhjá bekknum og samlokunni og meðfram sporunum. Svo beygði ég til vinstri og fetaði mig inn um kirkjugarðshliðið. Skuggar krossanna voru langir og skrælnuð blómin sem lágu við sum leiðin virtust geta orðið að ryki og sópast burtu hvenær sem var. Ég fór ekki langt inn í garðinn heldur hélt mig nærri veggnum og horfði yfir krossana, legsteinana og grafhýsin næst miðjum garðinum. Eftir því sem ég gekk lengra meðfram veggnum breyttust myndirnar sem skuggarnir máluðu og það þurfti ekki mikið ímyndunarafl til að sjá stytturnar hvarfla augunum eða skilja að leggina og þá var maður í huganum kominn hálfa leið að marserandi styttum sem arka um með alvæpni og steingera allt sem fyrir þeim verður. Ég hristi slíka óra af mér og hélt út í horn þar sem ég lét fallast á hnén, rétti úr fingrunum og stakk þeim ofan í þurra jörðina einsog skóflu. Ég sleit rætur grasanna sundur og fann svalandi kulda jarðvegarins. Það var þægilegt að finna moldina þrýsta sér undir neglurnar. Ég skóflaði upp lúkufylli og réðst svo aftur á holuna sem iðaði nú af áður ósýnilegu lífi; ánamaðkar og bjöllur af öllu tagi flúðu ýmist uppum þetta opna sár eða grófu sig dýpra í það, þetta var kirkjugarður og væntanlega nóg að bíta. Þegar ég hafði grafið svolitla holu dró ég sporvagninn upp úr vasanum. Hún hafði gefið mér hann og ég þurfti ekkert að gera í staðinn. Þetta var góð kona. Ég lagði vagninn í holuna og fyllti svo aftur af sandi og mold og þjappaði vel. Hér skyldi hann fá að hvíla. Á leiðinni heim reyndi ég að halda mig á sporunum í götunni með því að taka bara hænuskref, hæl við tá, tá við hæl. En myrkrið kom hratt eftir að sólin hvarf í hafið svo ég þurfti brátt að haska mér og tók til fótanna.

* * *

Við vöknuðum við skröltið. Fyrst var það ofurlágt, einsog vatn í pípu, einhver að sturta niður í næstu eða þarnæstu íbúð, eða regn sem fellur hinumegin við fjallið. Það barst lengst ofan úr hlíðinni og endurómaði gegnum strætin og virtist bara magnast við hvert horn sem það reyndi að fara fyrir. Alls staðar var bergmál svo hljóðbylgjurnar lögðust hver á aðra og skarkalinn ágerðist hratt; hljóðið var einsog skriða sem barst niður strætin og hrifsaði til sín öll önnur hljóð í nóttinni. Öskutunna sem valt á hliðina, breimandi kettir og spangólandi hundar, hvellir smellir í röku laki á snúru, áldós sem rúllaði á eftir kittkattbréfi í vindinum: öll soguðust þau inn í skröltið sem ómaði nú einsog vaxandi þruma ofan við bæinn.

Ljós tóku að kvikna í gluggum bæjarins. Birtan streymdi röndótt útum gluggahlerana um stund áður en þeir opnuðust og við gægðumst út eitt af öðru. Gnýrinn kom augljóslega utan úr nóttinni og hann jókst bara. Sem meira var, þá var einsog hljóðinu fylgdi ljós. Einhversstaðar í hlíðinni birtist bjarmi og efstu húsin í bænum voru brátt böðuð flöktandi ljósi. Í tungllausri nóttinni var meiraðsegja lítið mál að greina einn og einn neista. Þetta var bál og það færðist nær. Nú fundum við reykjarlyktina, daufa angan sem minnti á endalausa daga á ströndinni þegar teygt er úr deginum með því að kveikja í spreki.

Og þarna kom sporvagn niður götuna í ljósum logum. Hjólin sátu þung í sporunum og ruddu frá sér drasli liðinna áratuga. Vagninn var alelda og ekki var að sjá að neinn væri við stýrið. Við þustum út á götu þar sem höfðu þegar safnast fyrir silkiklæddir afar með nátthúfur og bleyjuklædd börn sem grétu í örmum mæðra sinna. Krakkar með rauðgul andlit hlupu með vagninum þar sem hann geystist niður strætin og reyndu að yfirgnæfa alltumlykjandi gnýinn með barnslegum hrópum sínum. Loks hægði vagninn ferðina og staðnæmdist á torginu, ekki langt frá skiptistöðinni. Hann logaði þar einsog varðeldur og varpaði bjarma og risavöxnum dansandi skuggum á kirkjuna og pósthúsið og marmarasúlur bankans. Eldurinn speglaðist daufur í gljáðum hellusteinunum og sporin sem lágu þvers og kruss um torgið glóðu einsog brennheitir vírar í svartri nóttinni.