Ritstjórnarpistill: Hvað er fegurð?

„Fegurðin er sjálfstæð höfuðskepna“, sagði Halldór Laxness í frægum ritdómi um Fögru veröld Tómasar Guðmundssonar „Hún er takmark. Um hitt er barist, hvort margir eða fáir eigi að njóta fagurra hluta. Að sögn Maxims Gorkis gekk Lenin út í miðjum saungleik vegna þess að fegurðin og snildin minti hann aðeins á hve mikla baráttu hann átti eftir óháða áður en fjöldinn, hinir umkomulausu, öðluðust þann rétt, það uppeldi og það næði sem útheimtist til að geta notið fagurra hluta.“

Eftir uppreisnasögu 20. aldar virtist fegurðin – að minnsta kosti tímabundið – utan gátta í heimi lista. Dadaistar og fútúristar sögðu henni stríð á hendur, borgaraleg menning var höfð til háðs og þeir sem sinntu fegurðinni voru kannski fyrst og fremst þeir sem tilheyrðu valdinu og slekti þeirra: hverfandi aðall, borgarastétt, heimsvaldasinnar og fasistar. Og ekki að ástæðulausu, máttur fegurðarinnar til sefunar og svæfingar er alþekktur – og máttur hennar til að vekja með fólki ástríðu fyrir réttlæti jafnt sem óréttlæti ótvíræður. Fyrir hana rákust menn út í dauðann, fyrir hana frömdu þeir og réttlættu marga hrottalegustu glæpi mannkynssögunnnar. En var það fegurðinni að kenna? Vakti hún ekki einnig með manninum aðrar kenndir – kveikti með honum ást jafnt sem hatur?

Margt bendir til þess að fegurðarkrafan sæki á að nýju – og henni er jafnvel teflt fram sem þess konar takmarki sem nóbelsskáldið nefndi. Í nýlegri grein á Reykvélinni, vefriti leikhúsfólks, sagði rithöfundurinn Snæbjörn Brynjarsson sem dæmi að við lifðum ekki á tímum sem krefðust pönks, við lifðum á tímum sem krefðust fegurðar „til að göfga mannsandann“. En hvað er fegurðin og hvað þýðir þetta – að göfga mannsandann? Gerir hún það?

Einn stærstu viðburða á komandi Listahátíð verður flutningur á leikverki Ragnars Kjartanssonar, Der Klang der Offenbarung des Göttlichen, sem byggt er á Heimsljósi HKL. Þetta er frumflutningur á Íslandi, en verkið var fyrst sett upp á Volksbühne í Þýskalandi. Í dómi um verkið, sem birtist á Starafugli, sagði leikskáldið Símon Birgisson meðal annars að fegurð þess hefði farið þvert ofan í marga Þjóðverja, þar sem fegurðin væri tabú eftir meðferð Þjóðverja á henni. Bætti hann svo við að sér þætti líklegt að á Íslandi yrði „fegurðardýrkun sýningarinnar […] allsráðandi og verkinu hampað sem dýrkun á íslenskum gildum“. 

Hvað er fegurð? Hver er tilgangur hennar? Er hún hættuleg? Hvar er fegurðina að finna – er hún líka í hinu groddalega? Í sársaukanum? Eigum við hana skilið? Þarf maður að vinna fyrir henni? Þegar við stöndum frammi fyrir spurningum um fegurðina verður oft lítið um svör. Við tökum henni einfaldlega sem gefinni. Hvers vegna ætti fegurðin að þurfa að sanna sig? Hvað á hún að sanna?

Þetta er opið kall til sextán listamanna – þeir geta tekið allt sem hér er nefnt til greina eða hunsað hvert einasta orð. Beiðnin er einföld og reglurnar engar: Lýstu afstöðu þinni til fegurðarinnar. Svarið má vera eins stutt eða langt og viðkomandi sýnist. Ekki verður gefið upp hvaða listamenn eru spurðir, það kemur einfaldlega í ljós hverjir svara – en í valinu var leitast við að finna fólk úr ólíkum listgreinum, á ólíkum aldri, af ólíkum uppruna, jafn marga af hvoru kyni og síðast en ekki síst: með ólíka fagurfræði.

Svör verða birt á Starafugli, eitt á dag af þeim sem berast, frá 31. mars og þar til öll móttekin svör eru fram komin.