Yrsa kemur ekki á óvart: Fólk vill fá sín morð

Um Brúðuna eftir Yrsu Sigurðardóttur (1963). Veröld gefur út. 2018. 359 blaðsíður. Verkið er það fimmta í röðinni með rannsóknarlögreglumanninum Huldari og sálfræðingnum Freyju hjá Barnahúsi í aðalhlutverkum. Það fjórða kom út 2017.

 

 

Bók kemur út eftir Yrsu Sigurðardóttir. Bókin heitir Brúðan. Bókin virðist glæpasaga. Bókin er það sem hún virðist vera. Yrsa Sigurðardóttir virðist einkum skrifa glæpasögur, krimma. Hún skrifar einnig draugasögur, sögur þar sem yfirnáttúrulegir hlutir virðast eiga sér stað. Bækur Yrsu seljast vel, hún nýtur mikilla vinsælda. Bækurnar sýnast vel til þess fallnar að kenna miðmynd sagna (þolmyndarmerkingin á oft við). Virða-st virðist vera uppáhaldssögn verka hennar.

 

Einnig. Hún, líkt og fleiri í hennar geira, notast við samtímaviðburði eða það sem ofarlega er á baugi í samfélagsumræðunni um það leyti sem verk er skrifað. Auðvitað er glæpur framinn, morð. Oftar en ekki blóðugt morð eða blóðug morð. Inn í rannsóknina eða frásögn af rannsókn fléttast samfélagsmál. Móðins er að skrifa glæpasögur með sömu persónu eða persónum. Þannig verða skáldsagnapersónurnar að góðkunningjum lesenda, lesendur vita nokkurn veginn við hverju má búast og til að ekki þurfi að lesa öll fyrri verk til að vera með á nótunum er nokkuð um upprifjanir (svona eins og í þessari grein). Lesendur fá og sinn skammt af ofbeldi og morðum, skammt sem kemur kunnuglega fyrir sjónir. Stíll þessara verka er einnig iðulega svipaður, fremur flatur, einhæfur og blátt áfram, oft skorinorður og notast er, á tíðum, við ankannalegra viðlíkingar. Lítið um stílleg tilþrif. Aðaltakmarkið er að skapa spennu sem fær lesandann til að vilja lesa áfram, gefa í skyn, hálfsögð saga uns síðan allt smellur saman í lokin og það er fullkomnað.

 

 

Bókin hefst á trilluferð ekkjunnar Dísu og Friðriks hlédræga sem trillunni stýrir. Þau eru vinnufélagar. Rósa, ellefu ára dóttir Dísu er með í för. Veiðiferð á Faxaflóa. Fátt veiðist annað en ófrýnileg brúða sem mæðgurnar taka með sér heim.

 

Brúðan hafði bersýnilega verið lengi í sjónum. Hún var alsett hrúðurköllum, hvítum ormum og öðrum smáum lífverum sem Dísa kunni ekki að nefna. Um hálsinn bar brúðan fíngerða keðju en það sást ekki hvað hékk í henni því menið sjálft var hulið lífverum sem voru eins og skjöldur um bringuna. Annað augað var horfið og augntóftin tóm. Hitt starði glansandi á þau undan augnloki sem virtist geta lokast ef hún legðist út af. Augnhárin voru gisin og mestu horfin. Sömuleiðis hafði hluti af hárinu dottið af og skilið eftir sig göt sem lágu í skipulegum röðum eftir höfðinu. Það hár sem eftir stóð var dökkt og í einni þæfðri flækju. Ekkert við hana var sætt eða krúttlegt. (bls. 13)

 

Um kveldið fær Dísa óvænta heimsókn. Morguninn eftir kemur Rósa að móður sinni látinni á baðherbergisgólfinu, brúðan er horfin. Rósa er sannfærð um að móðirin hafi ekki látist af slysförum þótt sú virðist raunin. Rósa telur að andlátið megi tengja brúðunni. Lögreglan er á öðru máli. Draugasaga? Nei, glæpa- eða morðsaga.

 

Fimm árum seinna í maí (ýmislegt bendir til þess að árið sé 2018). Abby og Lenny eru stödd á Spáni í inferno-hita. Þau fá óvænt tækifæri til þess að fara til Íslands, fá ferðina frítt frá manni sem átti miða til Íslands sem hann ætlaði ekki að nota. Auk þess fengu þau tjald. Á Ísland komin  halda þau í flýti út á landi, tjalda þar á landareign bónda í leyfisleysi eins og sumra túrhesta er siður. Gefið er svo í skyn að ráðist sé á þau. Daginn eftir er tjaldið mannlaust og virðist vera þar blóð að finna.

 

Þar var enginn. Tjaldið var mannlaust. Fullt af drasli og útilegubúnaði en þarna var ekki hræða. Miðað við umgengnina var ekki að undra að þetta lið skyldi hafa virt skiltin hans að vettugi. Það sást ekki í botninn fyrir allskyns dóti og jafnvel tjaldveggirnir sjálfir voru alsettir dökkum slettum sem og annað þarna inni. (bls. 29)

 

Ágúst sama ár. Góðkunningjar lesenda Yrsu, rannsóknarlögreglumaðurinn kvensami Huldar og hinn skapstyggi yfirmaður hans Erla eru stödd úti á sjó. Leit stendur yfir að beinum, líkamsleifum fólks. Í ljós kemur að tvær persónur hafa fengið vota gröf, að er virðist karl og kona.

 

Hann [Huldar] rétti Erlu hann [sími]. „Sjáðu, sveru beinin í leggjunum snúa saman og grönnu pípurnar út. Ef þetta er einhver í ósamstæðum skóm þá ætti afstaða beinanna að speglast. Þetta eru tveir hægri fætur, Erla.“ (bls. 40)

 

Svo er það hinn sautján ára Tristan sem sakað hefir Berg, starfsmann barnaverndar Reykjavíkur um kynferðislega misnotkun. Tristan var ásamt fleiri börnum, þar með talinni Rósu munaðarleysingja, í hans umsjón. Bergur „rak skammtímaheimili á vegum Barnaverndar. Þar voru aðallega unglingar sem margir hverjir glímdu við fíknivanda.“ (bls. 48) Tristan er þar vegna þess að móðir hans, Berglind, á við fíkniefnavandamál að stríða. Hún er hvað hrifnust af ópíóíða lyfjum. Hvorki Rósa né Tristan glíma við fíknivanda. Rósa getur staðfest frásögn Tristans og er góður vinur hans. Vandamálið er að hún lét sig hverfa og erfitt reynist að hafa upp á henni.

 

Þessari rannsókn tengist svo annar góðkunningi lesenda, sálfræðingurinn Freyja sem er starfsmaður Barnahúss. Hún kemur að viðtölum við aðra vistmenn skammtímaheimilisins. Fljótlega virðast þessi ólíku mál skarast á einhvern hátt.

 

Komið hafði á daginn að starfsmaður barnaverndar borgarinna, Bergur Alvarsson að nafni, sætti lögreglurannsókn, grunaður um kynferðisbrot gegn börnum. Börnum í hans umsjá. Börnum sem hann átti að gæta og hjálpa. Til að bæta gráu ofan á svart hafði lögreglunni yfirsést að koma kærunni til skila og maðurinn unnið um þriggja mánaða skeið eftir að hún var lögð fram. (bls.45)

 

Þetta eru málin í byrjun sögunnar, beinamál (líkfundur) og kynferðisbrot, sem fáliðuð lögreglan rannsakar. Sumarfrí. Lesandi ályktar svo, líkast til, að brúðan og Abby og Lenny komi til með að tengjast sögunni á einhvern hátt eftir sem henni vindur fram.

 

Ofan í kaupið bætast við tvö morð (annað blóðugt, útigangsmaðurinn og eiturlyfjasalinn Binni bindishnútur er skorinn á háls) svo og sviplegt dauðsfall stúlkubarns af slysförum sama dag og faðir Rósu, sem einnig er talinn hafa látist af slysförum, deyr. Faðir hennar ku hafa drukknað í laxveiðiferð fimm árum áður en brúðan finnst. Inn í söguna blandast svo fleiri persónur eins og viðskiptamaðurinn Fjalar, bróðir Friðriks, sem á trilluna með bróður sínum svo og sumarhús á Spáni, faðir þeirra, afi og amma Rósu og fleiri.

 

Haldið er áfram með sögu fastapersónanna þótt í þessari komi lítið fram varðandi baksögu þeirra. Ennþá lítur Huldar Freyju girndarauga og ekki er laust við að Freyja gæti hugsað sér að rekkja með honum. Erla yfirmaður er plöguð af morgunógleði, Guðlaugur lögreglumaður er ennþá hommi og Lína nemi í starfsþjálfun er enn metnaðargjörn. Það gildir einu fyrir nýja lesendur hvort þeir viti þetta eður ei þegar kemur að lestri Brúðunnar.

 

Sagan á sér aðallega stað árið 2018 (líklega). Brúðan finnst fimm árum áður, 2013. Faðir Rósu og stúlkubarnið deyja fimm árum þar á undan, 2008. Sögusviðið er einkum og sér í lagi Reykjavík dagsins í dag. Atburðarrásin í ágúst 2018 á sér stað á tveim vikum, föstudagur til föstudags og í köflum 3 til 34 kemur jafnframt fram hvaða vikudagur á í hlut. Lokakaflinn sem jafnframt rammar inn söguna á sér stað í september.

 

 

Eins og í fyrri verkum höfundar sér sögumaður í huga persóna. Sú sýn virðist oft takmörkuð til að láta ekki of mikið í ljós. Skiljanlega. Oftar en ekki er notast við eins konar endursögn eða túlkun hugsana persóna þannig að rödd sögumanns/söguhöfundar blandast rödd sögupersóna. Eitthvað er um höfundarinnskot sem kunna til að mynda að fræða lesandann um eitt og annað sem tengist málum sem þessum almennt eða til að benda á eitthvað augljóst. Sumt svipar til ummæla á samfélagsmiðlum.

 

Eins og svo oft áður er samfélagsmálefni, sem verið hefir í mikið umræðunni, hitamál, skrifað inn í glæpamálin. Hér eru það offramboð ferðamanna á Fróni og slæm umgengni, mikil útbreiðsla læknalyfja og misnotkun þeirra, vistunarvandi útigangsfólks og hvernig mannorð fólks getur verið lagt í rúst með ásökunum, hvort sem sekt eða sakleysi á við. Almannarómur sér um niðurrifið. Ekkert af þessu er krufið til mergjar og virðist nálgast á fremur yfirborðskenndan hátt

 

Setningar eins og

 

Svo var ekki hans að hirða upp eftir túrista. Ferðamannaiðnaðurinn gat bara borðið ábyrgð á sínum kúnnum eða ríkið sem hirti af þessu liði skatta. Að vísu takmörkuð gjöld en samt. Safnast þegar saman kemur. (bls. 109)

 

og

 

Huldar hafði ekið þar framhjá í vetur og fundist sem staðsetningin bæri keim af málaflokki utangarðsfólks almennt. Þær fáu húsnæðislausnir sem  buðust miðuðust allar við að koma því úr augsýn. (bls. 115)

 

og

 

Þessi venjulega unga stúlka var skínandi dæmi um þá ömurlegu þróun sem var að verða á eiturlyfjamarkaðnum. Áður voru það eingöngu krakkar í miklum vanda sem sóttu í hörð eiturlyf á borð við þau sem fundust hjá Binna. Nú virtist þessi viðbjóður heilla vanalega vísitölukrakka. (bls. 158)

 

og

 

Tristan gat haft rétt fyrir sér sem þýddi að Bergur væri sekur en Tristan gat líka verið að segja ósatt eða hann misminnt og þar með væri Bergur saklaus. (bls. 193)

 

eru algengar mjög og sumum kann að finnast þær gildishlaðnar hvort sem það telst til vansa eður ei fyrir viðkomandilesanda. Svo eru það ófáar viðlíkingar sem kunna að koma sumum spánskt fyrir sjónir. Viðlíkingar eru oftlega tengdar hugsunum persóna.

 

„Dóp. Brennivín.“ Sár þráin draup af hverju orði. Eins og maður í víti að tala um himnaríki. (bls.154)

 

Undanfarið var hópurinn farinn að þynnast út eins og geislavirkt efni. (bls. 184)

 

Konan hljómaði enn mjög hlýleg, eins og skyr með sykri og rjóma (bls. 197)

 

Hún var eins og broddgöltur og hann gat átt á hættu að hvassar nálarnar spryttu fram ef hann misstigi sig. (bls. 296)

 

Erla leit á hann eins og hún hefði rekið augun í úldið salat innst inn í ísskápnum hjá sér. (bls.303)

 

Allt eru þetta einkenni á verkum Yrsu og kemur hér fátt á óvart.

 

 

Undir lok sögunar eru þræðir hnýttir saman. Lesandi fær svör við því hvort þær grunsemdir sem ef til vill hafa kviknað hjá honum við lesturinn séu réttar eður ei, hver eða hverjir séu glæpamennirnir/morðingjarnir.

 

Lok þessarar sögu minna sumpart á kvikmyndina Morðsaga1 (1977) eftir Reyni Oddsson þar sem snögg skil verða í framvindunni og stokkið er yfir tvo daga (hér er átt við Brúðuna). Huldar er hjá Freyju og greinir henni frá því sem lögreglan komst að. Þetta er í næstsíðasta kafla verksins. Í síðasta kafla kemur frekari sannleikur í ljós, óvæntur eða ekki, með því að skyggnst inn í huga einnar persónunnar.

 

Við lestur á verkum Yrsu kann að dúkka upp sú hugsun að það verk sem á í hlut hverju sinni sé meira af því sama eða meira af svipuðu. Lesendur verka hennar vita að hverju þeir ganga. Þetta gæti minnt á, hjá einhverjum, á línu úr gamanþáttunum Limbó: fólk vill fá sitt grín og mætti máski heimfæra það upp á sögur Yrsu og fleiri aðila í hennar geira: fólk vil fá sín morð. Ekki er ástæðan sú að verkin séu frábær, ekki er það af því þau séu svo vel stíluð. Fyrir aðdáendur Yrsu skiptir það ekki mál. Hún stendur fyrir sínu og slíku má alveg halda því fram um þetta verk líka.

 

   [ + ]

1. Í Morðsögu er tilkynnt með texta undir lok myndarinnar að morðingjarnir gáfu sig fram við lögreglu og játuðu glæpinn.