Mynd tekin af heimasíðu Borgarleikhússins.

Kæra Jelena

Ég er ekkert endilega á því að skáldskapur þurfi alltaf að vera kenna okkur einhverjar lexíur eða færa okkur einhvern boðskap. Stundum er bara gott að láta hann fleyta sér áfram. En vá hvað það er gott þegar maður fer frá verki með eitthvað í maganum. Það getur reyndar verið stundum svona gott-vont. Það þegar maður fer frá verkinu með vangaveltur um eigin hugsjónir, um eigið líf og eigin hugmyndir um lífið. Þegar það tekur mann upp og hristir í manni svo að danglar í hauskúpunni og þú veist varla hvort að þú sért að spila leikinn líf á réttan hátt. Eða hvort þú sért einungis leiksoppur gamallar hugmyndafræði og næsta ómögulegt fyrir nokkurn að berjast á móti straumnum.

Kæra Jelena er verk eftir rússneska leikskáldið Ljudmilu Razumovskaju en það var skrifað árið 1981. Leikverkið er nú í sýningu í Borgarleikhúsinu í leikstjórn Unnar Aspar Stefánsdóttur.

Kæra Jelena er óþægileg sýning. Hún er óþægileg en samt svo góð. Uppsetningin í litla sal Borgarleikhússins gerir það að verkum að við áhorfendurnir þurfum að vera svo ískyggilega nálægt persónunum og öllum athæfum þeirra að manni fer að líða eins og maður sér partur af ofbeldinu. Að maður sé sjálfur bara þögull áhorfandi sem þorir ekki að  rísa upp og segja nei þetta er komið gott, jafnvel þó að það ómi í  hausnum alla sýninguna.

 

 

Kæra Jelena ræðir ýmis samfélagsleg málefni. Mögulega finnur hver og einn hjá sér eitthvað eitt sem stakk verulega í hjartað. Ég sat eftir með sérstaklega einn mikilvægan punkt. Það að týna sér í átt að velgengni.

Stundum látum við aðra segja okkur of mikið hvernig við ættum að vilja haga lífi okkar, hvað við viljum gera. Kannski vegna þess að við erum alltaf að fara að gnægtarborði lífsins í algjörri blindni. Við lærum fljótt að lífsgæðakapphlaupið er það eina sem skiptir máli, ef þú ert ekki með í því eða í fremstu víglínu að þá ertu ósjálfrátt að tapa.

Við sjáum persónur sem þrá það sem þau telja sig eiga að þrá.

Leikverkið fjallar þó einnig um það hversu auðvelt er að falla ofan í djúpa og dimma holu án þess að gera sér grein fyrir því hvernig maður komst þangað. Hvernig maður getur stundum fundið sjálfan sig á þeim stað þar sem maður er farinn að elta hugsunarlaust. Verkið fjallar um sannfæringarmátt, hvernig við vitum ekki endilega alltaf afhverju við gerum það sem við gerum. Um hjarðhegðun. Hvernig við getum stundum verið svo óörugg og þráð svo mikla viðurkenningu, ákveðinn tilverurétt, að þrá þá tilfinningu að fá að tilheyra einhverju að við stundum missum sjónar á siðferði okkar. Það fjallar þó einnig um hvernig ríkjandi hugmyndafræði stjórnar því hvernig við  metum hvern einstakling fyrir sig í samfélaginu. Því spurningin um hvað segja einkunnir í raun um  hvern og einn, er alveg góð og gild þrátt fyrir að samviskusama persóna leikritsins vilji ekki að hugmyndafræðin sé hrakin. Enda skapar það glundroða, röð og regla er mikilvæg.

Skýr stéttaskipting er á persónum verksins. Búningar sýndu það vel en það er Filippa Elíasdóttir sem sér um þá. Augljóst var að Lilja var að reyna máttleysislega með klæðnaði sínum að falla inn í hærri stéttina, þó að engin helvita ung kona myndi klæðast slíku í dag. Heimfæringin var því stundum ábótavant. Mögulega samt erfitt að túlka þessa tilraun Lilju á sama tíma og halda sig við tísku nútímans. Við vitum hversu auðvelt er að klæða sig ríkari í dag, þrátt fyrir að hafa mögulega ekkert á milli handanna. Þessi skýra og steríótýpíska skipting í fötum persóna var þó mikilvæg fyrir sjónræna túlkun á verki og persónum.

Er maður vondur ef maður þráir velgengni? Nei ég vil ekki meina það. Hinsvegar getur óhófleg græðgi leitt mann á villigötur. Þetta kristallast í persónu Lilju, sem Þuríður Blær leikur. Hún kemur úr fátækt og hefur lært í gegnum samfélagsmótunina að það eina sem skiptir máli í lífinu er peningar og frami. Þannig hefur hún einsett sér það að gera allt til þess að ná því markmiði. Allt er falt fyrir pening, því peningur þýðir að þú hafir stjórn á eigin lífi. Smám saman fer hún að átta sig á því að hún hefur enga stjórn, af því að hugmyndin um peninga stjórnar henni algjörlega og er hún því orðin svo veikgeðja að það er hægt að notfæra sér hana að vild. Hún fer allt frá því að vera ákveðin og daðrandi í það að vera hrædd og uppgefin. Þuríður fer í raun glæsilega með það að spila á þetta ójafnvægi í persónunni og býður upp á mjög breyskan einstakling sem áhorfendur finna til með.

Sigurður Þór fer með hlutverk Viktors í uppsetningunni, og verð ég að segja að ég hef aldrei séð hann svona góðan. Viktor er og mun líklegast alltaf verða óreglumaður. Hann á erfitt uppdráttar vegna þess bakgrunns sem hann kemur frá, hann vill falla inn í hópinn með flottu og ríku strákunum og því fylgir hann hugsunarlaust. Samkvæmt Jelenu er hann fórnarlamb vissra aðstæðna og þarf því meiri aðhald og stuðning en aðrir. Spurningum um þau rök er einnig varpað fram í leikritinu og á vissan hátt er það áhugavert að velta því fyrir sér. Hverjum er iðulega fyrirgefið ljótan verknað og hverjum ekki, og afhverju? Óþægilegt er á stundum að okkur sem áhorfendum er gert að hlæja, þá sérstaklega að óförum Viktors. Þessi kómík er þó á vissan hátt fenginn með smá óbragði í munni. Maður fer að hlæja en á sama tíma er maður óviss um hvert eitthvað af þessu sé í rauninni fyndið.

Að eiga svo mikið að það er varla neitt eftir til að þrá. Hvað skilur það eftir nema óeðlilega þrá um að hafa völd yfir öðrum. Persónan Valdi á smátt og smátt að passa akkúrat inn í hugmynd okkar um illskuna. Við öndum léttar í lokin við að finna að allir hinir voru bara leiksoppar, einungis peð í tafli eins manns sem er svo siðferðislega grimmur að við gætum ekki hugsað okkur að svona einstaklingur væri til. Þetta er jú bara leikrit. En það er mögulega of mikil einföldun á verkinu. Er leiksoppum fyrirgefið vegna þess að þeir vita ekki hvað þeir eru að gera? Það að einhver ákveðin þrá geti stýrt einstaklingum í ófyrirgefanlegar gjörðir er mögulega of margslungið í kjarna sínum til að við getum fyllilega skilið það. Samt í raun sjáum við dæmi um slíkt allt of oft. Valdi ber nafn með rentu, hann er valdabrjálaður og er snillingur í að sjá veiku punktana í fólki og nýta sér þá. Honum er sama um afleiðingar, sama um allt. Mannvonskan verður algjör í skeytingarleysinu. Aron Már náði kaldrifjaða svipnum og rólyndinu mjög vel, smjaðrið í upphafi var þó mögulega of falskt til að blekkja áhorfendur þrátt fyrir að það hafi blekkt Jelenu. Dansinn upp á borði þegar handbendi hans fóru berserksgang um íbúðina kórónaði samt persónuna.

Fyrir mér var persónan Pétur síðan birtingarmynd einstaklings sem er undir svo mikilli pressu frá öðrum að verða að manni sem nyti einhvers konar velgengni. Það segir kannski sitt með hversu góð persónusköpunin í verkinu er, þegar maður er farinn að lesa alls kyns hluti í baksögu persóna án þess að hún komi sérstaklega fram. Hann er náttúrulega auli með eindæmum og virðist ekki hafa nein gildi, hann virðist einungis fá þau að láni frá öðrum. Hann hefur í raun enga sannfæringu, og því mögulega auðfyrirlitlegasta persóna verksins. Því jafnvel þótt að það sé ekkert vafamál um hver sé mesta illmennið að þá er allavega hægt að segja um Valda að hann fer eftir eigin trú og vilja. Haraldur Ari fór nokkuð góðum höndum um persónu Péturs, líklegast eitt erfiðasta hlutverkið í raun því að hann er nánast persónuleikalaus. Samt sem áður skynjaði maður eitthvað á bak við.

Halldóra Geirharðsdóttir fer vel með hlutverk Jelenu. Hlutverkið var heimfært vel upp á þá hugmynd sem við höfum núna um hugsjónamanneskju. Hún var fullkomlega hippaleg, eða ég vil kannski ekki segja hippaleg en allavega jarðbundin og róleg í einföldum lífsstíl. Kannski tengdi ég ósjálfrátt saman þessa persónu við aðra sem Halldóra leikur í kvikmyndinni Kona fer í stríð. Sú tilfinning að Jelena væri hófsöm og sjálfri sér nóg kom vel fram í sviðsmyndinni, íbúð hennar og í fatnaði sem Lilja einmitt gagnrýnir harkalega. Halldóra náði öllum tilfinningaskalanum og fór létt með að hrífa áhorfendur með sér í að fylgja sannfæringu Jelenu á lífsgildum og viðhorfum. Ég hefði ekki getað hugsað mér aðra leikkonu í þessu hlutverki.

Að týna sér í átt að velgengni. Þegar heimurinn virðist snúast um hver er stór karl og hver er lítill karl. Það að duga eða drepast. Þessi farsi með afmælisfögnuðinn er einnig skýrt dæmi um hvernig við setjum of oft upp andlit og þykjumst vera eitthvað annað á yfirborðinu meðan annað liggur undir niðri. Smjaður Valda er einnig sterk skilaboð um þetta, að það er ekki endilega allt eins og það sýnist.

 

 

Verkið er magnþrungið og sýningin fer vel með verkið. Þetta er leikrit sem vekur til umhugsunar og á jafn vel við í dag og þegar það var skrifað. Leikarar eru virkilega sterkir í samleik og jafnvel betri með sterka og skýra mónólóga.

Í raun vil ég ekki segja að verkið sé átök kynslóða eins og oft hefur verið fleygt fram um þetta tiltekna verk. Það á ekki lengur við í dag. Því þrátt fyrir að Jelena sé eldri einstaklingurinn í leikritinu þykir mér það ekki algilt að hennar hugsjón sé sú sem hægt er að eigna eldri kynslóðinni. Mögulega var það svo þegar leikritið fór fyrst á fjalirnar árið 1981. Í dag hafa ungmennin fjögur sem upphaflega voru skrifuð sem varnaorð, orðið að þeim fullorðnu –  á meðan við sjáum yngri kynslóðir hrópa á breytingar í hugarfari og áherslumun í venjum og gildum.

Það sem ungmennin í leikritinu sýna er einmitt það að þetta ósiðferðislega eiginhagsmunalega gildismat sem þau vilja halda á lofti er einmitt eitthvað sem er fengið í arf. Frá eldri kynslóðum. Þetta sífellda lífsgæðakapphlaup hefur einmitt komið okkur á þann stað í dag að það mun líklegast að lokum verða okkar eyðilegging. En mögulega erum við að vakna og sjá að hugmyndafræði foreldra okkar þarf ekki að verða okkar eigin.