Meira

Á mörkum mennskunnar

 

Skáldsögunni Meira eftir tyrkneska rithöfundinn Hakan Günday verður kannski best lýst með orðinu „linnulaus“. Hún byrjar sem ein allsherjar skelfing – hinn níu ára gamli Gaza aðstoðar föður sinn Ahad við að smygla flóttamönnum til vesturlanda og fer með þá einsog níu ára drengir annars staðar leika sér með mauraþúfur – og svo versnar hún bara og versnar eftir því sem Gaza eldist og sekkur dýpra í fenið, þennan ómanneskjulega heim við landamæri Evrópu þar sem fólk dreymir um að komast úr eymdinni – fátækt, stríði, allsleysi – í „paradís vesturlanda“. Hann nauðgar stúlkunum, drepur þá sem vingast við hann (fyrir kæruleysi, eiginlega), ýtir þeim út í aðstæður þar sem þeir missa sjálfir tökin á mennsku sinni. Céline kemur upp í hugann, Hieronymus Bosch – og kannski bara vegna þess að þau hafa verið svo ofarlega í umræðunni, Hatari. Listamenn sem horfast í augu við samtímann af miskunnarlausri hörku og portrettera hann – ekki realískt, heldur undirstrikaðan, æptan, afhjúpa veruleikann fyrir þann brútalíska sirkus sem hann er.

 

Á mörkum Evrópu

 

Einsog Gaza bendir á í einni kaldranalegustu setningunni í þessari kaldranalegu fyrstu persónu frásögn þá er tilvist helvítis á jörðu engin sönnun fyrir því að þar finnist líka paradís. Sú paradís sem flóttamennirnir sækja í á vesturlöndum er auðvitað ekki til, eða stendur þessu fólki a.m.k. ekki til boða, sem gerir hörmungarnar sem það lætur yfir sig ganga til að nálgast þessa paradís enn óhugnanlegri. Þótt það sé ekki sýnt í þessari tilteknu bók gera flestir lesendur hennar sér sennilega grein fyrir því að þegar þessum hluta ferðarinnar sleppir og flóttamennirnir komast yfir mörk Evrópu tekur við annar sirkus. Maður kemst kannski yfir landamærin og í gegnum fasistabreiður Ungverjalands, Austurríkis og Benelúx-landanna til Danmerkur þar sem maður er rændur aleigunni á landamærunum og komið fyrir á fangaeyju, áður en maður sleppur til Íslands þar sem maður er geymdur í einangrun á Kjalarnesi, fær ekki að vinna, fær ekki að taka á móti gestum, og er svo sendur „til baka“ til Grikklands þar sem lögreglan hendir manni bara út á götu og biður mann í guðanna bænum að gleyma sér, því það er enginn infrastrúktúr til þess að takast á við að gervöll Evrópa skuli þjást af dyflinnarheilkenninu sem leyfir þjóðum að dömpa vandamálum sínum á Grikki. Það er kannski önnur skáldsaga – en hún liggur að baki þessarar. Ef við horfum loftlínuna héðan til Tyrklands blasir hún við alla leiðina.

 

Við, lesendur bókarinnar, erum flest meðvituð um að nái þetta fólk nokkurn tíma að byggja sér heimili innan múra Evrópu þá er ósennilegt að það eða börn þeirra njóti þar sannmælis. Þau fá að skúra gólf og skera kebab af teini; þeim verða úthlutuð þau gæði sem eru ekki lengur nógu góð fyrir okkur hin – þau flytja inn í gömlu verkamannahúsin sem eru of lítil og mygluð, fá notaða draslið okkar í Góða hirðinum, og fá að vinna störfin sem við erum of góð fyrir (en þarf að vinna). Og þau eiga að vera þakklát því þau eru að minnsta kosti ekki lengur í tankinum hjá Gaza að láta nauðga sér.

 

En á bakvið síníkina og vonleysið eru bæði höfundur og lesendur og sú ætlun að heimurinn stuðist og vakni; manni finnst einsog bókin sé skrifuð með því að bíta á jaxlinn og láta sig hafa það, af því það skipti máli, og hún vilji hreyfa við manni, minna mann á mennskuna með því að sýna hvar mörk hennar liggja. Að hún sé þá skrifuð af ást. Við vitum að Gaza er manneskja af því við sjáum inn í höfuðið á honum, sjáum inn í hjartað á honum, að þar er líka eitthvað fagurt innanum skítinn og brjálæðið – við trúum því, þótt við vildum kannski heldur sleppa því, að hann sé ekki eðlisólíkur mér eða þér. Af því leiðir að fólkið í kringum hann – allir hinir sem eru álíka grimmir og aldir upp í sömu aðstæðum en við finnum ekki til mikillar meðlíðunar með í textanum – hljóti líka að eiga sér heilagt innra líf sem einhver hefði átt að standa vörð um. Illskan verður afurð aðstæðnanna – eitthvað sem byggist smám saman upp í annars góðum hjörtum þar til skriðþungi hennar er orðinn meiri en svo að hún verði stöðvuð.

 

Á mörkum sögunnar

 

Í þeirri umfjöllun sem ég hef lesið um bókina er mest dvalið við fyrrihluta sögunnar, þann tíma sem Gaza starfar með föður sínum og mætti kalla aristótelískan hluta bókarinnar, þann hluta sem myndar línulega sögu með byrjun, risi og dauða. Þar segir frá rekstri þeirra feðga á flóttamönnunum. En í raun er sá hluti ekki nema helmingur sjálfrar bókarinnar. Frá miðri bók koma eiginlega engir flóttamenn við sögu lengur og hún dvelur í höfðinu á Gaza og fylgir honum eftir í gegnum ótal ólík taugaáföll og allra handa brjálsemi í leit að lausn eða lendingu. Það er nánast einsog andleg píkareska, ferðasaga þar sem eitt rekur annað án þess að greina megi orsakir og afleiðingar – enda lífið meira en bara það. Það er líka þar sem bókin nær mestu „listrænu“ flugi – þar sem hún verður eitthvað annað en enn ein trámasagan, enn eitt harðneskjulegt ævintýrið, í því að gefa sér rými til að víkja frá þeirri fáguðu formfestu sem einkennir mikið af nútíma frásagnarlist, frá nýjum íslenskum skáldsögum til nýrra amerískra sjónvarpsþátta. Það er í þessu rými sem linnuleysið nær nýjum hæðum og í stað þess að fá sína sagnafró er manni fleygt ofan í fúlt vonleysisdíki.

 

Þegar aðstæður breytast hjá Gaza – þegar það eina líf sem hann þekkir verður skyndilega að engu – blasir heldur ekkert við honum nema siðferðislegur og tilfinningalegur doði, andlegt niðurbrot og sósíópatía. Lesandinn getur ekki annað en spurt sig hvort það hefði ekki verið betra fyrir hann að drepast. Og samt hefði dauðinn veitt honum lausn sem manni finnst hann ekki eiga skilið. Hann nýtur samúðar okkar vegna þess að við sjáum hann og erum hann, en hann nýtur líka engrar samúðar vegna þess að hann er illmenni og hjá því verður ekki sneitt.

 

Á mörkum hungurs

 

Titill bókarinnar er útskýrður þannig að orðið „meira“ á tyrknesku sé oft eina orðið sem flóttamennirnir kunna á því máli – þeir þurfa að geta beðið um meira. Meiri mat, meira að drekka, meira pláss – af því þeir fá alltaf of lítið af öllu. Það er svo hungur þeirra, og hungur Gaza, eftir þessu „meira“ sem opnar þeim dyrnar að skepnuskapnum og gerir þeim kleyft að gera óhugsanlega hluti. Þetta hungur er hins vegar ekki einföld græðgi, ekki einu sinni í tilfelli Gaza, heldur grundvallast það í skortinum sem þeim er gert að lifa við. Á tímum sjálfsuppfyllingar mannsins – á tímum drauma sem eiga að rætast, leggi maður nógu hart að sér – er stórum hluta mannkyns nefnilega bara gert að vera þrælar. Eða þrælasalar.

 

 

p.s. Þýðing Friðriks Rafnssonar er mikið fyrirtak – þótt ekki hafi gefist rúm í meginmáli til að geta þess – en ég finn að því hér einsog oft áður að þess sé ekki getið að bókin er þýdd úr frönsku en ekki tyrknesku, skjöplist mér ekki þeim mun hrapalegar. Þetta er plagsiður. Það er ekkert að því að þýða bækur úr öðru máli en frummáli, sérstaklega þegar góður þýðandi er ekki til staðar úr frummáli – og Friðrik er í fremstu röð þýðenda – en það er hallærislegt að gera það að einhverju launungarmáli. Þá finnst mér líka að mætti vera algengara að þýðendur fái nafn sitt á forsíðu bóka. Þeir eru ekki ómerkilegri hlekkur í útgáfunni en forlagið eða gagnrýnendurnir sem hafa ausið bókina lofi.

 

pps. Þá stoppa ég við káputextann þar sem talað er um að bókin fjalli um það hvernig stríð, ofbeldi og „fólksflutningar“ hafi áhrif á daglegt líf fólks. Í fyrsta lagi fjallar bókin alls ekki um „daglegt líf“ neins fólks nema Gaza og í öðru lagi er mjög kurteislegt að kalla flóttamannavandann „fólksflutninga“ – kannski ekki síst því fólkinu er einmitt meinað að flytja og haldið í eins konar trylltu limbói evrópskrar skriffinnsku.