Morð, mannrán, hrelliklám, heimilisofbeldi og kvenfyrirlitning

Árið 2017 kom sakamálasagan Gatið eftir Yrsu Sigurðardóttur (1963). Killjuútgáfan er tilefni þess að fjallað er um téð verk hér. Verkið er 381 síða og 34 kaflar. Veröld gefur út.

Yrsa Sigurðardóttir (1963) er spennu- og sakamálasagnahöfundur sem krefst ekki mikillar kynningar í bókaumfjöllun af þessu tagi. Hún er af þeim, sem vita gerst, talin í flokki fremstu rithöfunda Íslands á sínu sviði og hefir hróður hennar einnig borist út fyrir landsteinanna. Hefir hún aukinheldur getið sér orð sem höfundur draugasagna. Stundum skarast þau sviðin. Þegar Yrsu ber á góma vill stundum gleymast að fyrstu verkin sem hún fékk útgefin voru barnabækur.

Eins og siður er innan glæpasagna eru aðalpersónurnar ekki einnota. Á það við hér. Í Gatinu koma í fjórða sinn fyrir rannsóknarlögreglumaðurinn Huldar og sálfræðingurinn Freyja. Jafnframt koma aðrar persónur fyrri verka fyrir. Spilar þar yfirmaður Huldars, Erla, stærstu rulluna. Önnur verk með þessum hugarfóstrum eru DNA (2014), Sogið (2015) og Aflausn (2016). Verkin eiga það sammerkt að unnið er með mál sem hafa verið í brennidepli samfélagsins undanfarin ár. Mál líkt og einelti, kynferðisofbeldi, barnagirnd/níð, málefni barna (Barnahús kemur fyrir) og svo framvegis.

Fyrstu tvær sögurnar voru í hryllilegri kantinum. Óhugnaleg morð. Sú þriðja auk þessarar sem hér um ræðir eru minna á þeim slóðum, þótt þær innihaldi, eðli málsins samkvæmt, ekki hamingju á hamingju ofan. Verkið hefst á morði eða lýsingu á því hvernig ungur, og af flestum talinn efnilegur og vandaður, maður að nafni Helgi er myrtur í Gálgahrauni í nágrenni Bessastaða. Líklegt verður að þykja af fyrsta kafla að hann hefir verið plataður í afar skítugan bíl sem ekur honum á stað hans síðustu andartaka. Og þar sem hann ráfar á staðinn í fylgd aftökumannsins má og sennilegt teljast að Helga hafi verið byrlað einhver ólyfjan sem gerir hann leiðan í taumi.

 

Helgi féll fram af syllunni, sveif fáein brot úr sekúndu þar til kaðallinn kippti harkalega í hann og stöðvaði þannig fallið. Hann hafði ekki getað flogið þegar allt kom til alls. Enda var þetta enginn draumur. (bls.11)

 

Við fyrstu sýn virðist þetta sjálfsmorð. Helgi virðist hafa hengt sig.

 

Líkið bærðist í vindinum, snerist makindalega í hálfhring og svo til baka. Huldar leit undan þegar bláleitt andlitið birtist að nýju, útstæð tungan svört og óþægileg á að líta. Höfuð mannsins slútti niður á bringuna og var engu líkara en hann starði niður á fæturna í forundran yfir því að hafa misst annan skóinn. Nú beið skórinn inn í bíl tæknideildarinnar, innsiglaður í poka. Það bjóst enginn við því að hann myndi varpa neinu ljósi á þetta dapurlega sjálfsmorð. (bls. 12)

 

Heimsókn kínversks ráðamanns á Bessastaði truflar ranssóknina. Heimsóknin er þess valdandi að hafa verður hraðar og flausturslega hendur. Og þar sem Kínverjinn krefst mikillar athygli lögreglunnar er ekki margir til að vinna að rannsókninni. Þarf og að fjarlæga líkið hið fyrsta „áður en ráðherrann bæri að garði, enda hafa lík aldrei þótt neitt sérstaklega hátíðleg. Hvorki í Evrópu né Asíu.“ (bls. 17)

Þegar ríkmannlegar vistarverur fórnarlambsins eru skoðaðar finnst fjögurra ára drengur að nafni Siggi þar. Helgi var var fésterkur og vel megandi bankamaður sem auðgaðist stórkostlega í henni Ameríku áður en hann flutti aftur til Íslands. Virðist hann tengjast skattaskjólum, vogunarsjóðum og fleira í þeim dúr.

Þrautin þyngri reynist það lögreglunni að finna út hví drengurinn var í íbúðinni svo og að hafa upp á foreldrum hans. Lögreglan gengur út frá því að drengurinn tengist morðinu á einhvern hátt og lesandi veit að drengurinn veit meira en hann lætur uppi. Einnig kemur í ljós að Helgi var út á galeiðunni kvöldið sem hann var tekinn af lífi með æskuvinum sínum, Þormari, Gunnari, Tómasi og Bjarna sem virðast mynda nokkurs konar bræðralag.

Erfitt er að greina meir frá söguþræði án þess að spilla fyrir. Því málið við lestur viðlíkra sagna snýst um spennu og að lesa sig að lausninni. Fólk tekur sér sjaldnast glæpasögur í hönd af því þær eru auðugar af listrænu stílfengi og frumleika. Þessi saga hér þjónar ágætlega sínum tilgangi og inniheldur nægilega marga snúninga til að halda lesanda við efnið. Það er því ekki allt sem sýnist.

Sögusviðið er Reykjavík árið 2017 og tekur atburðarásin mið af sögutímanum og er fléttað atriðum sem hafa verið í umræðunni. Ber þar helst að nefna hrelliklám (hefndarklám), lögreglumyndavélar, niðurskurður innan lögreglunnar, kvenfyrirlitning, heimilisiofbeldi auk þess sem enduróm jafnréttisumræðunnar má finna á síðum verksins (hinna verkanna líka) t.a.m. í gegnum yfirmanninn Erlu sem þarf að sanna sig í karlaheimi lögreglunnar.

Eins og í fyrri verkum Yrsu er sögumaður alvitur og getur séð inn í þanka persóna verksins. Höfundarinnskot eru nokkuð algeng eða eins konar samfélagslegum athugasemdum er skotið inn í frásögn. T.a.m. um hátt leiguverð:

 

Íbúðirnar á markaðinum voru ýmist of dýrar eða leigusalinn valdi annan en hana [Freyju]. Hún var alvarlega farin að íhuga að flytja út á land eða úr landi. (bls. 22)

 

Athugasemd um börn á aldri Sigga:

 

Í augum þeirra vatt lífinu fram og þau flutu bara með. Það tók því ekki að leggja á minnið það sem á vegi þeirra varð, ekki nema þau sæju eitthvað sem fangaði athygli þeirra sérstaklega. Eins og kisur, hundar eða ísbúðir. (bls. 55)

 

Athugasemd um ferðamennskuna:

 

Innanhúserkítektinn hafði gert sitt besta til að skapa nýjan stíl sem kalla mætti póstmóderníska túristagildru. Uppstoppaðir lundar, stórir innrammaðar ljósmyndir af eldgosum og hroðvirknislega unnnið málverk af Geysi.

 

Finna má allmörg viðlíka dæmi í umræddu verki svo og í fyrri verkum höfundar.

Einnig er skotið inn allslags fróðleik sem oftast tengist rannsókninni. Í þessari sögu t.d. um Gálgahraun þar sem líkið finnst.

 

Mér skilst að þetta hafi verið refsingarstaður Kópavogsþings […] „Það eiga að hafa fundist bein á svæðinu sem talin eru vera líkamsleifar sakamanna sem voru dysjaðir á staðnum. (bls. 42)

 

Fróðleikurinn virðist allajafna koma fram í gegnum einhvern rannsóknaraðilann eða þá í kjölfar eftirgrennslan nú eða í formi höfundarinnskots.

Aukinheldur virðist[1] orðfæri oftlega vera nokkuð gildishlaðið. Drengur sem er „límdur við tölvuna eins og vanalega“ (bls. 52) og fleira í þeim dúr virðist leggja dóm á mál.

Fyrsta glæpasaga Yrsu, Þriðja táknið, kom út 2005. Skartaði sú saga lögfræðingnum Þóru í aðalhlutverki. Bækur Yrsu sem komu út á árunum 2005 til 2010 voru allar með Þóru. 2010 kom draugasagan Ég man þig út. Líklegt virðist því að sumar þeirra persóna sem hér birtast muni koma aftur fyrir í verkum Yrsu og geti lesandi fylgst með þróun þeirra og sögu þótt glæpirnir kunni að vera ótengdir. Fyrst ber að nefna Huldar sem er hvorki dæmigerður harðjaxl né norrænn táfýlukarl í anda Erlends Arnalds Indriðasonar eða Wallander Hennings Mankells. Hann er fremur viðkvæmur. Svo rennir hann oftlega hýru auga til kvenna, einkum til Freyju sem hann hefir reyndar sængað hjá (hann hefir einnig rekkt hjá Erlu). Freyja er í basli, fjárhagslegu basli þrátt fyrir að vera með endemum vinnusöm. Hún á í erfiðleikum með að finna leiguíbúð á viðráðanlegu verði og býr tímabundið í búð Baldurs bróður síns sem er glæpamaður og lítur eftir dóttur hans á meðan hann er á Vernd. Erla sem er stressuð, reið og öskrandi yfirmaður og virðist leggja fæð á Línu sem er í starfsþjálfun hjá lögreglunni. Konur eru konum verstar? Lína er dálítill beturvitrungur og kann að fara í taugar fólks. Hún er samt harðdugleg. Lögreglan Guðlaugur er ungur hommi sem óttast að samstarfsfélagar hans komist að kynhneigð hans. Andi breytra tíma svífur yfir vötnum.

Þessi saga er hvorki betri né verri en önnur verk Yrsu. Þetta er ágætis glæpasaga, ágætis afþreying, ágætis viðbót við flóru Yrsusagna, flóru íslenskra glæpasagna.

[1] Ástæða þess að hér er notast allnokkuð við sögnina virðast er sú að Yrsa virðist nota hana mikið.